25.10.1977
Sameinað þing: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

4. mál, kosningalög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu minni hér á dögunum í umr. utan dagskrár um hliðstætt mál, hefur hugmyndum um breyt. á kosningalögum og kjördæmaskipun oft verið hreyft hér á undanförnum þingum, þá einkum í formi þáltill. Því miður hafa þær till. ekki verið ræddar mjög mikið og fengið allt of litlar undirtektir. Þess vegna fagna ég því núna að menn ræða hér þessa þáltill., sem er á dagskrá, á málefnalegan hátt og ég vænti þess að þær umr. geti verið til upplýsingar fyrir þær nefndir, stjórnarskrárnefnd og þá „ad hoe“-nefnd sem nú er búið að setja á laggirnar, til þess að þær komist að einhverri skynsamlegri niðurstöðu.

Hv. þm. Magnús T. Ólafsson hefur komist að þeirri niðurstöðu að mikil samstaða sé um að auka rétt kjósenda til þess að velja á milli frambjóðenda á viðkomandi listum. Ég vil upplýsa að í sambandi við flutning þáltill. á síðasta þingi, sem 17 þm. fluttu, var upphaflega gert ráð fyrir því, að í þeirri till. væri tvennt tekið fram, þ.e.a.s. að jafna misvægi sem nú er á milli einstakra kjördæma, og svo í öðru lagi að auka rétt kjósenda til þess að velja á milli frambjóðenda. Síðarnefnda atriðið var þó fellt niður vegna þess að þau boð bárust frá þingflokki Alþb. að óskynsamlegt væri að hafa það í till., þar sem ekki næðist full samstaða um það. Þess vegna verð ég að viðurkenna að það kom nokkuð á óvart þegar þessi till. birtist hér á borðum okkar nú í upphafi þings, þó að ég að sjálfsögðu fagnaði henni og sé henni samþykkur, en hún er flutt af þm. Alþb., eins og öllum er kunnugt og ljóst.

Ég þarf ekki að tíunda það að ég styð það í öllum grundvallaratriðum að ná fram þessu markmiði, sem till, felur í sér, þ.e.a.s. að gera kjósendum auðveldara en nú er að velja á milli frambjóðenda á þeim lista sem þeir kjósa. Ég vil í þessum umr. undirstrika og árétta það, sem fram hefur komið bæði nú og áður, að það er auðvitað annað mjög mikilvægt vandamál varðandi kosningalög og kjördæmaskipun, þ.e. misréttið á milli hinna ýmsu kjördæma. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta misrétti sé orðið svo geigvænlegt að því yrði bókstaflega að hreyta áður en næst er gengið til kosninga. Og ég hef alveg fram til skamms tíma gert mér mikla von um að þm. féllust á að gera þessar breytingar, vegna þess að misréttið er svo mikið og réttindi fólks eru svo mismunandi að ekki verður lengur við unað.

Hins vegar hefur það komið í ljós að Alþ. er ákaflega tregt til allra breytinga á kjördæmaskipan. Það á sér vissar skýringar, sem vissulega er hægt að taka tillit til, en þar kemur fleira til heldur en einfaldlega málefnin og skynsemin. Líka virðast ráða nokkuð ferðinni hagsmunir einstakra flokka og jafnvel einstakra þm., þegar verið er að ræða um ákveðnar breytingar á kosningalögum eða stjórnarskrá. Af þessum sökum, vegna þessarar tregðu á að breyta lögunum og stjórnarskránni og erfiðleikum á því, hafa menn nú í seinni tíð verið að benda á ákveðnar bráðabirgðalausnir og verið að framkvæma þær. Ég lít svo á að prófkjör hjá hinum ýmsu flokkum séu viðbrögð flokkanna gagnvart röddum meðal almennings um að kjósendur fái að velja meira á milli frambjóðenda heldur en verið hefur um langan aldur og hinn almenni kjósandi fái að ráða meiru um röðun frambjóðenda og kosningu þeirra heldur en gert hefur verið fram að þessu, þegar fámennar stjórnir innan flokkanna hafa ákveðið framboðslista. Ég hef alltaf verið ákafur stuðningsmaður prófkosninga og í mínum flokki beitt mér fyrir því, enda þótt ég geri mér grein fyrir því að á prófkosningum eru margvíslegir annmarkar. Og ég geri mér líka grein fyrir því, að ef sá háttur er tekinn upp í kosningalögum sem bent er á í þessari till. sem hér er á dagskrá, þá býður það vissum hættum heim. Það eru vissar hættur fólgnar í prófkosningum eða þessum aðferðum sem hér um ræðir að lýðskrumarar komist frekar að en aðrir, fólk hafi ekki aðstöðu til að dæma um hæfileika manna og kosti þeirra til að sitja á þingi eins og þeir sem best þekkja til í þeim flokkum sem viðkomandi menn starfa í. Þetta held ég að allir geri sér ljóst og allir geti viðurkennt, að það eru mjög margir hæfir menn sem starfa í flokkum eða eru í þjóðfélaginu sem eru vel til forustu fallnir og geta lagt margt og gott til mála án þess að þeir séu kannske reiðubúnir til að hafa sig í frammi í prófkosningum eða í almennum kosningum sér sjálfum til framdráttar. Það er líka viss hætta þessu samfara, eins og hefur komið fram í prófkosningum á vegum Alþfl. að undanförnu, þar sem tilhneigingin virðist vera sú að velja frambjóðendur efst á lista sem koma frá þéttbýlli stöðum innan kjördæmanna. Og ef þessi leið er valin, sem hér er bent á í þáltill. um að kjósandinn raði sjálfur á listann, þá er hætt við því að menn veljist meir frá þessum þéttbýlisstöðum heldur en verið hefur hingað til og þá sé ekki tekið kannske tillit til annarra kosta eða hæfileika frambjóðendanna.

Ég vek athygli á því, að kjördæmaskipun sú sem við búum við nú er bundin í stjórnarskrá. Erfiðleikar eru á því að breyta stjórnarskrá. Það þarf mikið til: tvennar kosningar og samþykki þings bæði fyrir og eftir. Þess vegna er mögulegt og mjög sennilegt að umr. eins og hér hafa farið fram í dag og hafa farið fram að undanförnu á Íslandi komi upp aftur og aftur þegar kjördæmaskipun hefur breyst til misréttis og ranglætis. Sú kjördæmaskipun, sem við búum við núna, var sett í stjórnarskrá með hliðsjón af þeim íbúafjölda sem í kjördæmunum var árið 1959. En með búferlaflutningum og fjölgun fólks með mismunandi miklum hætti og á mismunandi vegu hefur þessi íbúafjöldi mjög raskast á s.l. 15 árum, raskast svo mikið að þessi kjördæmaskipun, sem við búum við, er ekki lengur viðunandi. Ég hef því haldið að það væri athugandi fyrir þingið, og fyrir þá sem gera till. um breyt. á stjórnarskránni, að auka nokkuð svigrúmið í stjórnarskránni til þess að lagfæra kjördæmaskipunina án þess að þurfi til beinnar stjórnarskrárbreytingar að koma. Það tíðkast mjög í velflestum löndum, sem við þekkjum til, að kjördæmum er breytt, þm. fjölgað eða fækkað eftir því hvernig hreyfing íbúafjöldans er. Og ég hygg að það geti verið leið sem mætti fara þó að við héldum okkur í grundvallaratriðum við þá kjördæmaskipun sem við búum við núna, þá mætti auka það svigrúm fyrir löggjafarvaldið með einföldum breytingum: að fækka eða fjölga þm. á vissu árabili með hliðsjón af búferlaflutningum og breytingum á íbúafjölda. Þetta segi ég með það í huga að tregða hefur verið mikil á að breyta út frá kjördæmaskipuninni núna nema með ærinni fyrirhöfn.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að athugandi væri að breyta aftur til einmenningskjördæma, Ég hef þó ekki verið að hafa mikið orð á því, Ég hef gert mér grein fyrir því eða litið svo á, að það ætti ekki mikinn byr. Ég hef líka verið mjög skotinn í þeim hugmyndum, sem fram hafa komið hjá fulltrúum ungra stjórnmálasamtaka sem hafa lagt til, að hér yrði tekið upp það kerfi sem notað er í Írlandi. Það kerfi kemur í veg fyrir misrétti á milli kjördæma og nálgast líka það sjónarmið sem fram kemur í hugmyndinni í þáltill. hér, að gefa kjósendum meiri kost á því að velja frambjóðendur.

Ég held að þær breytingar, sem ég hef verið talsmaður fyrir, að draga úr misréttinu og misvæginu milli atkv. og kjördæma, séu það sem er nánast skylda okkar að glíma við núna og ráða bót á. Ég er ekki með þessu að lýsa yfir andstöðu minni gegn kjósendum og gegn fólkinu í hinum dreifðu byggðum á Íslandi. Ég held að það megi ekki heldur blanda umr. um breyt. á kosningalögum og stjórnarskipun saman við félagsmál, atvinnumál eða aðstöðu fólks. Ég held að það sé mikill misskilningur og við verðum að leysa þau vandamál sérstaklega, án þess að blanda þeim inn í þessi almennu mannréttindi sem kosningarrétturinn er, og það má ekki dengja þar saman ranglæti í kosningalögum og ímynduðu eða raunverulegu misvægi í félagslegum efnum.

Hitt er annað, sem vert er að vekja athygli á, að fólk á þéttbýlli svæðum, sem nú nýtur minni kosningarréttar en aðrir kjósendur í dreifðum kjördæmum, sættir sig ekki lengur við þetta ástand, og ef svo heldur áfram sem nú er, að við erum að framkvæma öfluga byggðastefnu og beina fjármagni til uppbyggingar úti á landsbyggðinni á sama tíma sem fólkið hér í þéttbýlinu situr við skertan kosningarrétt, þá leiðir það ekki til annars en upplausnar eða hefur jafnvel enn þá verri afleiðingar í þessum kjördæmum sem ég hef einkum í huga, þ.e.a.s. Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. til þess að sætta þessi sjónarmið, til þess að sætta fólk í þéttbýlinu frekar við raunverulega og skynsamlega byggðastefnu þarf vissulega að koma til móts við það varðandi kosningarrétt. Ég bind miklar vonir við að hreyfing komist á málið eftir að forsrh. lýsti því yfir að nefnd yrði sett á laggirnar núna til þess að kanna þessi mál niður í kjölinn, og ég ítreka það sem ég sagði hér í umr. á dögunum, að ég vænti þess að þeim athugunum fylgi till. og þær till. verði lagðar fram eigi síðar en nú um áramótin.