16.02.1978
Neðri deild: 59. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

169. mál, Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég fagna því að fram er komið stjfrv. um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð, sem gerir ráð fyrir því, að veitt verði nokkur aðstoð til að örva kvikmyndagerð á Íslandi.

Ég vil taka undir þær óskir hæstv. ráðh., að mál þetta verði afgreitt á þessu þingi, og vænti þess. að hv. þm„ sem sjálfir njóta kvikmyndagerðar a. m. k. í sjónvarpi svo til á hverjum degi, sýni þessu máli skilning og greiði fyrir því.

Kvikmyndagerð er tvíþætt. Annars vegar er hún viðurkennd listgrein og hins vegar er hún heimildarform sem er notað í stórum stíl til að myndrita viðburði dagsins og hvað eina um allan heim. Frá báðum sjónarhólum séð er ástæða til þess fyrir Íslendinga, sem státa af því að eiga glöggar heimildir um þjóðina allt frá landnámi, að sinna því áður en of seint verður að koma upp kvikmyndasafni, þar sem við getum átt sem allra mest af kvikmyndum sem teknar eru af þjóðlífi og atburðum í landinu.

Örlítið hefur þegar verið gert að því að safna gömlum myndum, og hefur miklum verðmætum þannig verið bjargað. Það hafa gert bæði einstaklingar og opinberir aðilar, eins og Þjóðminjasafn og sérstaklega Fræðslumyndasafn ríkisins. Ég tel að æskilegt sé að koma þessu í fast safnsform og þar verði síðan reynt að ná saman sem allra mestu af þeim myndum sem ástæða verður talin til að geyma í framtíðinni. Þó vil ég vara við því, að kvikmyndagerð er að komast í hvers manns hendur og er hætt við að flóðið af teknum kvikmyndum verði í framtíðinni svo mikið að það þurfi að velja og hafna. Þá vil ég benda á að langstærsti framleiðandi kvikmynda á Íslandi er að sjálfsögðu Sjónvarpið, og það kann að vera að skynsamlegast reynist að láta það um að varðveita myndir sínar, enda er fréttamyndasafn þess fyrst og fremst ómetanlegt, en ætlast ekki til þess að tekin verði eintök af öllu því efni og sett sérstaklega í kvikmyndasafn. Þetta gæti nefndin athugað.

Lögin, sem nú eru í gildi um Fræðslumyndasafn, eru frá 1961, ef ég man rétt, og spanna yfir allmikið svið. Þau gera ekki aðeins ráð fyrir því, sem nafnið bendir til, safni fræðslumynda sem fyrst og fremst eru notaðar í skólunum, heldur er í þeim ákvæði um að safnið skuli styrkja íslenska kvikmyndagerð, koma upp kvikmyndagerðartækjum og halda uppi ýmissi starfsemi á því sviði. En Alþ. hefur aldrei veitt þessu safni aðstöðu eða fjármuni til að gera neitt sem mætti kalla meiri háttar átak í sambandi við kvikmyndagerð almennt, þannig að starfsemi þess hefur nálega eingöngu snúist um fræðslumyndir, aðstöðu við skólana og reyndar ýmislegt fleira en kvikmyndir af myndrænu kennsluefni.

Þó hefur safnið haft aðstöðu til þess að veita kvikmyndagerðarmönnum meðmæli með tollahlunnindum af hráfilmu, og hefur það numið töluverðum fjármunum. Þá hefur verið reynt að kaupa svo að segja allar íslenskar myndir og allt upp í 4–5 eintök af þeim sem henta til nota í skólum, og safnið hefur veitt kvikmyndagerðarmönnum ýmsa fyrirgreiðslu, sérstaklega í sambandi við erlendar kvikmyndahátíðir, en íslenskar myndir hafa á undanförnum árum unnið til margra þjóðlegra verðlauna á kvikmyndahátíðum allt frá Atlanta í Bandaríkjunum til Teheran í Íran. Hefur þetta verið á sviði fræðslu- og heimildarmynda en mestu afrek íslenskrar kvikmyndagerðar standa í sambandi við náttúruhamfarir hér. Hafa kvikmyndagerðarmenn okkar þar náð árangri sem á engan sinn líka í heiminum og því verðskuldað ýmis þau verðlaun sem þeir hafa hlotið.

Varðandi stuðning við kvikmyndagerð er erfitt að ná teljandi árangri vegna þess að fullkomin kvikmyndagerð er orðin óhemjulega dýr. Flestir halda að meginhluti kvikmyndagerðarinnar sé að halda á kvikmyndatökuvél og taka mynd af einhverju, en það er í raun og veru aðeins fyrsta skrefið. Eftir fylgir langt starf og dýrt við að klippa myndir, setja þær saman, fella að þeim tal og tóna og gera þær að því sem kalla mætti fullgerðar, útgefnar kvikmyndir. Þess vegna verður fjármálahlið þessa máls vafalaust erfið og er ekki um annað að gera fyrir Alþ. en að fara hægt af stað og gera eins og hægt er hverju sinni. Það eina, sem unnt er að gera til viðbótar beinum fjárveitingum, er að hvetja til þess, að Sjónvarpið taki upp meira og betra samstarf við kvikmyndagerðarmenn sem ekki eru starfsmenn þess, en í þeim efnum hygg ég að ekki hafi verið um viðunandi samstarf að ræða. Ég hef nokkra þekkingu á því frá fyrstu árum sjónvarpsins, er ég sat í útvarpsráði. En úr því má þó bæta. Gæti samstarf Sjónvarpsins við kvikmyndagerðarmenn vafalaust orðið til þess að ýta undir kvikmyndagerðarlistina alla, eins og sjónvarpið raunar hefur gert, í fyrsta lagi af því að það flutti inn til landsins fyrstu tæki til þess að framkalla og kopíera kvikmyndir og í öðru lagi af því að sjónvarpið hefur ýtt á eftir því að fjöldi ungra manna hefur lagt fyrir sig kvikmyndagerð, lært hana í skólum erlendis og er til þess fullbúinn að gera kvikmyndagerð að ævistarfi.

Ég fagna því að heyra skilning hæstv. ráðh. á því, að Fræðslumyndasafninu er þröngur stakkur skorinn og það þolir eins og er enga viðbót við verkefni sín, því segja má að þar séu stíflur í ánni og á ég þar við dreifingu kvikmyndanna, vegna þess hve fátt starfsliðið er: forstöðumaður og þrjár persónur aðrar. Hefur ekki dugað að knýja á dyr hins opinbera um neina úrbót úr því undanfarin ár.

Ég vil að lokum segja að þetta frv. gerir ráð fyrir tveimur stofnunum, sem eiga að hafa tvær stjórnir og fléttast inn í þriðju stofnunina, Fræðslumyndasafnið, sem líka hefur stjórn. Ef þetta verður samþ. mundu verða í kvikmyndamálum þrjár stjórnir með 13 sætum sem væru yfir starfsemi þar sem starfsmenn eru fjórir. En vera má að þetta komi ekki að sök, og t. d. stjórn Kvikmyndasjóðs mun ekki þurfa að koma saman oft á ári til að úthluta því fé sem til verður. Ég tel þó að þrátt fyrir þennan augljósa ágalla sé þetta frv. raunhæft, það sé byggt á þeim aðstæðum, sem eru fyrir hendi í dag, og sé reynt að gera sem mest og best úr því sem við eigum til. Við verðum að líta á þetta sem fyrsta skref og sem slíkt tel ég það viðunandi. Svo verði Alþ. að líta á þessi mál aftur í framtíðinni og hyggja þá að hugsanlegum breytingum.

Ég vil að lokum til samanburðar biðja menn að íhuga ljósmyndina. Ljósmyndin er mikil heimild, auk þess sem hún er líka listgrein. Myndir hafa verið teknar hér síðan á síðustu öld þúsundum saman af öllum hugsanlegum atburðum, mönnum og mannvirkjum. Hvað hefur verið gert til þess að geyma það merkasta af þessum myndum, t. d. hvað heimildir snertir? Það er örlítið ljósmyndasafn hjá Þjóðminjasafninu, sem ég hygg að hafi aðallega snúið sér að mannamyndum. Á síðari árum gerast hér stórviðburðir á mörgum sviðum, og það eru teknar af þeim þúsundir mynda, en það er engin trygging fyrir því, að þær merkustu þeirra og sögulegustu séu nokkurs staðar varðveittar og aðgengilegar. Við erum duglegir við að safna pappír og öllu, sem er skráð, handritað eða prentað, og leggjum mikið fram til að gæta þeirra heimildasafna. Nú erum við að taka fyrir kvikmyndina, og henni fylgja fljótlega myndsegulbönd, en ljósmyndin er opið gat í alúð Íslendinga við heimildir um sögu sína. Það er algjörlega undir því komið, hvað einstaklingar hafa sjálfir geymt af þessum myndum, af eigin hvötum og á eigin kostnað, hvað af þessu varðveitist. Ég vil aðeins minna á þetta til að undirstrika hvílíkt gildi það hefur að byrja nógu snemma að safna heimildarkvikmyndum, og ég vænti þess, að við séum ekki of seint á ferðinni ef við gerum þetta frv. að lögum.