13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv, til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum. N. varð ekki sammála í afstöðu sinni til frv. Meiri hl., fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur til að frv, verði samþ., en minni hl., þeir hv. þm. Gylfi Þ, Gíslason og Lúðvík Jósepsson, skilar séráliti.

Í áliti meiri hl., sem er á þskj, 363, segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

N. hefur athugað frv., en varð ekki sammála um afgreiðslu þess.

Meiri hl. n, leggur til að frv. verði samþ., en tekur fram, að rétt sé að fela Kauplagsnefnd að meta sérstaklega þátt niðurgreiðslna í vöruverði svo og aðra þætti í tengslum við óbeina skatta. Þessi athugun fari fram í samráði við samtök atvinnuveganna og launþegasamtökin.“

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um efni þessa frv., það gerði hæstv, forsrh, þegar hann mælti fyrir frv, við 1. umr. málsins s. l. föstudag. Ég hleyp þó á nokkrum helstu atriðum. Frv. skiptist í 7 kafla og er 14 greinar.

Í I. kaflanum er rætt um verðbótaákvæði kjarasamninga og þar segir, að verðbætur á laun skuli hækka 1. mars þetta ár, 1. júní, 1. sept. og 1. des. sem svarar helmingi þeirrar hækkunar verðbótavísitölu og verðbótaauka sem Kauplagsnefnd reiknar samkv. ákvæðum kjarasamninga að hafi átt sér stað á næstliðnu þriggja mánaða greiðslutímabili.

Í 2. gr. segir, að krónutöluhækkun verðbóta og verðbótaauka, sem launþegi fær samanlagt frá byrjun greiðslutímabils fyrir dagvinnu, yfirvinnu, ákvæðisvinnu og annað, skuli aldrei vera minni en sem svarar 880 kr. á mánuði fyrir hvert prósentustig í hækkun vísitölu. Til nánari skýringar við 2. gr. vil ég segja þetta: Það er ekki gert ráð fyrir að bætur samkv, þessari grein verði hluti af kauptaxta eða kaupgjaldsskrá, því hér er í reynd um persónubundinn rétt að ræða. Þannig skal eftir hvern mánuð eða viku metið hvort starfsmaður, sem unnið hefur reglulega dagvinnu, hefur fengið í auknar verðbætur eftir 1. mars 1978 samkv. ákvæðum 1. gr. sem svarar a. m. k. 880 kr. á mánuði, miðað við fulla dagvinnu, fyrir hvert 1% sem verðbótavísitala hefur hækkað umfram 114.02 stig. Þar sem 1. gr. felur í sér hálfar hlutfallslegar verðbætur þarf ekki að huga að þessum rétti hjá launþega, sem hefur 176 500 kr. eða meira í mánaðarlaun. Fái launþegi hins vegar lægri laun en þessu nemur fyrir dagvinnu þarf að meta hvort yfirvinna, vaktaálag, bónusgreiðslur, ákvæðisgreiðslur eða hvers konar aðrar aukagreiðslur, sem verðbætur samkv. 1. gr. skulu greiðast á, hafa komið mánaðarlaunum hans í heild upp í þetta mark. Hafi launþegi ekki náð 880 kr. hækkun verðbóta fyrir hvert 1%, sem verðbótavísitalan án frádráttar hefur hækkað umfram 114.02 stig eftir 1. mars 1978, skal vinnuveitandi hans bæta honum það með greiðslu eftir á eftir hvern mánuð, Nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar verða sett með reglugerð í samráði við launþegasamtök og vinnuveitendur.

Í 3. gr, segir, að 1. jan. 1979 skuli óbeinir skattar ekki hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum.

Í II kafla er fjallað um bætur almannatrygginga og sagt að þær skuli að undanskildum fæðingarstyrk 1. mars 1978, 1. júní og 1. sept. taka sömu hlutfallshækkun og laun almennt þessa daga. Þá er talað um heimilisuppbætur og að þær skuli hækka um 2 prósentustig 1. mars n. k. umfram hækkun almennra bóta þann dag.

Í III kafla er talað um barnabætur, sem hækka samkv. skattalögum um 5%.

Í IV, kafla er fjallað um skyldusparnað félaga og stofnana og sagt að þau skuli á þessu ári leggja til hliðar fé til varðveislu hjá ríkissjóði sem nemur 10% af skattgjaldstekjum. Skal féð vera vaxtalaust til 1. febr. 1984, en verðtryggt.

Í V. kafla er fjallað um að vörugjald lækki um 2 prósentustig 15. febr. n. k. til ársloka, það fer úr 18% í 16%.

Þá fjallar VI. kafli um, að heimilt sé að lækka fjárveitingar ríkisins um 1 milljarð þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1978, og enn fremur, að heimilt sé að gefa út spariskírteini að fjárhæð allt að 4.6 milljörðum kr. á þessu ári. Er það 1500 millj. kr. aukning frá heimild fjárlaga.

Í VII. kafla er svo gildistökuákvæði frv. Þetta eru efnisatriði málsins og þarf í sjálfu sér ekki að fara um þau mörgum orðum. Umr. hér í hv. deild s. l. föstudag gefa þó tilefni til nokkurra athugasemda.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson taldi meginefni frv. koma fram í 1. og 2. gr. þess og raunar er það áréttað í nál. minni hl. nú, þ. e. a. s. að breytt skuli gildandi kjarasamningum launþega, Vissulega er hér verið að hreyfa við gildandi kjarasamningum, en eins og hæstv, forsrh. sagði í ræðu sinni s. l. föstudag, þá hljóta allir sanngjarnir menn að vera sammála um að glórulaust sé að hækka peningalaun um 10–15% á þriggja mánaða fresti. Með 1. gr, frv, er gerð tilraun til þess að láta skynsemina ráða, og þrátt fyrir helmingun verðbóta samkv. 1. gr, frv. er tryggt með ákvæði utan lágmarksverðbætur í 2, gr. að þessi frádráttur snerti lítið eða ekki hina tekjulægstu í hópi launþega. Þá eru einkum hafðir í huga þeir sem tekjur hafa af reglulegri dagvinnu einni og eru í lágum kauptaxta.

Þess er vandlega gætt í umr. stjórnarandstæðinga um þetta mál að geta ekki um þessa tryggingu sem hinir lægst launuðu fá, Þess er einnig gætt, að gera sem minnst úr öðrum ákvæðum frv., nema 3. gr., sem ég kem að síðar.

Í II. kafla frv. er lagt til að heimild til hækkunar almennra bóta verði beitt þannig, að bætur hækki jafnskjótt og laun og um sama hlutfall og laun almennt, þ. e. vegna grunnkaupshækkana og verðbóta samkv, 1. gr. frv., og hvað varðar tekjutryggingu og heimilisuppbót, sem ásamt elli- og örorkulífeyri mynda lágmarkslaun þau sem almannatryggingar veita, þá er gert ráð fyrir heldur meiri hækkun 1. mars 1978 en heimild laganna veitir. Þessi sérstaka hækkun er talin kosta um 80–100 millj. kr. á ári.

Í III. kafla frv. er lagt til að barnabætur verði hækkaðar um 5% frá því sem ella hefði orðið með gildandi skattvísitölu, Við þessa breytingu aukast barnabætur um nærfellt 300 millj. kr. og koma þær þeim, sem hafa börn á framfæri sínu, til hagsbóta í formi lækkaðra greiðslna opinberra gjalda eða aukinni útborgun barnabóta. En um þessi atriði vilja stjórnarandstæðingar sem minnst tala.

Mikið veður hefur hins vegar verið gert út af 3, gr. frv., en þar er lagt til að frá og með 1. jan. 1979 skuli breytingar á óbeinum sköttum ekki valda breytingum á verðbótum. Rökin fyrir þessu eru mætavel kunn og ég tek hér upp orð hæstv. forsrh., þar sem hann sagði í ræðu sinni s. l. föstudag, að í fyrsta lagi væru beinir skattar ekki meðtaldir í verðbótavísitölu, Það veldur því, að val löggjafans milli beinna og óbeinna skatta er að þessu leyti nokkuð bundið, sem hlýtur að teljast óæskilegt.

Í öðru lagi stendur ómæld opinber þjónusta á móti óbeinum sköttum sem ekki er metin til kjarabóta, og má þá minna þm. á svokallað tappagjald sem rætt var hér fyrir jólin. Þegar ég talaði fyrir nál, um frv. um breyt. á vörugjaldinu, þ. e. a. s. ákvæðunum sem fólu í sér hækkun á svonefndu tappagjaldi, þá gerði ég grein fyrir hvað sú breyting, sem þar var lögð til, mundi þýða í auknum launagreiðslum hjá ríkinu. Frv. gerði ráð fyrir að svonefnt tappagjald skyldi hækka um 7 kr, og þá hefði það gjald numið 105 millj, kr. Af því áttu svo að renna 45 millj. til Styrktarsjóðs vangefinna. Það hefði þýtt a, m. k. 35 millj, kr. launahækkun hjá ríkinu á árinu 1978 vegna hækkunar á kaupgreiðsluvísitölunni. Sú hækkun, sem samþ. var hins vegar, 3 kr. á lítra, þýðir að launagreiðslur ríkisins hækka um 15–20 millj. kr. á árinu 1978, Allir hljóta að sjá að fyrirkomulag sem þetta getur ekki gengið.

Í þriðja lagi má svo taka það fram, að stjórnvöld geta ekki með sama árangri og ella beitt breytingum á óbeinum sköttum til hagstjórnar vegna þess að þeir eru í grunni verðbótavísitölu.

Í frv. er gert ráð fyrir að Kauplagsnefnd meti hvaða skattar skuli teljast óbeinir í þessu sambandi.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson spurði í umr. á föstudaginn, hvort 3. gr. frv. væri opinber tilkynning um framhald stjórnarsamstarfsins. Hann má skilja greinina svo ef hann vill. Ég skil hana þannig, að þetta sé tilkynning um það sem núv. stjórnarflokkar ætla sér að gera og ætla sér að standa að. Hér er ekki um að ræða neina stórkostlega hótun, eins og hv. þm, orðaði það, heldur ákvörðun um að gera tilraun til þess að koma á breytingu til bóta. Hins vegar fór hv. þm. Lúðvík Jósepsson ekkert dult með hótun sína, þar sem hann sagði að ef ríkisstj. beitti slíkum siðlausum athöfnum, þá teldu aðrir sig ekki bundna af neinum lögum. Það munaði ekki um það. Og hann bætti svo við, að „þeir“ — það eru sennilega stjórnarflokkarnir — mundu finna fyrir þessu bráðlega. Það hlýtur að vakna sú spurning, af hverju Alþ. sé yfirleitt að tala um þessi mál, af hverju er ekki ASÍ og BSRB afhent allt ákvörðunarvald um kaup og kjör manna og þær ákvarðanir sem til þessa hafa verið teknar af Alþ. Sú spurning hlýtur að vakna, hvort yfirleitt þurfi nokkurt Alþingi.

Svo heldur hv. þm. áfram og segir að ríkisstj. hafi fyrirgert öllum rétti til að fara fram á samstarf við verkalýðsfélögin, slíkt samstarf sé útilokað með öllu, Þar er hann kannske kominn að kjarna málsins, þ. e. a. s. að það hafi aldrei verið ætlun Alþýðusambandsins og stjórnarandstöðuflokkanna að samstarf gæti tekist um þessi mál.

En aðeins nokkur orð til viðbótar vegna ræðu hv, þm. Lúðvíks Jósepssonar. Hann talaði um að ógæfan byrjaði með núv. ríkisstj., 1975 hefði verðbólgan byrjað og orsökin verið sú, að hér sat ríkisstj. sem lækkaði gengið og lét það síga. Ég held ég hafi þetta orðrétt eftir hv, þm, Mér sýnist þurfa aðdáunarverðan kjark til að halda svona löguðu fram. Þetta gefur hins vegar tilefni til þess að rifja nokkuð upp það sem gerðist fyrir árið 1975, þ. e. a. s, á tímabili vinstri stjórnarinnar. Menn virðast gera ráð fyrir að almenningur sé fljótur að gleyma, en a. m. k. suma rekur minni til að verðbólga hafi verið hér nokkur fyrir árið 1975. Ég þarf varla að rifja það upp, hver var þá viðskrh. Vinstri stjórnin ætlaði samkv. málefnasamningi sínum að tryggja að verðbólga yrði hér ekki meiri en í nágranna- og viðskiptalöndunum. Árangurinn varð hins vegar nýtt Evrópumet í verðbólguaukningu. Hún ætlaði ekki heldur að beita gengisfellingu gegn efnahagsvanda. Hún felldi hins vegar gengið þrisvar. Auk þess fann hún upp hið svokallaða gengissig, en ekki núv. ríkisstj., en gengissig hefur að vísu verið beitt síðan. Vinstri stjórnin ætlaði líka að lækka vexti, Það sem gerðist var hins vegar það, að hún hækkaði þá verulega og var með tilburði um enn meiri hækkanir þegar hún fór frá völdum. Vinstri stjórnin ætlaði líka að fella niður söluskatt á nauðsynjavörum. Hún hækkaði hann hins vegar úr 11% í 17%.

Þetta eru aðeins örfá atriði til upprifjunar fyrir hv. þm. Lúðvík Jósepsson, sem var viðskrh, í vinstri stjórninni, en talar nú með mikilli hneykslun um athafnir sem hann hefur sjálfur staðið að sem ráðh.

Þá talaði hv. þm. um það atriði, sem hann telur eitt með öðru hafa valdið verðbólgunni nú á þessu kjörtímabili, þ, e. að núv. stjórn hafi heimilað verðhækkanir á opinberri þjónustu langt umfram verðlag í landinu, eins og hann orðaði það, og síðan hafi einkareksturinn komið á eftir. Þetta gefur tilefni til að rifja upp hvað gerðist í ráðherratíð hans sem viðskrh., þegar hann stóð gegn öllum verðhækkunum á opinberri þjónustu sem hann mögulega gat, bæði hjá opinberum fyrirtækjum og stofnunum og hjá fyrirtækjum sveitarfélaga. Það varð til þess, að skuldasöfnun hinna opinberu fyrirtækja varð óheyrileg og þau voru komin í algjört þrot með sín fjármál og mikinn skuldahala á eftir sér þegar núv. stjórn tók við. Núv, stjórn hefur ekki veitt þessum stofnunum og fyrirtækjum heimild til verðhækkana umfram almennt verðlag í landinu, þvert á móti hefur þar verið beitt aðhaldi, en viðurkennd hins vegar sú staðreynd, að þessi fyrirtæki þurfi að vera fær um að veita þá þjónustu sem þeim er ætlað samkv. lögum. Það verður ekki gert nema þau fái að breyta gjaldskrám sínum í samræmi við verðlagsbreytingar í landinu.

Í sambandi við fjárfestinguna á þessu kjörtímabili minntist hv. þm, að lokum á virkjunarframkvæmdirnar, þær væru allar gerðar með stóriðjudraum fyrir augum, eins og hann orðaði það. Þessi orð hv. þm. gefa vissulega líka tilefni til að rifja upp athafnir sem áttu sér stað meðan hann var sjálfur ráðh. og einkum þó athafnir flokksbróður hans í vinstri stjórninni, Ég ætla ekki að rifja þá sögu upp, en ég held að því verði ekki á móti mælt, að þá voru vissulega stóriðjudraumar sem sátu í fyrirrúmi. Ég ætla hins vegar að gefa félaga hans, hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, tækifæri til þess að rifja þessa sögu upp einu sinni enn. Hann hefur gert það áður í þinginu og gerði það svo vel, að ég held að aðrir geri það varla betur, og það væri gaman að fá svolitla upprifjun nú að þessu gefna tilefni.

Skýrsla verðbólgunefndar og störf n. hefur verið nefnd nokkuð í þessum umr. Hv, þm. Lúðvík Jósepsson tók hér fram, að skýrslan væri ekki verðbólgunefndar sem heildar. Mér þykir hv, þm. gera heldur lítið úr starfi sínu og annarra með því að viðhafa þessi orð. N. sat að störfum í rúmt ár, og mér þykir satt að segja undarlegt þegar hv. þm. segir með þessum orðum sínum, að hann hafi haft nánast engin áhrif á störf n. eða þær niðurstöður sem greinir í skýrslu hennar, Þm. veit mætavel, að einstakir kaflar í skýrslunni voru endursamdir hvað eftir annað og tekið þar með tillit til athugasemda sem fram komu á einstökum fundum n. þegar viðkomandi kaflar voru ræddir. Þannig á þm. sem aðrir nm. sinn þátt í endanlegri mynd skýrslunnar.

Eins og kunnugt er skiluðu 5 nm. sérstöku áliti. Það eru fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í verðbólgunefndinni. Það er svo mál út af fyrir sig, að þessir fimmmenningar skila þar að auki hver um sig ýmsum sérbókunum.

Sérstök bókun er frá fulltrúum ASÍ og BSRB um að þeir lýsi sig reiðubúna til þess að eiga viðræður við ríkisstj. á grundvelli tillagna fimmmenninganna, og ég sé nú að þessi bókun hefur orðið tilefni hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar til að flytja till. um rökstudda dagskrá.

Gylfi Þ. Gíslason skilar sérstakri bókun, þar sem hann lýsir sig í meginatriðum sammála þeim hugmyndum sem settar eru fram í 4. og 5. kafla skýrslu verðbólgunefndar, en þar er fjallað í ítarlegu máli um umbætur á stjórn efnahagsmála og um nauðsyn samræmdrar efnahagsstefnu. Þá tekur hann fram varðandi hugmyndir þær, sem settar eru fram í 3. kafla um efnahagsráðstafanir nú, að hann sé aðili að þeim till., en í 3. kaflanum er fjallað um horfur í verðlagsmálum og aðgerðir gegn verðbólgu á næstu missirum. Ef ekki náist samstaða um þessar ráðstafanir og ríkisstj. vilji virða gerða kjarasamninga, þá mæli hann með þeirri leið sem felist í dæmi 2, og kem ég nánar að því síðar.

Fulltrúi BSRB skilar svo séráliti, sem er raunverulega sérálit hans nr. 2 þar sem hann tekur fram að ein af meginorsökum hinnar hröðu verðbólguaukningar á síðari árum sé skipulagslaus fjárfesting á vegum hins opinbera og óhófleg skuldasöfnun erlendis. Hann telji, að jafnframt því sem gerðar séu ráðstafanir til lagfæringar á skipulagi fjárfestingarmála til langs tíma sé rétt að hefjast handa þegar á þessu ári og hægja nokkuð á fjárfestingu, sem unnt sé að fresta jafnvel þótt þörf sé. Þá vitum við það læknisráðið.

Þá er sérbókun frá fulltrúa Vinnuveitendasambandsins, þar sem hann tekur fram að sér sé ljóst að þörf sé margvíslegra skammtímaráðstafana í efnahagsmálum vegna erfiðrar stöðu atvinnuveganna nú. Hann nefnir að stjórnvöld hafi þegar tekið ýmsar mikilvægar og stefnumarkandi ákvarðanir sem að þessu lúta, og telji hann því óhjákvæmilegt að þau ljúki nauðsynlegum aðgerðum með vali þeirra leiða sem best teljast fallnar til að falla að því sem þegar hefur komið til framkvæmda. Hann telur að ýmislegt af því, sem fram kemur í 4. og 5. kafla skýrslu verðbólgunefndar, geti verið til mikils gagns og til bóta í meðferð efnahagsmála, en hann telur þó starf n. að því er snertir langtímamarkmið ekki komið á það stig, að hún hafi lokið verkefni sínu, Svo mörg voru þau orð.

Þá er sérbókun frá fulltrúa Stéttarsambands bænda, þar sem hann lýsir því, að hann telji nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að gerðar verði efnahagsráðstafanir til að draga úr verðbólgu og tryggja rekstur atvinnuveganna og atvinnuöryggi launþega. Hann mælir með ráðstöfunum þeim, sem gert er ráð fyrir í dæmi 5 í nál., með að vísu vissum frávikum, sem felast í fyrirvara, og verðbótaráðstöfunum fyrir landbúnaðinn svo hagur hans verði tryggður.

Fimmmenningarnir svokölluðu, það eru fulltrúar ASÍ og BSRB og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna þriggja, benda í sínu sameiginlega áliti á leið sem þeir kalla verðlækkunarleið. Ég ætla ekki sérstaklega að fara að lýsa henni, en bendi þó á, að með því að þeir skiluðu hinu sameiginlega áliti fyrir hádegi 8, febr., þá skrifuðu þeir raunverulega upp á gengislækkunina sem var gerð síðar þann sama dag. Með þessari verðlækkunarleið, sem þeir kalla svo, viðurkenna þeir á sinn hátt vandann og að þörf sé á að breyta genginu, en þeir færast hins vegar undan því að leysa vandann. Aðalinntak þeirrar leiðar er eins og fyrri daginn að leggja þyngri skatta á félög og fyrirtæki en áður hefur þekkst, um leið og viðurkennt er af öllum, að rekstrarstöðvun vofi yfir fjölda fyrirtækja í landinu. Þeir leggja sem sagt til að skattur á félögum verði hækkaður um 10% auk 5% skyldusparnaðar. Þeir leggja til veltugjald á sama skattstofn og aðstöðugjöld. Samtals gera þessir tveir liðir 5.2 milljarða kr.

Ég hef ekki fengið nákvæmar skýringar á því, hvernig þessi veltugjaldsstofn skuli reiknaður eða hversu hátt veltugjald skuli vera. En mér sýnist í fljótu bragði að álögur á sjávarútveginn einan hljóti að vera um 2.5 milljarðar af þessari upphæð. Það skýtur dálítið skökku við að setja fram till. sem þessar þegar staðreynd er að sjávarútvegurinn berst í bökkum og fjölda fiskvinnslufyrirtækja hefur þegar verið lokað og öðrum er verið að loka. En þá er leiðin sú hjá þessum herrum að leggja þyngri álögur á viðkomandi fyrirtæki. Í stuttu máli: rekstrarerfiðleika í undirstöðuatvinnugreinum á að leysa með stórfelldri skattlagningu á þau fyrirtæki sem í þessum greinum starfa. Svona skrípaleikur er þm. til skammar. Hv. þm. Stefán Valgeirsson gerði í umr, á föstudaginn grein fyrir hvernig þessi skattur kæmi við landbúnaðinn og þarf ég þar engu við að bæta.

Það eru öfugmæli hin verstu þegar þeir fimmmenningarnir segja að sú till., sem þeir leggi hér fram, stefni að því að hægja á verðbólgunni án þess að til atvinnuleysis þurfi að koma. Auðvitað fylgir leið sem þessari atvinnuleysi, slíkt er óhjákvæmilegt. Réttnefni á þessari leið fimmmenningana sýnist mér vera undanbragðaleið, en ekki verðlækkunarleið.

Eins og ég greindi frá áðan, mælti hv, þm. Gylfi Þ. Gíslason með því, að leið 2 eða dæmi 2 í skýrslu verðbólgunefndar yrði valið, og eyddi nokkru máli í að lýsa því, að Jón Sigurðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunarinnar, hefði talið þá leið færa og dæmið mundi ganga upp að undangenginni 10% gengislækkun og gildandi kjarasamningar mundu þá halda sér. Þessi leið felur á sér hækkun skatta og lækkun gjalda, breytta gengisskráningu um 10%, eins og ég sagði áður, og að vextir innlánsstofnana, aðrir en á vaxtaaukalánum og útlánum, verði hækkaðir þegar í stað um 3–4%. Um þessa leið nægir í raun að segja það sem fylgir með í áliti verðbólgunefndar, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Annað dæmið mætti nefna samdráttarleið, þar sem fyrst og fremst er beitt hefðbundnum fjármála- og peningaráðstöfunum. Árangurinn við að lækka verðbólgu á árinu 1918 yrði næsta lítill, en hins vegar kynni þessi leið að koma á betra jafnvægi milli heildarframboðs og eftirspurnar í hagkerfinu, þegar fram í sækti, og leggja þar með grunn að hjöðnun verðbólgu. Væri þessi leið farin kæmi að líkindum ekki til beins ágreinings við launþegasamtökin, þar sem ekki væri reynt að fá fram breytingu á kjarasamningum. Á hinn bóginn mætti búast við því, að atvinnuástand breyttist til hins verra á árinu og rekstrargrundvöllur undirstöðugreina yrði afar ótraustur, þannig að til stöðvunar veikustu fyrirtækjanna hlyti að koma og þar með væri hagur launþega og annarra skertur með einkar ójöfnum hætti. Samkvæmt meginstefnu þessarar leiðar yrði ekki úr þessu bætt með ívilnandi ráðstöfunum. Í þessu dæmi þyrfti þó að gera ráð fyrir, að til kasta ríkisins kynni að koma til þess að styrkja sjávarútveginn með fé úr Verðjöfnunarsjóði, en í því felst veruleg fjárhagsleg veila og um leið mismunun milli atvinnugreina, sem tvímælalaust er óæskileg og skaðleg til lengdar. Af tölum um afkomu í yfirlitinu hér að framan“ — sem vísað er til — „sést glöggt að afkoma sjávarútvegsins er algjörlega óviðunandi í þessu dæmi eins og í hinu fyrsta, ef stuðningur við fiskvinnsluna yrði ekki aukinn verulega. Til þess þyrfti annað tveggja, að skattleggja frekar til þess að styrkja útflutningsframleiðsluna eða fella gengið nokkru meira en um 10% þegar í upphafi ársins. En það kostar hins vegar enn kaupmáttarfórn og frekari hækkun verðlags. Niðurstaða þessa dæmis er því ekki í jafnvægi. Hins vegar er ekki annað í samræmi við kjarnann í þessari tilraun en að skammta sjávarútveginum naum kjör. En svona öflugt aðhald stæðust fá fyrirtæki

Þetta er leiðin sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason vill fara.

Eins og fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum, þá má vel orða það að þessi leið sé fær, en hún tryggir hins vegar ekki atvinnuna og hún kallar í raun á meiri gengisfellingu en gert var ráð fyrir og hún hefur eflaust í för með sér lokun ýmissa fyrirtækja. Það verður því að teljast talsverð bíræfni af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni að leggja slíka áherslu sem hann gerði á að þessi leið yrði farin fremur en sú sem ríkisstj. hefur valið.

Það var dálítið skemmtilegt að heyra hvað hv. þm. Karvel Pálmason hafði til málanna að leggja umfram það sem þeir fimmmenningarnir höfðu látið frá sér fara varðandi verðlækkunarleiðina. Í verðlækkunarleiðinni eða undanbragðaleiðinni, sem ég nefndi svo, er gert ráð fyrir lækkun rekstrargjalda ríkisins um 1500 millj. kr. Þetta taldi hv. þm. lítilfjörlega upphæð og sagði að hægt væri að ná miklu betri árangri, miklu meiri niðurskurði eða allt upp í 3–4 milljarða með meiri hagræðingu, fækkun starfsliðs um 25% án þess að þjónustan minnkaði. Það væri vissulega fróðlegt að heyra frekari útlistun hv. þm. á þessum till. En þá verð ég að biðja hann að nefna eitthvað fleira en fækkun prófessora við Háskóla Íslands, en maður hefur haft grun um að það væri aðalleiðin til lausnar á efnahagsvanda þjóðarinnar eftir ræðum hans að dæma til þessa. (Gripið fram í.) Nei, ég var að biðja um líka að það yrði ekki nefnt þegar yrði farið að útlista þetta nánar. Mér sýnist að hér hafi hins vegar ungum sjálfstæðismönnum bæst röskur liðsmaður í baráttu þeirra við báknið.

Þá nefndi hv. þm, að allar tillögur formanns verðbólgunefndar hafi lotið að niðurskurði í samgöngumálum, eins og þm. orðaði það. Ég kannast ekki við að till. formannsins hafi lotið að þessu einu, en hins vegar langar mig að fá upplýst hvað á að skera niður. Það er alltaf verið að tala um að ríkið eigi að skera meira niður en það hefur gert. En þegar hv. stjórnarandstæðingar koma upp í ræðustól, þá er sífellt tönnlast á því, að ekki megi skera niður framkvæmdir í samgöngumálum, það megi ekki skera niður framkvæmdir á sviðum skólamála, í sambandi við dagheimili, hafnargerðir, í sambandi við heilbrigðismál, og svona er farið nánast í gegnum öll fjárlögin. Það má ekkert skera niður, en þó er í hinu orðinu látið í það skína, að auðvelt sé að skera niður um milljarða kr. Það er ekki hægt að hafa uppi þennan málflutning án þess að greina í smáatriðum hvaða liðir það eru sem hægt er að lækka.

Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég legg áherslu á að undan því verður ekki vikist að gera ráðstafanir sem duga til að sporna við hinni óheillavænlegu verðbólguþróun. Það verður ekki gert án þess að einhver finni fyrir því. Með frv. þessu er hins vegar stefnt að því, að hagur hinna lægst launuðu sé tryggður. Það er meira en stundum hefur verið hægt að gera eða hefur verið gert með samningum verkalýðsfélaga. Frv. þetta er fyrsta skrefið í átt til þess, að með skipulegum hætti verði ráðist gegn verðbólgunni. Hið ítarlega álit verðbólgunefndar er leiðbeinandi fyrir ríkisstj. um þau úrræði sem í boði eru.