15.02.1978
Efri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þótt ég eigi sæti í þeirri n., sem fjallar um þetta mál, þá vil ég aðeins koma að nokkrum atriðum við 1. umr. málsins.

Þetta frv., sem hér er flutt, um ráðstafanir í efnahagsmálum er beint framhald og eðlilegt framhald af þeirri efnahagsþróun sem hefur átt sér stað síðustu mánuðina, a, m. k. síðasta hálft árið, þótt það sé seint fram komið. Verðbólga hér á landi var á árunum 1950–1962 að meðaltali 9.3%, í næsta 10 ára tímabili 1963–1972, 12%. Síðan fer verðbólgan 1973 í 22%, 1974 í 43%, 1975 í 49%, en síðan koma fram nokkur batamerki, því að 1976 er verðbólgan 32% og áætluð fyrir 1977 um 31%, Hins vegar er ljóst, að verðbólguhraðinn nú síðu 3 mánuðina, þótt ekki liggi fyrir vísitala framfærslukostnaðar, er rétt innan við 55% og verðbólgan síðustu 6 mánuðina fast að 50%. Það hljóta allir að vera sammála um að ekki er hægt að horfa á þróun sem þessa án aðgerða.

Það er fyrst og fremst spurningin, hversu harkalega á að bregðast við. Það, sem hefur gerst í verðlagsmálum, er fyrst og fremst það, að það verða ákveðnir brestir, alvarlegastir í lok árs 1973 og 74, Ekki var snúist við þeim vanda þá af ástæðum sem menn þekkja, vegna þess að þáv. ríkisstj, hafði ekki þingmeirihl. til að koma slíkum ráðstöfunum fram og menn voru ekki sammála um það og þáv. stjórnarandstaða taldi sig ekki heldur bera ábyrgð á aðgerðum af því tagi eða eiga að taka þátt í þeim. Það er mín skoðun, að þetta sé skammsýni. Stjórnarandstaða og þeir, sem standa að ríkisstj, á hverjum tíma, hljóta að bera ábyrgð á efnahagsmálunum og efnahagslífinu, þótt um það megi deila endalaust, hvort það er þessum eða hinum aðilanum í þjóðfélaginu að kenna, hvort sem það eru ríkisstj., aðilar á vinnumarkaði, bankar og þeir sem stjórna fjármálum þjóðarinnar, eða hvort það er innflutningsverðlag eða útflutningsverðlag. Menn verða að læra að bregðast við þessum vanda á hverjum tíma og leggja til leiðir til lausnar þeim vanda, hvar í flokki sem menn standa.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð voru menn bjartsýnir um það, hvað það tæki langan tíma að koma verðbólgunni niður. Menn voru jafnvel þeirrar skoðunar, að hægt væri að koma henni á einu ári niður í 15%. Ég var þeirrar skoðunar strax þá, að ráðlegt væri að setja sér það mark á kjörtímabilinu að koma verðbólgunni niður í það sem eðlilegt mætti teljast miðað við helstu viðskiptalönd. Það hefur hins vegar gengið erfiðar að ná jafnvel þessu marki en á horfðist, m. a. vegna þess að versnandi viðskiptakjör komu fram á árunum 1974 og 1915. Það miðaði rétt, en það, sem fyrst og fremst fór úrskeiðis, var skuldasöfnun ríkissjóðs og í framhaldi af því mikil skuldasöfnun erlendis. Það, sem gerist á árinu 1977, var það, að þeir samningar, sem voru gerðir bæði við ríkisstarfsmenn og aðila á vinnumarkaðnum, fóru fram úr því sem aukning þjóðartekna leyfði. Um það verður ekki deilt. Hins vegar finnst mér að ekki sé nægilega mikil áhersla á það lögð í öllum samningum, hvernig hlut launþega og launamanna í þjóðartekjunum er skipt innbyrðis. Hlutur launþega í þjóðartekjum á árinu 1976 er 71.8%, hefur hæstur verið á árinu 1972 75.7%, eins og fram kemur í skýrslu verðbólgunefndar. Halda má áfram að skipta þjóðartekjunum upp, því að það er út af fyrir sig ekki mjög flókið mál. Það, sem vantar inn í þessa skiptingu, eru reiknaðar tekjur atvinnurekenda sem þurfa sín laun, fyrir utan það tap og þann hagnað sem af atvinnurekstri er, Þetta hefur verið áætlað allt að 15%. Síðan er fjármagnsliður, sem gæti verið á bilinu 7–10%, og að síðustu hagnaðarliður. Það er ósköp einfalt mál, að ef einhver af þessum liðum, við skulum segja launaliðurinn, hækkar umfram það sem þjóðartekjur leyfa, þá getur ekkert annað gerst en sú hækkun fer út í verðlagið, ef ekki er hagnaður á móti til þess að mæta þessari hækkun. En hitt er rétt að leggja á áherslu, að þetta er ekki eina atriðið í efnahagsmálum sem skiptir verulegu máli, það er langt í frá. Þar kemur margt annað til, fjárfestingarmál, ríkisfjármál og rekstur atvinnuvega og fyrirtækja í landinu. Allt þetta og margt annað skiptir miklu máli. En það er út af fyrir sig blekking ein að ætla sér að halda því fram, að launaliðurinn skipti engu máli í þessu sambandi, eins og oft vill koma fram.

Sú mynd, sem hefur í reynd blasað við alveg síðan í haust, er brostinn grundvöllur undirstöðuatvinnuvega, veruleg hætta á auknum viðskiptahalla og verðbólguþróun sem færi langt yfir það sem eðlilegt mætti teljast og í framhaldi af því atvinnuleysi. Þetta hefur að mínum dómi blasað við alveg frá því á s. l. hausti. Í framhaldi af þessu má spyrja: Hvað átti að gera? Fyrstu erfiðleikarnir, sem komu fram hér í sölum Alþ., voru fjárlagaafgreiðslan. Það hafði verið undirritaður kjarasamningur við ríkisstarfsmenn sem leiddi að mínum dómi til óraunhæfrar hækkunar hæstu launa, þar með talinna þm. sem fylgdu víst öðrum í sama flokki, og fjárlagaafgreiðslan varð af þessum sökum og mörgum öðrum mjög erfið. En þá var tekin mjög mikilvæg ákvörðun á þessu stigi málsins, sú ákvörðun að draga úr erlendum lántökum.

Það hefur verið svo, að erlendar lántökur sem hlutfall af fjármunamynduninni í landinu hafa farið mjög vaxandi og aukist mjög á s. l. árum. Þannig má t. d. greina frá því, að á árinu 1970 eru innfluttir þættir fjármunamyndunar í landinu 4 milljarðar, en þá komu engin erlend lán inn, heldur námu afborganir umfram innkomin lán 700 millj. Á árinu 1974 eru innfluttir þættir í fjármunamynduninni tæpir 20 milljarðar, en innkomin löng lán eru 8.5 milljarðar eða 43.3%. Samsvarandi tölur eru um 60% á árinu 1975, 46% 1976 og áætlun fyrir 1977 er 47%. Það er tekin sú ákvörðun, hvort sem hún stenst nú eða ekki, að taka ekki erlend lán umfram afborganir. Þetta var vissulega skref í þeim aðgerðum sem þurfti að gera.

Ég segi það hins vegar alveg hiklaust, að mjög vafasamt var í mínum huga á s. l. hausti af fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. að undirrita og ganga frá þeim samningum, sem gerðir voru við ríkisstarfsmenn, vegna þess að menn máttu vita þá, að erfitt yrði að standa við þá. Og það væri betur, að meira væri um það í okkar þjóðfélagi, að menn undirrituðu ekki samninga eða samkomulag eða gerðu í þjóðfélaginu annað en það sem menn væru nokkurn veginn vissir um að væri hægt að standa við.

Menn vissu hins vegar á s. l. hausti að þessar aðgerðir, sem þá voru gerðar varðandi erlendar lántökur, voru ekki nægilegar. Það var áfram hætta á viðskiptahalla vegna aukinnar eftirspurnar innanlands og atvinnuvegirnir voru í miklum vanda. Í framhaldi af þessu má spyrja: Hvað átti að gera og hvernig átti að leysa þann vanda sem menn stóðu frammi fyrir og var staðreynd að var fyrir hendi?

Það voru einkum tvær leiðir sem voru taldar koma til greina, og þessar leiðir koma fram í skýrslu verðbólgunefndar frá 8. febr. 1978. Fyrsta leiðin er sú að fylgja þeirri meginhugmynd, sem kemur fram í skýrslu verðbólgunefndar og lýst er sem samdráttar- og niðurfærsluleið gegn verðbólgu að afstaðinni óhjákvæmilegri gengislækkun um nálægt 10% þegar í stað, en gerðir kjarasamningar haldist óbreyttir. Þetta var önnur leiðin sem var talin koma til greina, og enginn hefur sýnt fram á að hægt væri að ráðast gegn vandanum nema eftir einhverjum slíkum leiðum sem koma fram í skýrslu verðbólgunefndar.

Hin leiðin, sem einkum þótti koma til greina, var leið sem hefur verið kölluð málamiðlunarleið gegn verðbólgu að afstaðinni um það bil 15% gengislækkun, þegar í stað samhliða nokkurri skerðingu verðbótaákvæða gildandi kjarasamninga auk hliðarráðstafana á sviði ríkisfjármála og í lánamálum. Það sem einkum skilur þessar tvær leiðir að, er að í annarri leiðinni er ekki gert ráð fyrir að fresta verðbótaákvæðum gildandi kjarasamninga, sem út af fyrir sig hefði af þessum sökum verið miklu æskilegri leið, en í hinni leiðinni er verðbótaákvæðum gildandi kjarasamninga frestað að hluta.

En hvað þýðir samdráttar- og niðurfærsluleið? Hvað hefði hún haft í för með sér og hefði hún verið aðengileg? Það, sem var gert ráð fyrir í þessari samdráttar- og niðurfærsluleið, var í fyrsta lagi að hækka tekjuskatt einstaklinga um 1700 millj. kr., auka álög á félög með skyldusparnaði um 600 millj., hækka útsvör á þegnana í þjóðfélaginu um 1900 millj., draga úr rekstrarútgjöldum ríkissjóðs um 1 milljarð, draga úr framkvæmdum samkv. A-hluta fjárl. um 2 milljarða, lækka lánsfjáráætlun, sem þó var búið að lækka mjög mikið við afgreiðslu fjárl., um 3 milljarða og gefa út spariskírteini ríkissjóðs að upphæð 1500 millj. kr. Þetta er samtals fjáröflun eða niðurskurður sem nemur 11.7 milljörðum eða sömu upphæð og kemur fram í svokallaðri verðlækkunarleið í áliti fulltrúa ASÍ, BSRB og fulltrúa þriggja flokka í verðbólgunefnd. Það, sem átti að gerast á móti, var að lækka vörugjald um 3.4 milljarða, auka niðurgreiðslur um 1 milljarð og þar með að bæta stöðu ríkissjóðs um 7.3 milljarða kr. Miðað við það að framkvæma þá leiðréttingu, sem óhjákvæmilega var í sambandi við ríkissjóð, 2.1 milljarð, þá er um bætta stöðu upp á 5.2 milljarða kr. að ræða. Auk þess var gert ráð fyrir því að hækka vexti og breyta genginu um 10%.

Hver hefði svo orðið afleiðing þessara aðgerða, svo harkalegar sem þær eru, ef þessi leið hefði verið farin? Það kemur mjög skýrt fram í nál. verðbólgunefndar á bls. 112, og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það hér upp:

„Annað dæmið mætti nefna samdráttarleið, þar sem fyrst og fremst er beitt hefðbundnum fjármála- og peningamálaráðstöfunum. Árangurinn við að lækka verðbólgu á árinu 1978 yrði næsta lítill,“ — eða eins og fram kemur annars staðar, verðbólgan færi í um 33%, — „en hins vegar kynni þessi leið að koma á betra jafnvægi milli heildarframboðs og eftirspurnar í hagkerfinu þegar fram í sækti og leggja þar með grunn að hjöðnun verðbólgu. Væri þessi leið farin kæmi að líkindum ekki til beins ágreinings við launþegasamtökin, þar sem ekki væri reynt að fá fram breytingar á kjarasamningum. Á hinn bóginn mætti búast við því, að atvinnuástand breyttist til hins verra á árinu og rekstrargrundvöllur undirstöðugreina yrði afar ótraustur, þannig að til stöðvunar veikustu fyrirtækjanna hlyti að koma og þar með væri hagur launþega og annarra skertur með einkar ójöfnum hætti. Samkv, meginstefnu þessarar leiðar yrði ekki úr þessu bætt með ívilnandi ráðstöfunum. Í þessu dæmi þyrfti þó að gera ráð fyrir að til kasta ríkisins kynni að koma til þess að styrkja sjávarútveginn með fé úr Verðjöfnunarsjóði, en í því felst veruleg fjárhagsleg veila og um leið mismunun milli atvinnugreina, sem tvímælalaust er óæskileg og skaðleg til lengdar. Af tölum um afkomu í yfirlitinu hér að framan sést glöggt, að afkoma sjávarútvegsins er algjörlega óviðunandi í þessu dæmi eins og í hinu fyrsta,“ — þ. e. a. s. óbreytt ástand, — „ef stuðningur við fiskvinnsluna yrði ekki aukinn verulega. Til þess þyrfti annað tveggja, að skattleggja frekar til þess að styrkja útflutningsframleiðsluna eða feila gengið nokkru meira en um 10% þegar í upphafi ársins. En það kostar hins vegar enn kaupmáttarfórn og frekari hækkun verðlags. Niðurstaða þessa dæmis er því ekki í jafnvægi. Hins vegar er ekki annað í samræmi við kjarnann í þessari tilraun en að skammta sjávarútveginum naum kjör. En svona öflugt aðhald stæðust fá fyrirtæki.“

Þetta er lýsing á þessari leið, sem kölluð hefur verið samdráttar- og niðurfærsluleið. Og í beinu framhaldi af því, þar sem ljóst er að þessi leið, eins og henni er lýst þarna, hefði ekki leyst þennan vanda, koma fulltrúar stjórnarandstöðunnar og hafa gert mikið úr þeirri leið sem þeir hafa kallað verðlækkunarleið. Sennilega leið, sem þeir hafa fyrst og fremst kokkað saman hv. þm. Lúðvík Jósepsson og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason. Ég vil leyfa mér að nefna þessa leið allt öðru nafni. Ég vil hreinlega leyfa mér að nefna hana blekkingarleið, því að hér kemur lítið annað fram en hreinar blekkingar.

Það er sagt að þessi leið muni gagna í þeim vanda sem við eigum við að stríða. Í því sambandi vil ég vísa á þá samdráttarleið, sem ég hef lýst.

Það hefur ekki verið hrakið að þessi harkalega samdráttarleið, sem gerði ráð fyrir verulega bættri stöðu ríkissjóðs, hefði ekki nægt í þessum vanda. En samt er hér komið fram með leið sem gerir ekki ráð fyrir neinum bata á stöðu ríkissjóðs. Það á að veifa því, sem inn kemur út aftur. Á því sést best hvað langt frá samdráttarleiðinni þessi svokallaða verðlækkunarleið er. Þar að auki er tekjuöflun samkv. þessari leið einkar óljós, sérstaklega er hér í 2, lið sett fram veltugjald á sama skattstofn og aðstöðugjald, og hv. þm. Ragnar Arnalds lýsti því nokkuð við umr. áðan, hvernig þessi skattlagning er hugsuð. Mér skildist að hún væri hugsuð þannig, að undanþiggja ætti landbúnað, þótt það það komi ekki fram, það ætti að undanþiggja sjávarútveg og það ætti að undanþiggja iðnað, og það sem eftir stendur er þá verslun, viðskipti og þjónustustarfsemi. Það er út af fyrir sig hægt að leggja slíkt gjald á þessa aðila. En hefur einhver trú á því að slík skattlagning mundi í engu tilfelli fara út í verðlagið? Hafa menn slíka ofurtrú á verðlagseftirliti hér á landi og verðlagningu á þjónustu, að það mundu ekki einhverjir koma þessu út í verðlagið? Þá er ég hræddur um að árangurinn yrði ekki eins mikill. Ég er a. m. k. ekki svo hjartsýnn á það, að hægt væri að hafa svo strangt verðlagseftirlit. Þar að auki er þessi skattstofn fráleitur. Það var tekin sú stefna í tíð svokallaðrar viðreisnarstjórnar að afnema aðstöðugjaldið og síðan haldíð áfram á sömu braut í tíð vinstri stjórnarinnar og átti að afnema aðstöðugjaldið smátt og smátt. Ég man ekki betur en hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason væri einn aðaltalsmaður þess á sínum tíma, hversu fráleitur skattstofn aðstöðugjaldið væri. Sem dæmi get ég nefnt að aðstöðugjaldið kom á tímabili í veg fyrir að bókhald gæti þróast hér með eðlilegum hætti, vegna þess að menn voru alltaf að reyna að auka umboðsviðskipti, segja sem svo: Við kaupum ekki inn vöruna. Við erum bara með hana í umboðssölu. — Kannske var ósköp eðlilegt að menn gerðu þetta þegar um vöru var að ræða sem var með mjög lága álagningu. Þá vildu menn ekki versla með þessa vöru á annan hátt en vera með hana í umboðsviðskiptum. Þá eru það ekki innkaupin á vörunni sem eru skattstofn, heldur kostnaðurinn á móti umboðslaununum. Þessi veltuskattur kemur svo misjafnlega við, að það er ekkert annað en hrein uppgjöf í sambandi við breytingar á skattkerfinu að taka hann upp í stórum stíl. En undir það skal ég taka, að það hefur gengið seint og illa og ekki verið staðið nægilega vel að því að breyta skattkerfinu.

Síðan kemur hér fram, að það á að lækka útflutningsbætur og þá auka niðurgreiðslur stórlega og þar með borga niður vísitöluna. Einnig er lagt til að lækka rekstrargjöld ríkisins um 1500 millj. Það má vel vera að hægt sé að lækka rekstrargjöld ríkisins. Hins vegar man ég ekki betur en gert sé ráð fyrir því að vinna að ýmsu slíku samkv. þeim fjárl. sem þegar hafa verið samþykkt, og ekki eru allir bjartsýnir á það, að takast muni að spara t. d. þau laun sem þar var gert ráð fyrir að spara, mig minnir að það hafi verið nálægt 1700 millj., — þannig að menn hafa að ýmsu þar að keppa þótt nýjum tölum verði ekki bætt við.

Ég vildi aðeins fara yfir þetta dæmi, þótt það muni e. t. v. gefast tækifæri til þess að ræða það betur siðar, til þess að menn sjái hversu fráleitt það er, að þessi leið geti hjálpað eitthvað í þeim vanda sem við nú erum i. Menn sjá það best með því að fara yfir samdráttarleiðina, sem kemur fram í áliti verðbólgunefndar, og þann árangur, sem menn væntu af þeirri leið, og bera svo þessa leið saman við hana til þess að sjá hversu fráleitt það er.

Til lengri tíma er ljóst að þessar aðgerðir, sem nú eru fyrirhugaðar, munu ekki leysa vandann til lengdar. Að mínu mati er þetta fyrst og fremst spurningin um það, hvort menn almennt eru tilbúnir til þess að takast á við verðbólguna og þá ekki menn í einum stjórnmálaflokki, heldur í öllum stjórnmálaflokkum og allur almenningur í landinu. Við okkur blasir ákveðin mynd í þjóðfélaginu. Við okkur blasir sú mynd, að verðbólgan hefur haft stórkostleg áhrif á eignatilfærslu í landinu og efnahagslegt misrétti hefur stóraukist. Launamisræmið hefur einnig aukist. Þrátt fyrir tilraunir til jafnlaunastefnu er það staðreynd, að hlutfallshækkanir hafa komið jafnt á há laun sem lág, hvort sem mönnum hefur líkað betur eða verr. Verðbólgan hefur haft mjög mikil áhrif á arðsemi fjárfestingar, þannig að fjármagni er oft sóað án íhugunar, sem hefur leitt af sér minni framleiðni og minni þjóðartekjur. Áhugi til sparnaðar í þjóðfélaginu er í lágmarki, en þessi sparnaður er undirstaða allrar uppbyggingar í þjóðfélaginu, og þar að auki hefur fjárhagslegt siðgæði versnað. Menn hafa bent á ýmsar leiðir til þess að ráðast gegn þessum vanda. Um það má fara mörgum orðum og það kemur einkar skýrt fram í áliti verðbólgunefndar. Þar eru atriði eins og að lagfæra stöðu ríkissjóðs og greiða skuldir hans. Hvað þýðir það? Það þýðir það, að annaðhvort verður að draga úr ríkisútgjöldum eða leggja meiri skatt á almenning og fyrirtæki í landinu. Talað er um að efla jöfnunarsjóð í sjávarútvegi. Hvað þýðir það? Það þýðir að menn skipti ekki öllu upp þegar vel árar, en geymi það þangað til verr árar. Það er tekið fram, að bæta þurfi stjórn fjárfestingarmála og auka arðsemi fjárfestingar.

Öll þessi atriði koma við einhverja í þjóðfélaginu. Þau snerta hag og líf hins almenna borgara og þess vegna er það í mínum huga fyrst og fremst spurning, hvort menn eru í reynd tilbúnir til að hefja þessa baráttu. Það gerist ekki með því að menn byggi hér á Alþingi Íslendinga málflutning sinn á hreinum blekkingum. Menn hafa ekki, hvorki nú né oft áður, lagt fyrir sig staðreyndir efnahagsmálanna. Menn eru hér að deila um staðreyndir, Menn eru ekki hér að taka fyrst og fremst ákvarðanir út frá ákveðinni mynd og ákveðnum staðreyndum sem blasa við, heldur fer mestur hlutinn af tímanum síðustu dagana í að þjarka um það, hverjar eru staðreyndir málsins. Það verður aldrei vit í íslenskum efnahagsmálum ef menn ætla að halda áfram á þessari braut. Hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hér áðan, að sér blöskraði stundum yfirborðsmennskan og kjafthátturinn. Það er út af fyrir sig ekkert undarlegt þó að hann taki þannig til orða, en hann mætti hugleiða þau orð í öðru samhengi. Er það svo í reynd, að í umr. um þessi mál sé allt of mikið um yfirborðsmennsku? Ég held að út af fyrir sig sé mergurinn málsins að menn viðurkenni ákveðnar staðreyndir, hvort sem þar er um að kenna ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar eða ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar eða þessum aðilanum í þjóðfélaginu eða hinum aðilanum í þjóðfélaginu, og starfi út frá því af heilindum.

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni við umr. í Nd.ríkisstj. hafi ekki haft að neinu þær till. sem stærsti hluti verðbólgunefndarinnar skilaði. Hann tók þannig til orða, að þar með hefðu þeir menn, sem skrifuðu undir þetta álit, verið hafðir að fíflum. Í sjálfu sér þarf ekki annað en lesa það sem stendur í áliti okkar. Ég vil leyfa mér að vitna í það, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:

„Eins og nú er ástatt í efnahagsmálum teljum við þá meginhugmynd, sem fólgin er í málamiðlunarleiðinni, sem lýst er í fimmta dæminu nánar tiltekið dæmi í 5 b í lokagr. 3. kafla sé skárri kostur, þegar tekið er tillit til sem flestra markmiða í efnahagsmálum. Í þessu felst fyrst og fremst ábending um aðalatriði nauðsynlegra aðgerða, en ekki um framkvæmd þeirra í einstökum greinum. Í þessu efni skiptir miklu máli, að ekki sé gengið lengra í mildandi ráðstöfunum á sviði ríkisfjármála en raunverulegur grundvöllur er fyrir.“

Það, sem hefur einkum gerst, er það, að menn hafa ekki talið fært að fara í eins mikla lækkun á fjárl. og kom fram á þessu áliti og það hlýtur að hafa það í för með sér að ekki er hægt að lækka skattheimtuna eins mikið. Kemur það fram í því, að vörugjaldið verður ekki lækkað eins mikið og kom fram í þessari leið, leið 5 b. Það er sem sagt alveg ljóst, að hér var verið að reifa meginhugmynd sem þurfti að ræða nánar bæði í ríkisstj. og stjórnarflokkunum. Enginn taldi, að það yrði nákvæmlega sú niðurstaða sem menn mundu komast að í lokin, þótt við hefðum kosið það.

Ég vil aðeins að lokum og ekki hafa fleiri orð nú við 1. umr., á þessu stigi málsins a. m, k. endurtaka það. að við verðum fyrst og fremst að líta á staðreyndir þessa máls. Út af fyrir sig þýðir ekki að segja eins og hv. þm. Ragnar Arnalds áðan: Gengisfellingu hefur aldrei verið beitt af slíkri hörku og slíku tillitsleysi sem nú. — Það er og verður alltaf beint samband á milli verðbólgunnar og annarra þátta efnahagsmálanna og gengisins og það er ekki spurning um það að beita genginu af hörku eða tillitsleysi, heldur er þar fyrst og fremst spurningin sú, að ef við ráðum ekki við verðbólguna, þá hlýtur það að leiða til gengisbreytinga. Það er sú staðreynd sem menn gengu út frá við fjárlagaafgreiðsluna, Menn sáu fram á að verðbólgan varð ekki stöðvuð í einu vetfangi. Og að sjálfsögðu þurfti þá að reikna með ákveðnu gengissigi. Það eru lögmál sem koma af sjálfu sér. Það er ekki spurning um það, hvort menn vilja það eða ekki. Fyrst og fremst er spurningin sú að lúta ákveðnum lögmálum í efnahagslífinu sem menn geta ekki komist fram hjá nema upp komi einhver stétt kraftaverkamanna á sviði efnahagsmála. Og það má vel vera, að slíka menn vanti nú í sambandi við stjórn íslenskra efnahagsmála. Ef þeir eru til og geta sýnt fram á kraftaverkamöguleika sína, þá held ég að það sé mikil ástæða og full ástæða til þess fyrir alla hina, sem eru að bjástra við þetta, að víkja nú þegar fyrir þeim.