10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Í umr. um þetta frv., sem hér liggur fyrir, hafa verið haldnar langar ræður, fyrst af forsrh. og síðan af formönnum allra stjórnarandstöðuflokkanna og málsvörum. Ég ætla nú ekki að fara jafnítarlega út í þessi mál og gert hefur verið í þeim ræðum sem þegar hafa verið fluttar hér, en vegna eðlis þessa máls get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um höfuðefni þessa frv., frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem kemur í kjölfar gengisfellingarinnar sem nú er orðin staðreynd, því að allt er þetta í raun og veru sama málið.

Ég tel að höfuðefni þess frv., sem hér liggur fyrir, felist í fyrstu þrem greinum þess, það sem mestu máli skiptir, það sem engar sættir takast um, vegna þess að höfuðefni frv. er að rifta gerðum kjarasamningum enn einu sinni. Ekki hef ég tölu á því, hve oft núv. hæstv. ríkisstj. hefur leikið þann leik, en þetta er engan veginn í fyrsta sinni.

Sá vandi, sem hér er talið að sé við að fást, og ég ætla ekki að neita því að vissulega er vandi á höndum, er fyrst og fremst afleiðing af stefnu núv. ríkisstj., eins og margoft er búið að taka hér fram og sýna fram á með góðum rökum. Ég hef oft kallað þessa stefnu ríkisstj, í efnahagsmálum, eins og hún hefur birst okkur á undanförnum árum, kjaraskerðingarstefnuna, og ég held að það sé sannarlega réttnefni. Talað er um það núna að kaupgjaldsamningarnir, sem gerðir hafa verið á þessu ári, sólstöðusamningarnir í vor og aðrir samningar sem síðan hafa komið, séu höfuðorsök þess mikla vanda sem nú er við að fást. Sjálfsagt geta menn sett dæmið svona upp og tekið þetta einangrað og fundið því stoð. Það er augljóst mál, að þegar kauphækkun, hækkun kaups í krónutölu nemur 60% á milli upphafs og endis árs, hlýtur slíkt að hafa í för með sér vanda og einkum fyrir útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar. Þessu neita áreiðanlega engir. En hver er ástæðan til þess að verkalýðshreyfingin varð að gera samninga í sumar sem fólu í sér verulega kauphækkun? Það er minna um það talað af talsmönnum hæstv. ríkisstj. Það er ekki mikið haft á orði. Við vitum hins vegar að staðreyndin er sú, að á liðnum þrem árum, þegar þessir samningar voru gerðir, var búið að koma kjörum verkafólks þannig, að kjaraskerðingin var orðin gífurlega mikil og algerlega óviðunandi fyrir vinnandi fólk, kjaraskerðing, sem hafði verið framkvæmd alveg sérstaklega á árunum 1975 og 1976, kjaraskerðing sem að mínum dómi var langt umfram það sem skynsamlegt gat talist, jafnvel af ríkisstj. sem rekið hefur þá stefnu sem hér hefur mjög gjörla verið lýst, að hverjum manni hlaut að vera ljóst að verkalýðshreyfingin hlyti að gripa fyrsta besta tækifærið til þess að reyna að rétta hlut fólksins með nýjum kjarasamningum sem vegna kjaraskerðingarinnar hlutu að fela í sér verulegar kauphækkanir. Þessa stefnu sína mótaði verkalýðshreyfingin eða Alþýðusamband Íslands á þingi sínu í nóv. 1976. Þar var stefnan mörkuð og þar var sett fram krafa um 100 þús. kr. lágmarkslaun. Þessi krafa var þó ekki meiri en svo, að hún rétti ekki af þá skekkju sem orðin var í kaupmætti launanna, eða rétt um það bil. Þessi krafa þótti nú ekki öfgameiri en svo, að hæstv. núv. viðskrh. og raunar þáv. líka taldi eðlilegt, að lágmarkslaun yrðu ekki lægri en sem nemi 100 þús. kr. á mánuði. Þetta var miðað við verðgildi í nóv. 1976. Þegar að samningum kom, þá rétt hékk í því að þessi upphæð, 100 þús. kr, á mánuði, næðist á samningstímabilinu, sem var 16 mánuðir. Þetta kaup, sem sjálfsagt er núna höfuðbölvaldurinn, það sem fyrst og fremst þarf að snúast gegn og skera niður, — hvað er þetta kaup í dag? Ef það ætti að vera með því verðgildi og hækka samkv. því sem framfærslukostnaður hefur hækkað frá því í nóv. 1976 til dagsins í dag, þá ætti þetta kaup sjálfsagt ekki að vera undir 150 þús, kr., ég hef ekki töluna nákvæmlega, en a. m. k, ekki undir því. En hvað er þetta kaup í dag? Það er mikið talað um erfiðleika fiskiðnaðarins, fiskvinnslunnar. Þar er það fyrst og fremst, sem kreppir að, sjálfsagt kaup þess verkafólks sem þar vinnur, það sé allt of hátt. Kaup þessa verkafólks í fiskvinnunni er í dag tæplega 111 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnu eða 110 931 kr. Það eru byrjunarlaun. Eftir eitt ár hefur þetta fólk núna 112 664 kr. á mánuði fyrir dagvinnuna. Þetta er kaupið sem sjálfsagt er allt um koll að keyra í okkar þjóðfélagi í dag?

Það má segja að kauphækkunin í vor hafi verið í prósentum nokkuð há, og fyllilega skal ég játa að ekki er heppilegt að þurfa að taka svona stökk. En verkalýðshreyfingin átti engan annan kost vegna þeirrar kjaraskerðingarstefnu sem búið var að framfylgja í hátt á þriðja ár. Sú kauphækkun, sem varð í vor, menn verða að festa sér það í minni, bætti ekki upp þessa kjaraskerðingu, hækkunin var ekki það mikil. Ef samningarnir hefðu fengið að vera í friði, hefði tekist á þessu ári að bæta nokkurn veginn upp kjaraskerðinguna sem orðin var.

Þegar þessir samningar voru gerðir í sumar og jafnhliða því sem Alþýðusambandsfélögin lögðu fram kröfur sínar var einnig lagt fram það, sem við kölluðum frekar hinar pólitísku kröfur. Það vorn kröfur um að ríkisvaldið beitti sér fyrir aðgerðum sem gætu skapað svigrúm fyrir þær kauphækkanir sem nauðsynlegt var að gerðar yrðu. Það var bent á ýmsar ráðstafanir, og ætla ég ekki að fara að telja þær upp hér, — ýmsar ráðstafanir sem gætu skapað svigrúm í efnahagslífinu, þannig að kauphækkanirnar þyrftu ekki allar að fara út í verðlagið, og gerðar yrðu þá þegar ráðstafanir til þess að hefta verðbólguþróunina. Þetta var ekki gert. Hins vegar hefur ríkisstj, núna, þegar allt er komið í óefni vegna þeirrar stefnu sem rekin hefur verið, farið þess á leit við verkalýðshreyfinguna að hún taki á sig byrðar. Þessu hefur mjög verið haldið fram í ræðum og riti, að verkalýðshreyfingin þyrfti að axla byrðar eins og aðrir og koma til móts við þær ráðstafanir sem nauðsynlegt væri að gera.

Ég var í hópi fulltrúa Alþýðusambandsins sem mættu hjá hæstv. ríkisstj. nú fyrir réttri viku, það hefur verið s. l. föstudag. Þar var okkur kynnt, hvað ríkisstj, hygðist gera, kynntur vandinn o. s. frv. og þær leiðir sem ríkisstj, helst hygðist fara í þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum sem fyrir dyrum stæðu. Okkur var þá gefið í skyn, án þess að það væri þó sagt berum orðum, að það væri til svokölluð fimmta leið í þeim hugmyndum sem ræddar hefðu verið í verðbólgunefnd, 5B nánar tiltekið. Þetta var gefið í skyn, en þó ekki sagt berum orðum. Og andsvör okkar voru þau og gátu orðið þau ein, að Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin gætu ekki staðið að neinum þeim ráðstöfunum sem hefðu í för með sér riftun kjarasamninganna. Ríkisstj. sá hins vegar engar leiðir í málunum nema rift yrði gerðum kjarasamningum að meira eða minna leyti, þannig að umræðugrundvöllur var ekki fyrir hendi á milli þessara aðila.

Fulltrúar Alþýðusambandsins og BSRB voru síðan kallaðir á fund ráðh. aftur í gær eða gærkvöld. Gefin hefur verið lýsing hér á því sem talið er að þar hafi fram farið. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það, veit þó að í stórum dráttum er sú lýsing rétt. Það, sem þá var uppi á teningnum, var allt annað en okkur hafði áður verið sagt. Þetta ætti öllum hv. þm. að vera kunnugt.

Sá háttur, sem á hefur verið hafður í þessum efnum, er sem sagt sá, að komið er til verkalýðshreyfingarinnar þegar í óefni er komið. Hæstv. forsrh. sagði í framsöguræðu sinni í dag, að haft hefði verið samráð við aðila vinnumarkaðarins og í lokatillögum ríkisstj. hefði verið tekið tillit til sjónarmiða launþegasamtakanna. É;g verð nú að segja að í þessu frv, get ég ekki séð nein merki þess, nema síður væri. Verkalýðshreyfingin hefði gjarnan kosið að allt frá samningunum í sumar hefði verið tekið mið í efnahagsstefnunni á að afstýra þeim vanda sem nú er komið i, það hefur ekki verið gert.

Nú sem sagt liggja fyrir till. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Burðarásinn í þeim er árás á samningana og enn ný kjaraskerðing. Með þessum ráðstöfunum er öllum leiðum lokað til skynsamlegra ráðstafana í verðbólgumálum í samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Stefnan er tekin á stríð við verkalýðshreyfinguna og enn ein kollsteypan undirbúin. Þetta er sú stefna sem felst í því frv. sem hér liggur fyrir. Þetta verður afleiðing þessa frv, og laganna ef samþ. verða.

Alþýðusambandið og BSRB, ásamt fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í verðbólgunefnd, hafa lagt fram till, um aðra leið út úr þeim vanda sem nú blasir við. Það er sú leið sem skerðir ekki kjarasamninga, stefnir ekki fyrst og fremst á aukna verðbólgu, heldur er verðlækkunarleið til hömlunar verðbólgu, Að þessu er verkalýðshreyfingin reiðubúin að vinna með hverjum sem er sem að slíkum leiðum vill vinna, slíkum ráðum. Þetta hefur legið fyrir, en hefur verið hafnað.

Í einstökum greinum þessa frv. er svo ákveðið, hvernig að skuli farið við þessa kjaraskerðingu. Hún er í stórum dráttum á þá leið, að helmingur af þeim verðbótum, sem hefðu átt að koma vegna verðhækkana samkv. samningunum, verður nú felldur niður. Þetta hefur í stórum dráttum, trúi ég, það í för með sér að kjaraskerðingin, sem þessu fylgir, er sennilega ekki minni en 10% eða jafnvel 12% í lok þessa árs. Með því móti er búið að taka bróðurpartinn aftur af því sem verkalýðshreyfingunni tókst að vinna með samningunum í sumar. Hins vegar er einnig í þessu frv. gert ráð fyrir því, að allra lægstu laun fái hærri verðbætur, eða 880 kr, á mánuði fyrir hvert prósentustig, og fengist þá, miðað við 100 þús. kr. laun, um 8.8% hækkun núna 1. mars í staðinn fyrir 10% sem vísitalan mundi annars hafa sagt til um. Hins vegar er í þessari grein, 2. gr. frv., óljóst hvernig með á að fara, og ekki hefur verið gerð minnsta tilraun af talsmönnum þessa frv., hvorki í grg, né heldur í framsögu, til að skýra með nokkrum hætti hvernig hugsað er að framkvæma þessa 2. gr, frv. En þeir, sem eru kunnugir málum, sjá að hér er um að ræða svo flókin og vandasöm atriði að mér liggur við að segja að þetta sé svo til alveg óframkvæmanlegt.

Mig langar t. d. til þess að spyrja, hvernig menn hugsi sér að fara með yfirvinnukaupið. Er ætlunin að skerða nú einu sinni enn þau hlutföll á milli dagvinnu og yfirvinnu sem verið hafa í samningum allt frá því 1969, þegar þeim miklu flækjum, sem þá voru orðnar á þessum málum, var loksins rutt úr vegi með því að ákveða hlutfall yfirvinnu af dagvinnu með ákveðinni prósentutölu? Ég held að þá, og þá atvinnurekendur ekkert síður en verkafólk, sem urðu að fást við að framkvæma hlutina eins og þeir voru ákvarðaðir með lagasetningu, langi ekkert til að endurtaka allar þær flækjur og vitleysur sem þá voru. Ég vil fá svar við því, hvort ætlunin sé að skerða hlutföllin sem núna eru ráðandi milli yfirvinnu og dagvinnu. Mér sýnist á frv, að þetta sé ætlunin, og þá vil ég fá að vita, hvernig menn ætli að gera þetta.

Það eru ýmis önnur framkvæmdaatriði sem væri gott að fá nánari skýringar á. Það er eins og menn gangi út frá því, að allir menn séu á föstu mánaðarkaupi á föstum vinnustað. Þessi regla er hugsanlega framkvæmanleg þar sem þannig er í pottinn búið, En hvað um fólkið á vikukaupi, hvað um tímavinnufólkið, hvernig hugsa menn sér þessa framkvæmd gagnvart því? Að vísu er sagt í grg. frv., að hér sé um vandasamt mál að ræða og muni þurfa reglugerð til þess að marka framkvæmd þessa ákvæðis. En þeir, sem hafa sett þetta inn í frv., hljóta að hafa gert sér einhverja grein fyrir því, hvernig þessi framkvæmd eigi að vera.

Þessar tvær greinar frv. eru sem sagt um þá kjaraskerðingu sem ætlunin er að framkvæma. 3. gr. frv. er kannske einna merkilegust af því efni sem upp er talið í þessum kafla. Það er ákvæðið um að frá 1. jan. 1979 skuli óbeinir skattar ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum. Mér heyrðist nú, þegar ég var á leiðinni heim í kvöldmatinn áðan og viðtal var við hæstv, viðskrh. í útvarpinu, eins og þetta væri eitthvert óskabarn hans, svo mikla áherslu lagði hann á þýðingu þessa ákvæðis í frv. í því viðtali sem hann átti við Ríkisútvarpið. Ég held að með þessari grein og efni hennar sé verkalýðshreyfingunni ögrað á svo ósvífinn hátt, að ekki komi til mála annað en verkalýðshreyfingin taki mið af þessu í öllum sínum gerðum, ef þetta verður látið standa í þeim lögum sem hér er ætlunin að láta frá sér fara.

Hægt væri að tala lengi um þessa einu grein þó að stutt sé. Gildistaka hennar á að vera 1. jan. 1979. Með eðlilegum hætti væru samningar verkalýðsfélaganna, Alþýðusambandsfélaganna, lausir 1. des., hefðu runnið út 1. des. Væntanlega hefði þeim þá verið sagt upp, gildistími þeirra var þangað til og er enn sem komið er. Mér sýnist að í þessari grein felist það, að ríkisstj. á hverjum tíma geti bókstaflega ónýtt kjarasamninga um leið og þeir eru gerðir, ef þeir samningar eru henni ekki þóknanlegir. Þetta er það sem mér finnst, eins og ég sagði, slík móðgun eða ögrun við verkalýðshreyfinguna að við hljótum að taka mið af þessu í baráttu okkar fram undan.

Það má mikið ræða um vísitöluna, vísitölugrundvöllinn, og hefur oft verið gert. Þó verð ég að segja, að heldur fannst mér það veik röksemd fyrir því, sem hér er um að ræða, þegar því er hampað í grg. frv., framsöguræðu forsrh, og víðar sem röksemd fyrir því að taka alla óbeina skatta út úr vísitölunni, að þeir hafi ekki áhrif á verðbótaákvæði samninga, að ef tappagjaldið svokallaða yrði hækkað yrði allt kaup í landinu líka hækkað. Það hefur iðulega verið rætt um að einstakar fjáraflanir til sérstakra félagslegra mála og framkvæmda gætu vel fallið undir það að hafa ekki áhrif á kaupgjald. Um þetta hefur oft verið rætt, og verkalýðshreyfingin er áreiðanlega opin fyrir því að ræða slíka hluti. En hins vegar að ríkisstj. hafi þennan möguleika, það er eins og hún hafi rýtinginn í erminni gagnvart verkalýðshreyfingunni í hvert sinn sem hún gerir nýja kjarasamninga.

Eins og hér hefur verið tekið fram er það algerlega fráleitt að taka burt áhrif óbeinna skatta á verðbætur, en halda hins vegar í vísitölunni áhrifum niðurgreiðslna. Ég ætla ekki að fara að ræða þessi mál öllu nánar hér, en það verð ég að segja, að þau ummæli, sem Morgunblaðið í dag hefur eftir hæstv, forsrh. einmitt um þennan lið, eru ekki traustvekjandi. Í þessu viðtali við Morgunblaðið í dag segir hæstv. forsrh., að það torveldi alla stjórn efnahagsmála að óbeinir skattar eru í vísitölunni, þar sem þá er ekki hægt að beita sem skyldi fjármálum ríkisins til að halda jafnvægi í eftirspurn innanlands og draga þannig úr verðbólgunni. Við í verkalýðshreyfingunni þekkjum orðið ákaflega vel, hvað í rauninni er átt við þegar talað er um að hafa áhrif á eftirspurnina innanlands. Það er nákvæmlega það sama og er höfuðatriði þessa frv. Það er að kaupmátturinn sé of mikill, kaupið of hátt, það verði að skerða kaupmáttinn, lækka kaupið. Þetta er það sem er hið nakta innihald orðanna að hafa vald á eftirspurninni innanlands. Menn sjá nefnilega aldrei neinar aðrar leiðir en þá að skera niður kaupið, ráðast á kaupið og kaupmáttinn eða félagslegar framkvæmdir hvers konar. Þetta tvennt er það sem mönnum fyrst og fremst dettur í hug að gera þegar eitthvað bjátar á.

Ég sagði áðan, að því miður væri með þessu frv. og þeim ráðstöfunum, sem það felur í sér, lokað öllum leiðum til skynsamlegra ráðstafana til að hefta verðbólguna í samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Þær samþykktir, sem við höfum nú heyrt frá launþegasamtökum, bæði núna alveg sérstaklega og reyndar undanfarið, viðvaranir, ítrekaðar viðvaranir til hæstv. ríkisstj. að rifta ekki samningunum — allar þessar viðvaranir hafa verið að engu hafðar og nú er ekki annað sjáanlegt en stefni í enn eitt stríðið, enn eitt stéttastríðið. Ég held að algerlega sé nauðsynlegt að bæði hæstv, ríkisstj. og raunar allir hv. alþm. geri sér fyllilega ljóst og þurfi ekki að vera í neinum vafa um það, að verkalýðshreyfingin skoðar þessi lög, ef þau verða sett eins og frv. mælir fyrir um, sem hrein þvingunarlög. Viðbrögð hennar munu verða í samræmi við það.

Ég ætla að enda þessi orð mín á því að minna á niðurlag þeirrar samþykktar, sem miðstjórn Alþýðusambandsins gerði í kvöld, en niðurlag þessarar ályktunar er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þá lýsir miðstjórnin því yfir, að hún telur að með því að allar heiðarlegar leikreglur varðandi sambúð verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda og ríkisvaldsins eru þverbrotnar með fyrirhugaðri lagasetningu, að verkalýðsfélögin og allir einstaklingar innan þeirra séu siðferðilega óbundnir af þeim ólögum sem ríkisvaldið hyggst nú setja.“

Ég held að rétt sé, að menn hafi niðurlagsorð þessarar ályktunar vel í minni, Ég er ekki í neinum vafa um að þarna er talað fyrir munn allra launþega í landinu, og svo til algerlega einróma mótmæli gegn þessu lagafrv. og árásunum á kjarasamningana skulu menn taka alvarlega að þessu sinni.