15.02.1978
Neðri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkrar aths. við þetta frv. og taldi rétt að n. fengi tíma til þess að athuga það í a. m. k. nokkra daga. Eftir að n. gerði athugun sína á málinu tel ég að þessar aths. mínar haf'i átt fullan rétt á sér og ýmislegt komið í ljós sem ástæða var til að skoða og varpa ljósi á. Ég geri mér grein fyrir því, að það er í sjálfu sér þýðingarlítið að vera að deila um þetta mál úr því sem komið er. Alþ. hefur nú þegar samþykkt með afgreiðslu á fjárl. að heimila stjórnvöldum að festa kaup á húsnæði fyrir þessa stofnun í Kópavogi þrátt fyrir að í lögum rannsóknarlögreglu ríkisins standi, a. m. k. enn sem komið er, að aðsetur rannsóknarlögreglunnar skuli vera í Reykjavík. Ég mun því ekki vera langorður við þessa umr., en vildi aðeins skýra örlítið nánar, í hverju fyrirvari minn er fólginn, og frá þeim niðurstöðum, sem n. komst að, og þeim upplýsingum sem henni bárust varðandi þetta mál.

Annað atriðið er varðandi húsnæðið sem hér er rætt um, í Auðbrekku í Kópavogi. Ég lagði það á mig í jólahléinu að ganga á vettvang og skoða þetta húsnæði. Það er að mörgu leyti hentugt út af fyrir sig, en í ljós kemur, að það verður strax á fyrstu dögum, þegar flutt er inn í það, fullnýtt og kemur í veg fyrir að eðlileg fjölgun eigi sér stað hjá þessu embætti eins og allt útlit virðist benda til að nauðsynlegt sé á allra næstu tímum. Þar fékkst líka staðfesting á því, að eins og nú er háttað eru bílastæði takmörkuð og verður að leggja í gífurlegan kostnað til þess að bæta þar úr, en vonandi verður það gert áður en langt um líður.

Við þessa athugun n. á húsnæðinu og aðdraganda að kaupunum á því fékkst staðfest að starfsmenn rannsóknarlögreglustjóra, þ, e. a. s. rannsóknarlögreglumennirnir sjálfir að meðtöldum nokkrum löglærðum fulltrúum hjá þessu embætti, sendu dómsmrn. bréf, dags. 23. mars 1977, og þar er skýrt frá því, að starfsmennirnir hafi haldið fund út af þessu máli og komist að eftirfarandi niðurstöðu, sem ég ætla að leyfa mér að vitna hér til, með leyfi hæstv. forseta. Svo segir í þessu bréfi:

„Niðurstaðan af umræðunum“ — þ. e. a. s. á þessum fundi — „varð sú, að ályktað var samhljóða að mikið neyðarúrræði væri að vista rannsóknarlögregluna á þessum stað og nauðsynlegt væri, áður en það væri gert, að kanna til hlítar, hvort ekki væru einhverjir aðrir möguleikar fyrir hendi með húsnæði, m. a. með því að auglýsa eftir því.“

Það fékkst upplýst í allshn., að ekki hafði verið auglýst eftir húsnæði, þegar leitað var eftir því í Reykjavík á þeim tíma sem hér um ræðir. Ég verð að átelja þau vinnubrögð, því að ég vil trúa því, að slíkt húsnæði hefði verið hægt að finna hér í Reykjavík og þannig hefði rn. gert sitt besta til þess að fullnægja 1. gr. laganna um það, að aðsetur embættisins skyldi vera hér í þessu lögsagnarumdæmi. Það kom líka fram í ummælum rannsóknarlögreglustjóra, þegar hann mætti á fundi allshn., að honum hafa orðið það mikil vonbrigði, að starfsemi rannsóknarlögreglunnar skyldi ekki vera haslaður völlur í Reykjavík, og sá marga annmarka á því að setja sig niður utan Reykjavíkur. Þ. á m. hafði hann áhyggjur af samskiptum við saksóknara, við ríkisfangelsin, boðun þeirra sem lögreglan þurfti til sín að kalla, og ýmislegt fleira, sem upp var talið í því sambandi. Þess er þó skylt að geta, að eftir að ljóst varð að að því var stefnt að kaupa þetta húsnæði, þá hefur hann sætt sig við þá niðurstöðu og þetta frv. hefur verið lagt fram með fullu samþykki hans.

Ég taldi rétt að þessar upplýsingar kæmu hér fram nú, þegar n. skilar áliti sínu.

Hitt atriðið, varðandi ráðningu eða skipun vararannsóknarlögreglustjóra, er í sjálfu sér ekkert um að segja nema gott eitt. Telja má að eðlilegt sé að vararannsóknarlögreglustjóri sé skipaður, en þessi breyting nær skammt og atburðir síðustu vikna benda til þess, að hér þurfi að gera enn betur og af hálfu Alþ. og rn. þurfi að athuga vel, hvernig hægt sé að bæta kjör og starfsstöðu eða starfsheiti þeirra löglærðu fulltrúa sem við embættið vinna. Nú fyrir skömmu var upplýst, að einn af reyndustu mönnum embættisins hefði sagt upp störfum, og eru líkur til þess, að hann hafi gert það vegna óánægju með starfskjörin. Ég held að það sé mál allra, að nauðsynlegt sé að við þetta þýðingarmikla embætti starfi hæfir og gegnir embættismenn og til starfa fáist fólk sem hefur góða menntun og hæfileika til að takast á við þessi verkefni. Ef kjör hinna löglærðu fulltrúa við rannsóknarlögregluna eru ekki sambærileg við kjör í öðrum hliðstæðum störfum hjá öðrum embættum, þá er ljóst að besta fólkið sækist ekki eftir þessu starfi. Því vildi ég, um leið og ég geri ekki frekari aths. um þetta frv. úr því sem komið er beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ráðh., að þetta mál verði kannað, svo að ekki komi til þess, að rannsóknarlögregla ríkisins verði án þeirra starfskrafta, sem hún hlýtur að sækjast eftir, og að kjör þessara aðila verði a. m. k. ekki lakari en annarra sem hliðstæð störf vinna.