14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., sem nú er á fjórða ári sínu, hefur verið misheppnuð stjórn. Hún kom til valda í frekar erfiðu árferði, en það hefur farið stöðugt batnandi og aldrei verið betra en einmitt nú. Samt hefur stjórn þjóðarbúsins farið í handaskolum. Landið er að sökkva í erlent skuldafen og verðbólgan ríður húsum svo að einstaklingum eða stofnunum er varla vært. 30–50% verðhækkanir á ári hafa þurrkað út siðferðiskennd þjóðarinnar og leitt af sér meira óréttlæti, meiri spillingu, meira sérréttindabrask en þjóðin hefur nokkru sinni kynnst fyrr. Ríkisstj. mun augsýnilega skilja við efnahagsmál okkar í meiri ógöngum en þau voru þegar hún tók við. Þetta er harður, en óhjákvæmilegur dómur.

Það er gömul kenning, að óðaverðbólga leiði til harðstjórnar og einræðis, og eru dæmi þess um alla Suður-Ameríku. En svo fer ekki hér á Íslandi. Samt eru ýmis teikn á lofti um tilhneigingu stjórnvalda til að hrifsa til sín aukið vald. Stjórnkerfi okkar er lýðræðislegt og í því töluverð valddreifing. T. d. er það samkv. lögum og venjum hlutverk hinna ýmsu atvinnustétta að semja sín á milli um skiptingu þjóðartekna, svo sem um kaupgjald, um fiskverð, um verðlagsgrundvöll landbúnaðarvöru. Ríkisvaldið er síðan oddamaður eða sáttasemjari. Hlutverk þess er að hafa yfirumsjón með því, að frjálst samkomulag náist, og greiða fyrir því, en ekki ráða þessum málum með fyrirskipunum úr stjórnarráðinu. Ríkisstj. hefur brugðist þessu hlutverki hrapallega. Það verður að leysa vanda atvinnuveganna, enginn neitar því, og nefnd sérfróðra manna hefur lagt fram hugmyndir um ýmsar leiðir til þess. Þegar ríkisstj. á elleftu stundu loks kallaði á formenn Alþýðusambandsins og BSRB dró hún upp úr pússi sínu allt aðrar till. en n. hafði gert, — till. með harkalegum úrræðum sem leysa eiga vandann fyrst og fremst á kostnað launþega og enn fremur eiga að rjúfa gildandi kjarasamninga, þ. á m. þá sem gerðir voru við sjálfa starfsmenn ríkisins fyrir aðeins þremur mánuðum. Ráðh, lögðu á borðið um leið vanhugsað frv. um vísitölubreytingar, sem getur dregið samningsvaldið frá aðilum vinnumarkaðarins og flutt það til ríkisvaldsins. Það var ekki að undra þótt formenn ASÍ og BSRB stæðu upp og gengju út.

Ef hv. hlustendur þurfa frekar vitnanna við um það, hvert er grundvallarviðhorf t. d. framsóknarmanna, ráðandi stjórnarflokksins, heyrðist það vel af síðustu ræðu sem hér var flutt af Tómasi Árnasyni. Hverjum var verðbólgan að kenna? Launþegasamtökunum, kaupi og kjörum. Þó er hægt að lesa það í skýrslum alþjóðlegra efnahagssamtaka um Ísland, að alþýðusamtökin hafi á árunum 1974–1976, mestallt stjórnartímabilið, sýnt alveg einstaka þolinmæði og langlundargeð, og forsrh. hefur jafnvel viðurkennt þetta í ræðum. En þeir geta ekki rifið sig frá þessari trú, kenna alltaf alþýðu manna og kaupi láglaunafólksins um allan vanda. Það er rannsóknarkenningin um efnahagsmál Íslendinga.

Sú deila, sem nú hefur spunnist um þessi mál, er að einu leyti ólík þeim átökum sem oft hafa orðið um efnahagsráðstafanir. Við erum vön því, að ríkisstj. leggi fram frv. um aðgerðir og stjórnarandstaða láti nægja að gagnrýna. Að þessu sinni hefur stjórnarandstaðan lagt fram sínar till. á móti, og það eru till. byggðar á sjálfri skýrslu verðbólgunefndar, — till. sem færustu sérfræðingar þessarar þjóðar telja að geti leyst núverandi vanda án þess að skerða launasamningana.

Frv. ríkisstj. leggur meira á almenning, minna á fyrirtækin í landinu og skerðir gerða samninga. Till. okkar í stjórnarandstöðunni eru hagstæðari fyrir almenning, leggja nokkru meiri byrðar á fyrirtækin, en skerða ekki gerða samninga.

Þetta er meginmunurinn. Og hvor leiðin sýnist þér, hlustandi góður, að sé vænlegri: að láta hag fólksins ganga fyrir eða hag peningavaldsins í fyrirtækjunum? Á að standa við gerða samninga eða rifta þeim með lagaboði?

Ríkisstj. hefur valið ranga leið og hún hefur spillt stéttafriði sem þjóðinni er nauðsynlegur. Þar að auki hefur hún hótað frekari valdbeitingu síðar með hagstjórnartæki sem vissulega mætti við réttar aðstæður nota, en eins og ríkisstj. leggur það fram er það bein hótun við launþegasamtökin í landinu.

Stjórnarliðar eru vissulega ekki sammála um þetta frekar en svo margt annað. Þar hefur hver höndin verið upp á móti annarri. Þeir hafa notað dagsbirtuna til þess að rífast innbyrðis, og svo hefur sjálft Alþ. fengið nóttina og þá fyrst hefur stjórnarandstaðan fengið að tala um málið. Er þó varla hægt að segja að margir hafi hlustað, því að meiri hl. af Framsfl. t. d. hefur sofið værum svefni á meðan Alþ. hefur verið að vinna til kl. hálffimm á næturnar. Áhuginn á þessum málum er ekki meiri, enda er málið ósköp einfalt í þeirra augum: Þetta er allt verklýðnum að kenna. Kaupið er of hátt.

Verst af öllu er að efnahagstill. ríkisstj. eru aðeins til bráðabirgða. Þær snerta ekki framtíðarlausn, sem þó er það yfirþyrmandi verkefni sem þjóðin verður að snúa sér að. Verðbólgan er eins og of hár blóðþrýstingur og ýmsir fleiri sjúkdómar. Það þarf að beita meira en einu lyfi til að halda henni niðri. Það verður að gera ráðstafanir á mörgum sviðum samtímis af festu og fórnfýsi, hvað sem þær kosta, og þá fyrst er von um árangur eftir nokkurn tíma. Það er hægt að telja upp langan lista aðgerða í þessu skyni, og það er líka hægt að draga saman nokkur meginatriði þeirrar stefnu sem við verðum að taka upp, og því fyrr því betra. Ég skal hér telja sex meginstefnuatriði sem ég legg áherslu á.

Í fyrsta lagi verður að gera meiri háttar endurbætur á ríkisfjármálunum. Það dugir ekki lengur að safna sífellt skuldum hjá Seðlabankanum eins og ríkisstj. hefur gert. Hún hefur látið þankann prenta 15 milljarða af verðlausum seðlum og síðan notað þá til að greiða ríkisútgjöld. Þetta er olía á eld verðbólgu. Það má draga saman, t. d. með því að endurskoða lögbundin ríkisútgjöld sem eru allt of mikil. Hugsið ykkur, að það er t. d, bundið í lögum og kemur þar af leiðandi í hverjum einustu fjárl., að það skuli veita stórfellda styrki árlega til að auka landbúnaðarframleiðslu, sem auðvitað var á sínum tíma bráðnauðsynlegt, en þetta heldur bara áfram ár eftir ár, þó að offramleiðsla sé í landbúnaði. Mörg fleiri slík dæmi gæti ég nefnt. Það verður að koma skattaumbótum í verk. Núv. ríkisstj, hefur alltaf verið að lofa þeim og alltaf svikið það loforð ár eftir ár. Það verður að afnema skattsvikin, skattahlunnindin og allt það misrétti. Og það á að taka upp núllgrunnsfjárlagagerð, ef ég má nota það orð, spyrja fyrst. hvort fjárveitingin sé nauðsynleg, en ekki, hvað hafi verið veitt í málið í fyrra, og bæta síðan einhverri prósentu við.

Í öðru lagi verður að koma fótum undir verðjöfnunarsjóði útflutningsatvinnuveganna og láta þá gegna hlutverki sínu, safna fé í góðæri til að nota yfir mögru árin. Þetta gengur allt öfugt hjá núv. ríkisstj. Það er borgað út úr sjóðunum í mesta góðæri sem við höfum lifað.

Í þriðja lagi verður að koma skipan á fjárfestingarmálin. Við verðum að hætta að moka milljörðum í óarðbæra fjárfestingu. Það eru fleiri en ein Krafla í landinu, þær eru víða til, mest af þeim þó hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er t. d. ein uppi í Hlíðum, stórt og mikið skrifstofuhús, sem tryggingafélag hefur reist fyrir fé hinna tryggðu, hefur haft það lengi í byggingu, farið sér rólega og stórgrætt á steinsteypunni í þessari eilífu verðbólgu. Skammt þaðan frá er verið að byrja að byggja mesta háhýsi á Íslandi, og þar hygg ég að m. a. sé verið að festa peninga sem láglannafólkið í Verslunarmannafélaginu á í lífeyrissjóði sínum. Þetta og mýmörg önnur dæmi mætti nefna um fáránlega, ónauðsynlega og óarðbæra fjárfestingu, því að það er miklu meira en nóg verslunar- og skrifstofuhúsnæði á þessu sama svæði. Í stað Kröflustefnunnar verður að koma fastmótuð heildarstefna um útlán og fjárfestingu til að fjarlægja þar með einn versta verðbólguvaldinn.

Í fjórða lagi nefni ég það, að koma verður á eins konar stéttasáttmála, en með því á ég við fast samstarf og samkomulag milli ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins, stöðugar viðræður, ekki bara þegar vandamálin steðja að, mörkun launastefnu sem m. a. á að tryggja eðlilega jöfnun tekna. Þessu hefur ríkisstj. nú forklúðrað á alveg furðulegan hátt, og er það kannske mesta tjónið sem unnið hefur verið með því frv. sem hér er nú til umr.

Í fimmta lagi er kominn tími til að endurskoða velferðarkerfi þjóðarinnar allt frá grunni, og takið eftir því, að það er Alþfl. sem bendir á þessa staðreynd um sitt hjartans mál alveg frá upphafi flokksins. Tryggingakerfi okkar byggist óneitanlega að miklu leyti á 40 ára gömlum aðstæðum, og sjúkratryggingakerfið allt, sem okkur er mjög annt um, er að sprengja af sér öll bönd. En takmark okkar á þessu sviði er óbreytt: að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, að veita öllum öryggi frá vöggu til grafar og að flytja til tekjur í þjóðfélaginu. En aðferðirnar verða að fylgjast með tímanum.

Í sjötta lagi verður að hefja markvissa baráttu til að styrkja siðferðiskennd þjóðarinnar, þurrka út efnahagsafbrot, allt frá skattsvikum til fjársvika, þurrka út sérréttindi og hyglun kerfisins og gera allt þjóðfélag okkar réttlátara og mannlegra. Þetta er veigamikill þáttur í baráttunni við efnahagsvandann, af því að það eru sannarlega bein tengsl á milli þess, hvers konar viðhorf landsmenn hafa til fjármálanna og hvernig fer í fjármálastjórninni. Ef okkur tekst sóknin gegn verðbólgu eftir þessum og öðrum skyldum leiðum er ég sannfærður um að eftir 3–4 ár verður kominn tími til að skipta um mynt, leggja niður verðbólgukrónuna sem flýtur á vatni, en taka upp nýja, verðmeiri og betri krónu. Þegar við getum það verðum við einnig sjálf meiri og betri þjóð.

Þessa dagana fær ríkisstj, vafalaust vilja sínum framgengt hér á Alþ., enda hefur hún ærinn meiri hl. og þrátt fyrir það að stjórnarandstaðan hefur veitt henni hart viðnám. En hún er aðeins að vinna varnarsigur í smáorrustu. Stríðið gegn verðbólgunni og öðrum vandamálum þjóðfélagsins getur enginn unnið nema þjóðin sjálf í kosningunum í vor. — Góða nótt.