14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Sighvatur Björgvinsson; Hæstv. forseti. Góðir hlustendur. Enn ein kollsteypan blasir nú við í efnahagsmálum. Undir lok fjögurra ára valdaferils ríkisstj. tveggja stærstu stjórnmálaflokka þjóðarinnar stendur hún á barmi hengiflugs. Við blasir 35–40% verðbólga, hrun atvinnuvega og hætta á atvinnuleysi. Okkur er sagt af stjórnvöldum, að nú séu engin önnur ráð en þau gamalkunnu bráðabirgðaúrræði sem landsmenn vita af reynslunni að engan vanda leysa til frambúðar.

En hvers vegna stöndum við í þessum sporum? Sala á útflutningsafurðum okkar hefur sjaldan gengið betur og verðlag á þeim hefur aldrei verið hærra. Ekki verður aflabresti kennt um ástandið, því að afli hefur verið góður og skapað þjóðinni mikil verðmæti. Landið býr yfir auðlindum, auðugum fiskimiðum og nær ónýttum orkulindum. Fólkið er vinnusamt, engir þegnar í neinu vestrænu ríki a. m. k. leggja jafnhart að sér við vinnu og íslenskir launþegar gera né vinna jafnlangan vinnudag. Þjóðartekjur á mann eru með því hæsta sem gerist.

Fyrst ytri aðstæður eru eins og ég hef hér lýst, hvers vegna stöndum við þá í þessum sporum? Hvers vegna er þá efnahagur þjóðarinnar að bresta og mikilvægustu atvinnuvegir hennar farnir að riða til falls?

Talið er að sjávarútvegurinn sé nú rekinn með 12 000 millj. kr. halla á ári. Liggur sökin hjá íslenskum sjómönnum? Hafa þeir ekki tileinkað sér fullkomnustu tækni til fiskveiða sem þekkist? Skila þessir menn ekki meiri afköstum en dæmi eru til um meðal sjómanna um heim allan, en verða samt sem áður að sætta sig við lægra verð fyrir afla sinn en sjómenn í flestum nálægum löndum. Hafa þessir menn brugðist þjóðinni?

Var það kannske fólkið í fiskverkuninni sem brást? Framsóknarmenn segja það. Fólkið sem þarf að leggja nótt við dag til þess að hafa í sig og á, fólkið sem barðist fyrir því í síðustu kjarasamningum að tryggja sér 100 þús. kr. lágmarkslaun á mánuði — var það þetta fólk sem brást? Eða iðnverkafólkið — fólk sem er á lægri launum en þekkist í nokkru landi á svipuðu verkmenningarstigi að greidd séu fyrir sambærileg störf, en er samt ætlað að framleiða samkeppnishæfar vörur? Eða voru það e. t. v. bændurnir, mesti láglaunahópurinn í láglaunalandinu Íslandi?

Nú er hart sótt að forustumönnum launþegasamtakanna og þeim stjórnmálaflokkum sem veitt hafa verklýðshreyfingunni brautargengi. Alþýðusambandsforustunni úr Alþfl. og Alþb. er kennt um hvernig kjaramálum launþega er komið, þar eð þessi öfl hafi ekki náð árangri í forustu fyrir íslenskri verklýðshreyfingu. En hverjir hafa verið í forsvari um kjaramál bænda? Ekki hafa það verið vondu mennirnir í Alþýðusambandinu eða verkalýðsflokkunum. Þar hafa stærstu flokkar þjóðarinnar, Sjálfstfl. og Framsfl., skipst á, og þessir sömu flokkar hafa einnig ráðið framleiðslustefnunni í landbúnaði, lánastefnunni, fjárfestingarstefnunni, sem sé allri stefnumörkun í atvinnugreininni og í kjaramálum bænda. Og hver er árangurinn? Hann er sá, að bændur eru rétt rúmlega hálfdrættingar á við aðrar stéttir. Þeir eru mesta láglaunastétt landsins.

Íslenskir launþegar og samtök þeirra fara ekki með stjórn þessa lands. Það er ekki sök sjómanna, verkafólks, bænda eða annarra launþega hvernig komið er. Veldur hver á heldur, segir máltækið. Það er ríkisstj. landsins sem á heldur. Það er hún sem veldur. Það er hennar sök að fjárfestingin hefur verið stjórnlaus með öllu. Það er hún sem hefur stjórnað með þeim hætti, að erlendar skuldir þjóðarinnar nema nú yfir 600 þús. kr. á hvert mannsbarn, viðskiptahalli nálgast tíunda milljarðatuginn, verðbólga er á bilinu 30–40%, ríkissjóður er rekinn með halla, skuld hans við Seðlabanka hefur aldrei verið meiri, nýjar skattaálögur nema 17 000 millj. kr. aðeins á yfirstandandi ári, atvinnuvegum landsmanna er að blæða út og Ísland orðið mesta láglaunasvæði í Vestur-Evrópu. Efnahagsúrræðin, sem deilt er um, eru nauðvörn, örþrifaráð, sem rædd eru við kreppuaðstæður sem skapast hafa. Og hver ber ábyrgðina? Þeir sem stjórnað hafa landinu. Örþrifaráðin eru örþrifaráð gegn stefnu þeirra. Nauðvörnin er nauðvörn gegn aðgerðum þeirra.

Í margar vikur hefur nefnd sérfræðinga, fulltrúa vinnumarkaðarins og fulltrúa stjórnmálaflokkanna, unnið að könnun verðbólguvandans og leit að valkostum. Einn valkosturinn gekk út frá því, að grundvöllur kjarasamninga væri ekki skertur. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. og fulltrúar launþegasamtakanna lögðu til að sú leið yrði valin, og þeir síðarnefndu buðust til að eiga viðræður við ríkisstj. á þeim grundvelli. Því boði var hafnað. En ríkisstj. hafnaði einnig till. sinna eigin manna og sérfræðinga sinna í verðbólgunefndinni. Hún kastaði þess í stað sjálf fram á elleftu stundu öðrum hugmyndum sem voru sumar með öllu óræddar og fólu það m. a. í sér, að í fyrsta sinn í sögunni á að gera með valdbeitingu breytingu á grundvelli vísitölunnar, án þess að um það mál hafi verið rætt við verkalýðshreyfinguna. Slíkt hefur aldrei áður gerst. Í grein í Morgunblaðinu í morgun nefnir Halldór Elíasson prófessor þessa aðferð dæmalausa valdbeitingu og segir að sig hreinlega vanti lýsingarorð til þess að lýsa slíku framferði. Þrátt fyrir sókn afturhaldsaflanna í Sjálfstfl. að undanförnu hefur flokkurinn þó enn þau tengsl við verkalýðshreyfinguna, að hann á að vita um hvílíka ögrun við hana hér er um að ræða, enda er flokkurinn klofinn í málinu. Tveir þm. hans neita að greiða aðförinni atkv. En hinn stjórnarflokkurinn, Framsfl., hefur aldrei haft nein afskipti af verkalýðsmálum, hefur engan skilning á hlutverki verkalýðshreyfingar og engan áhuga á samskiptum eða samvinnu við launþegasamtökin. Ráðh. Framsfl. hafa viljað láta kné fylgja kviði í þessu máli. Þeir hafa viljað sýna vald sitt valdsins vegna, viljað sýna samtökum 60 þús, launamanna í landinu að þeir kærðu sig kollótta um hvorum megin hryggjar þessi samtök lægju. Þeir hafa malað niður þá mótstöðu sem kann að hafa verið fyrir slíku innan Sjálfstfl. Framsóknarbrennimarkið er á allri þessari ráðagerð.

Góðir hlustendur. Ég óttast að með frumkvæði sínu í þá átt að leggja niður vinnubrögð sem siðuðum og sáttfúsum mönnum sæmir, en taka upp þau vinnubrögð sem kennd eru við frumskógalögmálin, þar sem öll brögð eru leyfð, — ég óttast að með frumkvæði í þessa átt hafi ríkisstj. lagt út á braut sem enginn sér fyrir endann á eða veit hvert liggur. Mig óar við því sem á eftir getur fylgt. Þetta er ekkí hótun. Þetta er ekki illspá byggð á ósk um hrakför sýnu verri. Þvert á móti, ég er aðeins að orða ugg sem býr með mér og mörgum öðrum um hvert stefnir. Ég hvet réttsýna og rólynda menn til þess að gera sér grein fyrir þeim hættum, sem því þjóðfélagi er búið þar sem kynt er undir stéttaátökum og boðið til stéttastríðs með þeim hætti sem ríkisstj. hefur nú gert. Við kringumstæður eins og nú eru í landi voru verða stjórnvöld að búa yfir þeim hæfileika að geta laðað til samstarfs við sig öll þau margvíslegu öfl í þjóðfélaginu sem ráða úrslitum um, eftir hvaða farvegi framvindan í efnahags- og þjóðfélagsmálum fellur. Nú er ljóst að hæstv. ríkisstj. býr ekki yfir slíkum hæfileikum. Eftir síðustu atburði er það borin von. Því fyrr sem slík ríkisstj. fer frá, boðar til nýrra kosninga og gefur þjóðinni tækifæri til þess að virkja afl sitt til sameiginlegs átaks í stað sundrungar og stéttastríðs, því betra. Ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. getur gert landslýð einn stóran greiða. Hún getur farið frá.