14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Góðir hlustendur. Síðast þegar útvarpað var umr. úr þessum sal var textinn stefnuræða forsrh. í upphafi þings. Í framlagi mínu í þær umr. var lögð áhersla á að í stefnuræðunni, sem forsrh. flutti fyrir hönd ríkisstj. sinnar, væri það ekki markverðast sem mestu máli væri eytt á — viðleitni til að sýna feril ríkisstj. og horfurnar fram undan í sem hagstæðustu ljósi væri í rauninni ekki annað en umbúðir um kjarna sem væri allt annars eðlis. Þessi kjarni í boðskap ríkisstj. í haust fólst í þrem stuttum setningum þess efnis, að svo gæti farið að forsendur stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum reyndust fallvaltar og þá yrði að gripa til öflugra ráðstafana.

Nú er það komið rækilega á daginn, að þessi stuttaralegi fyrirvari fyrir tilraun forsrh. til að túlka óhappaferil ríkisstj. í efnahagsmálum sem afrekaskrá hefur reynst þyngri á metum en allt annað í stefnuræðunni. Ráðstafanirnar í efnahagsmálum, sem þar tóku ekki nema hálfa setningu, eru orðnar þungamiðjan í löggjafarstarfi ríkisstjórnar meirihl. á þessu þingi. Fyrirheitin um endurbætur á kosningalögum, endurskoðun óviðunandi skattalaga, frv. að nýjum framleiðsluráðslögum til að losa landbúnaðinn úr úlfakreppu og tillögur um nýtt verðmyndunarkerfi í stað þess, sem verðlaunar óhagkvæm innkaup, eru grafin og gleymd í ruslakistu ríkisstj. Málin, sem hér voru talin, hafa úrslitaþýðingu fyrir jafnan rétt og hag landsmanna, en ríkisstj. virðist staðráðin í að leiða þau hjá sér, þvert ofan í gefin loforð. Nú snýst allt hjá henni um önnur efni sem koma fram í samþjöppuðu formi í frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum sem hér er til umr.

Ríkisstj. hóf feril sinn með tveim gengislækkunum á einu missiri. Nú framkvæmir hún þriðju gengislækkunina í lok valdaferils síns. Í framhaldi af lækkun gengisins leggur hún svo fyrir Alþ. frv. sem nú er rætt, þar sem kveðið er á um ógildingu verðbótaákvæða allra kjarasamninga og helmingslækkun þeirra verðbóta á laun sem samið var um á síðari hluta árs fyrir þorra launafólks. Þ. á m. er samningur sem ríkisstj. gerði sjálf með beinni þátttöku ráðh. við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Einnig hyggst ríkisstj. gera gangskör að því að breyta grundvelli vísitölukerfisins með því að nema úr grundvelli verðbótavísitölu alla óbeina skatta, svo sem söluskatt, hvers konar aðflutningsgjöld og bensínskatt. hetta er meginefni frv. ríkisstj. Að hliðarráðstöfunum, sem fylgja, verður vikið síðar eftir því sem tilefni gefst.

Ríkisstj. lagði á það megináherslu, að áður en hún legði fram efnahagsmálafrv. sitt lyki störfum verðbólgunefnd, sem hún setti á laggirnar í hittiðfyrra og átti samkv. erindisbréfi að hafa skilað áliti fyrir réttu ári. N. skipuðu fulltrúar stjórnmálaflokka og stéttasamtaka auk embættismanna. Ekki fór dult, að síðustu mánuðina, sem n. starfaði, var að undarlagi ríkisstj. tekið sérstakt mið af því í störfum hennar, að ríkisstj. var að undarbúa aðgerðir í efnahagsmálum.

Sú varð líka raunin á, þegar leiðir skildi í lokin með nm., að mismunandi till. nefndarhluta snerust einkum um aðgerðir í efnahagsmálum á líðandi stund. Stærsta nefndarhlutann, sem skilaði sameiginlegu áliti, skipuðu fulltrúar stjórnarflokkanna og tveir embættismenn, þeir Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri, formaður n., og Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, en af hálfu stjórnarflokkanna sjálfra voru heldur engir aukvisar í verðbólgunefndinni. Úr þingliði stjórnarflokkanna sátu þar formenn fjh.- og viðskn. beggja deilda Alþ., fyrir Sjálfstfl. Ólafur G. Einarsson með Jónas Haralz landsbankastjóra sér við hlið og frá Framsfl. Halldór Ásgrímsson, sem hafði sér til fulltingis upprennandi stjörnu þeirra framsóknarmanna, Guðmund G. Þórarinsson, sem nýbúinn er að vinna það sér til ágætis í prófkjöri hér í Reykjavík að fella frá þingmennsku formann þingflokks Framsfl.

Í nál. sínu leggja þessir sexmenningar eindregið til, að í efnahagsráðstöfunum, sem á döfinni séu, verði tekinn sá kostur af þeim mörgu, sem raktir eru í gögnum verðbólgunefndar, sem þar er auðkenndur með tölustafnum 5 og bókstafnum B. Í kostum þessum er gerð grein fyrir hugsanlegum ráðstöfunum á fjölda sviða, svo sem í ríkisfjármálum, lánamálum, launamálum, gengisskráningu og verðlagsmálum. Kostirnir, sem raktir eru, og afbrigði þeirra eru í rauninni 6 talsins og má geta þess til glöggvunar, að í launamálum spanna þeir bilið frá því að ekki sé hróflað við kjarasamningum yfir í það, að slegið sé með lagasetningu striki yfir öll óframkomin hækkunaráhrif kjarasamninga á laun, jöfnum höndum grunnkaupshækkanir og verðbætur.

Í máli eins og þessu, þar sem um það er að ræða að hafa áhrif á hagkerfi þjóðarinnar í heild, móta afkomuskilyrði jafnt einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila, verður að krefjast þess, að skipulag og markviss vinnubrögð séu viðhöfð. Hefði þess verið gætt af hálfu ríkisstj. og þingliðs hennar, hefði hægri höndin vitað hvað hin vinstri gerði, mundi hafa ríkt samræmi milli álits fulltrúa stjórnarflokkanna í verðbólgunefnd og tillöguflutnings ríkisstj, hér á þingi. Ég sagði: samræmi, við algerri samhljóðan í hverju atriði var ekki að búast. En það er öðru nær en að samanburður á áliti fulltrúa stjórnarflokkanna í verðbólgunefnd og frv., sem fyrir liggur hér í d., beri vott um rækilegan og vandlegan hugsaðan málatilbúnað af ríkisstj. hálfu. Þar er um að ræða slíkt misræmi og svo veigamikil frávik, að ljóst er að við ákvarðanatöku í stjórnarflokkum og ríkisstj. hefur ekki verið um að ræða heildarafgreiðslu á samræmdum og samstæðum aðgerðum að því er tekur til mismunandi sviða þjóðarbúskaparins, heldur hefur hver höndin verið upp á móti annarri og tilviljun ein ráðið því, hvað ofan á varð í hverju atriði um sig.

Af nógum dæmum er að taka til að finna þessum orðum stað. Leið 5 B í áliti verðbólgunefndar, sem fulltrúar stjórnarflokkanna í n. gerði að sinni till., gerði t. a, m, ráð fyrir að milda áhrif helmingslækkunar verðbóta á laun með því m. a. að ríkissjóður legði af mörkum 5 milljarða 140 millj. kr. til lækkunar á vöruverði. Gerir leið 5 B ráð fyrir að þessu sé komið í kring með tvennum hætti: með því að auka framlag ríkissjóðs til að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum um 1900 millj. kr. og lækka hið sérstaka vörugjald um helming, úr 18% í 9% út árið. Auk beinna áhrifa slíkra aðgerða til lækkunar vöruverðs átti með þessu að vinna tvennt í leiðinni: greiða fyrir sölu á búvörum með niðurgreiðsluhækkuninni og ganga svo rösklega til verks gagnvart sérstaka vörugjaldinu, að auðvelt ætti að vera að fella það niður algerlega að árinu liðnu, en öllum ber saman um að það sé með bæði óheppilegum og ósanngjörnum hætti á lagt. Í báðum þessum atriðum er í frv. ríkisstj. hopað stórlega frá till. fulltrúa stjórnarfl. í verðbólgunefnd. Niðurgreiðslur eiga ekki að aukast nema um 1300 millj. í stað 1900 millj. kr., og í stað þess að helminga sérstaka vörugjaldið er rétt nartað í það, lækkunin nemur einungis 2%, úr 18% í 16%. Heildarniðurstaðan af þessu atriði er sú, að með þessu tvennu móti leggur ríkisstj. aðeins fram úr ríkissjóði til lækkunar vöruverðs rúma 2 milljarða kr., nákvæmlega til tekið 2020 millj. kr., í stað ríflegra 5 milljarða, 5140 millj., sem fulltrúar stjórnarflokkanna í verðbólgunefnd lögðu til. Framlag þetta til lækkunar á vöruverði er þannig skert um rúmlega 3/5 frá því sem samræmd heildartillaga gerði ráð fyrir.

Hliðstæðu máli gegnir um annan höfuðþátt tillögu 5B: lækkun á útgjaldaliðum ríkissjóðs frá því sem til þeirra er veitt á fjárlögum. Gert var ráð fyrir í leið 5 B, sem fulltrúar stjórnarflokkanna í verðbólgunefnd gerðu að sinni till., að fram færi niðurskurður á fjárl. sem næmi 2 milljörðum kr. Í stað þess að setja ákveðin fyrirmæli um slíka lækkun í frv. sitt hefur ríkisstj. valið þann kost að setja í 12. gr. þess heimild til lækkunar um helmingi lægri upphæð, 1 milljarð. En til þess að sýna einhvern lit á frekari sparnaðarviðleitni, a. m. k. í orði, hefur ríkisstj. sett í grg. með frv. sínu afar mjósleginn ádrátt, sem ber með sér að hann er til kominn eftir langa togstreitu og harða og hljóðar svo í öllu sínu umkomuleysi, með leyfi hæstv. forseta: „Auk þess verður unnið að því á næstunni að leita leiða til að fresta framkvæmdum, sem fjármagnaðar eru með erlendum lántökum, um a. m. k. 1000 millj. kr.“ Það er sem sé ætlunin að vinna að því að leita leiða. Svona margfaldur fyrirvari og það í grg. einvörðungu gefur til kynna að í þessu efni verði ekkert gert og þeim, sem settu orðin svona saman, sé það mætavel ljóst.

Auk þessara veigamiklu frávika frá tillögum stjórnarflokkanna í verðbólgunefnd um atriði, sem þó gætir í margnefndri leið 5 B og frv., eru sum þýðingarmestu ákvæði frv. algerlega án tengsla við það sem sett var fram í áliti nm. Ákvæði 2. gr. frv. um minni skerðingu á verðbótavísitölu láglauna en annarra launaflokka eru skyldari því afbrigði fimmtu leiðar, sem auðkennt er með bókstafnum A, en afbrigði B. Svo afkáralega hefur tekist til við frv.-gerðina, að þótt ákvæði 2. gr. um sérstaka meðferð á verðbótum til að gera hlut þeirra lægst launuðu skárri en annarra sé það frv: ákvæðið sem allir telja til bóta, hvort sem þeir eru mótfallnir eða fylgjandi málinu í heild, þá liggur fyrir að ekki einu sinni frv: smiðirnir og flm. þess hafa treyst sér til að skýra frá hvernig eigi að framkvæma frv: gr. Hér er ekki tóm til að rekja þessa flækju til neinnar hlítar, aðeins taka fram, að við ákvörðun á því, hvort launþegi skal komast í þann hóp, sem fær yfir helming umsaminna verðbóta, er enga viðmiðun unnt að hafa af kauptaxta, heldur kemur til álita hve miklar verðbætur hans eru orðnar á dagvinnutekjur, yfirvinnutekjur, álkvæðistekjur og álagsvinnutekjur hverjar um sig. Ríkisstj. segist ætla að setja reglugerð um framkvæmdina, en ekki er vitað til að neinn hafi getað sýnt fram á hvernig sú reglugerð geti litið út þannig að hún nái tilgangi sínum.

Þá er ótalið það ákvæði frv., sem hvergi örlar á í leiðunum sex sem verðbólgunefnd fékk til skoðunar. Það er fyrirmæli 1. gr. um að frá og með næstu áramótum skuli óbeinir skattar engin áhrif hafa á verðbótavísitölu né verðbótaákvæði kjarasamninga. Hér er um mikla og afdrifaríka kerfisbreytingu að ræða. Frá því vísitölufyrirkomulag um framreikning launakjara var fyrst tekið upp hér á landi hafa óbeinir skattar verið innifaldir í heim vísitölugrundvelli sem skammtað hefur vísitölubætur á laun. Eftir að söluskattur hækkaði svo sem raun hefur á orðið og er nú fimmti hluti af grunnverði vöru og þjónustu, hefur því æ oftar verið hreyft, að óeðlilegt sé af ýmsum ástæðum að óbeinir skattar hafi full áhrif á vísitölubótaverð á laun, en beinir skattar alls engin áhrif. Bent hefur verið á, að Danir til að mynda telja ekki óbeina skatta með í grundvelli kaupgjaldsvísítölu sinnar. En þá er þess að gæta, að í Danmörku kemur það á móti, að niðurgreiðslur á vöruverði koma ekki heldur við sögu við útreikning kaupgjaldsvísitölu. Ástæðan er sú, að væru niðurgreiðslur inni í vísitölugrundvellinum, en óbeinir skattar ekki, væri hægt að leika þann leik að hækka óbeina skatta beinlínis til að verja tekjunum til niðurgreiðslna, þannig að neysluskattur fengi tvöföld áhrif til að halda niðri kaupgjaldsvísitölu, og má líkja slíku fyrirkomulagi við svikamyllu í tafli.

Eins og 3. gr. frv. er úr garði gerð, er ekkert því til fyrirstöðu, að svona yrði hægt að fara að eftir að ákvæði hennar væru komin til framkvæmda. Ekki skal því haldið fram, að sá sé ásetningur höfundar frv., heldur bendir það, sem gerðist í meðförum þess hjá fjh.- og viðskn., til að hér sé um að ræða hróplegasta dæmið af öllum um lélegan undirbúning málsins af ríkisstj. hálfu. Allir fulltrúar stjórnarflokkanna með tölu í fjh.- og viðskn. viðurkenna sem sé í nál. sínu, að ekki sé í rauninni unnt að taka óbeinu skattana út úr vísitölugrundvellinum nema um leið sé tekin afstaða til þess, hversu farið skuli með niðurgreiðslur vöruverðs í því kerfi.

En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafa fulltrúar stjórnarflokkanna í n. ekki þann hátt á, sem eðlilegastur hefði verið, að flytja brtt. við 3. gr. um þetta efni. Þeir láta sér nægja fróma ósk í nál. um að þeir telji rétt að fela kauplagsnefnd að meta sérstaklega þátt niðurgreiðslna í vöruverði í tengslum við óbeina skatta. Sú afgreiðsla málsins er allsendis ófullnægjandi, hvernig sem á er litið, en sýnir ljóslega í hvaða klípu stjórnarliðið hefur sett sig með óvönduðum vinnubrögðum.

Hæstv. forseti. Góðir hlustendur. Mér er ljóst að í umr. sem þessum er fátt leiðigjarnara en að heyra hvern ræðumann af öðrum koma að hljóðnemanum og segja sömu eða svipaða hluti með mismunandi orðum og áherslum. Því hef ég kosið að láta hjá líða almennt yfirlit um frv., sem fyrir liggur, heldur kosið að beina athyglinni að takmörkuðu sviði efnis þess og aðdraganda. Sú athugun hefur leitt í ljós, að þetta frv. er ekki markviss ráðstöfun samhentrar ríkisstj., sem veit hvað hún vill og hefur markað sér leið af framsýni og yfirvegun. Þetta frv. er vanburða afsprengi sundurleits þingmeirihl., sem hangir saman á því einu að hann veit sig sameiginlega ábyrgan á þessari misheppnuðu stjórn flokka sem hafa fyrirgert trausti margra sinna bestu stuðningsmanna. — Ég þakka þeim, sem hlýddu.