16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., hefur nú þegar verið svo mjög rætt á hv. Alþ., þ. á m. í útvarpsumr., og stefna stjórnmálaflokkanna komið svo skýrt fram, að ég ætla ekki að ræða þetta mál mjög náið, en nokkur orð vil ég þó um það hafa.

Það merkasta við atburðina í efnahagsmálum að undanförnu, gengislækkunina og það frv, sem hér er til umr. og felur í sér kjaraskerðingu hjá launafólki og samningsrof, er að allt þetta skuli koma til við þær ytri aðstæður sem hér ríkja og hafa ríkt um alllangt skeið. Um þau hagstæðu ytri skilyrði þarf ekki að deila. En til staðfestingar skal ég einungis tilgreina örstuttan kafla um almenna þróun efnahagsmála úr blaði Seðlabanka Íslands, Hagtölum mánaðarins, febrúarhefti 1978, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ytri skilyrði þjóðarbúsins héldu áfram að batna fram eftir árinu 1977, og raunar voru aðstæður allar mjög hagstæðar á fyrri hluta ársins. Aflabrögð voru góð og útflutningsverð hækkaði mun örar en innflutningsverð. Á árinu í heild er áætlað að viðskiptakjörin hafi batnað um 9–10% frá 1976. Áætluð aukning vergrar þjóðarframleiðslu er um 4% að raungildi samanborið við 2.4% 1976 og ÷2.1% 1975, Aukning þjóðartekna varð nokkru meiri vegna bættra viðskiptakjara, eða um 8% samanborið við 5.9% 1976 og ÷6% 1975.“

Ríkisstjórnir hafa oft lent í vanda og þurft að gripa til erfiðra ráðstafana vegna ytri áfalla, stórhækkaðs verðlags á innfluttum vörum, lækkunar afurðaverðs, sölutregðu afurða, aflabrests eða af öðrum slíkum orsökum. Engu þessu er til að dreifa nú, öðru nær. Ytri aðstæður hafa naumast nokkru sinni verið hagstæðari, hvort heldur um er að ræða heildarafla, afurðaverð eða viðskiptakjör, og ekki hefur á skort að öflugur þingmeirihl, hafi staðið að baki þeirri ríkisstj. sem átt hefur að stjórna á þessu skeiði. En samt er niðurstaðan þessi og er naumast undravert, að almenningur í landinu er mjög svo sammála um að aldrei hafi nokkurri ríkisstj. verið svo mislagðar hendur sem þeirri er nú situr.

Eitt sinn birtist í aðalmálgagni stjórnarflokks frásögn af efnahagsaðgerðum sem ríkisstj, var að framkvæma með lagasetningu á Alþ. Þessi frásögn birtist í leiðara undir fyrirsögninni „Endurreisn efnahagsmála.“ Það liggur beint við að álykta að þessi skilgreining hafi verið valin af því tilefni, að viðkomandi flokkur hafi verið að taka við stjórnartaumunum af andstæðingum sínum, sem hefðu skilið svo illa við að nú yrði þessi flokkur að ráðast að vandanum með ný úrræði og hæfi stjórnartímabil sitt með endurreisn efnahagsmála. En ónei. Þessi fyrirsögu birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum, þegar verið var að greina þjóðinni frá þeim atburðum, að hæstv. ríkisstj. hygðist nú í lok síns eigin nær fjögurra ára stjórnartímabils endurreisa efnahagsmálin sem hún hefur sjálf verið að leggja í rúst. Í einhverju mesta góðæri, sem þjóðin hefur lifað, þegar ytri aðstæður eru betri en áður hefur þekkst, verðmætasköpun meiri og afurðaverð hærra en nokkru sinni fyrr, telja stjórnarflokkarnir sjálfir, sem styðjast við atfylgi 70% þm., að þeir hafi komið efnahagsmálum þjóðarinnar í slíkt öngþveiti að þau þurfi endurreisnar við. Sú endurreisn á að felast í ákvæðum þess frv., sem hér er til umr., og þeirri gengislækkun, sem nýlega hefur verið framkvæmd. Fyrir þá gengislækkun hafði stjórnarflokkunum tekist að hækka söluverð Bandaríkjadollars um 124% á þremur og hálfu árs, og endurreisn efnahagsmálanna á m. a. að felast í því að skrá þá hækkun sem þeir voru nú enn búnir að valda, svo að heildarhækkunin nemi 158% á stjórnartímabili hæstv. ríkisstj. Þar með telur hæstv. ríkisstj. sig loks hafa leyst vandamálin endanlega.

Sífellt gengissig samhliða hækkuðu afurðaverði hefur ekki komið að notum, og hæstv. forsrh. tilkynnti því þingheimi og þjóðinni allri á hv. Alþ. hinn 8. febr, s. l. þennan boðskap, með leyfi hæstv. forseta: „Hefur því nú verið horfið að því ráði að leiðrétta þá skekkju, sem auðsjáanlega er orðin á gengisskráningunni, með því að leiðrétta gengið í einu skrefi“ Verð Bandaríkjadollars hafði nefnilega ekki hækkað nema um 124%, en með þessu eina myndarlega viðbótarskrefi er vandinn nú endanlega leystur að dómi hæstv. ráðh. Nú á að endurreisa efnahagskerfið varanlega á rústum þriggja og hálfsárs efnahagsstefnu ríkisstj., því að hæstv, forsrh. bætti við í þessari ræðu, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt er það ætlun ríkisstj, að stöðva frekara gengissig, þar sem hún telur að stöðugt gengi geti við núverandi aðstæður og í samhengi við aðrar ráðstafanir orðið til þess að draga verulega úr þeirri verðbólguþróun sem nú hefur náð, tökum í hagkerfinu.“

Í þessu felst viðurkenning á því, að fyrra gengissig og heildarhækkun Bandaríkjadollars um 124% hafi átt einhvern þátt í verðbólguþróuninni. En ráðið til að draga úr þeim áhrifum var að hækka dollar um 15% nú.

Þegar ég hlustaði á þessi orð um stöðvun frekara gengissigs, þá var eins og mér fyndist ég hefði heyrt þessa sömu rödd segja eitthvað ámóta áður, jafnvel þegar dollarinn kostaði æðimiklu minna. Ég fletti því upp ræðu hæstv. forsrh, frá 30. ágúst 1974. Hún var flutt tveimur dögum eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum og hafði fellt gengið um 17% í einu skrefi, svo að notað sé orðalag hæstv. forsrh., svo að Bandaríkjadollarinn kostaði eftir þá ráðstöfun 118.70 kr. Þá sagði hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta: „Gildi gengislækkunarinnar liggur ekki síst í því, að með henni er eytt með ákveðnum hætti óvissu um framtíðargildi íslenskrar krónu.“ Og nokkru síðar í sömu ræðu sagði hæstv, forsrh., með leyfi hæstv. forseta: „En stöðugleiki gengis íslensku krónunnar hlýtur að vera eitt meginmarkmið efnahagsstefnunnar: Þegar hæstv. forsrh. viðhafði þessi fyrirheit var verið að hækka verð hvers Bandaríkjadollars í 118.70 kr.

Þegar hæstv. forsrh, hélt nú fyrir fáum dögum sömu ræðuna um framtíðarstöðugleika gjaldmiðilsins var hann að tilkynna sölugengi dollars 254.10 kr., eða meira en tvöfalt hærra en eftir fyrstu gengislækkun hæstv. ríkisstj., þegar dollarinn var hækkaður í 118.70 kr. Og enn er látið í veðri vaka að stöðvað verði frekara gengissig, þar sem stöðugt gengi geti í samhengi við aðrar efnahagsráðstafanir dregið verulega úr verðbólguþróuninni. Ef svo er, skyldi þá ekki skipulögð gengissigs- og gengislækkunarstefna hæstv. ríkisstj, eiga ærinn þátt í þeirri verðbólguþróun sem hæstv. forsrh. segir með réttu, að hafi náð tökum á hagkerfinu?

Það er alveg rétt, sem hv. 5. þm. Austurl. sagði hér í gær, að gengisskráning ætti að vera afleiðing undangenginnar þróunar verðlagsmála og er það stundum. En á því er enginn vafi, að í stjórnartíð núv. hæstv, ríkisstj. hefur þessu oft og tíðum og oftast nær verið snúið við og ákvarðanir um gengissig og gengislækkun ráðið gangi verðlagsmála í ríkum mæli. Þetta er einn og ærinn þáttur í ófarnaðinum í efnahagsmálum sem sífellt hefur magnast, m. a, vegna víxláhrifa af þessum ráðstöfunum.

Þegar stjórnarflokkarnir líta nú yfir rústir efnahagskerfis síns eftir nær fjögurra ára stjórnartímabil, þá setja þeir árangurinn ekki í neitt samhengi við eigin ákvarðanir í gengismálum, skattamálum, verðlagsmálum, meðferð ríkisfjármála eða neinar aðrar aðgerðir sínar eða aðgerðaleysi, heldur er orsökin sú ein sem nú á að ráðast gegn með hví frv. sem hér er til afgreiðslu, þ. e. a. s. launafólk. Það fólk, sem skapar verðmætin í þjóðfélaginu, ber of mikið úr býtum. Stjórnarflokkarnir hafa krufið vandamálið til mergjar og komist að niðurstöðu. Þjóðfélagið þolir ekki þá kaupmáttaraukningu, sem varð s. l. ár, og þær launabætur, sem samið var um að kæmu til framkvæmda á þessu ári. 32% verðbólga, þegar innflutningsverð hækkar einungis um 6–7% á s. l. ári, stafar að þeirra dómi af því, að kaupmáttur launa jókst um 7.5%,

Hverju reiddust goðin? var einu sinni spurt. 0g spyrja má: Hvað olli 32% verðbólgu á árinu 1976, þegar kaupmáttur kauptaxta rýrnaði um 4.5%? Hvað olli 49% verðbólgu 1975, þegar kaupmáttur launa rýrnaði um 14.7%? Skyldi gengislækkunarstefna ríkisstj. á tímum hækkaðs afurðaverðs hafa átt nokkurn þátt í ófarnaðinum í verðlagsmálum eða meðferð ríkisfjármálanna, stórfelldur halli á ríkissjóði, t. d, svo að nam á núgildandi verðlagi um 13 milljörðum kr. árið 1975? Skyldi stórhækkun þjónustugjalda opinberra stofnana, langt umfram almenna verðlagsþróun, eiga nokkurn þátt í óðaverðbólgunni? Skyldi sú markvissa stefna að stórauka neysluskatta til að standa undir útþenslu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs hafa valdið nokkru um? Skyldi algerlega óheft fjárfesting einkaaðila í gróðaskyni eiga nokkurn þátt í óðaverðbólgunni?

Það þarf ekki að hafa mörg orð um verðbólguræktun hæstv. ríkisstj. Sá ferill hefur margsinnis verið rakinn hér á hv. Alþ., og árangur stjórnarstefnunnar blasir nú við. Um hann þarf ekki að deila, þegar jafnvel sjálft aðalmálgagn þess stjórnarflokksins, sem mestu hefur ráðið, boðar nú nauðsyn endurreisnar efnahagsmála á rústum stjórnarstefnunnar í lok kjörtímabilsins. En þegar á að snúa sér að vandanum og hefja verkið, þá sjá stjórnarflokkarnir ekki nema eina orsök. Kaupmáttur almennra launataxta er of mikill, og er það þó staðreynd að kaupmátturinn er lægri nú en bæði árin 1972 og 1973, að ekki sé talað um árið 1974, enda þótt þjóðartekjur á mann hafi aukist á sama tíma og séu nú hærri en á hverju þessara ára fyrir sig.

Þessi stefna um niðurskurð kaupmáttar launa er m. a. orðuð svo í grg. frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum sem hér er til umr., með leyfi hæstv. forseta: „Ef stefna á að því að ná tökum á verðbólguvextinum þegar á þessu ári er sýnt, að ekki er um annað að ræða en að draga úr víxlgangi verðlags og launa með því að takmarka nokkuð þær kauphækkanir sem ráðgerðar eru með kjarasamningum.“ Það á þannig að draga úr víxlgangi verðlags og launa, ekki með því að lækka verðlag, heldur með því að hækka verðlag, rjúfa gerða kjarasamninga og halda með lagasetningu niðri umsömdum verðlagsbótum á laun. Að sjálfsögðu sjá stjórnarflokkarnir ekki frekar en fyrr neina aðra leið, enda er það svo, að til viðbótar almennum verðlagshækkunum vegna gengislækkunarinnar og ofan í skerðingu vísitölubóta eru nú sem óðast boðaðar stórfelldar hækkanir þjónustugjalda opinberra aðila, Pósts og síma, sjónvarps, útvarps, strætisvagna. Algengustu hækkanirnar eru um 25–30% í einu lagi og hjá strætisvögnunum 50% þegar börn eiga í hlut. Það er líklega gert til þess að hirða fyrir fram þá rausnarlegu 5% hækkun barnabóta í skatti sem gert er ráð fyrir í frv.

Það er svo mál út af fyrir sig, sú dæmalausa ósvífni sem fram kemur í málgögnum stjórnarflokkanna og ræðum hér á hv, Alþ., að í frv. sé miðað við óbreyttan kaupmátt launa. Ég held að hæstv, forsrh. hafi orðað þessa kenningu svo í gær við 1. umr. þessa máls, að í frv, væri ekki gert ráð fyrir kjaraskerðingu. Það tekur því ekki að hafa mörg orð um slíkan málflutning. Hann dæmir sig sjálfur og hann mun ekki bæta andrúmsloftið meðal þeirra sem ákvæði þessara væntanlegu laga bitnar á.

Í grg. frv. eru þó tölur, sem lesa má út úr hvað raunverulega er gert með lagasetningunni um riftun kjarasamninga. Þar má sjá að án lagasetningar er spáð 36% hækkun verðlags frá upphafi til loka þessa árs, en með lagasetningunni yrði verðlagshækkunin 30%, draga mundi úr verðlagshækkunum um nálægt sex prósentustig. Í grg. kemur einnig fram, að spáð er hækkun kauptaxta frá upphafi til loka þessa árs að óbreyttum ákvæðum kjarasamninga um 43%, en eftir riftun þeirra samkv. frv. yrði hækkunin 20% eða kauphækkunin yrði lægri sem nemur 23 prósentustigum, þegar hækkun verðlags yrði einungis um 6 prósentustigum lægri. Ef miðað er við meðalhækkun verðlags yrði verðlagshækkunin samkv. frv. 3–4% prósentustigum lægri en ella, en hækkun kauptaxta 13 stigum lægri en samkv. samningum.

Það sést ljóslega af þessum tölum, hversu fer um gildandi kaupmátt þegar spáð er að miðað við samþykkt þessa frv. verði hækkun verðlags frá upphafi til loka árs um 30%, en hækkun kauptaxta um 20%. Og svo er því logið að almenningi, að frv. feli enga kjaraskerðingu í sér, um leið og launafólk er beðið að taka þessu öllu með umburðarlyndi og skilningi. Sá málflutningur, sem talsmenn stjórnarflokkanna viðhafa, og öll vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu þessa máls eru án efa ekki líkleg til að stuðla að því hugarfari sem sóst er eftir.

Þessari fyrirhuguðu stórfelldu kjaraskerðingu er komið fram með lagaboði um riftun gildandi kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins, þ. á m. samninga ríkisins sjálfs við starfsmenn sína. Þeim samningum er rift áður en lokið er gerð sérsamninga. Og það er athyglisvert, að í ræðu eins hv. þm. Framsfl. í gær kom fram sú afdráttarlausa skoðun, að hæstv. fjmrh. hefði mátt vera ljóst þegar hann undirritaði samningana, að við þá yrði ekki staðið, eins og nú er komið á daginn. Þegar þessi vinnubrögð og frammistaða ríkisvaldsins gagnvart viðsemjendum sínum er höfð í huga verkar á mann eins og skrýtla skýring í grg. með þáltill., sem einu varaþm. Framsfl. hefur lagt fram þessa dagana um að ríkið verði virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú þáltill., sem hér er flutt, felur í sér að ríkisvaldið gerist beinn þátttakandi í gerð kjarasamninga og taki þannig fulla ábyrgð á framkvæmd þeirra á svipaðan hátt og um eigin starfsmenn væri að ræða.“

Hún sést best þessa dagana, ábyrgðin sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl, tekur á kjarasamningum sem hún gerir við eigin starfsmenn. Það er er engu líkara en hv, þm. vilji nota tækifærið, þennan tíma sem hann situr á hv. Alþ., til að hæðast að og storka hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. fjmrh., þegar hann beitir sér fyrir því þessa dagana að rifta eigin samningum og firra ríkið allri ábyrgð á þeim. Það ætti líka að vera óþarft að yfirfæra þess konar ábyrgð ríkisins á kjarasamninga annarra aðila vinnumarkaðarins. Sú afgreiðsla, sem hér fer nú fram, sýnir að það þarf ekki að samþykkja sérstaka þáltill. til að ríkið meðhöndli þá samninga sem sína eigin.

Sú kjaraskerðing, sem hér er verið að framkvæma, kemur í kjölfar stórfelldrar nýrrar skattheimtu á almenning við afgreiðslu fjárl., — skattheimtu sem var þannig háttað, að hún mælist ekki til verðbóta á laun. Til þess að gera kleift að krækja saman fjárl. á pappírnum var sjúkratryggingagjald tvöfaldað, en sú skattheimta nær til mjög stórs hóps gjaldenda sem hafa lægri tekjur en svo að þeir greiði tekjuskatt. Enn fremur var skattvísitala ákveðin með þeim hætti, að í ákvörðun um hana fólst 2000 millj. kr. hækkun tekjuskatts. Samtals nam þessi nýja skattheimta um 4000 millj, kr. En þrátt fyrir hana og þrátt fyrir að fjárlög væru að nafninu til afgreidd með tekjuafgangi hefur nú komið í ljós, að ekkert var að marka fjárlagaafgreiðsluna frekar en fyrri daginn hjá hæstv. ríkisstj.

Í grg. með því frv., sem hér er til umr., kemur fram að staða ríkissjóðs er nú metin 2100 millj. kr. lakari en afgreiðsla fjárl, var miðuð við, þrátt fyrir þann stórhagnað sem ríkissjóður hefur af þeirri gengislækkun sem nýlega hefur verið framkvæmd. Í þessari skekkju munar mest um, eins og ég spáði í fjvn. fyrir afgreiðslu fjárl., að útgjöld sjúkratrygginga voru vanmetin svo að nemur líklega nær 1 milljarði kr. Enn fremur verður að velta greiðslum til Seðlabankans, sem inna átti af hendi á árinu 1977, yfir á árið 1978, því að ekkert var fremur en áður að marka yfirlýsingar hæstv. fjmrh. á Alþ. við 3. umr. um fjárlög um afkomu ársins 1977. Afgreiðsla fjárl. var blekkingarleikur. Nú er sá sannleikur kominn í ljós.

Þegar 4000 millj. kr. skatti var bótalaust velt yfir launafólk við afgreiðslu fjárl. var fyrirtækjum með öllu hlíft. Jafnvel mestu gróðafyrirtækin tóku ekki á sig eina krónu í auknum álögum. Við þær framhaldsaðgerðir, sem nú er verið að framkvæma, er hið sama uppi á teningnum. Launafólk er að verulegu leyti svipt samningsbundnum vísitölubótum á laun þegar verðhækkanir af völdum gengislækkunar og hækkunar þjónustugjalda dynja yfir. Framlag fyrirtækja er á hinn bóginn einungis það að lána ríkissjóði 10% af hreinum gróða með vísitölutryggingu. Þau njóta á hinn bóginn aðstoðar ríkisvaldsins til þess að lækka launakostnað frá þeim kjarasamningum sem þau eru aðilar að.

Stjórnarflokkarnir standa nú að riftun þeirra kjarasamninga sem ríkisstj. lagði blessun sína yfir s. l. sumar, þegar þó var spáð minni aukningu þjóðartekna en raun hefur orðið á, og þeir leggja enn fremur til, að rift verði nýgerðum kjarasamningum við starfsmenn ríkisins. En þeir hafa ekki við framlagningu þessa frv. látið þar við sitja, heldur ögruðu þeir samtökum launafólks enn frekar með því að knýja fram við afgreiðslu í Nd. samþykkt lagaákvæðis um að við næstu áramót verði afnumin áhrif óbeinna skatta á vísitölubætur á laun. Viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar við þessari árás á samningafrelsið hafa nú orðið til þess, að stjórnarflokkarnir hafa heykst á að knýja fram lögfestingu á þessu ákvæði að þessu sinni. En það var athyglisvert í sambandi við þessa till. stjórnarflokkanna í frv., að þeir töldu og telja augsýnilega óhugsandi að þeir muni nokkru sinni lækka óbeina skatta, en það mundi að sjálfsögðu mælast til lækkunar kaupgjalds. Til þess að ná því markmiði að stjórnvöld gætu valið milli beinna skatta og óbeinna, án þess að því fylgdu mismunandi áhrif á verðbótavísitölu, þá hefði þeim dugað að leggja til að óbeinir skattar mældust ekki til hækkunar verðbótavísitölu ef jafngildi þeirrar hækkunar kæmi fram í lækkun beinna skatta. Með þeim hætti stæði launafólk sem heild jafnrétt, en stjórnvöld gætu valið um skattstefnu, ef það hefði einungis verið það markmið sem að var stefnt. En að sjálfsögðu stefndu stjórnarflokkarnir og stefna enn að öðru og meira en því.

Það hefur verið reynt að gera vísitölukerfið tortryggilegt með því að vitna til þess, að ekki geti talist eðlilegt að hækka laun t. d. vegna verðhækkana á olíu á erlendum markaði, og mun ýmsum sennilega þykja að það megi til sanns vegar færa, enda var eitt sinn um það talað, að mjög stórfelld hækkun ú þessari vöru hafi haft nokkur áhrif á ákvæði kjarasamninga, fulltrúum launþega hafi í því tilviki þótt rétt að taka nokkurt tillit til stórfelldra hækkana á verð innfluttra vara til landsins umfram breytingar á verði útflutningsvöru. En hver voru þá viðbrögð þeirra, sem nú krefjast riftunar kjarasamninga og kjaraskerðingar við stórbatnandi ytri aðstæður í þjóðfélaginu? Það skyldi þó ekki vera að þeir, sem ný hyggjast knýja þetta fram, hafi í málgögnum sínum birt sífelldar ögranir og hrópyrði að þeim fulltrúum launafólks sem vildu taka nokkurt tillit til þessara sérstæðu og óhagstæðu ytri aðstæðna.

Allar eru þó þessar aths. um ágalla vísitölukerfisins, ef um verðhækkanir erlendis væri að ræða, settar fram nú til þess að beina athyglinni frá því að nú eru aðstæður þveröfugar. Á s. l. ári bötnuðu viðskiptakjör um hvorki meira né minna en 10%. Það er því ekki til neins að tala um hvað ætti að gera við gagnólíkar aðstæður þeim sem hér hafa ríkt að undanförnu. Það, sem skiptir máli nú, er hvort ytri aðstæður, ytri skilyrði í þjóðarbúskapnum gefi tilefni til að stórskerða kjör launafólks. Það er öðru nær.

Hér er verið að kljást við óstjórn og ráðleysi ríkisstj., sem hefur reynst risi á brauðfótum og hefur farið með eindæmum hörmulega með gullið tækifæri þjóðarinnar til að bæta sinn hag og efnahagskerfi sitt. Nú er lagt til að í einu mesta góðæri, sem þjóðin hefur lifað, verði til viðbótar skerðingu kaupmáttar almennra launa skornar niður samfélagslegar framkvæmdir, þær framkvæmdir í landinu sem koma öllum landsbúum að gagni og jafna aðstöðu og lífskjör landsmanna, hvar sem þeir búa í landinu. Slíkar framkvæmdir á að skera niður. En ekkert er gert til að sporna við stjórnlausum gróðafjárfestingum einkaaðila. Hinir og aðrir spekúlantar fá fé úr bönkum og opinberum sjóðum til fjárfestingar sem eingöngu er hugsuð til þess að græða á þeirri verðbólgu sem ríkisstj. hefur dyggilega ræktað undanfarin ár. Hvað skyldu þau t. d. vera mörg húsin sem ríkissjóður hefur greitt fyrir einkaeigendur með leigu fyrir ríkisstofnanir, þegar nauðsynlegustu byggingarframkvæmdir ríkisins eru markvisst skornar niður?

Hæstv. utanrrh. taldi í ræðu sinni í þessari hv. d. í gær, að ekki væri ástæða til eða heppilegt að hafa í þessu frv. ákvæði um afnám áhrifa óbeinna skatta á verðbótavísitölu. Þetta væri óþarfa bráðlæti af stjórnarflokkunum. Hann taldi að það þing, sem kæmi saman eftir kosningar, ætti að taka um þetta ákvörðun. Hæstv. ráðh. sagði jafnframt, að þetta ákvæði væri stefnuyfirlýsing þeirra manna, sem standa að þessu stjfrv. Og nú hafa stjórnarflokkarnir fallist á þetta sjónarmið hæstv. utanrrh., að geyma lögfestingu þessa ákvæðis þar til eftir kosningar, ef þeir hafa þá aðstöðu til að koma því fram.

Það er rétt, þetta ákvæði, sem átti samkv. frv. að koma til framkvæmda um næstu áramót, er stefnumark þeirrar ríkisstj., sem ætlaði sér í upphafi að knýja fram samþykkt allra greina þessa frv. og hefur það að sameiginlegu markmiði í alþingiskosningunum að tryggja framkvæmd 3. gr. þess í fyllingu tímans.

Þetta ákvæði, sem samþ. var í Nd. og formannaráðstefna verkalýðsfélaganna telur jafngilda því, að lögbundinn samningsréttur verkalýðsfélaga og vinnuveitenda sé af þeim tekinn og falinn ríkisvaldinu, fellur vel að stefnu Sjálfstfl. og Framsfl. Það er býsna skammt á milli þeirra í mikilsverðustu málum. Ég vitna í því sambandi í leiðara Morgunblaðsins frá 24. ágúst 1974, þegar viðræður Sjálfstfl. og Framsfl. voru á lokastigi. Þar var rakið hversu mjög áhugamál þessara flokka falla saman og þar sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá ber að hafa í huga, að í raun réttri er ekki stórvægilegur munur á stefnu flokkanna í grundvallarefnum.“

Þetta sagði Morgunblaðið í leiðara 24. ágúst 1974, og þau þrjú og hálft ár, sem síðan eru liðin, hafa staðfest þau orð fullkomlega. Afgreiðsla þessa frv. og ekki síst ákvæði 3. gr. þess eru enn einn votturinn um sannleiksgildi þeirra.

Segja má að á þessu kjörtímabili hafi Sjálfstfl. og Framsfl. verið í eins konar trúlofunarstandi. Með ákvæði 3. gr. frv., sem samþykkt var í Nd. og nú hefur verið frestað í bili og felur í sér sameiginlega stefnumörkun þeirra fyrir næsta kjörtímabil, er opinberlega lýst með þeim hjúum. En þess er að vænta, að í alþingiskosningunum í sumar lýsi nógu margir kjósendur þeim meinbugum á náinni og áframhaldandi sambúð þessara flokka, að þjóðin verði firrt frekari samstjórn þeirra.

Það er nú ljóst, að verkalýðshreyfingin mun bregðast hart við samþykkt þessa frv. og þeim vinnubrögðum sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft. Reynslan í baráttu verkalýðshreyfingarinnar gegn einstökum efnahagsráðstöfunum í þessu þjóðfélagi sýnir ljóslega, að á meðan ekki verða grundvallarbreytingar á sjálfu þjóðfélagskerfinu stendur launafólk í sömu sporum innan skamms tíma frá því að áfangasigrar hafa náðst í einhverjum efnum.

Grundvallarástæðan til þess, að þróun efnahagsmála hefur verið með þeim hætti sem raun ber vitni um í okkar þjóðfélagi, er að sjálfsögðu sjálf þjóðfélagsskipunin. Þar eru annars vegar þeir, sem skapa verðmætin með vinnu sinni, launafólk í sífelldri varnarbaráttu fyrir kjörum sínum, og hins vegar svokallaðir eigendur framleiðslutækjanna, þeirra tækja sem beita þarf við öflun verðmætanna. Þessir svokölluðu eigendur eru í flestum tilvikum einungis yfirráðamenn atvinnutækjanna, fjármagnið er fengið úr opinberum sjóðum og lánastofnunum. Aðgerðum ríkisvaldsins er svo beitt, hvenær sem á þarf að halda, til að lyfta hverjum og einum þessara yfirráðamanna fyrirtækjanna yfir alla þröskulda í rekstrinum, hversu illa sem að honum er staðið og hversu mikið sem dregið er út úr honum til einkaneyslu.

Í þessu þjóðfélagi er allt skipulagt sem hægt er að skipuleggja, nema það grundvallaratriði sem atvinnulífið, framleiðslan og fjárfestingin er. Á hverju hausti er t. d. ákveðið og skipulagt, jafnvel með tölvum, í hvaða kennslustofu hver og einn einasti nemandi og kennari í öllu skólakerfinu skuli halda sig á hverjum klukkutíma allt skólaárið og við hvað skuli þar fengist. Vegna þess að einkagróðasjónarmiðið er leiðarljósið í þjóðfélaginu er rekstur atvinnuveganna, innflutningur og fjárfesting, á sama tíma stjórnlaust. Við slíka þjóðfélagsskipan er sólundað fjármagni í 100 fiskvinnslustöðvar þar sem 10–20 væru hæfilegur fjöldi. Þar ætlar hver og einn að kroppa augun úr hinum, en launafólkið borgar að sjálfsögðu reikninginn með einum eða öðrum hætti, og aftur og aftur borgar launafólkið brúsann. Opinberir sjóðir og launahlutur almennings eru sá bakhjarl sem slíkur einkagróðarekstur byggir á. Þaðan er dælt hressingunni til þessara aðila, þegar þeir eru farnir að hengja hausinn, vegna þess að enginn svokallaður rekstrargrundvöllur er til fyrir slíka stjórnlausa fjárfestingu og rekstur. Launaþátturinn og opinberir sjóðir eru bakhjarlinn. Þangað eru sóttar greiðslurnar fyrir sóunina, en hver aðili í atvinnurekendahópnum, sem græðir, dregur sitt á þurrt. Gróðinn er friðhelgur og ekkert af honum tekið til að bjarga þeim yfirráðamönnum atvinnutækjanna, sem vesælastir eru hverju sinni.

Eins og ég áðan greindi, voru við afgreiðslu fjárl. fyrir síðustu jól lagðar 4000 millj. kr. skattaálögur á launafólk, annars vegar með breyttum ákvörðunum um skattvísitölu og hins vegar með tvöföldun sjúkratryggingagjalds, en allur atvinnurekstur, líka sá best setti, er friðhelgur. Hið sama gerist nú við afgreiðslu þessa frv. sem hér er til umr. Fer þó ekki á milli mála að verslunarrekstur t. d. hefur skilað verulegum hagnaði á s. l. ári. Sá hagnaður í heild jókst um 76% á s. l. ári og t. d. hagnaður bifreiðaverslunar fjórfaldaðist. Við stórfellda nýja skattlagningu á almenning við afgreiðslu fjárl. var þessi gróði verslunarinnar friðhelgur, og hann er enn friðhelgur við afgreiðslu þessa frv. að öðru leyti en því, að 10% af hagnaði skal lána ríkissjóði með vísitölutryggingu. Vísitölubætur á laun eru hins vegar skornar niður og launakostnaður verslunarinnar og annarra atvinnugreina beinlínis lækkaður frá því sem ella hefði verið. Laun og launatengd gjöld í verslunarrekstri gætu á þessu ári numið um 30 milljörðum kr. Væri reiknað með 10% lækkun raungildis þessara launa vegna ákvæða þessa frv., vegna skerðingar vísitölubóta, færði það versluninni 3 milljarða kr. lækkun launakostnaðar á einu ári. Þeir, sem græða í atvinnurekstrinum, hirða sitt á þurru og fá sérstaka ábót með samþykkt þessa frv., enda er líf í tuskunum í þessari grein. Morgunblaðið greindi frá því s. l. þriðjudag, að um 60–70 aðilar sækist eftir verslunaraðstöðu við Hlemmtorg í Reykjavík. En staða einstakra greina atvinnurekstrarins sannar að sem jafnan fyrr, þegar Sjálfstfl. ræður mestu í ríkisstj., þá fleytir innflutningsverslunin rjómann í þjóðarbúskapnum. Framleiðsluatvinnuvegunum er svo haldið gangandi með því að sækja fjármunina til launafólks með því að rifta kjarasamningum í kjölfar gengislækkunar, og verslunin nýtur góðs af.

Verkalýðsstéttin mun að sjálfsögðu snúast gegn samningsrofi og kjaraskerðingu með ekki minni hörku en fyrr. Verkalýðssamtökin heyja þrotlausa varnarbaráttu í þessu þjóðfélagi. Kaupmáttur launataxta er lægri en hann var 1972 þrátt fyrir verulega aukningu þjóðartekna á mann. Á meðan innflutningur og fjárfesting, uppbygging og rekstur atvinnustarfseminnar er óskipulagðari og stjórnlausari en allt annað í þjóðfélaginu verður niðurstaðan í líkingu við það sem verið hefur hingað til og efnahagsöngþveitið í góðærinu nú ber ljósast vitni um. Innflutningsverslunin og aðrir milliliðir græða, en endalausar bráðabirgðaráðstafanir vegna framleiðsluatvinnuveganna lenda á herðum verkalýðsstéttarinnar. Þetta er ekkert nýtt og þetta mun í sífellu gerast þar til sjálfum grundvellinum hefur verið breytt og þeir, sem verðmætin skapa, eiga sjálfir og stjórna aðalframleiðslutækjunum. Á meðan uppbygging og rekstur veigamestu atvinnufyrirtækja í landinu þjónar fyrst og fremst tilraunum einstaklinga til að nota almannafé í því skyni að skófla til sín einkagróða verður ekkert lát á slíkum hjaðningavígum í þjóðfélaginu.

Baráttan gegn einstökum kjaraskerðingarákvæðum þessa frv. og þeim samningsrofum, sem hér er verið að fremja, er óhjákvæmileg og hún hlýtur að verða háð af hörku undir forustu heildarsamtaka launafólks. En sú barátta kemur fyrir ekki og getur ekki tryggt til frambúðar lífskjör og réttindi launafólks, ef hún beinist ekki að því að stuðla að þeim grundvallarbreytingum á sjálfu efnahags- og þjóðfélagskerfinu, að þeim, sem standa undir verðmætasköpuninni, verði fenginn rétturinn til að stjórna framleiðslunni í þágu heildarinnar.