14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Þegar hv. þm. Lúðvík Jósepsson gat í ræðu sinni áðan um aðgerðaleysi ríkisstj., þá varð mér hugsað: Nú er Bleik brugðið. Hann mundi ekki einn sinni eftir höfninni í Neskaupstað, hvað þá í Þorlákshöfn, Akureyri eða Akranesi, svo nokkrir staðir séu nefndir. Hann var búinn að gleyma Oddsskarði, að ég nefni ekki Hvalnesskriður eða frágangi á brúnni á Skeiðará. Svo illa var nú komið fyrir þessum ágæta þm., og þykir mér það miður, því ég hef hælt honum fyrir gott minni. Þá mundi hv. þm. ekki heldur eftir byggðalínunni eða hitaveitunum og öðrum orkumálum. Þar voru Krafla og Grundartangi það eina sem hann hafði fest sér í minni, Ennfremur hafði hann ekki fylgst með þeim aðgerðum sem gerðar höfðu verið til jöfnunar á símgjöldum úti um landið, sem hefur verið gert í hvert sinn sem gjaldskrá símgjalda hefur verið breytt og nú síðast með ákveðinni prósentutölu af hækkuninni, 2%. Vona ég að hv. þm. átti sig á þessu þótt síðar verði.

Að tali hans og þeirra Sighvats Björgvinssonar og hv. þm. Benedikts Gröndal um landbúnaðarmál skal ég koma betur síðar. En nær hefði verið að þeir hefðu munað eftir því fyrr, að bændur þurfa að hafa góðar tekjur eins og aðrir þegnar í þjóðfélaginu, þegar höfðað var mál af hálfu Alþýðusambands Íslands gegn bændum fyrir að taka eðlilegar launahækkanir eins og þeim bar samkvæmt landslögum, enda hafa þeir Alþýðusambandsmenn tapað málinu.

Þá taldi hv. þm. Sighvatur Björgvinsson að ríkisstj. hefði alveg fyrirgert rétti sínum og þó sérstaklega framsóknarmenn við það að hafa ekki samstarf við launþegana í landinu. Hefur nokkur önnur ríkisstj. haft að störfum nefnd sem hefur starfað á annað ár, þar sem samtök allra stjórnmálaflokka og samtök stéttarfélaganna hafa átt sína fulltrúa, eins og verðbólgunefnd nú? Ég dreg það mjög í efa.

Sighvat þekkti ég alveg fullkomlega í lok ræðu hans, þegar hann gaf ráðh, þá einkunn að þeir væru ekki siðaðir menn eða sáttfúsir og ríkisstj. ætti að fara frá völdum. Þá var hann farinn að tala eins og hans er háttur.

Áður en ég vík að frv, því um efnahagsmál, sem hér liggur fyrir, vil ég víkja sérstaklega að landbúnaðarmálum og hvernig úr þeim hefur ræst nú á síðustu vikum s. l. árs og fyrstu vikum þessa árs. Svo tókst til með greiðslur á útflutningsbótum í kringum áramótin fyrir tilstuðlan ríkisstj., að endar náðu saman vegna verðlagsársins 1976 og 1977 án sérstakrar skattlagningar á framleiðslu bænda. Samstarf tókst milli stjórnvalda forráðamanna Framleiðsluráðs og Osta- og smjörsölunnar um útsölu á smjöri, sem hefur gengið allvel. Niðurgreiðslum er haldið áfram á ull. Með þeim aðgerðum, sem er verið að gera með þessu frv. og lagt verður fram frv. um síðar í sambandi við iðnaðinn í landinu og hæstv. iðnrh. hefur undirbúið, þá treysti ég að afkoma iðnaðarins verði allsæmileg á þessu ári.

Samkvæmt till. um aðgerðir í efnahagsmálum munu niðurgreiðslur verða auknar um 1300 millj, kr. og auka kaupmátt launa um 1%. Láta mun nærri að sú fjárhæð jafngildi því, að söluskattur af dilkakjöti væri felldur niður.

Gengismunur á birgðum landbúnaðarvara fellur til landbúnaðarins, eins og venja hefur verið. Yfirlit hefur verið gert um lausafjárskuldir bænda og verður unnið að því máli áfram. Ekki liggja þó enn fyrir möguleikar til lausnar málinu. Tilbúið er frv. til að draga úr kostnaði við aðföng vegna landbúnaðarframleiðslu. Með því er einnig stefnt að því að gera innlenda fóðurframleiðslu samkeppnishæfa við erlendan fóðurbæti. Unnið er að markaðsöflun fyrir landbúnaðarvörur erlendis. Sömu reglum verður fylgt um verðskráningu á landbúnaðarvörum og er að því er varðar aðföng og kaupgjald, eins og þetta lagafrv. mælir fyrir um, ef það verður að lögum.

Það, sem einkennt hefur þessar umr. og álit verðbólgunefndar, er það sameiginlega álit allra, að aðgerða sé þörf til þess að tryggja áframhaldandi rekstur atvinnuveganna, forðast atvinnuleysi og tryggja atvinnuöryggi, Breyting á gengi krónunnar var ekki aðeins nauðsynleg til að tryggja stöðu atvinnuveganna, heldur einnig eðlileg viðskipti okkar við önnur lönd.

Kaupæði hefur verið hér mikið síðustu mánuði á s. l. ári, og t. d. var halli á viðskiptum okkar við önnur lönd um 3.9 milljarðar í janúarmánuði s. l. Ljóst er því að verðlag á innfluttri vöru var orðið of lágt miðað við kaupgetu hérlendis. Með afgreiðslu lánsfjáráætlanar fyrir árið 1978 var tekin sú ákvörðun af hálfu ríkisstj, að auka ekki erlendar skuldir á þessu ári. Það gerði þessa ákvörðun að engu, ef um áframhaldandi viðskiptahalla yrði að ræða á árinu, þó hann yrði í minna mæli en hann var í janúar.

Hvort sem litið er á öryggi atvinnurekstrarins eða viðskipti við önnur lönd varð ekki hjá gengisbreytingu komist, það má öllum ljóst vera. Það, sem valdið hefur deilum af hálfu stjórnarandstöðunnar, eru hliðarráðstafanir sem fylgja í kjölfar gengisbreytingarinnar. Fer þar sem fyrr, að þess er að litlu getið er til bóta horfir. Má nefna að tekjutrygging og heimilisbætur hækka um 2%, barnabætur hækka um 5% umfram skattvísitölu, tímabundið vörugjald lækkar um 2%, niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum hækka um 1300 millj. kr. Áhrif þessara aðgerða auka kaupmátt um 1.4%.

Eins og áður hefur verið getið, er tilgangurinn með gengisbreytingunni og ráðstöfunum í efnahagsmálum, er henni fylgja, að tryggja fulla atvinnu, koma í veg fyrir viðskiptahalla við útlönd, auk þess að draga úr verðbólgu og treysta þau góðu lífskjör almennings sem náðust á s. I. ári. Til þess að hamla gegn víxlhækkun verðlags og launa gerir frv. um efnahagsráðstafanir ráð fyrir að greiða hálfar verðbætur og verðbótaauka samkv. núgildandi kjarasamningum. Þrátt fyrir þetta ákvæði um takmörkun verðbóta er þó tryggt með 2. gr. þessa frv., að þessi frádráttur komi ekki fram með fullum þunga gagnvart tekjulægstu hópum launþega.

Í umr. þeim, sem fram hafa farið hér í hv. d., hafa stjórnarandstæðingar talað svo sem það að ganga á gerða kjarasamninga væri nýmæli. Nú vil ég taka það skýrt fram, að mér þykir miður að til slíks þurfi að koma, En nýmæli er það ekki og rétt þykir mér að vekja athygli á því, að á árunum 1956–1977, að báðum meðtöldum, hafa hliðstæðar breytingar verið gerðar 25 sinnum. Það út af fyrir sig er athyglisvert, hversu oft hefur þurft að gripa til slíkra aðgerða, og svo hitt, að allir stjórnmálaflokkar landsins hafa tekið þátt á þessum aðgerðum. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og Lúðvík Jósepsson, sem hafa orðið að beita slíkum aðgerðum sem ábyrgir aðilar í ríkisstjórn, geta því ekki talað um kauprán þegar aðrir verða þjóðar sinnar vegna að heita vægari aðgerðum en þeir gerðu, t. d. Gylfi Þ. Gíslason, til þess að forða atvinnuleysi.

Rétt þykir að minna á nokkur atriði þessum þætti máli mínu til stuðnings.

Árið 1956 voru verðlagsbætur og laun bundin nærri þrjá mánuði, og var það eitt af fyrstu verkefnum hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar og Lúðvíks Jósepssonar í ráðherrastóli.

Árið 1959, þegar stjórn Emils Jónssonar kom til valda, lækkaði hún verðlag og verðlagsbætur og gerði margvíslegar hreytingar á kjarasamningum.

1960 tók þó steininn úr. Þá var sett bann við vísitölubindingu á launum. Segir svo í 23. gr. þeirra laga varðandi vísitöluákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „Óheimilt er að ákveða, að kaup, laun, þóknun, ákvæðisvinnutaxtar eða nokkurt annað endurgjald fyrir unnin störf skuli fylgja breytingum vísitölu á einn eða annan hátt: Hvar var hv. þm. Benedikt Gröndal þegar þetta var gert? Hann fordæmdi þó slíka hluti mjög hatrammlega áðan. En þetta ákvæði stóð í lögum til 1964 og var gengisbreyting þó gerð 1960 og aftur 1961.

1970 var verðstöðvun gerð og frestun vísitölubóta.

Gylfi Þ. Gíslason ásamt öðrum ráðh. Alþfl., Gylfi þó lengst, hafði setið samfleytt í ríkisstj. frá 1956 til miðs árs 1971 og tók þátt í öllum þessum aðgerðum. Enginn varð var við að honum yrði flökurt af.

Þá vil ég minna á það, að hv. þm. Lúðvík Jósepsson tók þátt í viðnámsaðgerðunum sem voru gerðar 1974, gengislækkun, auknum niðurgreiðslum, bundin var vísitala á laun, innborgunarkerfi við innflutning og vaxtahækkun. Að þessu stóð viðskrh. Lúðvík Jósepsson ekki síður en við hinir. Ég tek það fram, að þá eins og nú var nauðsyn aðgerða og þess vegna voru þær gerðar. En fordæming þeirra, sem tóku þátt í þessu, er að fara aftan að siðunum.

Í framhaldi af þessu þykir mér rétt að reyna að gera grein fyrir því, hvaða ástæður liggja til þess að stjórnvöld hafa farið og eru enn knúin til að fara inn á svo óæskilega braut sem það er að ganga á gerða kjarasamninga. Ekki þýðir það, svo snöggsoðin afgreiðsla sem nú er notuð af stjórnarandstöðu, að illmennsku stjórnvalda sé þar um að kenna. Og um þá, sem halda því fram, forustumenn Alþfl. og Alþb.. má með sanni segja, að hér heggur sá er hlífa skyldi. Hins vegar er málið þess eðlis, að nauðsyn ber til að gera sér grein fyrir ástæðum þeim er þar að lúta. Hér er hvorki um nýmæli né illgirni stjórnvalda að ræða, heldur nauðsyn þeirra aðgerða er ríkisstj. telur sig knúða til að gera vegna þjóðarinnar í heild. Sú skýring, sem mér finnst sennilegust, er að ekki sé tekið mið af getu þjóðfélagsins við gerð kjarasamninga, eins og t. d. á s. l. sumri, þegar kauphækkunin varð um 44%. Frá því í des. 1976 til 1977 hafa laun hækkað um 88% að meðaltali og er þá miðað við launataxta, Auk þessa er vísitölukerfi okkar, eins og það er nú framkvæmt, með þeim hætti, að það er nánast óframkvæmanlegt, þegar við bætist að samhengi á milli kaupgjalds og verðlags er með þeim hætti, að áhrifin koma alls staðar fram í verðlagskerfi okkar. Þarf engan að undra þó að verðbólgan sé vel haldin, svo sem raun ber vitni um, þegar hún er fóðruð á þennan hátt.

Ég minni á það, að ríkisstj. lýsti þeirri skoðun sinni við kjarasamninga á s. l. sumri, að 3–4% raunverulegar kjarabætur á árinu 1977 gætu staðist og um 3% á þessu ári, en ekki tvöföld sú fjárhæð eins og raunin varð á.

Ég legg áherslu á það með tilliti til þess, sem ég hef vikið að hér að framan, að ég tel óæskilega framkvæmd að breyta kjarasamningum með lögum. En það þarf að gera þá af meira raunsæi með tilliti til gjaldþols atvinnuveganna og afkomu þjóðarinnar í heild heldur en gert hefur verið. Mér er vel ljóst, að ákvörðun um ríkisfjármál og rekstur atvinnurekstrarins hefur hér líka sitt að segja.

Endurskoðun vísitölukerfisins, sem er boðuð með þessu frv, um efnahagsmál, er að mínu áliti mikil nauðsyn. Tekna ríkissjóðs, sem fara til að greiða framlög til almannatrygginga, sjúkrahúsa, skóla, vega o. fl., nýtur þjóðin í endurbótum og framlögum til þeirra þátta er njóta fjárins, en getur ekki notið þeirra einnig í launahækkunum, Það er ekki sanngjarnt. Eins er það fráleitt að beinir og óbeinir skattar hafi ekki sömu áhrif á vísitölu. Hitt skekkir myndina, eins og raunin hefur orðið á síðustu árum. Hvað sem sagt er, þá er raunin sú, að tekjuskattur er besta tækið til að jafna að vissu marki launamismuninn á milli þegnanna í landinu. Því ber nauðsyn til að endurskoða vísitölukerfið, svo sem mörkuð er stefna um í efnahagsfrv. því sem hér er til umr. Ég tel að gera þurfi það í viðtækara mæli en frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil endurtaka, að brýna nauðsyn ber til þess að vanda gerð og markmið kjarasamninga, svo að þeir gildi í raun samningstímabilið sem um er samið.

Því hefur verið haldið fram, að Framsfl. hafi minni áhuga á samstarfi við launþega en aðrir stjórnmálaflokkar. Þessu mótmæli ég. Framsfl. hefur tekið virkan þátt í viðræðum stjórnvalda við launþega, þegar til þeirra hefur verið stofnað, þau ár sem hann hefur setið í ríkisstj, Framsóknarmenn hafa haft forustu um gerð þeirra kjarasamninga sem munu vera einna skynsamlegastir af kjarasamningum síðustu ára, en það eru kjarasamningar milli ríkisstj. og BSRB 1973. Hefði betur farið ef forustuliði ASÍ hefði við gerð kjarasamninga á fyrstu mánuðum ársins 1971 tekist samningsgerðin eins vel. Þá hefði ekki þurft 2–3 mánuðum síðar að draga verulega úr áhrifum þeirra samninga með vísitölubindingu o. fl., eins og áður hefur verið skýrt frá að gert var.

Efnahagsaðgerðir eru alltaf erfiðar og góður efniviður til að skapa deilur og tortryggni. Fyrir okkur Íslendinga skiptir þó mestu máli nú, að við forðumst atvinnuleysi og drögum úr verðbólgu, svo að við í því efni komumst a. m, k. í kallfæri við viðskiptaþjóðir okkar.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að stjórnarandstaðan hefur haldlausar till. einar fram að færa í þessum umr., stendur ekki einu sinni saman um þær till, sem fram eru settar. Þangað verður forusta ekki sótt til úrræða í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar. Og ljóst er, að upphrópanir og sleggjudómar leysa engan vanda. Aðeins raunhæf úrræði, eins og hér eru lögð til, koma þjóðinni að gagni. — Góða nótt.