14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum fyrir þremar og hálfu ári setti hún sér tvö höfuðmarkmið: Í fyrsta lagi að færa fiskveiðilögsögu okkar út í 200 sjómílur og stefna að algerum yfirráðum Íslendinga yfir fiskveiðum á öllu þessu hafsvæði. Hitt höfuðmarkmiðið var að draga úr verðbólgunni, og þar náðist mjög umtalsverður árangur, því að á miðju s. l. ári var verðbólgan komin niður í 26%. Nú er hún að vísu á leiðinni yfir 30% markið, vegna þess að kaunhækkanir hafa síðustu 12 mánuði hækkað að meðaltali um rúmlega 60%, á sama tíma sem meðaltalshækkun á útflutningsafurðum okkar hefur ekki numið nema um 20%.

Við verðum líka að hafa í huga, að frá því að kjarasamningarnir voru gerðir hafa ytri aðstæður versnað hjá okkur Íslendingum hvað snertir verð og sölu á útflutningsafurðum. Að undanförnu hefur ekki orðið framhald hækkana á freðfiskafurðum, saltfiskafurðir hafa lækkað frá því sem áður var og við eigum nú óseldar skreiðarbirgðir fyrir 5000 mill j. kr. Þessar breytingar allar hafa rýrt afkomu útflutningsatvinnuveganna gífurlega og á þann veg, að ekki varð komist hjá aðgerðum til þess að koma í veg fyrir að flest hraðfrystihús landsins neyddust til að stöðva rekstur sinn. Sömuleiðis þótti bæði rétt og sanngjarnt að hækka fiskverð um 13%, en það hafði staðið óbreytt frá 1. júlí á s. l. ári.

Ég tel eðlilegt, að slík fiskverðsbreyting ætti sér stað á sama tíma og aðrir launþegar hafa fengið miklar hækkanir. Það varð ekki hjá því komist að sjómenn fengju þessa hækkun og útgerðarmenn til þess að mæta hækkunum á útgerðarkostnaði skipa sinna. Það er augljóst mál, að þegar kaupgjald og verðlag þrefaldast miðað við verðmæti útflutningsframleiðslunnar, þá þarf að gera sérstakar ráðstafanir.

Eftir kjarasamninga á s. l. sumri og með nýju fiskverði frá áramótum fór hagur hraðfrystihúsanna og flestra annarra greina í fiskiðnaði mjög versnandi, og svo var komið nú um áramótin, að óumflýjanlegar voru ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir stöðvun þessara mikilvirku atvinnutækja. Stöðvun hraðfrystiiðnaðarins þýddi stöðvun útgerðar og stöðvun velflestra atvinnugreina í þessu landi, því að sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur landsmanna og þegar hann bregst bregðast einnig aðrar stoðir íslensks efnahagslífs. Þess vegna var gengisbreyting gerð og í framhaldi af henni þær hliðarráðstafanir sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Í þeim hliðarráðstöfunum er fyrst og fremst stefnt að því að tryggja þeim, sem minnst hafa í þjóðfélaginu, svipuð lífskjör og þeir áður höfðu. Hins vegar verður ekki hjá því komist að draga úr kaupuppbótum á öll meðallaun og upp úr, þannig að þeir sem hæst launin hafa verða að krónutölu að fórna mestu. Samhliða þessu eru gerðar ráðstafanir til þess að bæta hag ellilífeyrisþega og örorkuþega fram yfir það, sem oft áður hefur verið gert.

Ég tel að þessar ráðstafanir, sem hér er verið að gera, séu eins mildar og hægt er. Það er óhjákvæmilegt að taka vísitöluna til meðferðar, því að við getum ekki lifað og rekið okkar þjóðfélag með því vísitölufyrirkomulagi sem við búum við og er margviðurkennt af talsmönnum allra flokka að þurfi að breyta til þess að draga úr hinum miklu verðbólguhvata sem það hefur í för með sér. En þegar á hólminn er komið standa menn ekki við stóru orðin.

Það má lengi deila um hvaða breytingar eigi að gera á vísitölugrundvellinum. Þær breytingar, sem þetta frv. felur í sér, eru að mínum dómi eðlilegar þegar jafnframt er höfð í huga sú yfirlýsing sem hæstv. forsrh. gaf áðan varðandi niðurgreiðslur á vöruverði. Atvinna hefur verið mikil í landinu og tekjur hjá öllum stéttum verið mjög góðar. Kaupgeta hefur verið meiri en nokkru sinni fyrr. En þrátt fyrir það að góðæri hefur verið ríkjandi hjá öllum þorra landsmanna er kynt undir elda að glóðum óánægju, og þar hefur hin neikvæða fréttamennska, bæði ríkisfjölmiðla og annarra, fyrst og fremst verið að verki. Þar er aldrei spurt um það, hvað áunnist hefur, hvort við höfum gengið götuna til góðs, heldur er alltaf spurt: Ertu ekki óánægður með þetta eða hitt? Alltaf er reynt að finna einhvers staðar óánægju.

Er mögulegt að óánægjan eigi fyrst og fremst að vera ríkjandi þegar allt leikur í lyndi? Ber kaupmáttur launa á s. l. ári vott um að almenningur hafi átt við mikla erfiðleika að stríða í efnahagsmálum á s. l. ári? Ber það vott um að lífskjörin hafi versnað, þegar 70 þús. manns hafa farið utan og keypt gjaldeyri í íslenskum bönkum fyrir 5.8 milljarða kr. á móti 59 þús. manns fyrir 3.2 milljarða kr. á árinu á undan? Ber það vott um fátæki, að keyptar voru til landsins á s. l. ári 7563 bifreiðar á móti 4310 á árinu 1976? Ber það vott um peningaleysi, að flutt eru inn 8827 sjónvarpstæki á árinu 1977 á móti 2202 árið á undan, og af þeim eru 97% litasjónvarpstæki? Ber þetta vott um að það hafi verið kreppt alvarlega að almenningi í þessu landi, eða ætlar einhver að halda því fram, að þessi innflutningur nái aðeins til örfárra forréttindamanna eða stétta í þjóðfélaginu?

Verslun hefur aldrei verið meiri en á s. 1. ári og þó sérstaklega í desembermánuði. Lífsgæðakapphlaupið hefur verið í algleymingi. Finnst hlustendum þetta ekki vera í samræmi við sultarræðu Sighvats Björgvinssonar áðan?

En við verðum að taka tillit til aðstæðna í þjóðfélaginu. Við vitum að það var gengið of langt í verðlags- og kauphækkunum á s. l. ári og dýrtíðarhjólið hefur snúist hraðar og við stefnum rakleitt í svo gífurlega dýrtíð, að á tveimur árum, ef ekkert er að gert, mundum við nálgast það Evrópumet sem var þegar Lúðvík Jósepsson og þeir félagar fóru frá stjórn sumarið 1974. Það þýðir ekki að berja sér á brjóst og bölva verðbólgunni, en snúast á móti þegar á að gera ráðstafanir til þess að draga úr mætti þessa skrímslis. Það er betra fyrir launþega að taka þeim hóflegu ráðstöfunum, sem hér eru á ferðinni, og hægja á verðbólguhjólinu en að þjóðin haldi áfram í þessum hrunadansi forheimskunnar, sem leiðir til spillingar og óhamingju á margan hátt í þjóðfélaginu. Vísitöluskrúfan er vítahringur sem við verðum að komast út úr. Við getum ekki haldið áfram á þessari röngu braut. Ríkisstj, væri alls ekki vanda sínum vaxin, ef hún léti nú sem ekkert væri vegna þess að það eru kosningar að vori. Henni ber skylda til að leggja fyrir þjóðina, hvað um er að ræða, og segja henni sannleikann og gera tilraun til að komast fyrir þennan vanda.

Þessi ríkisstj. hefur unnið stærri sigra en nokkur önnur með útfærslu landhelginnar í 200 mílur, og það sem meira er um vert, hún hefur tekið alvarlega stjórn fiskveiða innan 200 mílna og komið útlendingum burt úr íslenskri landhelgi að undanskildum samningum við þrjár þjóðir sem eru smávægilegir miðað við það, sem áður var, og eru gerðir af fúsum og frjálsum vilja. Ríkisstj. varaði við of háum kröfum launþega í landinu, ekki vegna þess að hún unni ekki launþegum að njóta bestu kjara, heldur vegna hins, að í kjölfar slíkra kauphækkana fylgir verðhækkunarskriða vegna vísitölufyrirkomulagsins, svo sem þegar hefur komið á daginn. Ytri skilyrði eru ekki þau sömu, og við verðum að taka tillit til þess sem er í kringum okkur. Þessar aðgerðir verða ekki til þess að drepa einn eða annan. Þær eru skerðing að vissu marki. en það er reynt til hins ýtrasta að skerða ekki lífskjör þeirra sem minnst mega sín og minnstar tekjur hafa.

Kauptaxtar verkamanna hafa á tímabili núv. ríkisstj. hækkað um 225.5% og kauptaxtar allra launþega um 221.7%. En tekjutryggingarmark elli- og örorkulífeyris að viðbættri tekjutryggingu hefur hækkað um 286.1% og tekjutryggingarmark með heimilisuppbót, sem tekin var upp á s. l. sumri, hefur hækkað um 354.2%. Ætla svo fulltrúar vinstri flokkanna að halda því fram, að hér hafi verið að verki ríkisstj. sem skilur ekki félagslegar umbætur, ríkisstj. sem alltaf ræðst á lítilmagnann, þegar slíkar tölur liggja fyrir frá hlutlausri stofnun, Þjóðhagsstofnuninni.

Þegar við lítum í kringum okkur og vitum um þau miklu bágindi sem eru um víða veröld, þegar við lítum til nágrannalandanna, til þeirra samdráttaraðgerða sem þar er verið að gera, í ríkjum þar sem þjóðir hafa lifað við allsnægtir á undanförnum árum, þá þurfum við Íslendingar ekki að kvarta. Við skulum líta til stjórnar jafnaðarmanna í Danmörku, þar sem atvinnuleysi vex með hverjum degi sem líður. Við skulum minna íslensku kratana á 8% gengisbreytingu norsku jafnaðarmannastjórnarinnar um síðustu helgi. Við skulum líka minna íslensku kratana á kratastjórnina í Bretlandi, sem hefur sett sér það höfuðmarkmið, að kaupgjald hækki ekki á ári hverju um meira en 10%. Hvernig stendur á því, að jafnaðarmannaflokkar eru svona sterkir í þessum löndum, þar sem þeir eru svona vondir við fólkið, en jafnaðarmannaflokkurinn á Íslandi er sífellt að minnka, eins og hann vill vera góður við fólkið, að hann segir sjálfur? Eða halda íslenskir jafnaðarmenn að fólk sé búið að gleyma öllum þeim gengisfellingum og kjaraskerðingum sem þeir hafa staðið að um dagana? Svo kemur hér formaður flokksins, Benedikt Gröndal, fullur hneykslunar á þeim ríkisrekstri, sem hér á sér stað, og það vanti allt aðhald í sambandi við afgreiðslu fjárl. Þessi maður og flokkur hans hefur stutt hverja hækkunartill. sem flutt hefur verið við afgreiðslu fjárl., bæði frá eigin flokki og kommúnistum, till. sem hafa samtals skipt nokkrum milljörðum kr. það tímabil sem þessi ríkisstj. hefur setið. Þessum mönnum ferst að tala.

Benedikt Gröndal taldi forustumönnum ASÍ og BSRB það til hróss að hlaupa á dyr, þegar rætt er um vandamál launþega í landinu. Ég tel það ekki þeim til hróss. Ég tel það lýsa vanstillingu þessara foringja launþeganna að hlaupa á dyr og verða þeim til skammar.

Íslenska þjóðin hefur ekki heldur gleymt Alþb. Alþb. hefur staðið að gengislækkun. Og 1. júní 1974 átti kaupgjaldsvísitalan að hækka um 17–18%, en þáv. ríkisstj. hafði ákveðið að greiða niður hluta þeirrar vísitöluhækkunar með peningum sem voru ekki til og engar till. voru gerðar um hvernig afla skyldi. En það, sem á vantaði til að standa við þessa kaupgjaldsvísitölu, átti ekki að koma til útborgunar. Þá þagði Þjóðviljinn þunnu hljóði. Þá var ekki sagt eitt einasta orð. Einnig var ákveðið eftir febrúarsamningana 1974, að fiskverð til sjómanna og útgerðar yrði óbreytt, og það gert með brbl. Það þýddi að sjómenn fengu ekki þær kjarabætur, sem landverkafólk hafði fengið, og kjör þeirra voru skert enn meir en kjör landverkafólks. Það þýddi það sama og við hefðum ekki hreyft við fiskverði um síðustu áramót. Og svo setur Lúðvík Jósepsson upp sparisvipinn, þegar hann kemur hér í pontuna, og hefur allt á hornum sér, — maðurinn sem fann upp gengissigið. Hann álasar þessari ríkisstj. fyrir að hafa notað það. Þetta er „patent“ sem hann fann upp þegar hann var viðskrh., en núv. ríkisstj. er staðráðin í því eftir þessa gengisbreytingu að leggja nú þetta „patent“ fyrrv, viðskrh, á hilluna. Þessu er þjóðin ekki búin að gleyma. Sporin hræða.

Hvað varð um þriðja vinstri flokkinn? Það var flokkur sem reis upp og vann stórsigur í kosningunum 1971, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna, og fékk 5 þm. kjörna. Snemma hvarf einn þm. úr hópnum og var í fullri andstöðu við hina þau ár sem vinstri stjórnin sat. Annar foringi flokksins fór í ríkisstj, og út úr stjórnmálum. Þriðji þm. fór þá í ríkisstj. Hann fór úr flokknum og gekk í Alþfl. Fjórði þm. sat eftir í ríkisstj. og tók þátt í öllum þessum aðgerðum, og það er formaður flokksins nú, Magnús T. Ólafsson, sem var áðan að ljúka máli sínu. Einn þm. er þá afgangs sem enn er á þingi, en hefur ákveðið að fara úr þessum flokki og bjóða sig fram utan flokka. Þannig er nú komið fyrir þessum flokki. Hann hefur tvístrast. En nú hafa þeir aftur mæst í Alþfl., stóru vinirnir, Björn Jónsson og Bjarni Guðnason. Haldið þið að það verði ekki skemmtileg sambúð í þeim flokki? Það er ekki að furða þó að Gylfi Þ. Gíslason brosi ánægjulega, eins og lítið og saklaust barn.

Það kemur fyrir í öllum stjórnmálaflokkum að menn greinir á um leiðir og það er ekki alltaf samvinna og samstarf. En í Sjálfstfl. ríkir sá andi, að flokkurinn tekur ábyrga afstöðu til mála hverju sinni. Honum hefur verið kennt um það, að hann hafi ekki stutt úrræði vinstri stjórnarinnar vorið 1974. Það er ekki hlutverk stjórnarandstöðu að koma lagafrv, fram fyrir ríkisstj. og síst af öllu þegar hún hefur ekki þingmeirihl. að baki og á að segja af sér. Ef þessi ríkisstj. kemur ekki sínum ráðstöfunum í efnahagsmálum fram, þá verður hún að fara. Það er hennar og stuðningsmanna hennar að gera þær ráðstafanir að lögum sem nauðsynlegar eru taldar.

Það er sannfæring mín, að óðaverðbólgan er meira en efnahagslegt fyrirbæri. Hún hefur víðtækt vald á sálarlífi fjölmargra þjóðfélagsþegna og veldur ógnvekjandi lífsgæðakapphlaupi. Fólk eyðir fram yfir það sem er skynsamlegt og viðráðanlegt og krefst of langs vinnutíma á kostnað heimilanna. Börnin verða afskipt, hamingja heilbrigðs heimilislífs lýtur í lægra haldi fyrir upplausn og sundrungu. Það er mörg bölvunin sem óðaverðbólgan veldur, en því er ekki að leyna, að þeir, sem fyrst og fremst græða peningalega á henni, eru stóreignamennirnir. Þeir verða ríkari eftir því sem verðbólguhjólið snýst hraðar. Hinn almenni launþegi lifir ekki á óðaverðbólgunni. Að vísu hækkar íbúðin hans eða húsið í verði, en stóreignamaðurinn margfaldar eignir sínar. Það er eftirtektarvert þessa síðustu daga, hve illa hefur legið á mörgum verðbólgubröskurum af ótta við að ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum drægju verulega úr óðaverðbólgunni. Það er röng stefna margra forustumanna launþega að krefjast sífellt fleiri króna í laun, þegar meira virði er að fá fyrir krónurnar aukið verðmæti. Það er þetta sem ríkisstj. er nú að framkvæma með ráðstöfunum sínum, og gegn þessu berjast stjórnarandstæðingar af alefli með verðbólgubröskurunum.

Það er skoðun mín að fólk, sem vinnur af alúð og skyldurækni, eigi að öðlast möguleika á að verða efnahagslega sjálfstæðir einstaklingar sem samfélagið á ekki að skattleggja meira en nú er gert. En verðbólgubraskið er óeðlilegt. Sjálfstfl. er sterkasta aflið í stjórnmálum Íslands. Hann lætur enga sérhagsmunahópa segja sér fyrir verkum. Þar eru teknar ákvarðanir út frá því sjónarmiði, sem er þjóðarheildinni fyrir bestu á hverjum tíma, og tillit tekið til allra stétta. Við höfum stjórnarforustu í okkar höndum og ætlum með samstarfsflokki okkar á þessu kjörtímabili að stjórna landinu til næstu kosninga eftir því sem þingmeirihl. okkar telur farsælast heildarhagsmunum þjóðarinnar í bráð og lengd. — Góða nótt.