16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég hef að beiðni hæstv. fjmrh. flutt svohljóðandi brtt. við 10. gr., að í stað 15. febr. komi 19. febr. og í stað 16. febr. komi 20. febr., og við 11. gr., að í stað 16. febr. í 1., 2. og 3. mgr. komi 20. febr. Brtt. þessi þarfnast ekki skýringa, þar sem 15. febr. var í gær og þess vegna er nauðsynlegt að breyta þessum dagsetningum. Þetta varðar vörugjald og sýnt er að þetta frv. mun vart koma til framkvæmda fyrr en eftir helgina.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt og ræða um ýmislegt, sem hér hefur komið fram, þótt vissulega sé mikil ástæða til þess. Ég vil aðeins taka það fram, að það er alveg ljóst að sú leið, sem fulltrúar launþegasamtaka og fulltrúar stjórnarandstöðuflokka komu fram með, er engin af þeim fimm leiðum, ef hægt er að tala um fimm leiðir, — að vísu er ein leiðin þess efnis að ekkert verði gert, — sem fram komu í verðbólgunefndarálitinu. Það er önnur leið, sem þeir settu þar fram, sem ég eyddi allmiklum tíma í að lýsa hér í gær og sýna fram á að fengi ekki staðist. Hins vegar gerði hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason það að varatill. sinni, að leið 2 yrði farin, þar sem ég vænti þess, að honum hafi þótt vera fremur ólíklegt að sú leið, sem hann hafði áður lagt til, yrði fær. Hins vegar hefur leið 2, eins og ég benti á í gær, á sér margs konar vankanta og aðallega þann vankant, að hún leysir ekki þann vanda sem er við að glíma hjá atvinnuvegum þjóðarinnar.