15.02.1978
Neðri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Frsm. (Páll Pétursson) :

Herra forseti. Það er svo einkennilegt með þetta mál, að það má ekki koma hér á dagskrá, þá spinnast um það heillangar umr. í hvert skipti og býsna margir fundartímar eru farnir í það að fjalla um þetta mál, síðan það bar hér fyrst á góma. Það er mikill dugnaður í okkur að tala um þetta mál.

Mér er ánægja að votta það með hv. 1. þm. Suðurl., að formaður n. hefur tekið þetta mál fyrir á mörgum fundum og mikill tími hefur farið í að skoða það frá upphafi. Ég hefði getað hugsað mér, að þetta mál tæki skemmri tíma, því að það liggur margt annað fyrir sem ástæða væri til að gefa sér tíma til að athuga, en hitt er rétt, alveg laukrétt hjá hv. m., að meginatriðið er að löggjöf sé vönduð þegar gengið er frá henni. Það er spurt um hvað lög séu góð, en ekki hvað gerð þeirra hafi tekið langan tíma. Þess vegna held ég, að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu, sem hér er lögð til á þessum lögum, vegna þess að þrátt fyrir að við eyddum í þetta löngum tíma í fyrra, þá sást okkur yfir atriði eða létum kyrrt liggja atriði sem var leifar frá gömlum tíma.

Eins og fram hefur komið í máli manna breyttist frv. frá því að það var lagt fram 976 og þangað til það var afgreitt sem lög frá Alþ. í veigamiklum atriðum. Í hinu upphaflega frv. hljóðaði 3. gr. svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum lögreglurannsóknir brotamála í Reykjavík, að því leyti sem þær eru ekki í höndum lögreglustjóra þar samkv. ákvæðum þessara laga eða annarra réttarreglna.“

En n. færði út þetta starfssvið, og það var að mínum dómi veigamesta breytingin sem gerð var á þessu frv. Eins og við gengum frá þessu hljóðaði 3. gr. svona:

„Rannsóknarlögregla ríkisins hefur með höndum lögreglurannsóknir brotamála í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarneskaupstað, Garðakaupstað, Hafnarfirði og Kjósarsýslu, að því leyti sem þær eru ekki í höndum lögreglustjóra þar samkv. ákvæðum þessara laga eða annarra rétta reglna. Með sama hætti skal rannsóknarlögregla ríkisins hafa með höndum rannsóknir brotamála Keflavík, Grindavík, Njarðvíkum, Gullbringusýslu og á Keflavíkurflugvelli, þegar dómsmrh. ákveður.“

Starfssvið rannsóknarlögreglunnar er sem sagt fært út frá því að takmarkast við Reykjavík að þessu leytinu, hvað varðar lögreglurannsóknir brotamála, og fært út þannig að það nær um nágrannabyggðir, og síðan er heimilað að það nái um öll Suðurnes. Þetta er veigamikið atriði í þróun málsins. Hins vegar létum við vera — og það hefur verið ágalli og frá mínum bæjardyrum séð kannske trassaskapur af okkur nm. — að breyta þeirri gr. líka til samræmis, þ. e. a. s.

1. gr., þar sem segir: „Rannsóknarlögregla ríkisins hefur aðsetur í Reykjavík og lýtur yfirstjórn dómsmrh.“ Hér er sem sagt lögð til sú breyting, sem nauðsynleg reyndist þegar átti að fara að framkvæma þessi lög, að taka ekki svo skýrt til orða að segja að þetta skyldi vera í Reykjavík, heldur í Reykjavík eða nágrenni.

Atriði eins og þetta væri kallað hreppapólitík í sveitinni. Mér er sagt af innfæddum Reykvíkingum, að það sé alls ekki sama, hvort menn hafi verið fæddir og aldir upp fyrir vestan læk eða ekki fyrir vestan læk. Þetta verkar svipað á mig að því leyti til. Ég geri ekki mikinn mun á Reykjavík eða Kópavogi í fljótu bragði, hvort staðsetning er betri þar en hér. Ég vil taka fram, og það hefur líka komið fram áður í þessum umr., að einmitt þetta svæði þarna á Kópavogshálsinum er nákvæmlega miðpunktur höfuðborgarsvæðisins. Það er svipuð vegalengd þaðan upp í Mosfellssveit, út á Seltjarnarnes og inn að Straumi. Að því leyti til er það síður en svo röksemd að mínum dómi, að rannsóknarlögreglan sé illa sett þarna. Hitt er annað mál og réttmæt ábending hjá hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, að að ýmsu leyti hefði verið eðlilegast að koma þessu fyrir undir einu þaki með lögreglunni í Reykjavík og í því húsnæði sem þar er fyrir hendi. En þetta húsnæði hefur verið notað nú um sinn til annarra hluta. Eins og menn vita er utanrrn. þar til húsa, og ef átti að rýma til, svo að rannsóknarlögreglan kæmist fyrir í þessu húsi við Hverfisgötu, þá varð utanrrn. að fara úr húsinu, því að það er upplýst af rannsóknarlögreglustjóra og starfsmönnum hans, að þeir hefðu þurft þetta húsnæði út af fyrir sig. Ekki væri hægt að vera þar í tvíbýll við utanrrn. Hæstv. menntmrh. hefur staðið í því nú um sinn að fá samastað fyrir sitt rn., og hefur það verið nokkrum örðugleikum bundið eins og menn vita. Það væri ekki fýsilegt fyrir utanrrh. að þurfa að fara að standa í svipuðum útréttingum.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að stjórn Félags rannsóknarlögreglumanna hefur sett á blað nokkur atriði, sem hún taldi að gerði óheppilegt að rannsóknarlögreglan yrði þarna staðsett. Ég hef gert að umtalsefni fyrsta atriðið í þessu bréfi þeirra, það að lögin hafi mætt svo fyrir að rannsóknarlögreglan skyldi hafa aðsetur í Reykjavík, og skýrt hvernig það er til komið. Þá benda þeir á, að gera þurfi miklar og dýrar breytingar á húsnæðinu, svo að það verði nothæft fyrir starfsemi rannsóknarlögreglunnar. Mér skildist á þessum mönnum, sem mættu á fundinn., að þeir þyrftu allmikið skrifstofurými. Ég er að vísu kannske ekki sérfræðingur í skrifstofurými, en ég hygg að starfsfólk Alþ. komi ekki til með að geta látið sig dreyma um rými á skrifstofunni svipað því sem rannsóknarlögreglumennirnir telja nauðsynlegt. Þá taka þeir fram, að umhverfi hússins sé bæði þröngt og að öllu leyti ókræsilegt. Ég vil mótmæla þessu. Ég finn ekki, að þetta sé ókræsilegt umhverfi, og treysti þeim í Kópavogi prýðilega til að bæta úr þessu atriði, þó að þarna sé e. t. v. nokkur frumbýlingsbragur á eins og stendur. Þeir vitna til bílastæða. Fyrir liggur, að til stendur að bæta úr því. Þá taka þeir fram, að margt fólk eigi erindi við rannsóknarlögregluna og virðist augljóst, að það sé meira umhendis að mæta þarna en á flestum stöðum í Reykjavík, þegar fjarlægustu úthverfi eru frátalin. Þetta vil ég ekki fallast á, því að eins og ég sagði áðan liggja þarna umferðaæðar að og ágætar samgöngur eru við þetta svæði. Hitt er svo annað mál og kannske freistandi að velta því fyrir sér, hvort þeir, sem rannsóknarlögreglan á erindi við og rannsóknarlögreglan þarf að ná tali af, eru fremur Reykvíkingar en menn hér úr nágrannabyggðum.

Hvað varðar kaup á þessu húsnæði, þá held ég að ég megi til, úr því sem komið er, að fá að lesa — með leyfi forseta — minnisatriði frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem við höfum í höndum. Þessi minnisatriði eru um kaup á húsnæði fyrir rannsóknarlögreglu ríkisins. Menn hafa nefnilega látið liggja að því hér, að slælega hafi verið unnið að því að reyna að útvega rannsóknarlögreglunni húsnæði hér í Reykjavík. Það kemur fram í þessu bréfi, að svo er alls ekki, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þegar eflir að rannsóknarlögreglustjóri ríkisins hafði verið skipaður í starf var hafist handa um leit að húsnæði, sem hentað gæti rannsóknarlögreglu ríkisins, og var þegar í upphafi lögð á það áhersla, að málinu yrði hraðað svo sem kostur væri. Í byrjun beindist, samkv. eindreginni ósk rannsóknarlögreglustjóra og dómsmrn., athyglin einkum að einu húsi, nýbyggingu Tryggingar hf. við Skaftahlíð, enda var það hús talið henta mjög vel fyrir starfsemi rannsóknarlögreglunnar og gæti auk þess hýst sakadóm og fleiri stofnanir. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins var falið að meta kostnað við innréttingu húsnæðis, jafnframt því sem hafnar vorn viðræður við fulltrúa Tryggingar hf. um hugsanlega leigu. Þær viðræður leiddu fljótt í ljós, að verulegur ágreiningur var um upphæð leigu og leiguskilmála að öðru leyti. En þar sem lögð var þung áhersla á leigutöku þessa húsnæðis var viðræðum haldið áfram allan marsmánuð. Í lok mars var úrslitakostum Tryggingar hf. hafnað sem óaðgengilegum skilmálum, enda setti fyrirtækið það skilyrði fyrir leigusölunni, að grunnleigan, kr. 425 á fermetra, yrði leiðrétt hverju sinni sem breytingar yrðu á vísitölu húsnæðiskostnaðar, þrátt fyrir lagaákvæði um verðstöðvun, að öðrum kosti kæmi útleiga húsnæðisins ekki til greina. Til samanburðar má geta þess, að um þetta leyti greiddu ríkisstofnanir almennt um 400 kr. á fermetra í leigu á mánuði fyrir fullbúið húsnæði. Aftur á móti var í húsnæði Tryggingar hf. gert ráð fyrir, að leigutaki legði í innréttingarkostnað frá 92.5 millj. kr, til 115 millj, kr., eftir því hvort leigutíminn yrði 6 eða 10 ár.

Þegar endanlega var séð að samningar mundu ekki takast um leigu á húsnæði Tryggingar hf. við Skaftahlíð, var allt kapp lagt á að finna annað húsnæði til leigu eða kaups sem fullnægði þeim skilyrðum sem rannsóknarlögregla og dómsmrn. setti. Að því máli unnu, auk starfsmanna þessara stofnana, starfsmenn fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Húsnæðismál rannsóknarlögreglunnar og samningaumleitanir við Tryggingu hf, voru mikið til umr. í dagblöðum á þessum tíma og höfðu fjöldamargir aðilar, sem áhuga höfðu á útleigu eða sölu slíks húsnæðis, samband við ofangreinda aðila. Allt það húsnæði, sem þannig fékkst vitneskja um, var skoðað. Um þessar mundir stóð einnig yfir leit að húsnæði fyrir bæjarfógetaembættið í Kópavogi, menntmrn. og Ríkisútgáfu námsbóka, þannig að full vitneskja var um framboð á húsnæði í Reykjavík og nágrenni, og af þeim sökum var ekki talið nauðsynlegt að auglýsa sérstaklega eftir húsnæði fyrir rannsóknarlögreglu ríkisins.

Af öllum þeim fjölda húsa, sem skoðuð voru, var það ótvíræð niðurstaða að húsið nr. 61 við Auðbrekku í Kópavogi fullnægði best þeim skilyrðum sem rannsóknarlögreglan og dómsmrn. settu hvað varðaði stærð, innréttingarmöguleika og staðsetningu með tilliti til umferðar. Enn fremur var kaupverð og kaupskilmálar innan þeirra marka sem fjmrn. gat fallist á.

Þegar samningur var gerður, 30. mars 1977, um kaup á þessu húsi var gengið út frá eftirfarandi kostnaðarforsendum:

1. Grunnflatarmál hússins er 470 fermetrar eða samanlagður gólfflötur 1470 fermetrar.

2. Kaupverð hússins er 115 millj. kr., 78 204 á rúmmetra, þar af útborgun, sem dreifist á eitt ár, 70 millj.

3. Lauslega áætlaður kostnaður við gerð innréttinga var 60 millj.

4. Miðað við gefnar forsendur um annars vegar 50 ára afskriftatíma húseignarinnar og 20 ára afskriftatíma innréttinga, 5% dagvöxtunarkröfu, og hins vegar forsendur um þróun leigukostnaðar og breytilegs rekstrarkostnaðar var reiknað með að jöfnuður fengist milli reiknaðrar eigin leigu og hugsaðrar leigu í leiguhúsnæði á 9–10 árum.“

Þannig hljóðuðu þessi minnisatriði sem okkur voru fengin. Því er við að bæta, að rannsóknarlögreglustjóri lýsti því yfir við n., að hann væri tiltölulega ánægður með þetta húsnæði og óskaði eftir því eindregið að frv. þetta næði fram að ganga.

Hvað varðar vararannsóknarlögreglustjóra, þá er það nú minna mál og þó. Mönnum hefur ekki orðið eins tíðrætt um það og staðsetninguna. En þetta er atriði sem kannske væri þó frá mínum bæjardyrum séð frekar ástæða til þess að velta fyrir sér en hinu. Þarna er náttúrlega um að ræða forfrömun í embætti. Það er alveg rétt hjá hv. formanni n., 11. þm. Reykv., að nauðsynlegt er fyrir þessa stofnun að hafa góðum starfskröftum á að skipa og þar af leiðandi kannske ekki ástæða til þess að færa fætur við þessu. Hins vegar er eðlilegt, að starfsmenn stofnunar eins og þessarar gefi ítarlega gaum að embættisframa sínum og afkomuhorfum. Þetta verður allt saman til þess að stofnanir eins og þessi tútna út, því að samkv. lögmáli Parkinsons fylgir það vissum reglum, hvernig undirmönnum fjölgar og starfsfólki, og ég sé ekki betur en þetta lögmál hafi sannast í mörgum ríkisstofnunum á Íslandi.