16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Sú breyting hefur nú verið gerð á frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum, að 3. gr. þess hefur verið felld brott. Ég held að það sé óhætt að segja það, að niðurfelling 3. gr. sýni að hæstv. ríkisstj. hefur ekki verið alveg ósnortin af þeim mjög svo ákveðnu og hörðu mótmælum sem komið hafa frá launþegasamtökunum gegn þessu frv. og þá einnig þeirri grein sem nú hefur verið felld brott. Síðustu mótmælin, sem borist hafa og mönnum eru þegar vel kunn, eru samþykktir frá formannaráðstefnum Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þar sem mjög er hart kveðið að orði um ætlun þessa frv. að rifta gerðum kjarasamningum.

Nú er það svo, að þessi 3. gr. var vitaskuld aldrei neitt höfuðatriði þessa máls. Hún var, eins og sagt var við 2. umr. málsins í þessari hv. d., tilkynning um það sem gera skal, eins og hv. þm. Ólafur G. Einarsson orðaði það í framsöguræðu fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. Það má segja, að þessi 3. gr. hafi fyrst og fremst verið stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um framhald þessara mála. Hún snerti ekki kjarasamninga á þessu ári. Niðurfelling 3. gr. er fyrsta undanhald ríkisstjórnarinnar vegna hinna eindregnu mótmæla sem komið hafa frá öllum — bókstaflega öllum launþegasamtökunum. En hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa fallið frá áformum sínum í þessu efni. Í þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. las hér áðan segir m. a.: „Ríkisstj. telur því rétt að taka verðbótaákvæði í kjarasamningum til allsherjar endurskoðunar og þar með vísitölugrundvöllinn og vill vinna að þessu máli í samráði við samtökin á vinnumarkaðinum þannig að ný skipan geti komið til framkvæmda frá upphafi næsta árs.“

Það er út af fyrir sig vel, að á undanhaldinu hefur ríkisstj. valið þann kostinn, sem vissulega er skynsamlegri, að ræða þessi mál við samtök vinnumarkaðarins og þá sjálfsagt ekki hvað síst við samtök launafólksins. Þetta er auðvitað það sem er eðlilegt að gera í þessu máli. Sú ákvörðun að setja þetta nú inn í þessi lög, að fella niður alla óbeina skatta úr vísitölunni þannig að þeir hefðu ekki áhrif á vísitöluna eða verðbótaákvæði kjarasamninga, var í rauninni aldeilis fráleit og í rauninni óskiljanlegt að það skyldi vera sett inn í frv. Nú er þó látið líta svo út, að um þessi atriði verði hægt að ræða. Það er út af fyrir sig gott. Hins vegar þekkjum við ósköp vel hvað mikið er að marka þegar sagt er að höfð skuli samráð um jafnstórvægileg mál og hér er um að ræða. Það átti að hafa samráð við verkalýðssamtökin um efni þessa frv., en þau samráð voru einvörðungu í formi þess, að hæstv. ríkisstj. tilkynnti samtökunum um þau áform sem hún hafði á prjónunum um hvað gera ætti og gera skyldi. Það voru í rauninni öll samráðin. Ef ekki verður um önnur samráð að ræða þegar kemur að þessu veigamikla máli, þá er það fyrir fram dæmt til þess að mistakast, og um það hlýtur að verða mikið stríð.

Hins vegar vil ég segja það, að brottnám 3. gr. getur ekki breytt neinu um afstöðu launþegasamtakanna til frv. eða um aðgerðir þeirra gegn lagasetningu sem riftir gerðum kjarasamningum. Það hlýtur auðvitað að vera öllum ljóst. Höfuðatriði og veigamesta atriði þessa frv. er vitanlega í 1. gr. þess, sem kveður á um að umsamdar verðbætur á laun skuli aðeins verða að hálfu við það sem kjarasamningar ákveða. Eins og margoft er búið að taka fram, þá er hér um að ræða ekki minna en 12% kjaraskerðingu í lok þessa árs. Slíkt býður upp á ný stéttaátök, stéttaátök sem máske geta orðið harðvítugri en nokkru sinni áður.

Það, sem hæstv. ríkisstj. hefði í rauninni átt að gera núna, hefði verið að draga þetta frv. til baka og taka upp viðræður við launþegasamtökin á grundvelli óskertra kjarasamninga. Ég vil minna á, að í þeirri samþykkt, sem formannaráðstefna Alþýðusambandsins gerði í gærkvöld, er m. a. sagt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta :

„Ráðstefnan ítrekar fyrri áskoranir verkalýðssamtakanna til ríkisstj. um að stöðva framgang frv. Verði ekki orðið við þeim eindregnu tilmælum samþ. ráðstefnan að fela miðstjórn ásamt stjórnum eða fulltrúum BSRB og FFÍ að skipuleggja sameiginlegar baráttuaðgerðir og skal miða við að þær hefjist 1. mars n. k., en þann dag á fyrsta kaupskerðingin að koma til framkvæmda.“

Hér er lögð rík áhersla á það, að ákvæði þessa frv. komi ekki til framkvæmda að því er lýtur að því að skerða kjarasamningana, en fari svo, þá er viðnám verkalýðshreyfingarinnar og launþegasamtakanna allra undirbúið.

Því vil ég leggja mjög ríka áherslu á það, að það eina vitlega í þessum málum, eins og þeim nú er komið, er að ríkisstj. hætti við þessa atlögu gegn launþegasamtökunum og kjörum alls vinnandi fólks. Það gæti áreiðanlega komið í veg fyrir mikil vandamál sem annars steðja að þjóðfélaginu.