15.02.1978
Efri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þetta frv. heitir frv. til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum. Það er ekki í fyrsta sinn og líklega ekki í síðasta sinn sem frv. með þessu heiti er hér til umr. Við höfum haft frv. til umr. sem hét svipuðu nafni, lög um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara. Það frv. varð að lögum í apríl 1975, seinni hluta þess mánaðar. Þá átti að bjarga öllu að sögn talsmanna núv. ríkisstj. Litið hefur orðið úr efndum.

Við afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar voru hafðar uppi till. um það að undirbyggja haldgóðar efnahagsráðstafanir sem við mundum sjá nokkru eftir áramót, Nú eru þær hér til umr. Gengisfelling var gerð í síðustu viku. Henni fylgdi eitthvað meira sem við vissum ekki um í stjórnarandstöðunni. Ég sagði að eftir mundi koma bandormsfrv., sem við erum að ræða hér, en ég held að miklu betra nafn á þessu frv. sé skröltormsfrv., því að ég held að skröltið heyrist um allt eins og þegar skröltormurinn er í vígahug og gerir menn skelkaða, bæði menn og skepnur í námunda við sig. Þetta frv, hefur gert æðimarga skelkaða og það ekki að tilefnislausu.

Því er borið við, að atvinnulífið eigi í erfiðleikum og þá fyrst og fremst útflutningsatvinnuvegir okkar og frystihúsin sérstaklega, þó sé betur statt með öflun, en ekki eins vel með fiskvinnslu. Einnig á ullariðnaður í vandræðum og jafnvel nokkur annar iðnaður sem fæst við útflutning. Verðbólga er mikil í landinu og hefur verið og verður áfram þrátt fyrir þetta frv. Þrátt fyrir þetta frv. mun verðbólga verða 37% á árinu eða á ársgrundvelli. Það er hörmulegt að vita til þess. Að mínu mati nær þetta frv. og þær ráðstafanir, sem leiðir af því eða þeirri löggjöf sem hér á að samþykkja, þess vegna ekki þeim tilgangi sem við raunar allir viljum, þ. e. a. s. að verðbólgan verði mun minni. Ef ég man rétt mæltist Ólafi heitnum Thors svo í síðustu áramótaræðu sinni, að allt væri unnið fyrir gýg, sagði hann, ef verðbólgan yrði ekki stöðvuð, og var hún þá aðeins fjórðungur af því sem við erum að ræða í dag. Samt stóð þessum ágæta manni beygur af verðbólgunni á þeim tíma. Við þekktum hana oft sem einstafa tölu áður fyrr í mörg ár, en nú er hún jafnan tveggja stafa tala og í tugum talið.

Mér finnst athyglisvert í öllum þessum umr., og ég get ekki látið hjá líða að minna á það, að ég hef ekki heyrt í tali stjórnarsinna minnst á sparifé landsmanna, bókstaflega eins og það sé ekki til og það skipti engu máli hvort það sé til eða ekki. Við erum alltaf að tala um ráðstafanir í efnahagsmálum vegna of mikillar eyðslu, of mikillar þenslu. Það er ekki minnst á að sparifé landsmanna sé tryggt, sem er forsenda fyrir heilbrigðu atvinnulífi, bæði hjá þessari þjóð og öðrum sem búa við frjálsan búskap. Ég gat þess í umr. um gengisfellingarfrv., að ég væri ekki ánægður með þessa afstöðu til þeirra er lifa sómasamlegu og heiðarlegu lífi í þessu þjóðfélagi. Við fáum menn aldrei til að leggja hemil á sína eyðslu og sína neyslu, ef ekki er viðurkennt það sem er forsenda fyrir jafnvægi í búskap okkar, þ. e. að menn leggi fjármagn frjálst inn í bankana. Atvinnulífið verður að fá þetta fjármagn. Í svona gífurlegri verðbólgu er vonlaust að eðlilegur vöxtur eigi sér stað í sparifjármyndun nema menn viðurkenni gildi sparifjárins. Nú má reikna með því, að enn verði reynt að hækka vexti og jafnvel vaxtaaukavextir fari yfir 30%. Heyrst hefur talað um 31–33% sem eigi að hvetja fólk til að leggja inn. En það hrekkur ekki til, þegar viðurkennt er hér að verðbólgan verði 37–40%. Segjum að hún verði 37%, jafnvel 36%, þá er samt sem áður neikvæð vöxtun um 6–7%.

Fólk getur auðvitað ekki eytt endalaust og það verður að leggja fé í banka. Samt sem áður er því refsað. Ég hef gert þá kröfu áður og geri hana enn, að öll lán séu meira og minna verðtryggð, því að eðlilegt er að flokka það niður. Með nákvæmlega sama hætti má að mínu mati setja löggjöf um að öll lán skuli bera ákveðinn skatt vegna verðbólgu, alveg eins og sparifé landsmanna er rænt með þessum aðgerðum, ákveðnum skammti þess. Ég tók einfalda líkingu, sem ég held að allir þm. hljóti að skilja, og sagði, að enginn bóndi fengi nýjan ljá að vori, notaði hann til að hagnast á uppskeru sumarsins og skilaði honum svo hálfum að hausti. Þetta er fyrir neðan virðingu hvers einasta bónda í landinu. En þetta háttalag er talið sæmandi gagnvart sparifjáreigendum, þ. e. að fá fulla krónu að vori og skila henni hálfri að hausti. Meðan slíkt ástand ríkir í þjóðfélaginu og slíkur hugsunarháttur, þá verður aldrei jafnvægi, sama hvernig við rembumst við að bjarga því frá degi til dags.

Það hefur komið í ljós, að þessar ráðstafanir í efnahagsmálum munu vara aðeins skamma hríð. Þó tók ég eftir í orðum hæstv. forsrh., að þeir hugsa sér að stjórna áfram. Ég tók það þannig, að þessir stóru flokkar, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, ætluðu ákveðið að sitja áfram og fara áfram með stjórn landsmála eftir komandi kosningar og halda þá áfram boðaðri stefnu. Ég skildi orð hæstv. forsrh. þannig, því að hann talaði um að áfram yrði haldið á þeirri braut er þetta frv. boðaði til þess að ná jafnvægi með þessum hætti. Ég vil vara við þessu. Ég á aðeins eina ósk bæði honum og öðrum til handa sem standa að þessu frv., að þeir endurskoði afstöðu sína gagnvart 3. gr., því að ef henni er breytt, en best væri að láta hana falla út, þá er öruggur grundvöllur fyrir því að ekki komi til átaka. Ég vænti þess, að verkalýðshreyfingin hafi þann þroska að ekki kæmi þá til verkfalla á næstu vikum. Ég held að sómi yrði að því fyrir báða þessa flokka að horfast í augu við staðreyndir. Það er enginn undansláttur af þeirra hálfu þó að þeir tækju nýja afstöðu í þeim efnum sem 3. gr. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. að óbeinir skattar hafi ekki bein áhrif á verðbótavísitölu. Það er allt annað að taka þetta í áföngum, Það er allt annað að fá þetta fram í viðræðum við fulltrúa launþegasamlakanna. Nú standa yfir fundir hjá ríkisstarfsmönnum og ASÍ og í stærsta verkalýðsfélagi landsmanna hafa einnig verið boðaðir fundir, þ. e. a. s. í Dagsbrún. Ég teldi það til mikils sóma fyrir hæstv. forsrh. að hafa einurð til að ræða við þessa menn um efni þessarar greinar.

Það er viðurkennt af öllum, að eitthvað þurfi að gera til að ráða bót á núverandi ástandi í efnahagslífi þjóðarinnar. Við erum að deila um með hvaða hætti á að gera það. Verðbólgunefndin hefur lagt fram frumhugmyndir að fimm leiðum, mismunandi árangursríkum og með mismunandi áhrif á atvinnulífið, verðtryggingu og atvinnustig í landinu. Sennilega er ekki hægt að fara neina eina leið óháða öðrum, ef svo má að orði komast, samkv. till. nefndarinnar, heldur að velja úr leiðunum og meta og vega ástandið eins og það er, taka þetta í áföngum að koma verðbólgunni í viðráðanlegt horf. Við verðum að horfast í augu við það, að verðbólgan er aðalorsökin að þessum vanda sem við erum jafnan að glíma við, nærri á hverju einasta ári, í okkar efnahagslífi.

Ég held að ekki verði friður næstu vikurnar og næstu mánuðina nema efni 3. gr. verði breytt og ef menn geta ekki sæst á það að taka hana út, þá að áhrif óbeinna skatta í vísitölunni hverfi í áföngum. Þá yrði örugglega, — ég segi það sem mína skoðun, — þá yrði örugglega eirt þessum ráðstöfunum og forsrh, mundi hafa sóma af að standa fyrir þeim. En ef það verður ekki gert og menn skella skollaeyrum við öllum aðvörunum, þá ana menn út í fenið. Það er mitt mat á aðstæðum. Ég tel þetta skipta sköpum. Ég gæti meira að segja ímyndað mér það, að þó að gengisfellingin hefði verið eitthvað meiri og ekki boðað gengissig, en kaup hefði fengið að hreyfast nokkuð samkv. samningum, þá hefði verkalýðshreyfingin tekið á sig nokkra byrði til þess að skapa svigrúm til að ræða þetta mikla vandamál sem þessar víxlverkanir á milli kaups og verðlags hafa á kaupgjaldsvísitölu í landinu. Það er síður en svo til hagsbóta hinum láglaunaða að verðbólgan æði áfram eins og verið hefur í mörg undanfarin ár og jafnan þurfi með stuttu millibili að fella gengið og gera sérstakar ráðstafanir í efnahagslífi okkar. Svo gífurleg eignatilfærsla verður á milli aðila í þjóðfélaginu með þessum ráðstöfunum að ekki nær nokkurri átt. Þetta endurtekur sig með vissu millibili og þeir, sem ekki eiga stóreignir, og þeir, sem ekki skulda, eru jafnan verr settir en nokkru sinni áður eftir slíka kollsteypu. Ef við höldum áfram og tökum enn eina kollsteypuna vegna hroka eða vegna einhverrar innibyrgðrar afstöðu, sem menn þora ekki að viðurkenna að er röng, þá er illa af stað farið og við stefnum upp að veggnum aftur.

Einmitt þessa dagana gefst tækifæri til að brjóta odd af oflæti sínu, bæði fyrir hæstv. ríkisstj. og forsvarsmenn launþegasamtakanna, og ræðast við af einurð og reyna að finna lausn á þessu máli. Forsvarsmenn launþegasamtakanna hljóta að gera sér grein fyrir því, að ef þeir vilja ekki ræða þessi mál fer frv. óbreytt í gegn. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að gera sér grein fyrir því, að fari frv. óbreytt í gegn, þá verður ófriður á vinnumarkaðinum. Til hvers er þá barist? Jú, það er barist til þess að fara einu þrepi neðar, þ. e: í öfuga átt. Ef á að hækka vexti núna og eins og ég sagði á að setja vaxtafót af vaxtaaukalánum jafnvel yfir 30%, þá er það svo óskapleg byrði á atvinnulífið í landinu að það gengur ekki, þegar vextir í nágrenni okkar, öllum nágrannalöndunum, eru 8–10%, og samtímis erum við að tala um erfiðleika í útflutningsafgreiðslunni. Þetta er algerlega vonlaust nema við komum á verðtryggingu á öll lán og flokkum niður eftir eðli lána.

Þetta frv. á að koma í veg fyrir vaxandi viðskiptahalla. Það getur vel verið að það takist. Það er hægt að gera með ýmsu móti. Hægt er að þrengja peningamarkaðinn í landinu, bankarnir geta neitað mönnum um víxla og minni rekstrarlán. Ekki þarf gengisfellingu og vöruhækkun til þess.

Hæstv. forsrh. leggur mikið upp úr því, að svokallaðar rauntekjur hafi svipað kaupgildi og var 1977 að meðaltali. En hvað eru rauntekjur? Eigum við að bera saman einu stað á landinu?

Hverjar voru rauntekjur á Hornafirði, áður en reknetasíldin fór að koma þar á land? Hvernig var atvinnuástandið þar, þó að það væri gott? Það kom fram í fréttum í fyrra, að húsmæður þar fjölmenntu í síldarvinnsluna og söltuðu síld dag og nótt og þarna var skapað gífurlegt verðmæti, Rauntekjur þessa fólks hljóta að vera miklar. Vegna hvers? Vegna þess að skattstigi okkar er í þrepum og ef ég man rétt stöðvast við 65%, en heldur ekki áfram upp eins og hjá mörgum þjóðum. Þá hljóta rauntekjur þessa svæðis að stórvaxa. Það er ómögulegt að hamla á móti því. Ég vísa á bug þessu nýja orðtaki um að tryggja rauntekjur. Hverjar voru rauntekjur Þórshafnarbúa, sem þurftu að búa við sérstakt atvinnuleysi stóran hluta af síðasta ári? Þær voru lágar og kaupgeta þess fólks í lágmarki. Hverjar eru rauntekjur núna á vissum stöðum á Suðurnesjum, þegar mörg fyrirtæki eru hætt og önnur láta fólkið vinna aðeins 8 tíma? Það er það sem fólkið verður að gera sér að góðu, rétt til að lifa af, eins og ég sagði í sambandi við gengisfellingarfrv. Fólk verður að geta lifað af 8 tíma dagvinnu plús 2 tímum á dag ef aðstæður eru fyrir hendi, þ. e. a, s. 40 plús 8 tíma á viku. Það er það vinnumagn í stundum talið sem borgarinn á að geta lifað af við eðlilegar aðstæður og eðlilega neyslu. Þetta verður að tryggja og miða allt við það. Ef einhver vill leggja meira á sig, segjum það að stunda grásleppuveiði eða fara á handfæri, því þá að hundelta hann og segja að rauntekjur hans verði að vera í einhverju lágmarki eða hámarki eins og hér er talað um? Ég vorkenni mönnum að gera þetta. Ég þekki menn sem vinna í álverinu, vaktavinnu, og þeir leggja það á sig yfir helgar og jafnvel þegar þeir eiga frí aðra daga að fara til fiskjar og skapa gjaldeyri. Því eigum við að tala um rauntekjur þessara manna? Það má leika sér að svona hugmyndum, en ég blæs á það og gef ekkert fyrir svona. þó að hálærðir hagspekingar haldi þessu fram allt í einu í dag. Það, sem skiptir mig máli, er að fólkið geti lifað á 40 stunda vinnudegi, eins og Dagsbrún er búin að berjast fyrir í áratugi, og ekkert annað. Ef menn vilja vinna meira, þá eiga þeir að bera meira úr býtum. Það skiptir meginmáli að þjóðfélagið geri sér grein fyrir því, að 40 stunda vinnuvikan er sú viðmiðun sem við verðum að halda okkur að, hvort sem um er að ræða skrifstofumanninn, sjómanninn, verkamanninn eða bóndann, Það er sá grundvöllur sem allt atvinnulíf landsmanna verður að standa og falla á.

Hæstv. forsrh. sagði: Það er vissulega hreint neyðarúrræði að gripa til þessara ráðstafana, Það er alveg rétt, Það er neyðarúrræði. En þetta neyðarúrræði kemur alltaf á borðið með stuttu millibili, ár eftir ár, og skapar stóraukin vandamál og aukin vandamál í krónum talið frá ári til árs og hafa milljarðafúlgur verið fluttar á milli. Í lögunum, sem ég vitnaði til, frá apríl 1975, 1. gr. þeirra laga um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara, stendur að draga skuli úr ríkisútgjöldum um 3500 millj. kr. Ef við margföldum þessa tölu í dag með þremur, eigum við að segja að jafngildi þess í dag væru 10 milljarðar? Hvað ætlar hæstv. ríkisstj, að gera til þess að draga úr þenslunni? Hvað hefur hún gert? Jú, seðlabankaskuldin var, held ég, í kringum 3 milljarða, þegar hún tók við, en er í dag rétt um 15 milljarða. Er þetta ekki verðbólguhvetjandi? Jú, vissulega er þetta verðbólguhvetjandi og ekkert annað, svo að það er ekki alveg samræmi milli orða og efnda, það er ekki samræmi þar á milli, Mikið vantar á.

Menn hafa rakið hér og deilt um, hver verðbólgan var undanfarin ár, og menn hafa deilt um, hver verðbólgan hafi verið við fráför vinstri stjórnarinnar, Við heyrðum í ræðum manna í Nd., að talað var um 43% á miðju ári 1974 og menn nefndu jafnvel 54% á árinu. En það er ekki það sem skiptir meginmáli. Það, sem skiptir máli, er að við höfum svo mikla verðbólgu í þessu landi, að meðan hún ríkir, hvort sem hún er 8% hærri eða lægri, verður ekkert jafnvægi, því að eignatilfærslan er svo gífurleg í þjóðfélaginu að fólk unir því ekki til lengdar. Verkalýðshreyfingin gerði ekkert annað á s. l. ári en reyna að klóra í bakkann, eins og kom rækilega fram hjá síðasta ræðumanni áðan. Þetta var nauðvörn, Ég tala nú ekki um ríkisstarfsmenn sem fengu samningsrétt í fyrsta skipti og skrifuðu undir sína samninga við ríkisvaldið fyrir þremur mánuðum, Í fréttabréfi, sem ég hef hér á borðinu hjá mér, segir að þeir hafi átt að gilda frá 1. nóv. 1977 til 31. okt. 1979. Hvað hefur breyst til hins verra? Það er nú svo skrýtið með það, að bæði í sjónvarpi og útvarpi koma fram talsmenn frá sjávarútvegi. Annar segir: Ekki var gengisfellingin gerð vegna fólksins við sjávarútveginn. Hinn sagði: Gengisfellingin verður að vera miklu meiri. Þetta er ekki nóg. Við þurfum miklu meira. — Þannig er afstaða manna misjöfn eftir því í hvaða greinum menn eru. Hvað á ríkisvaldið að gera í slíku tilfelli? Á að bjarga öllum eða á að athuga rekstrarstöðu hvers einstaks fyrirtækis fyrir sig og athuga hegðun manna undanfarin 2–3 ár, hvað þeir hafa fjárfest sem eru í mestum vandræðum? Hafa þeir ekkert fjárfest eða hafa þeir fjárfest fyrir hundruð millj. án þess að nokkur minnsti möguleiki væri að fá afla til vinnslu svo að hægt væri að reka fyrirtækin. Á að bjarga þeim með eignatilfærslum á milli þeirra sem lánuðu rekstrarféð í bankana? Ég mótmæli slíku algerlega og alfarið. Eina rétta ráðið væri að reka þá forstjóra, sem hafa hagað sér umfram nokkra skynsemi. En það má aldrei gera, Það má aldrei hegna þeim sem sekir eru. Það þætti allt of gróft.

Já, hæstv. ráðh, sagði að þetta væru neyðarráðstafanir. Það var alveg rétt, sem hann sagði, að hér hafa allir flokkar átt hlut að máli s. l. 25 ár og þurft að grípa til þess þegar þeir hafa verið í ríkisstj. að gera einhverjar ráðstafanir, eins og það er orðað: fella gengi, breyta vöxtum, skerða vísitöluáhrif og þar fram eftir götunum. Enn einu sinni er þetta gert og enn einu sinni er þetta gert nú í fullu ósamræmi eða andstöðu líklega réttara sagt við afstöðu launþegasamtakanna.

Það er 3. gr. sem er mistilteinn í þessu máli núna. Það verður að mínu mati alls ekki friður, ef menn bera ekki gæfu til þess að breyta henni nokkuð í átt við það sem um hefur verið talað, þ, e. a. s, áhrif óbeinna skatta verði dvínandi í áföngum, Ekki er fráleitt að hugsa sér að menn hefðu þann þroska til að bera að slíkt yrði gert. Og ég segi það hreinskilnislega við hæstv. forsrh., að hann mundi vaxa verulega í áliti, bæði frá mínu sjónarmiði og ég veit fjölda manna í launþegahreyfingunni, ef hann beitti sér nú fyrir því og bjargaði málinu. Þá yrði ekki upphlaup á atvinnumarkaðinum á næstu vikum eða á miðri vertíð. Það er alltaf dýru verði keypt að halda sér við „prinsip“ og ekkert nema gölluð „prinsip“, en þau lifa ekki áfram og þau verða fyrr eða síðar brotin niður, nema það felist í orðum hæstv. forsrh., sem hann ýjaði að hér áðan, að áfram verði haldið og þessir flokkar muni stjórna áfram hvernig sem niðurstaða væntanlegra kosninga verður. Þá geta þeir haldið þessu til streitu. Þeir hafa það mikið fram yfir hina flokkana. Jafnvel þó að veruleg breyting yrði í atkvæðatilflutningi, þá er því miður varla hægt að hugsa sér, að 10–15 þm. dyttu af þeim, — því miður, segi ég, En beri hæstv, ríkisstj. ekki gæfu til þess að endurskoða 3. gr. og koma nokkuð til móts við launþegasamtökin, þá mun illa fara.

Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh, sagði, 3. gr. er stefnumörkun, Slík stefnumörkun er mjög hættuleg án þess að reynt sé að ná um hana a. m. k. því samkomulagi, að henni verði beitt svo að áhrif frá þessari stefnumörkun geti komið fram í dvínandi verðbólgu og jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Ef svo illa tekst til að launþegasamtökin muni alls ekki eira þessu og efna til verkfalla og knýja fram eitthvað annað, þá er verr af stað farið en heima setið.

Hæstv. forsrh, sagði, að þjóðin væri orðin þreytt á yfirboðum og alls konar hlutum. Þessi orð mín nú eru ekkert yfirboð. Þau eru vinsamleg ábending um það sem ég tel að ég hafi heyrt hinn almenna launþega í landinu segja. Margir hverjir, ég fullyrði það, eru reiðubúnir að taka á sig byrðar, jafnvel þó að þeir hafi mun lægri laun en margir aðrir í þjóðfélaginu, en þetta verður ekki gert í einni svipan, Þeir gera sér grein fyrir því, að svo æðisgengin verðbólga sem þetta frv. gengur þó út frá að verði næsta ár og óákveðið fram í tímann boðar vonleysi fyrir þá, algert vonleysi. Ríkisstarfsmenn hafa bundna samninga næstu tvö árin og geta sig ekki hreyft. Verkalýðsfélögin eiga kost á að hreyfa sig. Sjómannasamtökin eiga ekki kost á að hreyfa sig. Þetta veit kannske hæstv. ríkisstj. mætavel, en samt sem áður tekur hún áhættuna af því að það verði ýmiss konar verkföll eða einhver óróleiki og það svo alvarlegur, að efnahagslífinu og jafnvæginu standi beinn voði af. Þetta er hrokafull afstaða að mínu mati, hrokafull afstaða sem nær ekki nokkurri átt. Ég leyfi mér að vitna í orð hins ágæta og mikilhæfa leiðtoga, Ólaf Thors, en svo mælti hann í áramótaræðu sinni, — ég held þeirri síðustu, — ég vitnaði til sömu orða áðan, áður en hæstv. forsrh, kom í salinn: Þetta er allt unnið fyrir gýg, ef við heftum ekki verðbólguna. Þetta frv. heftir ekki verðbólguna og þess vegna er þetta mál unnið fyrir gýg nema breiðari samstaða sé um málið heldur en nú er í dag.

Við fáum ekki svar við því, hvað hefur gerst, sem réttlætir þetta, annað en það, að allmörg frystihús og nokkur einstök fyrirtæki víðs vegar um landið segjast vera í verulegum vandræðum. Á sama tíma getum við bent á að mörg frystihús og mörg fiskvinnslufyrirtæki á Vestfjörðum og jafnvel Norðurlandi hafa mjög góða afkomu. Ég kann ekki við að vera að draga einstök nöfn fram í þessum umr., en ég veit að hæstv. forsrh. getur gengið úr skugga um það, að sum frystihúsin hafa ágæta afkomu og borga góðan arð og uppbætur á fisk. Önnur eru í sérstökum vandræðum, en það þarf að athuga þeirra mál alveg sérstaklega. Þetta frv. og gengisfellingarfrv. leysa ekki þennan sérstaka vanda sem sum frystihús hér í nágrenni okkar eru í, þau gera það engan veginn, Það getur vel verið að rökrétt sé og eðlilegt að vinnsla hjá þessum húsum hætti fyrir fullt og allt, en þá þarf að gera ráðstafanir í viðbót til að nota þessar eignir og koma annarri starfsemi þar í gagnið. En við höfum ekki heyrt neitt um það. Það, sem við verðum vör við, er að gífurlegar fjárfúlgur eru færðar hér á milli, og við vitum ekkert hvernig það kemur fram til björgunar vissum landssvæðum. Og það sem verra er í þessu sambandi er það, að nýgerðir kjarasamningar eru eyðilagðir og raunar eru allar leikreglur brotnar í samskiptum við launþegasamtökin með svona frumvarpsflutningi, enda sagt: Hér er um stefnumörkun að ræða, — hvorki meira né minna en það.

Við munum ekki tryggja áframhaldandi rekstur út þetta ár nema eitthvað meira komi til. Það hefur komið fram, held ég hjá flestum eða öllum ræðumönnum hér. Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til að málið yrði skoðað nákvæmlega og reyndar yrðu aðrar leiðir en gengisfellingarleið einhliða. Þó að þetta frv, fylgdi eftir gengisfellingarfrv., þá er augljóst mál að mörg fyrirtæki geta ekki starfað þrátt fyrir þetta. Og ef á að herða kjörin á lánsfjármarkaði, sem líkur benda til, þá eiga sum fyrirtækin engan möguleika að halda áfram, a. m. k. hérna ú Reykjanessvæðinu. Það er sagt að útvega eigi fjármagn, a, m. k, í gegnum gengisfellingarfrv., sem nemur nokkur hundruð millj. Það verður sjálfsagt togað í það fjármagn úr öllum áttum og sérstök greiðsla, sem er 500 millj. plús í kringum 350 millj., á að fara í hagræðingarfé og til styrktar vissum fyrirtækjum. Það hrekkur auðvitað mjög skammt. Og þó að þessi fyrirtæki muni auðvitað greiða eitthvað lægri laun vegna þessara laga, sem við erum nú að ræða, þá hrekkur það ekki heldur og leysir engan vanda, því að þetta fólk, sem er í fiskvinnslunni, hefur svo lág laun, að ekki er hægt að skerða laun þess nokkuð. Það, sem mundi hjálpa, væri vaxtalækkun hjá þessum framleiðslufyrirtækjum, en vaxtabyrðin er orðin svo stór þáttur í rekstri þeirra, að óþolandi er. Það verður því að finna önnur úrræði en þau, sem frv. gengur út frá, til þess að hjálpa þessum fyrirtækjum og hjálpa framleiðslunni almennt.

Síðasti ræðumaður sagði að hér væri fyrst og fremst um heimatilbúna verðbólgu að ræða. Það er alveg rétt. Erlend aðföng hafa hækkað sáralítið og verðbólga erlendis er yfirleitt lág núna miðað við það sem var um tíma, fyrir 3–4 árum. Þess vegna ætti efnahagslíf okkar að vera í betra jafnvægi en verið hefur mörg undanfarin ár. Einnig njótum við þess nú, að verðlag á afurðum okkar er með hæsta móti, Það er aðeins skreiðin, sala á skreið, sem á í erfiðleikum. Þó kann að rætast úr nú á næstu vikum með birgðir af skreið sem eru taldar vera að verðmæti 5–6 milljarðar kr, Þetta er nú ekki hærri upphæð, en hvílir hins vegar þungt á allmörgum fyrirtækjum, sem eru stórir skreiðarframleiðendur, og engar sérstakar ráðstafanir eru boðaðar, hvorki í formi lána né aðrar, til þess að létta byrðar þessara fyrirtækja vegna þessa máls. Þvert á móti taka bankarnir nú, þótt búið sé að mótmæla því mjög kröftuglega, vexti af þessum sérstöku birgðum og íþyngja með því móti rekstrinum þrátt fyrir gengissig og þrátt fyrir það að vel sé tryggt í þessum birgðum það lánsfé sem bankarnir hafa innt af hendi. Þetta eru auðvitað forkastanleg vinnubrögð og nær ekki nokkurri átt að svona skuli vera að hlutunum staðið.

Þetta frv., ef menn bera ekki gæfu til að breyta efni 3. gr., verður því enn ein kollsteypan. Það boðar ekkert annað en ófrið og leiðindi á vinnumarkaðinum og færir okkur skör neðar, eins og ég sagði í upphafi máls míns. Hverju erum við þá bættari? Jú, við erum því bættari, að búið er að taka óbeinu skattana úr vísitölunni og áhrif óbeinna skatta hafa ekki lengur mælanleg áhrif. Þetta mun auðvitað þykja mjög gott, ef hæstv. ríkisstj, eða stuðningsflokkar hennar sitja áfram. Þá telja þeir sig vera hólpna með því að hafa nú komið löggjöf í gegn þrátt fyrir hættu á upphlaupi á vinnumarkaðinum, er þetta felur í sér. En friðvænlegt verður ekki með þessum vinnubrögðum, hvorki nú á næstu vikum né seinna, þó að kosningar gangi yfir. Þetta er það mikið stórmál, að að mínu mati er alrangt að reyna að knýja það í gegn nema að einhverju eða mestu leyti í samráði við verkalýðshreyfinguna. Sjálfsagt munu menn segja, að vonlaust sé að fá slíkt ákvæði í gegn með samþykki verkalýðshreyfingarinnar. Það kann rétt að vera. En allt annað er að fara þannig að hlutunum, að hún mótmæli, en eiri, en knýja þetta fram með ofurvaldi og í fullkominni andstöðu við þau launþegasamtök, sem maður hefur heyrt hljóðið i. Þau eru mörg sem sent hafa frá sér ályktanir í því efni.

Ýmislegt hefði mátt gera til þess að draga úr verðbólgu. Muna menn ekki eftir því, að fyrst var lagt á 12% vörugjald? Það átti að vera mjög tímabundið. Það átti að hverfa eftir fáa mánuði. Hvað varð af því? Það var 10% um tíma. Hvað varð svo af því? Það datt ekki alveg út úr fjárl. Það fór upp í 18%. Hvað á nú að gera við þessi 18%? Þau eiga að verða 16%. Svona er leikið með þetta vörugjald, sem veitir í ríkissjóð í dag í allri þessari þenslu nokkra milljarða kr., en hækkar um leið vöruverð á mörgum lífsnauðsynjum hjá almenningi. Viðbrögð almennings og verkalýðsforustunnar verða því einfaldlega þau, að gera þá kröfu í gegnum kjarasamninga, að þeir nái aftur þeim rétti sem þeir höfðu áður en slíkar æfingar voru gerðar, áður en þetta gjald var sett á. Og það er það sem verkalýðshreyfingin knúði fram s. l. ár. Hún gerði ekki annað en halda í horfinu í þeirri óðaverðbólgu sem ríkt hafði hér nokkur undanfarin ár. Hún gerði ekki annað. Það hefur margsinnis komið fram hér í umr., að ytri skilyrði eru nú hin ákjósanlegustu og því með ólíkindum að nauðsynlegt sé að grípa til þessara hörkuaðgerða sem nú er gripið til.

Ég sagði við umr. um gengisfellingarfrv., að það frv. væri til að bjarga líðandi stund. Ég segi, að þessar ráðstafanir verði að gagni aðeins lítils háttar fram yfir kosningar og ekki meir. Mér finnst það koma skýrt fram í orðum hæstv. forsrh., að hann væntir þess að hann fái tækifæri til þess að starfa áfram með Framsfl., og með þetta ákvæði í lögum yrði þá kné látíð fylgja kviði með meiri hl. áfram næstu 4 árin og í valdi þess yrðu kaupsamningar í landinu meira og minna gerðir ógildir, með því að áhrif óbeinna skatta mundu ekki á nokkurn hátt hreyfa við vísitölu. Þá mun fara að hitna í ýmsum á vinnumarkaðinum og forustumönnum launþegasamtakanna, ef þetta verður knúið fram í fullkominni andstöðu við talsmenn þessara samtaka. Ég legg á það höfuðáherslu, að reynt verði að ná einhverju samkomulagi eða a. m, k. gengið svo langt að menn talist við og finni hvað launþegasamtökin halda fast í og hvað menn treysta sér þá til að ganga í átt til þessara krafna þeirra, sem þau leggja mikla áherslu á að sé grundvallaratriði að ekki verði gengið fram hjá nema eiga á hættu óróleika á vinnumarkaðinum. Ef við tryggjum ekki lægri verðbólgu, þ. e. a. s. við drögum ekki úr áhrifum verðbólgunnar, þá rýrna allir sjóðir svo, að það kann líka að hafa áhrif á atvinnustig í landinu.

Það er grundvallaratriði að tryggja fulla atvinnu í landinu, Það er alveg rétt og er mjög mikilvægt. Allir eru sammála um það. En einnig er hægt að ganga svo langt, að mikil yfirvinna sé keypt of dýru verði á kostnað sparifjár og verðbólgu í þjóðfélagi okkar, Ég mun alltaf undirstrika það, að hófleg vinna sé farsælust. Taumlaus yfirvinna á laugardögum og sunnudögum á ekki rétt á sér að mínu mati. Hún boðar enga sérstaka gæfu fyrir heimilin og hún boðar enga sérstaka gæfu í þjóðarbúskap okkar. Að mínu mati er langfarsælast að tryggja það, að 40 stunda vinnuvika gefi sómasamlegar tekjur og góð lífskjör. Þá verður jafnvægi tryggt í okkar efnahagslífi. Það er bókstaflega forsendan fyrir því, að við höfum heilbrigt og eðlilegt efnahagslíf.

Ég vitnaði í umr. um daginn um gengisfellingarfrv, til þeirra yfirlýsinga sem frambjóðendur Sjálfstfl. gáfu fyrir síðustu kosningar. Þar var sagt í fyrsta lagi, að koma yrði rekstri atvinnuveganna á heilbrigðan grundvöll. Þetta er alltaf sagt, en það tekst ekki enn. Rétta yrði af viðskiptahalla út á við. Það á þetta frv. að gera. Það er hægt með mjög margvíslegu móti. Það er hægt með því að gera erlendu vörurnar miklun dýrari í gegnum gengisfellingu. Það er hægt með því að draga verulega úr rekstrarlánum við verslunarfyrirtæki og setja ýmiss konar aðrar hömlur á sölu á gjaldeyri.

Það var gert um tíma og eru nú aftur í gildi allstrangar reglur um leyfisvöru, þó að önnur verslun sé að nafni til frjáls. Síðan segir í 3. lið: Rjúfa verður víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags. Þetta er auðvitað hægt að gera og er nú verið að gera með þessu frv. Það, sem orsakar upphlaupið hjá launþegum, er fyrst og fremst að þetta skuli vera gert á þann hátt sem hér er verið að leggja til. Ef forsvarsmenn launþega í landinu eru gersamlega andvígir því að minnka þessi áhrif, þá vil ég að það komi greinilega fram, Ég hef skilið suma þessa menn þannig, að þeir væru til viðtals um einhverja minnkun, en það yrði að hafa aðdraganda að það yrði að vera í áföngum. Ég verð þá leiðréttur hér, ef þetta er misskilið. Ég held að þessum mönnum sé ljóst, að áhrif sumra óbeinna skatta eru ekki æskileg innan vísitölukerfisins, en þeir munu aldrei una því, að þetta verði gert með þessum hætti sem frv. gengur út frá. Svo er, held ég, að allir landsmenn hafi áhuga á að stemma stigu við frekari aukningu erlendra lána. Það mál hefur verið rætt svo mjög að ég ætla ekki að eyða orðum að því núna við 1. umr. Og svo einnig að komið verði á jafnvægi á lánamarkaðinum. Það jafnvægi mun ekki nást, ef ekki verður breytt viðurkenningu á sparifé og meðferð skulda. Verði svo ekki næst þetta jafnvægi aldrei.

Það er alveg sama hvað menn reyna í formi löggjafar. Það er slíkt grundvallaratriði að viðurkenna, að heilbrigt og eðlilegt líf í þjóðfélaginu sé fyrir hendi, að ég tel það forsendu fyrir öllu í okkar þjóðarbúskap. Það getur vel verið, að mönnum finnist erfitt að takast á við þann vanda, og það hefur sýnt sig í gegnum árin að svo reynist. Menn segja, að sumar af þessum leiðum, sem eru í skýrslu verðbólgunefndar, séu ekki færar: samdráttarleið, verðstöðvunarleið og þar fram eftir götunum, Það kann að vera, að þær séu misjafnlega léttfærar. En ég vil þó minna á það, að enn gilda í landinu lög sem eru kölluð verðstöðvunarlög. Þau eru enn í gildi, En verðbólgan þrýstir svo á, að hún sprengir þann ramma jafnan sem þessi lög voru sett til að halda saman. Þau hafa aldrei verið numin úr gildi og hæstv. ríkisstj. verður að fallast á hækkanir með vissu millibili, og það mun halda áfram, því að ekki fer á milli mála að verðbólgan verður 37–40% á næstu mánuðum þrátt fyrir að þetta frv. verði að lögum eins og það liggur nú fyrir, og þá er illa farið. Það verða mín síðustu orð við þessa umr., að við erum enn í jafnvægisleysi þrátt fyrir að þetta frv. verði keyrt í gegn.