10.02.1978
Neðri deild: 54. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Það hafa nú verið nokkuð langar ræður sem hér hafa verið fluttar, og ég skal lofa því, að ég mun ekki flytja ræðu af sömu lengd og þær sem hafa verið fluttar í kvöld.

Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hér hljóðs, er sú, að ég hef setið hér og hlustað og var að vonast til þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar, þeir menn sem tóku þátt í verðbólgunefndinni svokallaðri og komu hér með sérálit í henni, gerðu grein fyrir því hvernig þeirra till. mundu koma út ef eftir þeim væri farið. Ég hef ekki heyrt annað en þeir, sem hér hafa talað, allir, hafi viðurkennt að hér væri sá vandi á höndum sem yrði með einhverjum hætti að snúast gegn. Ég hef ekki annað heyrt en allir væru sammála um það, enda vitum við að ýmsar atvinnugreinar standa mjög höllum fæti og jafnvel svo, að ef ekkert hefði verið að gert hefðu þær stöðvast á næstunni. Ég ætla ekki að fara að telja þær upp. Ég held að öllum sé þetta vel kunnugt.

Menn héldu hér langar ræður, en lýstu ekki hvernig till. þeirra mundu koma út ef eftir þeim væri farið. Þeir sögðu: Við erum hér með till. Ykkar till. eru ómögulegar. — En það er ekki nóg. Það verður að gera grein fyrir því, hvernig þær mundu koma út og hvort þær mundu þá koma niður af réttlæti, en þeir eru að tala um að lítið réttlæti sé í þeirri leið sem ríkisstj. hefur lagt til að yrði farin.

Það er auðvitað ekki ánægjulegt fyrir neinn að þurfa að standa að því að gera svona till. En ríkisstj. verður að horfast í augu við þann vanda, sem við blasir, og verður að taka skásta kostinn.

Stjórnarandstaðan ásamt fulltrúum Alþýðu­ sambandsins og starfsmanna ríkis og bæja skrifar undir till., hvernig þeir vilji láta leysa þennan vanda, og eitt af því, sem þeir leggja til, er að lagt verði nokkurs konar veltugjald á sama skattstofn og aðstöðugjöld. Hverja hittir þetta? Hvernig mundi þetta koma út? Ég man ekki betur en hv. 2, þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, væri að brigsla okkur framsóknarmönnum um það hér á dögunum, að við værum lélegir talsmenn landbúnaðarins og við héldum illa á málum hans hér á Alþ. Það væri nú einhver munur hvernig Alþb. hugsaði um blessaða bændurna í landinu, það væri annað mál. En hvað felst í þessu`? Ég hef í dag reynt að afla mér upplýsinga um það, hvað þetta gjald þyrfti að vera hátt og hver væri í raun og veru stofninn, hver væri í raun og veru sú upphæð sem væri hægt að hugsa sér að stæði undir slíkum stofni. Hvað þurfti gjaldið að vera hátt til þess að ná 4300 millj. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um þetta. Ég fór í Hagstofuna, ég fór í Þjóðhagsstofnun — ég fékk ekki svar. En ég fór til eins af þeim mönnum, sem skrifuðu undir þetta álit, og spurði: Hvað þarf þetta gjald að vera hátt? Hann sagði: Það þarf að vera helmingi hærra en aðstöðugjaldið, sem er lagt á til að ná þessari upphæð. — Það var svarið. En hvernig er þessi stofn og hvernig kemur þetta niður?

Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga frá 1964 er 10. gr. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðstöðugjald má eigi hærra vera en hér greinir: a. Allt að 1/2% af rekstri fiskiskipa og flugvéla. b. Allt að 1% af rekstri verslunarskipa og af fiskiðnaði. e. Allt að 11/2% af hvers konar iðnaðarrekstri öðrum. d. Allt að 2% af öðrum atvinnurekstri.“

Þetta er þá stofninn. Sá hv, þm., sem ég ræddi við, veit þetta, og ég tek orð hans trúanleg. É g geri ráð fyrir því, að þessir hv. tillöguhöfundar hafi gert sér grein fyrir því, hvað þeir voru að leggja til. Þetta mundi vera t, d. á landbúnað 4%. Og ef við tökum meðalbúið, en gjaldstofninn á meðalbúi, eins og hann er í verðlagsgrundvelli, er 2.6 millj., þá mundi þetta vera um 104 þúsund á meðalbúið. Þetta væri náttúrlega ekkert lítið t. d, á kaupfélögin sem eru að berjast í bökkum. Þetta væri þá lagleg glaðning fyrir þau eða annan smárekstur sem er að berjast í bökkum.

En þessi hv. þm. og þeir, sem skrifuðu undir þetta, voru ekki alveg búnir að gleyma bændunum í þessum till. sínum. Það var meira en þetta. Þeir lögðu til að tekinn væri 1 milljarður af útflutningsuppbótum og það fært yfir til að standa undir auknum niðurgreiðslum. Nú er þannig ástatt í þjóðfélaginu, að það lítur út fyrir, þó að bændur fái þessi 10% sem þeir eiga að fá lögum samkv., að samt mundi vanta um 2 milljarða til þess að þeir næðu sínu verðlagi. Þessi till. mundi, ef yrði farið eftir henni, verka þannig, að þá mundi kaupið skerðast um 3%, eins og nú horfir. Miðað við meðalbúið, verðlagsgrundvöllinn, mundi þetta losa 210 þús. kr. Sem sagt, þetta eru till. þessara hv. nm. Ég tek bara dæmi, hvað þetta er vel hugsað, hvernig þetta kemur út fyrir landbúnaðinn sem hv, þm, húðvík Jósepsson hefur talað um réttilega að væri afskiptur í þjóðfélaginu, hefði ekki náð nema 68% af kaupi viðmiðunarstéttanna s. l. ár. Þetta er það réttlæti sem þessir menn berjast fyrir.

Það kann vel að vera, að aðgengilegt sé fyrir hv. þm. Karvel Pálmason að sækja fylgi til bænda á Vestfjörðum með þetta á bakinu, ef það er þetta réttlæti sem hann berst fyrir — eða hv. þm. Lúðvík Jósepsson á Austurlandi.

Vei, það er ekki nóg að slá fram till. Og það er ekki nóg að tala um að það, sem stjórnarliðið kemur með, sé svona og svona. Þegar þarf að skerða eitthvað kemur það niður á einhverjum. En eru þessar till, það sem menn telja rétt nú miðað við hvernig ástatt er í þjóðfélaginu? Er það þetta réttlæti sem þessir menn eru að berjast fyrir?

Eða koma þeir með þessar till. án þess að gera sér nokkra grein fyrir því, hvað á bak við er?

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði hér áðan — (Gripið fram í: Þrauthugsaði það.) Já, það er þrauthugsað. Ég er nú ekkert hissa á því, þó að þetta sé þrauthugsað af hendi Alþfl. Það er alveg í samræmi við þær till. En ég átti ekki von á því frá t. d. hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, 2, þm. Austurl., að hann mundi leggja slíkt til. (LJós: Þetta er nú líka misskilningur.) Ég óska þá eftir því, að hv. þm. lýsi þessu nánar hér á eftir. En það er enginn misskilningur miðað við þær upplýsingar sem hv, þm. Karvel Pálmason gaf mér áðan. Sem sagt, ef þessar till, væru samþykktar og útfærðar, mundu koma um 315 þús. kr. á meðalbú bóndans í landinu, ef þær upplýsingar, sem hv, þm. Karvel Pálmason gaf mér áðan, eru réttar.

Hv. þm. Karvel Pálmason talaði um að þessar till. væru nú að leggja grunninn að framtíðarlausn í efnahagsmálum. Það er ekkert annað. Þetta eru till. til þess að leggja grunninn, Það er engin furða þó að hann rétti a. m. k. fulltrúum bænda hér útrétta hönd við þessa lausn. Það er sjálfsagt að hlusta á þær till., sem hv. stjórnarandstaða hefur hér til þess að leggja fram, og athuga þær. En svona till. þýðir a. m, k. ekki fyrir þá að bera á borð fyrir mig.

Eitt var það, sem ég vildi taka undir af því sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson ræddi hér um áðan, þegar hann var að ræða um vextina. Ég er alveg sama sinnis og hann, að vaxtapólitíkin í landinu sé röng. Ég tel að í sambandi við þessar aðgerðir, sem hér er verið að gera, ættu vextir ekki að hækka á sama tíma a, m. k. sem þessi lög gilda. Þ að kann að vera að ég komi fram með till. um það síðar, að vextir hækki alls ekki á því tímabili sem frv. gildir, ef að lögum verður.