15.02.1978
Neðri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál. Þetta frv. var upphaflega undirbúið af hinum færustu mönnum, eins og kunnugt er, og ekki skal ég lasta það, að frv, fái eðlilega meðferð og afgreiðslu hér á Alþ. Ég er mikill áhugamaður um framgang þessa máls og raunar einnig um hinar miklu umbætur sem hæstv. dómsmrh. hefur beitt sér fyrir á sviði dóms- og sakamála. Þess vegna vil ég hraða þessu máli, en þó ekki það mikið, að það fái ekki eðlilega afgreiðslu og meðferð hér á Alþingi.

Það, sem helst er nú rætt um, eru húsnæðismálin. Það er kannske áhugavert út af fyrir sig, að húsnæðismál ríkisstofnana komi öðru hvoru til umr. á Alþ. Því er haldið fram af mörgum, e. t, v. með réttu, að vegna kjósendahræðslu alþm. þori þeir ekki að byggja sómasamlega starfsaðstöðu yfir starfsemi ríkisins og ríkisstofnana. Ég skal ekki dæma um þetta, en þetta heyrir maður oft sagt. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég hef raunar áður látið í ljós, að ég er eindregið fylgjandi þeirri stefnu, að ríkið eigi húsnæði í fyrir starfsemi ríkisins í sem allra víðtækustum mæli og einnig ríkisstofnanir, Þess vegna er það í rétta stefnu að kaupa húsnæði fyrir þessa starfsemi. Sjálfsagt má deila um staðsetninguna. Það má áreiðanlega deila um hana. Það er auðvitað ekki nóg að svona starfsemi sé staðsett í Reykjavík. Hún þarf að vera staðsett á góðum stað í Reykjavík, Ég er búinn að eiga heimili í Kópavogi í yfir 20 ár og heimili mitt liggur þannig við t. d. miðbæjarsvæðinu og því svæði, sem mjög margir Reykvíkingar starfa á, að ég er miklu fljótari til starfa og á mína starfsstaði, niður í Alþ. og niður á Hlemmtorg, en margir Reykvíkingar annars staðar frá. Það eru svo greiðar samgönguleiðir úr Kópavogi til Reykjavíkur, að áreiðanlega má um það deila, hvort staðsetningin sé betri þarna eða í Reykjavík, vegna þess að það er ekki sama hvar í Reykjavík hún er. Ég held að þessi staðsetning sé miðsvæðis.

Ég get vel skilið það út af fyrir sig, að ýmsir starfsmenn, sem hafa unnið að þessum störfum í Reykjavík, vildu af ýmsum ástæðum hafa starfsaðstöðuna áfram í Reykjavík, Það get ég vel skilið. Og ég get einnig tekið undir það sjónarmið, sem kom fram hjá hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, að e, t. v. væri æskilegt að þessi starfssemi yrði til húsa í lögreglustöðinni í Reykjavík. En þannig háttar til, að þar er ekki laust húsnæði eins og sakir standa, en það kæmi fyllilega til greina síðar, ef byggt yrði yfir stjórnarráðið og utanrrn. fengi starfsaðstöðu í nýju stjórnarráðshúsi, að flytja þetta embætti í lögreglustöðina í Reykjavík. En þannig er ekki ástatt nú, að það sé mögulegt, og því mjög þýðingarmikið að þetta embætti geti tekið eðlilega til starfa sem allra fyrst, og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Allir alþm. eru sammála um, að þetta embætti þarf að geta tekið sem fyrst og greiðlegast til starfa.

Það eru ýmis sjónarmið í þessu máli, sem þarf að taka tillit til þegar ákvörðun er tekin nú. Þess vegna er ég fyrir mitt leyti fylgjandi því og hvet til þess, að málið verði nú afgreitt sem fyrst eftir mjög vandlega athugun af hálfu hv. nefndar.