13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar fara nokkrum orðum um hvernig þetta mál ber að hér í hv. deild.

Eins og kunnugt er starfaði n. nokkuð lengi á vegum ríkisstj. að tillögugerð um verðbólgumál. Í þeirri n. áttu sæti fulltrúar stjórnarflokka, stjórnarandstöðu og launþegasamtaka, auk annarra. Sú n. lauk störfum m. a. á þann hátt, að fulltrúar launþegasamtakanna og stjórnarandstöðunnar í n. komu sér saman um ákveðna leið til lausnar á þeim efnahagsvanda sem við var að etja, og fulltrúar launþegasamtakanna gerðu hæstv. ríkisstj, tilboð um viðræður á þeim grundvelli. Þær viðræður fóru aldrei fram. Því boði var ekki tekið. Síðan gerðist það tæpum tveimur sólarhringum áður en málið var sýnt hér í hv, d., að hæstv, ríkisstj, hafnaði öllum þeim hugmyndum sem fram höfðu verið settar í skýrslu þessari, og kom sjálf með nýjar. Þessar hugmyndir höfðu ekki áður verið ræddar og enginn átti von á að þær kæmu fram. Samt sem áður hafnaði fjh.- og viðskn. þessarar hv, d. þeim óskum fulltrúa stjórnarandstöðunnar í n., að verkalýðshreyfingunni væri sent málið til umsagnar. Og það var ekkí nóg með að hv. n, hafnaði þessari eðlilegu og sjálfsögðu ósk, heldur gaf hún forsvarsmönnum launþegasamtakanna í landinu ekki einu sinni færi á því að koma til fundarins sem haldinn var í dag.

Fram hefur komið í niðurstöðum verðbólgunefndar, að samstaða hefur tekist um úrræði milli launþegasamtakanna og stjórnarandstöðunnar. Þeir aðilar, sem geta flutt sjónarmið launþegasamtakanna, sjónarmið samtaka 60 þús. Íslendinga, inn á hið háa Alþ. í umr. um þessi mál, eru því við stjórnarandstæðingar, Og okkur er gefinn kostur á að gera þetta að nóttu til — nú er klukkan farin að ganga þrjú, — fyrir auðum stólum hæstv. ráðh.

Ég vil taka fram að sex hæstv. ráðh. eiga sæti í þessari deild: ráðh. Gunnar Thoroddsen, Halldór E. Sigurðsson, Matthías Bjarnason, Matthías A. Mathiesen, Ólafur Jóhannesson og Vilhjálmur Hjálmarsson. Þeim er ætlað að starfa í þessari þd., eins og okkur er ætlað að starfa hér alþm. Nú vil ég óska eftir því við hæstv. forseta, að hann láti kanna hverjir af þessum ráðh. eru viðstaddir. Ég vil ekki fullyrða að þeir séu allir fjarri fundarhöldum í þessari hv. d., en ég vek athygli á því, að að frátöldum hæstv. menntmrh. hafa þessir hæstv. ráðh., sem ég nefndi, ekki sést hér í þingsal eftir klukkan hálfellefu í kvöld. Ég vil eindregið fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann láti kanna hvaða ráðh. af þeim, sem sæti eiga hér í d., eru viðstaddir þingfund, hvaða ráðh. telja eðlilegt að taka þátt í störfum þeirrar þd., sem þeir eru kjörnir til setu í, þegar rætt er um mál sem varðar hagsmuni 60 þús. Íslendinga. Ég vil ekki fullyrða að þeir séu ekki í húsinu, ég vil að það verði kannað, hæstv. forseti. (Forseti: Óskar hv, ræðumaður eftir því, að þetta verði kannað strax?) Ég óska eftir því að þetta verði kannað strax, og mun halda áfram ræðu minni til þess að tefja ekki þingstörf öllu frekar, en vænti þess, að hæstv. for seti gripi fram í og stöðvi ræðuflutninginn og komi þessum upplýsingum á framfæri, vegna þess að ég vil að skráð sé í þingtíðindi, hvaða ráðh. séu hér viðstaddir umr, um þetta mál. Að sjálfsögðu er ég mjög þakklátur fyrir það, að hæstv. forsrh, skuli sitja vel og lengi undir þessari umr., eins og honum að sjálfsögðu ber skylda til að gera. En hann á ekki sæti í þessari hv. d., bann á sæti í Ed., ef ég veit rétt, en þeir sex ráðh., sem ég áðan nefndi, eru allir kjörnir til setu hér. (Gripið fram í: Er ekki rétt að kanna hvaða formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru mættir hér í d.?) Sjálfsagt gefst hæstv. forsrh. tækifæri til þess, þegar hann tekur til máls hér á eftir, að beina slíkri ósk til hæstv. forseta. En ég tek það fram, að ég sé viðstaddan formann Alþfl., og það skiptir mig meginmáli. (Gripið fram í: En formann þingflokksins?) Mætti ég, hæstv. forseti, halda áfram ræðu minni? Ég býst við að hæstv. forsrh. fái tíma til að svara okkur stjórnarandstæðingum hér á eftir, ef hann endist til að vaka það lengi að okkur auðnist að ljúka málflutningi okkar.

Þá vil ég gera smáathugasemd við frásögn, sem ég heyrði í kvöldfréttum útvarpsins í kvöld. Þar var haft eftir hæstv. forsrh., að ástæðan fyrir því, að fundur Nd, um frv. þetta hefði ekki getað hafist fyrr en klukkan 9 í kvöld, væri sú að áætlanir um prentun nál. hefðu ekki staðist. Ég tel að sjálfsögðu að hér hafi verið rétt haft eftir hæstv. forsrh., að þetta væri það sem hann hefði ætlað sér að koma á framfæri við þjóðina fyrir milligöngu útvarpsins. Ég vil koma fram leiðréttingu á þessu. Ég vil ekki að þjóðin standi í þeirri trú, að ástæðan fyrir því, að fundum þessarar d, hefur tvívegis í dag verið frestað, hafi verið sú, að prentarar í Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg hafi ekki staðist áætlun um frágang nál. Það er rangt.

Fundur var boðaður í hv. fjh.- og viðskn. í morgun, en síðan frestað, ekki að frumkvæði fulltrúa stjórnarandstæðinga í n., heldur að frumkvæði fulltrúa stjórnarsinna þar, vegna þess að þeir höfðu ekki fengið dagsboðskapinn frá hæstv. ríkisstj. Þegar fundur var boðaður hér klukkan 2 í dag hafði fundur fjh: og viðskn., þar sem átti að afgreiða nál., því ekki verið haldinn. Hins vegar var fundi þá frestað í hv. d., m. a. til þess, að þingflokkar stjórnarliða gætu komið saman. Þeir höfðu ekki lokið sínum fundi fyrr en á fimmta tímanum, en framhaldsfundur í d, hafði verið boðaður klukkan fimm. Á fimmta tímanum gafst sem sé fyrst færi á því, að hv, fjh.- og viðskn. kæmi saman til framhaldsfundar. Honum lauk ekki fyrr en um fimmleytið eða á þeim tíma þegar framhaldsfundur d, hafði verið boðaður.

Þetta er ástæðan fyrir því, að ekki tókst að halda gerðri áætlun um fundartíma í þessari hv. d., eins og boðað hafði verið, og ég tel mjög varhugavert af hæstv. forsrh. að láta í það skína, að ástæðan hafi verið sú, að einhverjir aðilar, sem áttu að framkvæma einhverja áætlun um prentun og frágang þinggagna, hafi ekki staðið við sitt. Það var ekki ástæðan, að seint gengi að prenta í Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg. Sú var ekki ástæðan fyrir því, að fundum d. var tvívegis frestað og málið ekki tekið til umr. fyrr en klukkan 9. Ástæðan var sú, að hæstv. ríkisstj, var ekki tilbúin með sínar niðurstöður fyrr en á fimmta tímanum í dag og ekki reyndist ráðrúm til að halda afgreiðslufundinn í hv. fjh.- og viðskn. fyrr en á fimmta tímanum í dag, þegar framhaldsfundur í þessari hv. d. átti að vera hafinn.

Við stöndum nú frammi fyrir einni kollsteypunni enn í íslenskum efnahagsmálum, Og nú eru alvarlegri blikur á lofti en oft áður. Í því sambandi er vissulega tilefni til þess að ræða stefnu ríkisstj., því það er að sjálfsögðu ríkisstj. og hennar stefna sem hefur ráðið ferðinni undanfarin 31/2 ár.

Fimmtudaginn 29. ágúst 1974, klukkan 2 miðdegis., kom Sþ, saman til þess að hlýða á boðskap forsrh. nýrrar ríkisstj., til þess að hlýða á boðskap hæstv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar. Sjálfsagt á oft eftir að verða til þeirrar ræðu vitnað, en ég ætla að láta mér nægja, með leyfi virðulegs forseta, að vitna aðeins í nokkur upphafsorð hæstv, forsrh. þá.

Hæstv. forsrh, sagði m. a., að ríkisstj. muni nú þegar beita sér fyrir nauðsynlegum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir rekstrarstöðvun atvinnuvega, tryggja atvinnuöryggi, bæta gjaldeyrísstöðu, treysta hag fjárfestingarsjóða og ríkissjóðs, sporna við hinni öru verðbólguþróun og tryggja sem best lífskjör. — Þetta var inngangurinn, þetta var markmiðið sem hæstv. ríkisstj. setti sér fyrir 3 1/2 ári. En hvernig hefur til tekist? Hvernig hefur ríkisstj. tekist að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Núna, 31/2 ári síðar, er talið að halli sjávarútvegsins verði um 12 þús. millj. kr. ef ekkert er að gert, Að vísu er það rétt, að hagur fyrirtækja í sjávarútvegi er mjög mismunandi. Hann getur verið góður og meira að segja mjög góður sums staðar, en er mjög slakur á öðrum stöðum. En meginatriðið, sem því veldur, er skipulagslaus fjárfesting í þessari atvinnugrein. Þar sem tekist hefur að sameina mörg smá fyrirtæki í þessum atvinnuvegi, mynda úr þeim stórar og öflugar einingar, þar stendur sjávarútvegurinn traustum fótum, jafnvel við það árferði sem við búum við nú, Þar sem hins vegar er um að ræða fjöldann allan af smáum og dreifðum fyrirtækjum, sem hvert um sig hefur ekki nægilegt hráefni til að geta staðið í eðlilegum rekstri og býr því við mjög bága afkomu, þar er staðan mjög örðug. Ríkisstj. hefur bókstaflega ekkert gert, í þessi 31/2 ár til þess að koma einhverri skynsamlegri skipan á þessi mál. Afleiðingin er sú, að reikningurinn fyrir hallarekstrinum er ýmist sendur sjómönnum og útgerðarmönnum í formi lægra fiskverðs hér en í helstu nágrannalöndunum eða, þegar það þrýtur, þjóðinni í heild, eins og nú er verið að gera.

Hvernig er staðan í landbúnaðinum? Henni var lýst nokkuð áður í umr. í kvöld, en er sennilega best lýst í fjölmörgum samþykktum fjölmargra bændafunda sem haldnir hafa verið að undanförnu. Um er að ræða 35% offramleiðslu á einni helstu búgreininni, dilkakjötsframleiðslu. Um er að ræða 2.9 milljarða, sem á einu ári þarf að verja í útflutningsuppbætur, og margfalda þá upphæð, sem varið er í niðurgreiðslur. En þrátt fyrir þetta eru bændur tekjulægsta stétt þjóðfélagsins, eins og minnst var á hér áðan.

Ríkisstj. og flokkar hennar sækja oft að þeim aðilum, sem hafa leitt Alþýðusamband Íslands í kjarabaráttu Alþýðusambandsins undanfarin ár, og kennt þeim um það sem á hefur bjátað. En ekki þarf um það að sakast gagnvart bændastéttinni, að þeir flokkar, sem ráðið hafa ferðinni hjá Alþýðusambandi Íslands, hafi þar haldið á málum. Ekki hafa það verið Alþfl.-menn eða Alþb.-menn sem stjórnað hafa málefnum landbúnaðarins. Þar hafa aðrir menn fengið öllu að ráða, Þar hafa núv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., skipst um að hafa einir öll tögl og hagldir. Þeir hafa ráðið stefnunni í landbúnaðarmálunum, eins og hún hefur verið mörkuð af stjórnvöldum og Alþ. Þeir hafa ráðið stefnunni í verðlagsmálum landbúnaðarins. Og þeir hafa farið með stjórnina í samtökum landbúnaðarins, hvort heldur er í Búnaðarfélagi Íslands eða Stéttarsambandi bænda. Og hver er niðurstaðan fyrir þá launastétt í landinu sem þessir tveir flokkar hafa stjórnað öllum málum fyrir, allt frá stefnu hins opinbera til stéttarsamtaka? Hvernig hefur tveim stærstu flokkum þjóðarinnar, Framsfl. og Sjálfstfl., sem hafa verið einráðir í málefnum bændastéttarinnar, tekist að halda á málefnum bænda? Þannig, að bændur eru nú tekjulægsta stéttin á Íslandi. Þannig, að framleiðslumál landbúnaðarins eru með því móti, að fjárhagsgeta íslensku þjóðarinnar til að standa undir útflutningi á offramleiðslu landbúnaðarins er brotin. Þeir menn, sem þarna hafa verið í forustunni, eru ekki þau þjóðhættulegu öfl, svo að notað sé orðalag stjórnarherranna, sem ráða ferðinni í Alþýðusambandi Íslands. Nei, þarna hafa framsóknarmenn og sjálfstæðismenn fengið að ráða einir og óáréttir um áratugaskeið. Og þetta er niðurstaðan, Það er ekki ónýtt fyrir þessa tvo stærstu flokka þjóðarinnar, að jafnað sé við okkur Alþfl.-menn og Alþb.- menn, sem hafa verið í forustu fyrir launþegum við sjávarsíðuna. Það er ekki ónýtt fyrir þá að bera saman afrek sín fyrir bændastéttina, þá einu launþegastétt sem þeir hafa verið algerlega einráðir yfir nú áratugum saman. Ekki geta þeir kennt forustu Alþýðusambandsins um það. (GHG: En hvað um kjör iðnaðarmanna?) Já, vel á minnst, um iðnaðinn. Hvernig hefur verið haldið á málefnum iðnaðarins á tímabili núv. hæstv. ríkisstj.? (Gripið fram í.) Ég býst við að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson geti fengið hér tíma á eftir, ég þarf að beina til hans nokkrum fsp. Hann getur þá komið þessu, sem hann vildi segja, á framfæri þegar hann svarar þeim. Það vill svo vel til, að hæstv. forsrh. á í sínum flokki ýmsa forsvarsmenn íslensks iðnaðar. Skyldu þeir gefa hæstv. forsrh. mjög háa einkunn fyrir frammistöðuna í iðnaðarmálum — eða iðnverkafólkið, sem vinnur við þessa iðnaðarframleiðslu? Ég býst við að vandfundið sé það fólk á Íslandi, fyrir utan bændastéttina sem hæstv, forsrh, eða flokkur hans og flokkur hæstv, menntmrh. hafa skipst á um að fara með málin fyrir, þá sé vandfundin sú stétt í þessu landi sem býr við lakari launakjör en iðnverkafólk, Það er vegna þess að aðbúðin að íslenskum iðnaði hefur verið með þeim hætti, að iðnverkafólk er láglaunafólk hér á Íslandi, þar sem hins vegar vonin er bundin við það í mörgum öðrum löndum að einmitt aukinn iðnaður verði til að færa með sér aukna farsæld.

Í stuttu máli var þetta árangurinn af þeirri tilraun hæstv. forsrh, og ríkisstj. hans að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Þetta er niðurstaðan af því markmiði sem ríkisstj. setti sér í upphafi,

Þar var líka talað um að bæta gjaldeyrísstöðuna. Hvernig skyldi hæstv, ríkisstj, hafa bætt gjaldeyrisstöðuna? Þannig, að erlendar skuldir um áramót nema 129 milljörðum kr. eða sem svarar tæplega 600 þús, kr. á hvern Íslending.

Þegar sá ágæti maður Magnús Jónsson var fjmrh. á Íslandi var þeirri reglu fylgt út í ystu æsar að erlend framkvæmdalán voru aðeins tekin sem svaraði erlendum kostnaði við framkvæmdirnar, en allur innlendur kostnaður var borgaður án erlendrar lántöku. Þessi regla var fyrst brotin í tíð vinstri stjórnarinnar, og hæstv. núv. fjmrh, hefur haldið áfram að brjóta hana með þeim afleiðingum, að erlend framkvæmdalán hafa ekki aðeins verið tekin fyrir erlendum kostnaði við framkvæmdir, heldur líka til þess að greiða innlendan kostnað, eins og launakostnað o. fl., enda sýnir niðurstaðan sig: erlendar skuldir 129 þús, millj, kr, um s. l. áramót og greiðslubyrði sem samsvarar 1/5 af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Í slíka greiðslubyrði er nú stefnt.

Þá talaði hæstv, forsrh, líka um að treysta hag ríkissjóðs. Hvernig hefur það verið gert? Hér var á það minnst áðan, að skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands um s. l. áramót hafi verið 15 þús. millj, kr. Seðlabankinn hefur sem sé verið látinn prenta seðla fyrir ríkisstj. til þess að grípa til, þegar hún átti ekki meira fé í kassanum, fyrir sem svarar 15 þús. millj. kr. Og ekki vantar það þó, að hæstv. ríkisstj. hefur á þessu þremur og hálfu ári, sem hún hefur verið við völd, gert ýmislegt til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Hún hefur innleitt nýja skatta, — skatta sem upphaflega áttu aðeins að vera til bráðabirgða, en hafa reynst til frambúðar. Þannig borgum við t. d. á árinu 1978 17 þús, millj, kr. í skatta sem ýmist voru ekki til, áður en þessi ríkisstj tók við völdum, eða voru lægri sem því nemur. Ríkisstj, hefur bæði hækkað á árinu 1978 tekjuskattsinnheimtu um 2000 millj. kr, nettó, og hún hefur hækkað óbeina skatta, og samtals nema nýir skattar, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á, 17 þús. millj. kr, á árinu 1978. Samt sem áður er ástandið þannig í ríkisfjármálunum, sem ég lýsti hér áðan. Hæstv. ríkisstj. ætlaði líka að sporna við verðbólguþróuninni, en við vitum allir hvernig farið hefur þar.

Auðvitað er hér um að ræða rót þess vanda sem við er að fást. Það veldur hver á heldur, og það er vanstjórn sem veldur og óstjórn sem á heldur. Niðurstaðan er sú eftir 31/2 árs stjórnartíð hæstv, núv, ríkisstj., að þjóðin rambar á barmi hengiflugs og fram undan eru átök, stéttaátök, sem við e. t. v. þekkjum engin dæmi til úr sögu landsins. Enginn neitar því nú að við mikinn vanda í efnahagsmálum er að etja. Mér dettur ekki í hug að neita því. Um það voru líka allir sammála sem í verðbólgunefndinni störfuðu og þeim vanda er m. a. lýst í skýrslu hennar. Í skýrslunni voru gefnir nokkrir kostir. Þeir voru ræddir í n., og stjórnarliðar í n. þessari samþ. að mæla með ákveðnum valkosti ásamt embættismönnum sem í n. voru. Hins vegar hafnaði ríkisstj, á síðustu stundu þeim leiðum, sem bæði sérfræðingar hennar og fulltrúar hennar í verðbólgunefnd mæltu með, og greip til till. sem ég býst við að hafi ekki verið mjög ígrundaðar og bera á sér svipmót vendettu eða blóðhefnda gegn ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu, bera á sér það svipmót, að verið sé að koma fram hefndum á íslenskum launþegasamtökum og forustu þeirra fyrir atburði sem hafa gerst í samskiptum manna.

Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á að ýmsir þeir hlutir gerðust í forustuflokki ríkisstj. nú fyrir nokkrum vikum hér í Reykjavík sem bentu til þess, að íhalds- og afturhaldsöflin í flokkunum væru í mikilli sókn eins og jafnan hefur verið þegar Sjálfstfl. hefur starfað með Framsfl. Þegar þessir tveir flokkar hafa náð saman í ríkisstj. er eins og þau afturhaldsöfl, sem í þessum flokkum báðum er að finna, magni hvort annað upp og nái yfirtökunum í flokkunum, nái yfirtökunum yfir þeim mönnum, sem vissulega eru í flokkunum báðum, sem eru frjálslyndir og viðsýnir. Það er eins og þessir tveir flokkar megi ekki koma saman í ríkisstj. öðruvísi en svo fari. Svo hefur ávallt farið og svona er enn að fara. Það gerðist sem sé fyrir nokkrum vikum, að það kom í ljós hér í Reykjavík, að afturhaldsöfl í Sjálfstfl. voru mjög farin að eflast. Það kom m. a. í ljós þegar þeim tveimur alþm., sem sæti eiga í þessari hv. d. og tilheyra verkalýðshreyfingunni og hafa setið hér og hlustað í allt kvöld þegar flestir ráðh. þeirra hafa verið fjarverandi, þegar þessum tveimur mönnum var skipað til sætis á listanum. Nú veit ég að báðir þessir þm., bæði hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, og hv. 6. landsk. þm., Guðmundur H. Garðarsson, eru menn sem eru aldir upp í verkalýðshreyfingu og þekkja mjög vel til mála þar, og mig langar til að bera spurningu fram til þeirra úr þessum ræðustól, sem ég vænti að þeir svari. Þar sem fyrir liggur í skýrslu verðbólgunefndar, sem samin er af helstu sérfræðingum ríkisstj., að unnt sé að ná árangri við lausn efnahagsvandans nú á þann hátt að komist sé algerlega hjá að ógilda þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið, þá vil ég spyrja þessa tvo hv. þm., forustumenn í verkalýðshreyfingunni, hvort þeir séu þá samþykkir þeim kosti sem flokkar þeirra tóku og byggist á því að brjóta samkomulag sem þeir sjálfir hafa verið aðilar að því að gera sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar. Það liggur fyrir í skýrslu verðbólgunefndar, að hægt er að takast á við efnahagsvandræðin nú og fá fram á þeim ákveðna lausn án þess að virða kjarasamningana að vettugi. Fulltrúar launþegasamtakanna í verðbólgunefnd og stjórnarandstæðingar hafa lagt á það áherslu, að þessi leið yrði farin. Fulltrúar stjórnarflokkanna beggja hafa harðlega neitað. Ég vil fá að vita hvar þeir standa, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Pétur Sigurðsson. Ég vænti þess, að þeir muni svara hér á eftir.

En mig langar að vita meira um afstöðu þessara tveggja hv. þm. Í frv. því, sem hér um ræðir, er grein, 3. gr., sem hefur valdið verkalýðshreyfingunni miklum erfiðleikum, sárindum og vonbrigðum. Þar er um það að ræða, að án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna er kastað fram hér á Alþ. lagaþvingun um breytingu á vísitölugrundvelli sem allar ríkisstjórnir á Íslandi, hvort sem þær hafa talið síg til hægri eða vinstri eða í miðju eða hvar svo sem þær hafa skipað sér í hinu pólitíska litrófi, hafa talið skyldu sína að gera ekki breytingar á nema eftir samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Eins og þetta er sett fram í frv., er hér um að ræða aðgerð sem er algerlega þarflaus, algerlega að nauðsynjalausu, miðað við þær ráðstafanir sem nú á að gera, vegna þess að þessi aðgerð á ekki að koma til framkvæmda fyrr en um næstu áramót. Ég vil fá að vita það frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni og hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, hvort þeir séu samþykkir þessu. (Gripið fram í.) Ég held að ég sé alveg búinn að fá hv. þm. næg verkefni til að svara og vona, að hv. þm. svari þessum tveimur spurningum, vegna þess að ég er sannfærður um að ég er ekki sá eini sem leikur forvitni á að víta hvert svarið verður. Í mínum huga er ég nokkurn veginn sannfærður um hvert svarið er. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði í umr. áðan, að e. t. v. fyndust einhverjir réttlátir í stjórnarráðinu, og við skulum ekki gefa upp von um að þeir réttlátu menn séu fleiri en einn.

Ég vil enn fremur benda þessum ágætu þm. og þingheimi öllum á það, að allir stjórnarandstöðuflokkarnir hér á þingi hafa lýst því yfir, að þeir séu andvígir þessari grein, hafa lýst því yfir, að þeir vilji að þessi grein verði felld brott. Sú yfirlýsing jafngildir því, að þeir muni ekki, jafnvel þótt þeir yrðu aðilar að ríkisstj. eftir kosningar, taka þátt í því að framkvæma þau fyrirmæli sem á að binda í lög með samþykkt þessa frv. Með því að halda til streitu að þetta sé afgreitt svona eru núv. ríkisstj. flokkar að sjálfsögðu að lýsa því yfir, að það séu þeir sem ætli að taka að sér að sjá um að þessi lagasetning verði framkvæmd um næstu áramót, því að það vilja engir aðrar flokkar í þinginu heldur en þeir tveir.

Þetta er sem sé yfirlýsing um að Framsfl. og Sjálfstfl. hyggist halda áfram stjórnarsamvinnu að kosningum loknum, því að ef þeir væru ekki orðnir staðráðnir í að gera það hefðu þeir ekki haldið því til streitu að hafa 3. gr. í frv. gegn mótmælum allra annarra flokka í þinginu. Hér er því um að ræða, að flokkarnir gefa með þessu þá yfirlýsingu, að þeir hyggist starfa saman áfram að kosningum loknum til þess m. a. að framkvæma það sem 3. gr. frv. gerir ráð fyrir að gert verði um næstu áramót. Og ég vil spyrja þá að lokum, hv. þm. Pétur Sigurðsson og hv. þm. Guðmund H. Garðarsson, að því, hvort þeir hugsi sér að styðja ríkisstj. til slíkra framkvæmda.

Undir kringumstæðum eins og nú eru í þjóðfélaginu verður ríkisstj. að búa yfir þeim skilningi, að vandamál efnahagslífsins á Íslandi verða ekki leyst nema með því að laða til samstarfs þau öfl í þjóðfélaginu sem eru ráðandi um þann farveg, sem efnahagsmál falla i. Sú ríkisstj., sem ætlar sér að takast á við lausn slíks vanda, verður að búa yfir hæfileikum til þess að geta laðað slíkt samstarf fram. En hæstv, núv. ríkisstj. býr ekki yfir slíkum hæfileikum. Hún hefur sýnt það og sannað. Eftir framlagningu þessa frv. er útilokað með öllu að hún nái nokkurn tíma höndum saman við launþegasamtökin í landinu, ekki vegna þess að kjarasamningum hafi verið breytt, vegna þess að það hafa fjölmargar aðrar ríkisstj, gert þegar þær hafa talið nauðsyn bera til og samt sem áður náð samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, heldur vegna hins, hvernig á þessum málum hefur verið haldið af hæstv. ríkisstj., þegar hún fyrirvaralaust hendir fram í lagaformi kröfu um breytingu á grundvelli vísítöluútreiknings án þess að reyna að hafa um það nokkurt samráð við verkalýðshreyfinguna. Ég er sannfærður um að þessa afstöðu ríkisstj. tekur verkalýðshreyfingin sem algera ögrun við sig. Með því að grípa til þessa ráðs hefur hæstv. ríkisstj, raunar manað verkalýðshreyfinguna til gagnaðgerða sem e. t. v. hefði verið hægt að komast hjá, ef ríkisstj. hefði sýnt skilning og vilja til samstarfs og samkomulags.

Það er dálítið undarlegt í þessu sambandi, að einmitt um svipað leyti og hæstv. ríkisstj. gripur til slíks ráðs skuli tveir þm. Framsfl., þeir hv. þm. Gunnar Sveinsson og Ingvar Gíslason, leggja fram hér í þinginu till. til þál. um að ríkið sé virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins, þar sem m. a. segir í grg., að markmiðið með þeirri till. sé að ríkisvaldið taki fulla ábyrgð á framkvæmd kjarasamninga, á svipaðan hátt og um eigin starfsmenn væri að ræða. Ríkisstj. hefur tekið fulla ábyrgð á framkvæmd kjarasamninga, þeirra kjarasamninga sem ríkisvaldið gerði við starfsmenn sína fyrir þremur mánuðum. Hvernig hefur sú ábyrgð orðið í reynd? Hún hefur orðið þannig, að nú, þremur mánuðum eftir að þessir samningar voru gerðir, koma hæstv. ráðh., sem skrifuðu sjálfir með eigin hendi undir þessa samninga og tóku á sig ábyrgð á framkvæmd þeirra, og gera þá að engu með lagasetningu hér á Alþ. Svo leyfa stjórnarsinnar sér að koma og bera fram till. eins og þessa, á sama andartaki og þetta er gert, bera fram till. um að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið taka fulla ábyrgð á kjarasamningum á svipaðan hátt og um eigin starfsmenn væri að ræða. Hvaða stéttarfélag í landinu halda menn að tæki slíka ábyrgð gilda að einu eða neinu leyti eftir þá reynslu sem opinberir starfsmenn hafa fengið af slíkri ábyrgð hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég óttast það og ég segi það satt, að nú hafi blað verið brotíð í samskiptum ríkisvaldsins og launþegasamtakanna. Ég er hræddur um að hér sé um að ræða kaflaskipti í slíkum samskiptum. Oft hefur að vísu verið þungt á milli ríkisvalds og launþegasamtaka, en ég held að það hafi aldrei verið jafnþungt og núna. Og ég óttast að við sjáum ekki fyrir endann á þeim atburðum, sem nú kunna að vera í aðsigi. Ég vil taka það fram sérstaklega, að hér er ég ekki að setja fram neinar hótanir, vegna þess að ég er ekki í þeirri stöðu að geta hótað né vil ég hóta neinu. Ég er ekki heldur að setja fram neinar illspár, vegna þess að ég tel enga ástæðu til þess að vera með slíkar spár. Ég er aðeins að setja fram grun minn, ég er aðeins að benda hæstv. ríkisstj. á að það getur verið að fram undan séu í samskiptum ríkisvalds og stéttarfélaga ástand sem á sér ekkert fordæmi, a. m. k. ekki í síðari tíma sögu íslenskra stjórnmála og stéttabaráttu. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að eitt af því nauðsynlegasta í sérhverju samfélagi er að það ríki sæmilegt traust á milli þeirra stofnana sem eiga að stjórna þjóðfélaginu, hvort heldur þær stofnanir eru stjórnsýslustofnanir, ríkisstj., löggjafarsamkunda eða fjölmenn samtök þegnanna. Þessu trausti er ekki fyrir að fara nú þessa dagana, og af blaðafregnum má marka að um sé að ræða mjög eindregna og ákveðna samstöðu stéttafélaganna, bæði innan Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, um afstöðu í þeim málum. Og eins og ég sagði áðan, ég er ekki með neinar hótanir. Ég hef ekki aðstöðu til slíks og mundi ekki gera slíkt heldur. Ég er ekki með neinar hrakspár eða illspár í þeirri von að illa muni fara. Ég er aðeins að setja fram ugg um að með þeim vinnubrögðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp, sé hún að fitja upp á nýjum kafla í samskiptum ríkisvalds og stéttarfélaga sem við sjáum því miður ekki fyrir endann á. Og ég vil leggja mjög þunga áherslu á það við hæstv. ríkisstj., að hún geri allt sem hún mögulega getur til þess að afstýra því að svo fari. Það getur hún gert enn, hún hefur enn þá ráðrúm til þess, og ég vil hvetja hana til þess að nota hvert það tækifæri, sem hún getur, til þess að öðlast á ný traust stéttarfélaganna, traust viðsemjenda sinna, opinberra starfsmanna og Alþýðusambands Íslands, vegna þess að það samfélag þrífst ekki til lengdar þar sem um er að ræða styrjöld á milli ríkisvaldsins annars vegar og samtaka launafólksins hins vegar með því sniði sem getur orðið, ef ekki verður gripið til þeirra ráðstafana sem skynsamir og fróðir menn vita að enn eru til reiðu til þess að forða því að illa fari.

Ég vil að lokum leggja mjög þunga áherslu á að reynslan hefur sýnt, að það var rétt, sem við Alþfl.-menn héldum fram fyrir síðustu kosningar og gerðum að skilyrði fyrir hugsanlegri stjórnarþátttöku okkar að kosningum loknum. Við settum þá það skilyrði, að tekið yrði upp ekki bara samstarf, heldur gert samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um lausn efnahagsmála. Betur væri ef það hefði verið gert fyrir fjórum árum. Það, sem nú þarf að gera og ríkisstj., hver svo sem hún verður, sem tekur við störfum að kosningum loknum, verður að gripa fyrst upp, er að gera samkomulag um starfsfrið, gera samkomulag um félagsmál, gera samkomulag um lausn efnahagsmála við aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfinguna, fyrst og fremst þannig að allir aðilar á Íslandi, sem einhver áhrif geta haft, geti sameinast í því að vilja stefna að einu og sama marki til þess að losa þjóðfélagið út úr því verðbólgu- og skuldafeni, sem við erum sokkin i. En það tekst að sjálfsögðu ekki nema gagnkvæmt traust ríki á milli launþegasamtaka og ríkisvaldsins.