15.02.1978
Neðri deild: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti, Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 8. landsk. þm. skoraði á menn að hætta að tala, tefja ekki málið og greiða atkv, Ég er alveg sammála því, að tími er til kominn að hætta að tala um þetta mál, vegna þess að það er orðið útrætt, vel undirbúið og vel upplýst. En ég held að gott sé að gera sér grein fyrir því, að það er alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh, sagði fyrir jólin, að það skipti engu máli hvort frv, yrði afgreitt fyrir jól eða núna í vetur, vegna þess að húsnæðið er ekki tilbúið. Heimildin til kaupanna og fjárveiting var veitt við afgreiðslu fjárl. og unnið verður að undirbúningi þessa máls, unnið að því að fullgera húsnæðið, alveg jafnt hvort sem þetta verður að lögum í dag eða t. d. eftir viku. En ég mæli alls ekki með því að draga afgreiðslu málsins í viku. Ég mæli með því, að það verði afgreitt nú þegar, af því að undirbúningi er lokið og segja má einnig að umr. geti verið lokið. En ég held að hv. 8, landsk, þm, hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrir jól, þegar hann lagði mesta áherslu á að afgreiða málið, að það hafði enga þýðingu fyrir málið út af fyrir sig, hvort lögin voru sett fyrir áramót eða t d. í febrúar á þessu ári. Það er aðeins þetta, sem ég sé ástæðu til að upplýsa, ef einhver annar hefur hugsað eins og hv. 8, landsk. þm. virðist hafa gert.