15.02.1978
Efri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð við 1. umr. um þetta frv, um ráðstafanir í efnahagsmálum.

Umr. hafa aðallega snúist um, af eðlilegum ástæðum, þrjár fyrstu gr. frv. Menn hafa kveðið mjög sterkt að orði um þá aðför, sem þeir telja að nú sé gerð að launþegasamtökum í landinu. Ég held að hv. 5. þm. Norðurl. v. hafi kallað þetta grófustu árás, sem BSRB og ASÍ hafi orðið fyrir. Ekki er minni hans á forna tíma trútt, ef hann getur haldið þessu fram, því að ég held að algerlega sé ástæðulaust að tala hér eins og einsdæmi sé um að ræða eða einhverja meiri árás á lífskjör fólks en áður hafi verið gerð, bæði með hans stuðningi, mínum og annarra. Hér hefur margsinnis verið rakið, og ég nenni ekki að fara að rifja það upp, að gengisfellingar hafa verið gerðar hér æ ofan í æ án þess að nokkrar bætur kæmu fyrir — nokkrar einustu bætur — og vísitalan algerlega tekin úr sambandi. Ef það eru ekki árásir á lífskjör og samtök þessa fólks, þá skil ég ekki málið lengur, og það meiri árás en hér er um að tefla.

Hvað er það sem hér er um að ræða? Hvað er það sem í 1. gr, segir? Þar segir að grunnkaupshækkanir 1. júní og 1. sept. komi til framkvæmda samkv. samningunum. Hún segir það óbeint, hún segir það með gagnályktun. Hún segir í öðru lagi, að hálfar þær verðbætur, sem reiknað er út að eigi að bætast á laun 1. mars, 1. júní og 1. sept., eigi að koma til framkvæmda hjá öllum. Þeir, sem hafa 176 þús. kr, mánaðarlaun og þar yfir, eiga að fá hálfar verðbætur, en í 2. gr, segir svo til viðbótar að þeir, sem ekki hafa þau laun, eigi að fá meiri bætur. Og í aths. með 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Með lágmarksverðbótaákvæði í 2. gr. er svo komið í veg fyrir að skerðing verðbóta samkv. 1. gr. komi fram af fullum þunga gagnvart hinum tekjulægri í hópi launþega, sem aðallega hafa tekjur af dagvinnu einni saman.“

Þannig verður hækkun lægstu kauptaxta 1. mars, ef eingöngu er unnin dagvinna, rúmlega 8% miðað við að verðbótavísitalan hækki um 10%. Hækkun meðaldagvinnukauptaxta verkafólks verður 71/2%, hækkun allra annarra launa verður á bilinu 5–71/2% 1. mars. Hér er þá um að tefla hjá þeim lægst launuðu 2% minni verðlagsuppbót en þeir hefðu fengið, ef samningarnir hefðu að öllu leyti gilt. En til viðbótar þessu eru í II, kafla hækkaðar bætur almannatrygginga, í III. kafla er breytt lögum um tekjuskatt og eignarskatt að því er snertir svokallaðar barnabætur og í V. kafla er talað um, að tímabundið sérstakt vörugjald lækki úr 18% í 16%, sem kemur þá til uppbóta á þá skerðingu sem ég áðan nefndi. Auk þess eiga svo niðurgreiðslur á vöruverði að hækka um 1300 millj. kr. Samtals gerir þessi ráðstöfun í auknu fé úr ríkissjóði ráð fyrir kaupmáttaraukningu sem nemi rúmu stigi, ef ég man þetta rétt. Ef aldrei hefur verið gerð harkalegri árás að lífskjörum almennings en þetta, þá hefur verið farið vægilega í sakirnar áður fyrr, það verð ég að segja, enda stenst þetta engan veginn. Þetta eru þær mildustu ráðstafanir sem í langa tíð hafa verið gerðar og látnar fylgja gengisfellingu, og að nú sé tilefni til þess að blása í herlúðra, boða verkföll, jafnvel ólöglegar vinnustöðvanir, slíkt er fjarstæða og áreiðanlegt er að fólk í landinu fylgir ekki þeim mönnum sem nú æsa til slíks framferðis, það þori ég alveg að fullyrða.

Þessar ráðstafanir, þessi gengisfelling og þær hliðarráðstafanir sem henni fylgja, eru gerðar fyrst og fremst til þess að hægt sé að halda uppi fullri atvinnu. Ég hef þá trú, að fólk hér á landi almennt meti það meira að vinna fyrir sínum tekjum, að halda atvinnu og vinna fyrir sér, fremur en að ganga mánaðarlega eða vikulega á opinbera skrifstofu og sækja atvinnuleysisbætur, eins og er hlutskipti fjölmargra starfsfélaga þess í nágrannalöndum okkar og það í löndum sem eru miklu ríkari og standa á eldri merg og traustari, að maður hefði haldið, en okkar íslenska þjóðfélag með sveiflukenndum atvinnuvegum. Og að láta sér detta það í hug, að Íslendingar einir geti haldið uppi fullri atvinnu og auknum kaupmætti á sama tíma sem þróunin er eins og raun ber vitni um í næstu nágrannalöndum okkar, er bjartsýni sem ég er hræddur um að ekki fái staðist, einkum þegar þess er gætt, að aðalatvinnugrein okkar á í vök að verjast, fiskstofnarnir eru í hættu.

Það hefur verið margtekið fram hér á hv. Alþ. af mönnum úr öllum flokkum, að það yrði að fara varlega í fiskveiðar eins og nú standa sakir. Það verður að takmarka sóknina í fiskstofnana, sem auðvitað þýðir minnkandi þjóðartekjur, meðan svo er ástatt, eins og löngum um verða, að fiskveiðar eru okkar helsta tekjulind. Ég held þess vegna, að engum þurfi að koma á óvart þó að hér eins og annars staðar verði að grípa til þeirra ráðstafana sem koma illa við einhvern hluta fólks í landinu. Og þegar þannig er ástatt tel ég að réttast sé að sem flestir, já helst allir, axli sinn hluta af byrðinni og þeir mest sem bestar ástæður hafa til þess að gera það. Til þess að tryggja að ekki sé gengið of nærri þeim, sem lægst hafa launin, eru ákvæði 2. gr, sett í frv. og vonandi í lög.

Heyrst hefur, og ég get alveg viðurkennt það þó að ég hafi ekki mikla þekkingu á því hvernig slík framkvæmd á að eiga sér stað, að það sé nokkuð erfitt verkefni sem þeim er fengið sem eiga að tryggja að hinir lægra launuðu fái vísitöluuppbót upp í 8%. Ég býst við að það sé erfitt og kosti einhverja fyrirhöfn, og ég veit raunar að svo muni vera. En ég tel að það verkefni verði að vinna til þess að þeir sem þannig er ástatt um, beri ekki of mikinn hluta af byrðinni. Ég hef þá trú, að þetta sé hægt. Það hlýtur að vera hægt og það verður að vera hægt. Það verður að vera unnt að tryggja það í réttlætisþjóðfélagi, eins og við viljum búa við, að gætt sé hagsmuna þeirra sem lægra eru launaðir, þó að það kosti einhverja skriffinnsku og einhverja fyrirhöfn. Ég held að menn ættu þess vegna að spara sér stór orð af þessu tilefni. Ég er ekki viss um að þeir, sem nú efna til æsinga út af því frv., sem hér er til umr., riði feitum hesti frá því þegar til kastanna kemur og þegar fólk hefur fengið tækifæri til að átta sig á því, hvernig ástatt er í þjóðfélaginu og hvaða úrræði eru hér raunverulega á dagskrá.

Ég get alveg sagt það sem mína skoðun, og hún hefur ekkert breyst síðan farið var að fást við þessi mál, að ég tel að engin þörf sé á því að lögfesta nú ákvæði sem fjalli um vísitöluútreikninga í framtíðinni. Að mínu mati er nægur tími til þess að fjalla um það mál, og má gera það alveg jafnt fyrir því og ekkert síður þó að það verði ekki lögfest núna, að einhvern tíma í framtíðarblámanum, nánar tiltekið 1. jan. 1919, eigi að reikna vísitölu með öðru móti en gert hefur verið hingað til.

Hv. 1. landsk. þm. sagði áðan, að ríkisstj, ætti að beita sér fyrir samtölum við forustumenn launþegahreyfinganna um breytingar á þessum atriðum og ekki ætti að ráðast í þau í beinni andstöðu eða a. m. k, án samráðs eða samtala við þessa menn. Ég get nú að sumu leyti tekið undir það, að æskilegt sé að ræða þessi mál við þá. En hann verður þá og aðrir góðir menn að hjálpa til að tryggja það, að þeir standi ekki upp og stökkva út þegar farið er að tala um þessi mál, eins og þeir gerðu síðast þegar reynt var að brydda upp á því. Þegar hæstv. forsrh. minntist á þessa leið við forustumenn Alþýðusambands Íslands og formann BSRB, þá tóku þeir til fótanna og vildu ekki ræða málið. Ef sú afstaða ræður ríkjum í þeim herbúðum, þá er ekkert um að tala, þá er eftir engu að biða. Nú skilst manni, að sú afstaða sé eitthvað breytt og kannske hafa þeir séð eftir því að láta skapið hlaupa með sig í gönur. Vonandi hafa þeir gert það. En ég veit ekki hvort hv. 1. landsk. þm. getur tryggt að það hlaupi ekki í þá aftur. Vonandi er að hann geti það.

Það er áreiðanlegt og hefur verið viðurkennt í langan tíma af öllum, að vísitöluákvæði þau, sem verðlagsuppbótin er reiknuð eftir, þarfnast endurskoðunar. Þetta eru áratugagömul ákvæði. Þau eru miðuð við allt aðrar lífsvenjur og samsetningu á tilkostnaði en nú gildir. Ég veit ekki betur en allir flokkar og allra flokka menn hér á hv. Alþ. hafi lokið upp um það einum munni, að þessi ákvæði þyrftu endurskoðunar við og slík endurskoðun ætti að gerast í samvinnu og samráði milli ríkisvalds á hverjum tíma, Alþingis og aðila vinnumarkaðarins. En úr þessu hefur bara ekkert orðið. Aldrei hefur verið hægt að tala um þetta í nokkurri alvöru, vegna þess að þegar til kemur, þá vill enginn breyta neinu sem kostar eitthvað fyrir hans umbjóðendur. Sú hefur reynslan verið. Þess vegna get ég skilið það, að þeir, sem standa að þessu ákvæði í umræddu frv., hafi misst þolinmæðina, hafi misst trúna á það, að hægt sé að fá fram breytingar á vísitöluákvæðunum eftir þeirri leið. Þá getur verið til athugunar að setja fram framtíðarstefnu. En ég tel og hef alltaf talið, — það er engin stefnuhreyting hjá mér, — að ekki ætti og ekki þyrfti að blanda því saman við þær bráðabirgðaráðstafanir sem hér er verið að fjalla um. Það ætti að gefast og hlýtur að gefast tími til að íhuga þessi mál, endurskoðun vísitölunnar, á síðara stigi. Það mun enginn sannfæra mig um það, að hlutdeild óbeinna skatta í vísitölu sé það eina sem þarf að líta á. Það eru fjölmörg atriði önnur í vísitölunni sem eru röng og vitlaus. Það er t. d. mjög óeðlilegt, — það hefur verið minnst á það hér, — að ekki sé hægt að bæta aðstöðu vangefinna án þess að hækka kaup okkar, t. d. okkar alþm., í leiðinni. En það er álíka óeðlilegt að mínu mati, að í hvert skipti sem verður hér bifreiðaárekstur, þá hækka launin hjá öllum. Ég hef lent í því að fara hér inn Miklubraut heim til mín og sjá launin mín hækka svona allt að fjórum sinnum á leiðinni heim. Þetta er óeðlilegt. Og margt er svona í vísitölunni sem þarfnast endurskoðunar, ekki bara óbeinir skattar. Það getur verið fyrsta skrefið, en þau þurfa að verða miklu fleiri.

Ég held að þetta ætti ekki að vera verulegur þröskuldur í þessu máli. Auðvitað er alveg ljóst að Alþ. það, sem nú situr, setur ekki lög um alla framtíð. Það kemur dagur eftir þennan dag. Þing kemur saman eftir að við höfum lagt niður umboð og aðrir menn fara með umboð kjósenda hér á þingi. Þeir setja þau lög sem þeim finnst rétt. Þeir setja þau lög sem þeir vilja, alveg án tillits til þess, hvað við höfum ákveðið hér. Hér er því um að tefla að mínu mati fyrst og fremst stefnuyfirlýsingu þeirra manna sem að þessu ákvæði standa, og ég er ekki einn af þeim. En þeir setja fram sína stefnuyfirlýsingu og það hefur ekkert með stjórnarsamstarf í framtíðinni að gera. Ég get alveg róað hv. 1. landsk, þm. með því að segja að hér er ekki um neina yfirlýsingu frá hvorugum stjórnarflokknum að ræða um það, að hann muni halda áfram að vinna með hinum eða óska þess helst. Ég er ekki heldur að útiloka það, alls ekki. En slík ályktun stenst ekki.

Þetta frv. er auðvitað flutt í beinu framhaldi af þeirri gengisfellingu, sem átti sér stað fyrir réttri viku, og því frv. sem flutt var þá til ráðstöfunar á svokölluðum gengismun. Ég held að menn séu almennt sammála um að gengið hérna hafi verið orðið rangt, það hafi verið þörf á því og raunar óhjákvæmilegt að leiðrétta gengisskráninguna. Enginn þarf að segja mér að minni hl. verðbólgunefndar hefði ekki haft fulla uppburði, getu og hæfileika til þess að mótmæla í verðbólgunefndarálitinu gengisfellingunni, sem var gerð áður en þeir skiluðu áliti, ef þeir hefðu talið hana ranga. En það er náttúrlega ósköp þægilegt að afgreiða vanda útflutningsatvinnuveganna einfaldlega með því að segja: Við þurfum ekkert að skipta okkur af honum lengur, ríkisstj. er búin að leysa hann. — Slík tillögugerð leysir ekki mikinn vanda. Fróðlegt hefði verið að vita hvernig minni hl. verðbólgunefndar ætlaði sér að leysa vanda útflutningsatvinnuveganna, ef ríkisstj. hefði ekki verið búin að gera það. Ég held að það hefði mátt koma fram í þeirri mynd sem þeir eru að draga upp af heildarlausn efnahagsmála, sem þeir láta frá sér fara og hv. 5, þm. Austurl. lýsti rækilega áðan hversu haldlítil er þegar grannt er skoðað.

Það mátti ekki seinna vera, finnst mér, en höfundar þessarar efnahagslausnar létu þess getið svona í leiðinni, hvaða atvinnuvegir það væru og hvaða félög það væru sem ættu að bera nýja álagið, — hvað er það nú kallað, — nýja veltuskattinn, því að einn hv. þm., sem ekki er nú hér staddur kemst að þeirri niðurstöðu og misreiknar sig kannske eitthvað, — látum það nú vera, — en kemst þó að þeirri niðurstöðu, að það eigi að leysa vanda landbúnaðarins, — hann tekur það sem dæmi, — með sköttum á landbúnaðinn, þá kemur höfundur leiðarinnar og upplýsir okkur um það, að þessi skattur hefði alls ekki átt að lenda á landbúnaðinum, hann hefði átt að lenda einhvers staðar allt annars staðar. Hann átti ekki heldur að lenda á fiskvinnslunni, ekki á útgerðinni og ekki á iðnaðinum. Hann átti ekki að lenda á höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, einhvers staðar, nánar tiltekið á verslun og þjónustu. (Gripið fram í.) Það er náttúrlega höfuðatvinnuvegur þeirra, sem vinna við hann, það er öruggt mál. En hvernig sem það nú er, þá er mjög gott að fá nánari skýringar á því, hvernig þessi nýja „patentlausn“ á að verka, svo að menn geti gert sér grein fyrir hagkvæmni hennar í einstökum atriðum. En mér finnst að hv. 5. þm. Austurl. hafi, þar til hv. 5. þm. Norðurl. v. er þá búinn að tala aftur og sannfæra mig um annað, sýnt fram á að þessi leið sé harla léttvæg.

Ég held að menn ættu að spara sér æsingar í tilefni af þessu frv. Það er ekki svo háskalegt, þetta frv. Það er ekki eins harkalegt og hv. stjórnarandstæðingar hafa viljað vera láta. Og af því að ég sé nú, að hv. 1, landsk. þm. er kominn aftur, þá ætla ég að segja það sem mér datt í hug áðan, að nú sé ég það í ályktun Alþfl., að sá flokkur heitir verkalýðshreyfingunni öllum sínum stuðningi í framtíðinni við að halda við kjörum alþýðunnar. Ja, mikið held ég að menn megi hlakka til, þeir sem eiga í vök að verjast, þegar hinir nýju verkalýðsleiðtogar Alþfl, eru komnir á Alþ., Kjartan Jóhannsson, Vilmundur Gylfason, Eiður Guðnason og Bjarni Guðnason, fyrir utan þá Sighvat Björgvinsson og Benedikt Gröndal sem væntanlega verða hér áfram. Það verður ekki lítið sem vænkast hagur strympu, þegar þessir menn fara að berjast fyrir og gæta hagsmuna alþýðunnar hér á hv. Alþ. og þeir eru farnir héðan sem hafa þó reynt að klóra í bakkann, eins og hv. 1. landsk, þm. og hv. 4. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson. Ég get ekki óskað launafólki til hamingju með þau skipti og mun ekki gera fyrr en þá ég reyni það.

Það hefur ýmislegt verið rætt hér, sem gaman væri kannske og ástæða til að fjalla um, en ég ætla ekki að tefja þessa umr, verulega og alls ekki að fara að stofna til neinna deilna um þetta mál frekar en þegar er orðið. En það var margt mjög gott í því sem hv. 1. landsk. þm. sagði áðan. Ég held t. d. að það sé mjög þörf ábending, sem kom fram hjá honum, að ekki þýðir að alhæfa rekstur fyrirtækja og allra síst í sjávarútvegi. Ég hef þá trú, að skoða þurfi rekstur hvers fyrirtækis nokkuð fyrir sig og það sé algerlega borin von að öll þau fyrirtæki, sem nú eru starfandi í t. d. sjávarútvegi, geti haldið áfram, þjóðhagslega hagkvæmt sé að þau haldi öll áfram. Hann talaði líka mjög mikið um sparifjáreigendur og bar hag þeirra fyrir brjósti. Það geri ég rannar líka. Og hann talaði um, að verðtryggja ætti öll útlán. Ja, verðtrygging fjárskuldbindinga er gamalt mál. Ég man ekki nákvæmlega hvenær voru samþykkt á Alþ. lög um það efni, en það var eftir að ég kom hingað. Ætli það séu ekki ein 12–13 ár síðan. (Gripið fram í.) Já, 1965 eða 1966 held ég að það hafi verið. Og þau voru samþ. hér með yfirgnæfandi meiri hl. Ég held að allir hafi verið með því. En það hefur ekki gengið rétt vel að koma þessum lögum í framkvæmd, og það er ekki af því að viðskrh. hafi allir haft andúð á þessum lögum, eða ríkisstj. Þessi lög voru sett í tíð svokallaðrar viðreisnarstjórnar undir forustu þáv. bankamálaráðh. Gylfa Þ. Gíslasonar, og þá gerðist nú ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur í mörg ár. Svo var þó byrjað að þoka sér í áttina til þess að verðtryggja fjárskuldbindingar og hefur farið vaxandi, það er alveg rétt, og vonandi er hægt að halda áfram á þeirri braut.

En svo kemur bara hin hliðin á þessu máli, þessi leiðinlega hlið sem hv. 1. landsk, þm. líka vék að, nefnilega sú, að vextirnir eru mjög dýrir fyrir framleiðslufyrirtækin. Hann vék að því líka og sagði þá, þegar hann var kominn í þann þátt ræðunnar, að vextirnir væru of háir, þeir væru of þungbærir í hlutfalli við nágrannalöndin. (Gripið fram í.) Já, já, hann hefur vafalaust bætt því við. En hér eru bara tvær hliðar á sama vandamálinu. Annars vegar er að tryggja spari­ fjáreigendum réttmæta hækkun eigna sinna og hins vegar að halda tilkostnaðinum niðri. Þetta hefur mönnum gengið ákaflega illa að samræma og ég hygg, að svo verði nokkuð lengi. Og verðtrygging skuldbindinga er ekkert ódýrari fyrir atvinnureksturinn en vextir. Hún er alveg nákvæmlega sama eðlis. Eina leiðin út úr þessu er nefnilega sú að ráðast á verðbólguna og fjarlægja hana, og þó að mönnum þyki skrefið smátt er það einmitt það sem þetta frv. er liður í að gera.

Það segir í aths., hvaða áhrif þetta hefur á verðbólguna. Ég ætla ekki að fara að þreyta ykkur á því að lesa það upp, það stendur þarna, við höfum allir séð það, Þetta verkar til þess að lækka verðbólguna, og það er það sem þarf að gera, og þó að þetta sé smátt skref, þá er það þó í rétta átt og að mínu mati er ábyrgðarhluti að leggjast gegn því og stofna til æsinga í tilefni af þessu.

Ég held að fólk í þessu landi geti haft ágæt lífskjör þó að þetta frv. verði lögfest. Það seinkar batanum, það er vissulega alveg rétt. Samningarnir hljóða upp á ríflegri lífskjör. En kaupmáttur launanna er það, sem máli skiptir. Með því að halda honum í horfinu og auka jafnvel heldur við hann með því að lækka verðbólguna, með því að minnka viðskiptahallann, með því að laga ríkisfjármálin er verið að stefna á rétta leið. Ég held að menn gerðu réttast í því að viðurkenna það og standa að þeim ráðstöfunum sem í þessa átt miða. Það verða nefnilega litlar rauntekjur hjá fólki, af því að rauntekjur voru hér ræddar áðan, — það verða litlar rauntekjur þess fólks sem missir atvinnuna vegna þess að framleiðslufyrirtækin geta ekki starfað. Þær verða litlar, og þá spái ég að hugtakið rauntekjur fari aftur að skipta máli, þegar þær eru of litlar, þegar fólk hefur ekki lengur til hnífs eða skeiðar, þegar fólk þarf að ganga vikulega í opinbera skrifstofu og sækja sinn framfærslueyri. Það á ekki við Íslendinga. Ég þori að fullyrða það.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. landsk, þm., að ekki ætti að þurfa að vinna á laugardögum og sunnudögum til þess að hafa nægan framfærslueyri. En ég er nú ekki viss um að vinnan á laugardögum og sunnudögum sé aðallega vegna þess að fólk geti ekki lifað af því sem það fær aðra daga. Ég hef staðið í þeirri meiningu, að stór hluti a. m, k, af helgarvinnunni, væri vegna þess, að verið væri að bjarga verðmætum sem gætu ekki beðið til mánudags, sem gætu ekki beðið eftir því að 40 stunda vinnuvikan byrjaði, heldur yrði að forða frá skemmdum með því að vinna um helgar, þó leiðinlegt sé.

Menn hafa sagt hér, að ástæða til þess að nú færu menn að ræðast við, aðilar vinnumarkaðar, stjórnmálaflokkar, embættismenn, sérfræðingar, þessir menn ættu allir að ræðast við. Þetta er alveg hárrétt. En hvað hefur verið að gerast hér undanfarið rúmt ár? Hafa ekki einmitt þessir menn verið að ræðast við? Hefur ekki verðbólgunefndin starfað síðan seint á árinu 1976? Mig minnir það. Ég er hérna með plaggið. Hún var skipuð 21. okt. 1976, hún skilaði áliti 8. febr. 1978. Þennan tíma hafa einmitt þessir aðilar verið að ræð ast við og árangurinn liggur hér fyrir. Það er verið að fara núna leið sem bent er á í þessum plöggum. Að vísu ekki eina einstaka leið í öllum atriðum, en það er tekið út úr sem þykir vænlegast til að koma rekstrargrundvelli atvinnuveganna í viðunandi horf. Ég hef ekki trú á því, að fólk hér fremur en annars staðar neiti staðreyndum. Ég held að fólk almennt viðurkenni það hér á landi, þegar það skoðar málið, að tæpast er hægt að vænta þess að Íslendingar einir geti haldið áfram að sigla hraðbyri til vaxandi velmegunar á sama tíma sem allar nágrannaþjóðir okkar ýmist búa við stórfellt atvinnuleysi eða skertan kaupmátt vinnulauna. Það verður nefnilega, eins og hv. 5. þm. Austurl. sagði réttilega í 1ok ræðu sinnar áðan, að viðurkenna staðreyndir.