15.02.1978
Neðri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel ákaflega ánægjulegt ef allir þm. eru af vilja gerðir til þess að málið fái mjög vandaða afgreiðslu, og ég tel að þetta mál hafi fengið óvenjuvandaða afgreiðslu. Mér er kunnugt um að formaður allshn. hefur sérstaklega lagt sig eftir því að kynna sér þessi mál og m. a. skoðað mjög vendilega lóð hins nýja húss í Kópavogi og athugað mjög vel, hvernig hún væri fallin til að setja upp bílastæði og annað slíkt, skoðað þar jarðfasta steina og stór björg. Ég tel að málið hafi fengið svo vandaða athugun, að jafnvel dómskerfið sjálft mundi ekki hafa gert öllu betur, og athugunin hefur tekið fullt eins langan tíma eins og hún hefði verið framkvæmd þar. Hins vegar hefur engin ný vitneskja komið fram í málinu frá því að það var lagt hér fram fyrir jól, — engin ný vitneskja hvað mig varðar, — en mér var kunnugt þá þegar hvernig þetta mál var vaxið, taldi það mjög einfalt og liggja ljóst fyrir og það tel ég enn. Ég er heldur ekkert að efa það, að þeir þm. segi satt sem hér hafa talað og lýst miklum áhuga sínum á því að málið fái afgreiðslu eftir þessa vönduðu athugun. En hængurinn er bara sá, að meðan menn eyða miklum tíma hér í ræðustól til þess að lýsa því með mörgum og fögrum orðum, hversu áfram þeir séu um að afgreiða málið, þá gerist ekki neitt.

Hafi menn áhuga á framgangi málsins eftir þá vönduðu athugun sem það hefur hlotið, þá ættu menn að tala minna en afgreiða meira. Ég hef áhuga á því, að þetta mál fái framgang. Þess vegna mun ég ekki standa í vegi fyrir frekari afgreiðslu með málalengingum og læt ræðu minni 1okið. Ég vil skora á áhugamenn í stjórnarliðinu, sem hér hafa talað, að hætta frekara fjasi, svo að við hinir getum greitt málinu atkv.