15.02.1978
Efri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef ekki í hyggju að flytja hér langt mál, vegna þess að ég held að eðlilegast sé að ljúka þessari umr. nú og geyma sér frekari umr. til morguns, enda er nú kominn matartími og því eðlilegt að láta staðar numið. Ég get þó ekki látið hjá líða að svara nokkrum atriðum sem fram komu í máli seinasta ræðumanns, hæstv. utanrrh., og tel að eðlilegt sé, að þau atriði komi fram strax.

Það var í fyrsta lagi að hann vék að ummælum mínum um svonefndan veltuskatt, sem er eitt af því sem stjórnarandstaðan hefur gert till. um. Hann vildi orða það svo, að það hlyti að vera eitthvað lítið eftir þegar búið væri að undanþiggja allar helstu atvinnugreinar landsmanna. Ég vil strax taka fram, að ég tel að þeir aðilar, sem stóðu að þessum tillöguflutningi, hafi gengið út frá því sem gefnu, að landbúnaður yrði þarna ekki meðtalinn, einfaldlega af þeirri ástæðu, að það er ekki lagt aðstöðugjald á landbúnað nema að takmörkuðu leyti núna. Það er ekki gert nema kannske í öðru hvoru sveitarfélagi eða svo og því væri afskaplega óeðlilegt, ef fylgja ætti þessari reglu strangt, að miða við aðstöðugjaldsstofninn, að fara að leggja skattgjald á landbúnaðinn í sumum sveitarfélögum, en öðrum ekki. Á því er ekki nema ein lausn, og hún er sú að undanþiggja landbúnaðinn. Við Alþb.-menn höfum þar að auki rætt það í okkar hóp og látið það koma fram, að við teldum eðlilegast, að fyrir utan landbúnaðinn væru einnig útflutningsatvinnuvegirnir undanþegnir þess um skatti. Ég vil upplýsa það hér, svo að það fari ekki milli mála, að af 426 milljarða veltu á árinu 1976 var velta sjávarútvegsins aðeins 81 milljarður og landbúnaðarins 20 milljarðar, samanlagt 101 milljarður, þ. e. a. s. innan við fjórðung af heildarveltu í landinu. Þar að auki bætist það við, eins og ég nefndi áðan, að landbúnaðurinn er ekki með aðstöðugjald nema að takmörkuðu leyti og í öðru lagi er sjávarútvegur almennt með mjög lága aðstöðugjaldsprósentu, þannig að t. d. hér í Reykjavík er prósentan aðeins 0.2% og víðast hvar annars staðar á landinu aðeins 0.33%. Þess vegna er það svo, að jafnvel þótt hvort tveggja sé undanþegið, í fyrsta lagi allur landbúnaður og í öðru lagi allir útflutningsatvinnuvegirnir, þá er auðvelt að sýna fram á að þessi veltuskattur þyrfti ekki að vera nema liðlega 1% að meðaltali til þess að skila þeirri upphæð sem hér er tilgreind, 4300 millj.

Á þessu byggist þessi tillaga. Hún er fullkomlega raunhæf. Það, sem yrði þá skattlagt, væri þjónusta, samgöngur, innlendur iðnaður, verslun og byggingarstarfsemi. Það væri þetta sem væri skattlagt með veltuskattinum. Þá á ég við iðnað fyrir innlendan markað. Það er iðnaður fyrir innlendan markað, verslun, byggingarstarfsemi, samgöngur og þjónusta. Samanlagt gerir þetta yfirgnæfandi meiri hluta skattstofnsins, sennilega yfir 80%, og þar sem skattur hefur verið lágur á því, sem er undanskilið, munar ekki mikið um þó að þessum atvinnugreinum sé sleppt. Þetta er skýringin á því, að þetta er framkvæmanlegt og skilar þessum tekjupósti sem nefndur var í tillögunni.

Ég ætla að geyma mér að ræða um 2. gr. frv., sem hæstv. ráðh. gerði hér talsvert að umtalsefni, þar sem gert er ráð fyrir að lægstu tekjur fái tiltekna vísitöluuppbót. Það var greinilegt að hæstv. ráðh. gerði mikið úr þessu atriði og taldi að hagsmunum lágtekjumanna væri sérstaklega borgið með þessu ákvæði. Þetta er að vísu mjög flókið mál, en ég vil fullvissa hæstv. utanrrh. um það, að þarna er á ferðinni sýnd veiði, en ekki gefin. Við skulum í fyrsta lagi hafa það í huga, að þessi uppbót er ekki bara miðuð við dagvinnuna, heldur dagvinnu, yfirvinnu og ákvæðisvinnu, og þetta atriði, að ekki er einungis miðað við dagvinnuna, heldur við yfirvinnu einnig, skiptir auðvitað stóru máli í þessu sambandi, enda held ég að Eðvarð Sigurðsson hafi gert þessu ágæt skil í Nd. Ég ætla að afla mér frekari upplýsinga um þetta atriði í nefndarstörfum í fyrramálið og sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. En bæði það atriði, að miðað er við yfirvinnu, og í öðru lagi, að þetta er föst krónutala, sem rýrnar þar af leiðandi að gildi verulega á næstu mánuðum, og eins hitt, að auðvitað á kjaraskerðingin sér ekki stað í einni svipan, heldur gengur hún yfir á löngu tímabili, allt gerir þetta það að verkum að þetta ákvæði hefur mjög takmarkað gildi fyrir lægst launuðu hópana, því að þeir eru fljótlega vaxnir upp úr þessu ákvæði, ef svo mætti segja, í launum vegna verðbólgunnar í landinu og vegna verðþróunarinnar.

Hæstv. ráðh. nefndi áðan, að það væri undrunarefni að ég gæti tekið svo til orða að hér væri um eina grófustu árás á samningsfrelsi verkalýðsfélaganna að ræða sem við hefðum fengið að sjá, Hann vildi halda því fram, að við, þ, e. a. s. ég og hæstv. ráðh., hefðum staðið að einhverjum slíkum árásum einhvern tíma áður fyrr. Þetta kannast ég ekki við. Ég er ansi hræddur um að hann mikli talsvert fyrir sér það sem við stóðum að á sínum tíma, þegar við áttum samstarf. Ég minni á að þegar gengið var fellt í árslok 1972 fylgdi því ekki skerðing á kaupgjaldsvísitölu. Menn fengu bætur fyrir þá skerðingu sem fólst í gengislækkuninni. Eins er auðvelt að sýna fram á það, að sú ráðstöfun, sem framkvæmd var í tíð vinstri stjórnarinnar í lok maímánaðar 1974, fól ekki í sér kjaraskerðingu fyrir lægst launaða fólkið. Þetta er margrætt mál og er kannske ástæðulaust að fara að orðlengja um það hér, en þetta mætti auðveldlega sýna fram á tölfræðilega séð, Þarna var um það að ræða, að kaupgjaldsvísitalan átti að hækka um 15.5 stig og þessari hækkun var frestað. Rétt er að undirstrika það hér, vegna þess að oft er farið rangt með. Vísitalan var ekki tekin úr sambandi á þann hátt, að vísítölugreiðslur væru þá afnumdar, heldur var greiðslu vísitöluuppbóta í þetta sinn frestað. Í staðinn kom, að niðurgreiðslur voru verulega auknar, sem nam 8 prósentustigum. Verðhækkun á landbúnaðarvörum, sem átti að taka þá gildi, var frestað sem nam 2.2 stigum, og sú verðhækkun, sem stafaði af launalið bóndans, kom ekki heldur fram. Var talið að það svaraði 1.8 stigum, þ. e. a. s. landbúnaðarliðirnir samanlagt 4 stigum, og síðan var tryggð verðstöðvun, sem var metin í kaupgjaldsvísitölustigum á sínum tíma 3.5 stig. Þær mótaðgerðir, sem komu til mótvægis við þessa hækkun kaupgjaldsvísitölu, sem átti þá að eiga sér stað, námu því 15.5 stigum. Það var á þeim forsendum sem við Alþb.-menn féllumst á að vísitölugreiðslum yrði frestað í þetta sinn, að það var auðvelt að sína fram á að hér væri ekki um kjaraskerðingu að ræða.

Um þetta má auðvitað margt fleira segja, en kannske getur maður geymt sér til morguns að ræða það frekar. Ég kannast sem sagt ekki við það, að í tíð vinstri stjórnarinnar hafi nokkru sinni verið nokkuð það gert sem jafnast á við þá árás á kjarasamninga sem nú er verið að gera. Ég held satt að segja að jafnvel í tíð viðreisnarstjórnarinnar séu í öllu falli ekki mörg dæmi, sennilega aðeins örfá, en dæmi eru til sennilega, enda talaði ég hér aðeins um eina grófustu árás sem gerð hefur verið. Aðeins örfá dæmi munu vera til um það, að ríkisstj. hafi ráðist á gerða kjarasamninga skömmu eftir að þeir voru gerðir og án þess að unnt sé að sýna fram á að nokkuð hafi breyst frá því að kjarasamningarnir voru gerðir og þar til efnahagsaðgerðin kom til. En þetta er kannske það stóra og mikilvæga í þessu og það sem verkalýðssamtökunum þykir hvað svívirðilegast, að frá því að samningarnir voru gerðir í sumar og frá því að ríkisstj, bauð vísitöluna, núverandi vísitölu, í samningunum við BSRB, því að það var ríkisstj. sem bauð vísitölukerfið, sem um var samið, og enginn annar, — síðan þetta gerðist hefur ekkert gerst sem réttlæti það að ríkisstj. gangi nú á bak orða sinna eða svíki gerða samninga. Ekkert hefur gerst.

Ég er alveg sannfærður um að á nefndarfundi á morgun munum við fá upplýsingar um það frá Þjóðhagsstofnun, þó að ég hafi það ekki beinlínis hér í höndunum, að ef eitthvað er hafi viðskiptakjör okkar og þjóðartekjur hækkað frekar en hitt, sem ætti að vera frekar réttlæting fyrir því að þessir samningar gætu staðist

Ég vil svo að 1okum segja það, að það gladdi mig mjög að heyra hæstv. utanrrh. lýsa því yfir að samþykkt á 3, gr. frv. væri alger óþarfi. Ég skildi hann helst þannig, að hann væri í öllu falli lítt hrifinn af samþykkt þeirrar greinar og jafnvel andvígur, hvort sem hann greiðir atkv. á móti eða ekki. En ég er honum alveg sammála um það atriði. Og satt að segja undrar mig það, úr því að svo margir mætir menn í stjórnarflokkunum hafa snúist öndverðir gegn samþykkt þessa ákvæðis nú, að þá skuli það vera keyrt fram af slíku offorsi, því að það eru einmitt vinnubrögðin í þessu sambandi sem hafa valdið hvað mestum deilum, Það er alveg rétt, að þegar átti að ræða þetta mál við nokkra forustumenn verkalýðshreyfingarinnar nú fyrir skemmstu gengu þeir út af slíkum fundi. Það var ekki vegna þess að þeir væru að lýsa því yfir, að þeir mundu ævinlega ganga út af fundi þegar þetta mál kæmi til umræðu, heldur einfaldlega vegna þess að þeim mislíkaði vinnubrögðin. Þeim er ekki sýnt þetta ákvæði fyrr en fáeinum klukkustundum áður en hæstv. forsrh. ætlar að leggja till, þessa efnis fram í þinginu. Þetta eru vinnubrögð sem mönnum mislíkar.

Hæstv, utanrrh, sagði áðan að talað væri um að gott væri að tala saman um slíka hluti. En höfum við ekki verið að tala saman um þetta í verðbólgunefndinni í heilt ár? — Það er einmitt það sem menn voru ekki að gera. Ég veit ekki til þess að breytt fyrirkomulag á vísitölugreiðslum sé neitt aðalefni þess nál., sem hér liggur fyrir, og ég er ansi hræddur um að harla lítið hafi verið rætt um þessa hlið málsins í verðbólgunefndinni. Ekki hafði ég a. m. k. spurnir af því. Og í öllu falli gerði verðbólgunefndin ekki till. um þetta atriði og þetta atriði er ekki þar að finna. Það, sem á vantaði, var einmitt það, að þetta atriði væri rætt.

Auðvitað eru allir sammála hæstv. utanrrh, um að vísitölukerfið, sem við búum við, er ekki heilög kýr sem ekki gæti komið til greina að breyta. Auðvitað er ljóst, að vísitölukerfið er á margan hátt ófullkomið. En það er þá bara að sýna fram á að eitthvert annað kerfi sé réttlátara og sanngjarnara.

Vísitölukerfið er spegilmynd af ákveðnum aðstæðum í þjóðfélaginu. Allir viðurkenna að þessi spegilmynd er ekki nákvæm og ekki að öllu leyti eðlileg. Auðvelt er að segja eins og hæstv. ráðh.: Á að hækka laun fólks í landinu vegna þess að verið er að hækka verð á áfengi? — Þetta þótti ekki nógu gott, áfengið var tekið út úr vísitölunni. Og eins var það með tóbakið. Það þótti dálitið óeðlilegt að hækka laun manna vegna þess að það væri verið að hækka verð á eiturefnum. Enn má segja: Er eðlilegt að menn séu að taka út allsherjarlaunahækkun vegna þess að olía hækkar í verði hjá erlendum olíufurstum? Þetta er alveg rétt, Þetta er ekkert sjálfsagt mál. Enn er hægt að segja: Ef ákveðið er að auka félagslega þjónustu í landinu og lagður er á skattur í því sambandi, óbeinn skattur, eiga menn þá að taka út launahækkun í því sambandi? Auðvitað er það ekki sjálfsagt og eðlilegt mál. Svona gætum við haldið áfram býsna lengi. Við gætum t. d. sagt sem svo: Er eðlilegt, ef ákveðinn skammtur af kartöflum er inni í vísitölunni og svo hækka kartöflur í verði, að þá eigi sá maður, sem hefur þrisvar sinnum verkamannalaunin, að fá sem því nemur að hann geti keypt þrefaldan kartöfluskammt?

Svona er hægt að halda endalaust áfram að brjóta vísitöluna til mergjar og finna einkennilega hluti þar, sem ekki standast rökrétta hugsun ef þeir eru skoðaðir einir út af fyrir sig. En hver er skýringin á þessu? Jú, hún er einfaldlega sú, að við notum vísitöluna sem mælikvarða á verðrýrnun krónunnar almennt. Við neyðumst til þess að mæla þessa verðrýrnun krónunnar til þess að átta okkur á því, hvort það kaup, sem verið er að greiða hverju sinni, hefur ekki rýrnað vegna þessarar verðrýrnunar krónunnar. Þá er óhjákvæmilegt, ef á annað borð er verið að hafa verðlagsvísitölu, að hafa þar inni alla þætti verðmyndunarkerfisins. Sé hins vegar farið að slíta út þetta með þessum rökum og hitt með þessum rökum, þá breytist vísítalan jafnt og þétt, þannig að hún hættir að mæla hið raunverulega verðlag í landinu, hún hættir að vera verðlagsvísitala.

Ég vil vara menn við því að vera að skoða einstaka liði í vísitölunni og slíta þá algerlega úr samhengi við það sem er raunverulegt eðli vísitölunnar, að mæla verðlagið í landinu. Þar verður allt að vera inni sem máli skiptir. Ég hef hins vegar oft velt því fyrir mér, hvort til greina gæti komið að taka óbeina skatta út úr vísitölunni. En ég verð að segja eins og margir aðrir hafa sagt á undan mér: Þá hlýtur að verða að skoða það jafnframt, hvort á ekki að taka niðurgreiðslurnar líka út, vegna þess að hvort tveggja er auðvitað meiður á sama tré. Ef ríkisstj. á að geta dembt á óbeinum sköttum án þess að það komi nokkurs staðar fram í vísitölunni og nota síðan þessa skattlagningu til þess að greiða niður vöruverð og þannig raunverulega falsa vísitöluna, þá sjá allir að slíkt getur ekki staðist. — Ég er satt að segja viss um að ef ríkisstj. stæði frammi fyrir því, hvort hún ætti að taka út bæði óbeina skatta og niðurgreiðslurnar eða hafa hvort tveggja inni í vísitölunni, og ef menn fara að meta það og vega að hvaða gagni þessir tveir þættir koma sem hagstjórnartæki, þá mundu renna á menn tvær grímur. Ég er ekki alveg viss um að þau skipti þættu hagstæð þegar nánar væri skoðað En auðvitað er mergurinn málsins sá, að þetta verður að fylgjast að. Annaðhvort verður hvort tveggja að vera inni eða hvort tveggja úti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta frv., enda verða næg tækifæri til þess á morgun.