13.02.1978
Neðri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Það er nú kannske ekki beint viðeigandi að standa upp til þess að vera hér í einhvers konar spurningatíma og svara spurningum þm. sem tala hér þindarlaust og ég vil segja, því miður, ekki alltaf af nægilega mikilli skynsemi um ýmsa þætti þessa máls. En það er nú skylda okkar að svara þeim spurningum sem til okkar er beint.

Ég vil taka það strax fram, að ég er auðvitað hér staddur sem þm. og svara sem slíkur, en ekki sem forustumaður í verkalýðsfélagi, Samkv. öllum lýðræðisvenjum er það auðvitað á valdi þess fólks, sem myndar það félag sem ég er í forustu fyrir, að taka afstöðu til þess máls sem hér um ræðir, með sama hætti og ég geri á grundvelli þess frelsis sem ríkir innan félaganna sem mynda Alþýðusambandið og BSRB, en ekki endilega samkv. vilja forustumannanna og formannanna.

Það væri vissulega ástæða til þess að ræða hér nokkuð í kvöld í sambandi við þessa umr. og yfirleitt í sambandi við þjóðmálaumræður almennt á Íslandi, hvernig komið er fyrir þingræði og lýðræði í landinu og hvernig komið er í sambandi við stéttavaldið í landinu. Á ég þar ekki einfarið við stéttavaldið í verkalýðshreyfingunni, heldur stéttavald almennt. Þá væri ekki síður ófróðlegt að fjalla nokkuð um ríkiskerfið og það mikla vald sem þar er fólgið, — vald sem fáir virðast geta hróflað við, hvort sem hérlendis sitja vinstri eða hægri stjórnir og hvort sem verkalýðsforingjar sitja í ríkisstj. eða ekki. Mér finnst það alltaf vera á sömu bókina lært, að gagnvart ríkiskerfinu og embættismannavaldinu svonefnda fær enginn neinu breytt, og kannske vantar viljann hjá mörgum hv. þm. og jafnvel sumum hverjum sem hér eru staddir í kvöld enn þá. En allt of margir þm. eru farnir, sem hefðu átt að halda út eina nótt til þess að ræða um þessi þýðingarmiklu mál.

Ekki væri vanþörf á því að fá fjórða valdið í þjóðfélaginu, ef ég mætti flokka þetta með einföldum hætti: svokallað flokkavald, prófkjörsvald, flokksstjórnarvald. Þá er eftir það eina, sem mér finnst einhverju máli skipta, sem þyrfti að verja fyrir öllu þessu ofurvaldi, valdi flokkanna, stéttarfélaganna, ríkiskerfisins og hugsanlegri misnotkun á þingræðinu, og það er einstaklingurinn. Það er sjaldan sem talað er um stöðu einstaklingsins í ræðum á hv. þingi. Það er meira talað um það, að menn eigi að beygja sig fyrir stéttavaldinu, úr hvaða átt sem það beinist að hv. þm. Ég segi það fyrir mig og get svarað hv. þm. strax, að ég hef tekið þátt í hluta af stéttavaldinu í 20 ár og hann þarf ekkert að brýna mig í þeim efnum. En ég tel meira um vert að ég reyni að standa sem maður og einstaklingur í þeirri stöðu heldur en sem beygður þræll. Það er betra að vera minnihlutamaður í sinn stéttarfélagi heldur en vera skoðanalaus ræfill og fylgja því sem maður heldur að meiri hl. vilji. En það er líklegast ekki ætlast til þess, að það verði talað við hv. þm, í þessum dúr í þessu máli, heldur átti maður að hlusta á þann boðskap frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að nú skyldu menn vara sig, því að það væri kannske ýmislegt hættulegt á ferðinni utan þingsala sem hv. þm. skyldu átta sig á og beygja sig fyrir og hræðast. En það dugir ekki, því að meðan lýðræði er í landinu og þingræði, þá eru til einstaklingar sem þora að hafa sannfæringu og það jafnvel þó að skoðanir þeirra og túlkun á málefnum hér í hv, þingi komi ekki fram sem skyldi í fjölmiðlum, vegna þess að meginþorri fjölmiðla hefur tileinkað sér afstöðu með þessum eða hinum hluta þess valds sem ég skilgreindi hér lauslega áðan, því miður. En á því þyrfti auðvitað að verða breyting, og sérstaklega þyrfti að verða breyting á því hjá ríkisfjölmiðlum. Þeir ættu nefnilega að taka það upp að virða stöðu einstaklingsins og láta rödd einstaklinga hér á þingi sem annars staðar koma meira fram, en ekki vera að tönnlast sífellt á afstöðu stéttahópa og stéttavalds.

Ég skal ekki þreyta hv. þm. með því að fara nánar út í þetta atriði. En það er vissulega einnar messu virði að ræða það nánar. Hins vegar mun ég í lok ræðu minnar gera grein fyrir afstöðu minni til þess frv., sem hér er til umr. Áður en ég geri það, ætla ég að koma lítillega inn á nokkur atriði hjá hv. þm., sem töluðu hér á undan, vegna þess að í þeim ræðum var farið með svo rangt mál og farið svo ranglega með upplýsingar eða um var að ræða svo mikið þekkingarleysi, að það er ærin ástæða til að leiðrétta nokkuð og upplýsa í þeim atriðum sem hér komu fram.

Ég vil fyrst svara hv. þm. Benedikt Gröndal, formanni Alþfl., þegar hann sagði í ræðu sinni að verkalýðsdeild Sjálfstfl. þegði hér þunnu hljóði, á sama tíma sem verkalýðshreyfingin mótmælir. Ég vil vekja athygli hv, þm. á því, að ég fór ekki dult með afstöðu mína þegar hér á föstudagskvöld, þegar 1. umr. fór fram um þetta frv. Að vísu gerði ég það ekki í ræðu, heldur kom blaðamaður hér að máli við mig og leitaði álits hjá mér. Það álit birtist í einu dagblaðanna í Reykjavík á laugardaginn var á forsíðu. Og það fór ekkert á milli mála, hver væri hugur minn til þessa frv. Hins vegar finnst mér ástæðulaust, að þm. séu að mótmæla utan þings frv. sem eru hér í meðförum, áður en þau hafa verið endanlega afgreidd. Þau geta tekið breytingum, og þær breytingar geta orðið með þeim hætti, að það sé ástæðulaust að framkalla mikil mótmæli hjá verkalýðshreyfingunni eða öðrum aðilum sem hlut eiga að máli. Ég vek einnig athygli á því, að ekkert hinna stóru verkalýðsfélaga á Reykjavíkursvæðinu hefur enn birt nein mótmæli í sambandi við þetta frv. Hins vegar hefur miðstjórn Alþýðusambandsins gert það og stjórn BSRB. Og það er boðað til formannaráðstefnu. Það fer ekki á milli mála. Ég hef ekki orðið var við nein mótmæli t. d, frá Verkamannafélaginu Dagsbrún, enda er þar mjög skynsamur maður í formennsku, Eðvarð Sigurðsson, hv. þm., sem nýtur mikillar virðingar innan verkalýðshreyfingarinnar.

Varðandi það, sem hv, þm. Gils Guðmundsson sagði í sambandi við hinn mikla tekjuauka útflutningsatvinnuveganna árið 1976, þá er óhjákvæmilegt að vekja athygli á því, að einmitt á því ári átti sér stað mjög hröð uppskipting á þeim tekjum, sem mynduðust hjá útflutningsatvinnuvegunum, bæði í sambandi við ákvörðun um fiskverð og einnig í sambandi við launahækkanir. Skal ég greina nokkuð frá því, því að menn verða náttúrlega að gera sér grein fyrir því og skilja það, hvert peningarnir fara. Hvert streyma peningarnir helst vegna aukinna tekna útflutningsatvinnuveganna? Þeir fara í fyrsta lagi í hækkun fiskverðs, í öðru lagi í vinnulaun, og í þriðja lagi og ekki hvað síst hefur verulegt fjármagn bæði á árinu 1976 og 1977 farið í það að borga afborganir og vexti vegna hinnar miklu endurnýjunar á togaraflotanum sem hófst í stórauknum mæli í tíð vinstri stjórnarinnar. Það þarf að greiða niður dýr framleiðslutæki. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Auk þessa hefur verulegum fjármunum verið varið í endurnýjun hraðfrystihúsa og fiskvinnslustöðva, jafnframt því sem aðrir kostnaðarliðir í sambandi við framleiðslu og rekstur útgerðar, eins og olíur og fleira, hafa hækkað stórlega, enda gat hv. þm. Garðar Sigurðsson um það og skýrði það allt mjög greinilega fyrir þm, og hafði góðan skilning á þessum atriðum.

En við skulum líta nokkuð á það, hvernig vísitala aflahlutaverðs fyrir þorskaflaun hefur breyst frá því í jan.-maí 1974 og til septemberloka árið 1977 eða til þess dags þegar fiskverð var ekki hækkað á s. l. ári. En áður hefur það hækkað um 13%. Vísitala aflahlutaverðs fyrir þorskafla hefur hækkað úr 100 í jan.-maí 1974 í 277 í júlí-sept. 1977 eða um 177%. Á sama tíma hefur vísitala kauptaxta allra launþega hækkað úr 100 í 268 eða um 168%. Hv. þm. Garðar Sigurðsson benti á það, að gengisfelling gagnvart dollaranum hefði á sama tímabili verið 160%, þannig að það er ákveðin samfylgni í þessum breytingum, annars vegar breytingu aflahlutaverðs og hins vegar vísitölu kauptaxta og gengisbreytingunni. Það þýðir að verulegur hluti þeirra tekna, sem sveifluðust umfram, hefur farið í að greiða niður rándýr framleiðslutæki og borga niður annan og hækkaðan framleiðslukostnað. Þetta er mjög einfalt mál.

En það er önnur mynd, sem skýrir auðvitað enn þá betur og undirstrikar, að þessi framleiðslutæki hafa skilað þjóðarbúinu miklum auði. Ef við tökum t. d. vísitölu fiskverðs, skiptaverð frá 1974 til septemberloka 1977, kemur í ljós að skiptaverð þorskafla hefur frá því í ársbyrjun 1974 hækkað um hvorki meira né minna en 224%. Ef allur afli er tekinn á sama tímabili, þorskafli, humar, rækja, hörpudiskur og loðna til bræðslu og frystingar og það samanvegið, kemur í ljós að það er um að ræða 217% hækkun. Við skulum svo líta á, hvaða hækkanir urðu á árinu 1974. Þær hækkanir urðu aðeins 1.8%, ársmeðaltal fyrir þorskaflann, og aðeins 1.5% fyrir allar greinarnar samvegnar, þannig að stökkbreytingin verður frá og með árinu 1975 raunveruleg. Þetta hefði einhvern tíma þótt góður árangur í sambandi við rekstur og uppbyggingu einnar atvinnugreinar. Og ég leyfi mér að fullyrða, að þrátt fyrir allan barlóm hefur aldrei átt sér stað stærri eða meiri stökkbreyting í sjávarútvegi og fiskiðnaði á Íslandi heldur en frá því í ársbyrjun 1975 til dagsins í dag. Þetta er tölulega sannað í þeirri skýrslu sem ég las upp úr og gefin var út í okt. af Þjóðhagsstofnuninni um athugun á afkomu hraðfrystihúsa.

Að öðru leyti vita nú flestallir það, að heildarafkoma þjóðarinnar s. l. þrjú ár hefur verið mjög góð þrátt fyrir verðbólguna. Ég tel þess vegna að ég hafi svarað nokkuð spurningu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar þegar hann spurði: Hvernig hefur tekist að tryggja hag atvinnuveganna? Það hefur tekist þrátt fyrir verðbólguna. Hins vegar er því ekki að neita, að nú er verðbólgan orðin of mikil, Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vildi halda fram, að það hafi verið illa staðið að atvinnuvegunum. Ég vil spyrja hann: Er ástand atvinnuvega á Vestfjörðum með þeim hætti núna, að það beri vott um að það hafi ekki gengið vel og að ekki hafi verið vel uppbyggt í sjávarútvegi og fiskiðnaði? Hefur ekki orðið bylting í útgerð og fiskvinnslu á Vestfjörðum á síðustu árum? Ég veit að hv. þm, Karvel Pálmason mundi taka undir þau orð mín og segja að vissulega hefði orðið mikil bylting.

En þá kem ég að öðru atriði sem var mjög athyglisvert í ræðu hv, þm. Sighvats, og það var afstaða hans til litlu fyrirtækjanna. Hann vildi halda því fram, að vegna hins mikla fjölda smáfyrirtækja á Íslandi væri alveg gífurlegt skipulagsleysi í atvinnulífinu. Allt er skipulagsleysinu að kenna, sagði hv. þm. Það þarf að fækka litlu fyrirtækjunum. (SighB: Ég sagði smáfyrirtæki í hráefnisvinnslu í fiskiðnaðinum.) Það þarf að fækka smáu fyrirtækjunum í fiskvinnslu, segir hv, þm. Þetta eru hlýjar kveðjur frá þm. Alþfl. til hinna litlu og smáu fiskframleiðenda um allt land, til þeirra sem gera út trillurnar, reka litlu saltfiskstöðvarnar, sem eru með litlu skreiðarhjallana um allt land, sem skipta tugum og hundruðum, Þetta eru hlýjar kveðjur. En þm. eru að reyna að skríða út úr því sem hann sagði um litlu fyrirtækin, enda kannske hollast fyrir hann, því að hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu eru hundruð smáfyrirtækja sem eru þessu þjóðfélagi mjög mikilvæg, einmitt með tilliti til þess, að í þeim felst mikil valddreifing. Það er ekki æskilegt að hafa fyrirtækin allt of fá og allt of stór, ekki á þessum sviðum. (Gripið fram í.) Já, það er æskilegt þegar farið er að keppa við hina stóru úti í heimi. Þá veitir ekki af að fyrirtækin séu stór. En þegar við þurfum að tryggja valddreifingu og ákveðna tekjujöfnun á Íslandi, innanlands, þá er betra að hafa fyrirtækin fleiri og smærri.

Varðandi það sem hv. þm. sagði, að hér væri lægra fiskverð en í nágrannalöndunum, þá vil ég mótmæla því sem rangri fullyrðingu. Því miður er ég ekki með þau plögg hér við höndina sem afsanna þetta, En ég minni á það, að s. l. haust var þessari fullyrðingu haldið fram hér innanlands. Þá var aflað upplýsinga frá Færeyjum um fiskverð og um launagreiðslur, og það var sannað að það væri sambærilegt hérlendis eða svipað og er í Færeyjum. En þrátt fyrir það minnist ég þess, að þegar skýrt var frá þessu í sjónvarpinu, í fréttatíma eða spurningatíma, þá var ítrekuð skreytnin um að hér væri fiskverð lægra en í Færeyjum. Það er velkomið að afhenda hv. þm. þessi plögg hér á morgun, í upphafi þingfundar kl. 2, þá skal ég vera búinn að afla mér þeirra, þannig að hann geti staðfest það sem ég segi. En svona, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði, er ekki hægt að tala á hv. Alþ. Menn verða að segja hlutina eins og þeir eru. Það er ekki hægt að fara með fleipur eða fara rangt með.

Um það atriði, að ríkisstj, sé að koma fram hefndum á launþegahreyfingunni með þessum ráðstöfunum sínum, — ég vona, að ég hafi misskilið hv. þm. (SighB: Já, já, það gerðirðu, þú hefur misskilið hvert einasta orð, sem ég sagði.) Það var eins gott. Það hefur kannske allt verið tóm vitleysa sem hv. þm, sagði í sinni ræðu. Þá tekur því ekki að svara ræðunni. En hann sagði það nú samt, því að ég skrifaði það hjá mér, alla vega var hægt að skilja það þannig, að ríkisstj. væri vond og þyrfti að hefna sín á launþegahreyfingunni með einhverjum voðalega vondum ráðstöfunum, eða kannske einhver ráðh. innan ríkisstj. væri að gera þetta af einhverjum klókindum að koma einhverjum atriðum inn í þessar ráðstafanir sem mætti túlka sem hefnd á einhverja ákveðna menn. Ég skildi vel hvað hv. þm, var að fara. Ég held að þetta sé alrangt.

Síðan kom hann að spurningunum og spurði mig og hv. þm. Pétur Sigurðsson að því, hvort við værum samþykkir þeim leiðum sem ríkisstj. hefði valið, en þær eru, eins og vitað er, þannig, að í þeim felst takmörkuð skerðing á verðbótum auk annarra atriða. Ég vil svara því fyrst, að hin svokallaða samdráttarleið, sem hv. þm. virðist leggja áherslu á, er leið sem ég tel ófæra, og yfirleitt allar aðrar leiðir sem stjórnarandstæðingar hafa bent á, vegna þess að þessar leiðir, bæði samdráttarleiðin og niðurfærsluleiðin, mundu stofna atvinnu hundraða, ef ekki þúsunda launþega í hættu, framkalla atvinnuleysi og leiða til stöðvunar útflutningsatvinnuveganna, og þær hefðu ekki gert kleift að hækka fiskverð, eins og gert var fyrir nokkru, um 13%. Það tel ég mikið atriði og mikilvægt. Það er skoðun mín, að niðurfærsluleiðin og samdráttarleiðin hefðu ekki skilað þeim árangri né fullnægt þeirri meginkröfu verkalýðshreyfingarinnar að tryggja fulla atvinnu í landinu.

Það getur vel verið, að einhverjir hv. þm. treysti á þá sem ég hef stundum viljað kalla hálfgerða blýantangara, sem semja langar og ítarlegar skýrslur. Ég legg ekki afar mikið upp úr skýrslum, hvorki verðbólguskýrslunni né öðrum skýrslum. Ég legg miklu meira upp úr því sem skilar raunhæfum árangri, og þær leiðir, sem hæstv. ríkisstj. er að reyna að fara, skila að mínu mati raunhæfari árangri heldur en þau pappírsgögn segja til um sem liggja fyrir í ítarlegum og löngum skýrslum. Tek ég þar undir orð hv, þm. Garðars Sigurðssonar um það, að skýrslur geta verið allt of margar og oft á tíðum mjög óþarfar.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði töluvert um samstöðu ASÍ og BSRB og sagði einnig að það samfélag þrifist ekki þar sem er styrjöld milli ríkisvalds og verkalýðsstétta. Þetta voru mjög athyglisverð orð: að tala um styrjöld milli ríkisvalds og stétta. Ég lít þannig á, að það sé ekki hægt að einfalda stöðuna eins og hv. þm. gerði, og mér finnst einmitt þessi einföldun af hans hálfu bera vott um það, að hann sé mjög reynslulaus í þeim efnum er lúta að samskiptum manna innan verkalýðshreyfingarinnar eða yfirleitt innan þjóðfélagsins, ef hann heldur að stéttaforingjar geti blásið í lúðra og þá hljóti stéttahreyfingin að snúast alfarið gegn ríkisvaldinu. Svo einfalt er málið ekki. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því, að til eru þeir foringjar í stéttahreyfingunni sem kynnu að svífast einskis ef því er að skipta, þegar þeir eru farnir að tala um að hinn svokallaði siðferðisréttur sé lögum æðri.

Ég get verið sammála hv. þm. um það, að leita beri samkomulags um starfsfrið á sviði félagsmála og efnahagsmála og leysa aðsteðjandi vandamál, svo sem verðbólguvandann, sem hann og fleiri hv. þm. hafa talað hér mikið um.

Ég held að ég hafi ræðu mína ekki lengri, en þó get ég ekki látið hjá líða að koma örlítið inn á eitt atriði sem hv. þm. Garðar Sigurðsson drap á. Mér fannst ræða hans einstaklega athyglisverð og einkennast af ríkri ábyrgðartilfinningu fyrir því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir. Hann viðurkenndi að við mikinn vanda væri að etja. Hv. þm. velti því auðvitað fyrir sér, eins og allir skynsamir og góðviljaðir menn hljóta að gera, hvernig stendur á því að við erum alltaf að fara þessar kollsteypur. Ég held að ástæðan sé m. a. sú, að heildareyðslan í þjóðfélaginu, bæði einka- og samneysla, ásamt mikilli fjárfestingu sé meginorsök þess, hvernig komið er fyrir okkur. Ég held að við öll höfum tekið þátt í því að gera of miklar heildarkröfur til þjóðfélagsins og til getu okkar og atvinnuveganna í þeim efnum. Ég held að ég ræði ekki sérstaklega um það atriði í ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar, þegar hann talaði um þann mikla fjölda sem vinnur við þjónustustörf. Hann talaði um að það mætti draga mikið saman á því sviði. Það getur vel verið. En ég vil aðeins vekja athygli hans á því, að af heildarvinnuafli á þessu sviði eru um 60–70% kvenfólk. Framlag þessara kvenna er mjög mikið til þjóðarbúsins. Það væri engin lausn að draga saman með þeim hætti að gera þessar konur atvinnulausar eða atvinnutekjur heimilanna minnkuðu vegna þess.

Herra forseti. Ég skal nú stytta mál mitt og vil að lokum segja eftirfarandi varðandi afstöðu mína til þess frv. sem hér er til meðferðar, og get ég þá væntanlega sleppt því að gera sérstaka grein fyrir atkv. mínu umfram það sem ég hef þegar gert, þegar til atkvgr. kemur í lok umr.

Ég er í grundvallaratriðum á móti því, að frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins í kjaramálum sé breytt með lögum, Þau atvik geta þó átt sér stað í efnahags- og atvinnumálum sem gera nauðsynlegt að löggjafinn gripi inn í ákveðin atriði samninga að takmörkuðu leyti. Fjöldi fordæma er fyrir því í sögu Alþingis. Mikil verðbólga hefur hrjáð landsmenn í fjölda ára. Virðist nú mál að linni. Verði ekkert að gert til að reyna að hefta verðbólguna nú horfir til vandræða með ófyrirsjáanlega skaðlegum afleiðingum fyrir þjóðina í heild. Afstaða mín til þeirra aðgerða, sem nú hefur þurft að gripa til í gengismálum og með því frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum sem hér er til afgreiðslu, byggist m. a. á eftirfarandi atriðum:

1. Ég tel að ráðstafanirnar dragi úr verðbólgunni. Það er brýnt og þjóðinni lífsnauðsyn.

2. Þær stuðla að því að tryggja áframhaldandi fulla atvinnu. Það er grundvallarkrafa alls verkalýðs í landinu.

3. Ráðstafanirnar fela í sér ákveðna launajöfnun, þar sem láglaunafólki eru tryggðar hlutfallslega hærri verðbætur en hálaunafólki. Vegna eðlis og uppbyggingar svonefndra uppmælingataxta var á þessu stigi ekki unnt að tryggja láglaunafólki fullar verðbætur við ríkjandi aðstæður. Í nánustu framtíð verður að finna leið til þess.

4. Verðbætur eru að vísu nokkuð skertar, en öll önnur ákvæði kjarasamninga halda fullu gildi og koma til framkvæmda svo sem samningar segja til um.

5. Þessar ráðstafanir ásamt gengislækkun eru óumflýjanlegar til að tryggja rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna.

6. Aðrar skárri eða raunhæfari till, um lausn þeirra vandamála í efnahags- og atvinnumálum, sem landsmenn allir hafa tekið þátt í að framkalla á síðustu árum, eru ekki fyrir hendi.

7. Síðast, en ekki síst, tel ég brýnt að ábyrgðarlausri sýndarmennsku í viðkvæmum málum sé mætt af festu og þær ráðstafanir gerðar sem tryggja atvinnuöryggi og jafnar atvinnutekjur.

Ég mun því samkv, framansögðu greiða frv, því, sem hér er til umr., atkv. mitt, með þeirri undantekningu er lýtur að 3. gr. frv., en þá grein vil ég fella niður m. a. af eftirgreindum ástæðum:

1. Áður en ákvörðun er tekin um breytingar á grundveili verðbótavísitölunnar þarf að hafa náið samráð við þá aðila sem eiga ríkra hagsmuna að gæta í sambandi við sérhverjar breytingar á núgildandi verðbótakerfi. Í því tilviki, sem hér um ræðir, hefur það ekki átt sér stað og er þetta ekki bundið aðeins við verkalýðsstéttina.

2. Ef samræmi á að vera í framkvæmd þess að óbeinir skattar hafi ekki áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði kjarasamninga, þurfa niðurgreiðslur á vöruverði að koma inn í myndina þannig að komið sé í veg fyrir hugsanlega misnotkun eða áhrif óbeinna skatta verði tekin út. En þetta vantar í 3. gr. frv.

Síðan vil ég að lokum lýsa því yfir, að ég tel mjög koma til greina að ákveðnir óbeinir skattar hafi ekki áhrif á verðbótavísitölu í framtíðinni.