16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það er við að búast, svo sem bæði hefur komið fram í umr. í þessari d. sem og í Ed., í umr. og atkvgr., að 41 eða þegar best lætur 42 þm., sem standa að ríkisstj., eru ekki að öllu leyti sammála í öllum efnisatriðum. Og mér þykir hlýða og vil gjarnan fyrir mitt leyti gera grein fyrir afstöðu minni í örfáum orðum varðandi fá atriði sem fram koma í þessu frv.

Ég vil þá fyrst taka það fram, að ég er sammála því stefnumarkandi atriði sem fram kom í 3. gr. frv., eins og það var í sinni fyrri gerð. En það atriði eitt út af fyrir sig táknar í mínum huga ekki annað en að það verði unnið að því, að nýr grundvöllur verði lagður að útreikningum á verðbótaákvæðum. Alþ. og ríkisstj. eru sökuð um aðgerðaleysi, aldrei sé neitt gert af hálfu löggjafans til raunhæfra aðgerða gegn verðbólgu og víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds. Mín skoðun er einfaldlega sú, að það verður aldrei gert neitt raunhæft. ef ekkert verður gert annað en það sem samkomulag næst um á milli allra aðila vinnumarkaðarins, þ. e. a. s. bæði fulltrúa launþega og fulltrúa atvinnurekenda. Þetta ber þó ekki að skilja svo, að það beri ekki að hafa fullt samráð við þessa aðila og leita þeirra leiða þar sem minnst skilur á milli.

Ég hendi á í þessu sambandi, að launajafnandi aðgerðir Alþingis hafa verið brotnar á bak aftur, ekkert síst af launþegasamtökunum, hvort sem það er Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eða Bandalag háskólamanna. Ég fæ t. d. ekki skilið þau verðbótarákvæði eða þá hugsun sem liggur að baki útreikningi verðbótaákvæða sem gera ráð fyrir tvöföldum verðbótum til þeirra sem hæst hafa laun og besta afkomu miðað við láglaunastéttirnar.

Ég var því fylgjandi og er, að fullar verðbætur komi á lægstu launaflokka, takmarkaðar verðbætur á milliflokkana, en engar verðbætur á hæstu launaflokkana. En ég get fallist á þá málamiðlun sem fram kemur í frv., þar sem verðbætur lægstu launaflokkanna eru meiri en hinna.

Ég vil taka það fram, að ég tel afnám verðbóta vegna óbeinna skatta aðeins þátt í endurskoðun á verðbótaþætti kaupgjaldsvísitölu. Ég lít svo á, að eðlilegt sé að a . m. k. láglaunastéttum sé tryggður kaupmáttur innan vissra marka, þar sem tekið er mið af þjóðarframleiðslu. Ég tel það ekki höfuðatriðið, hvort lögfest er nú 3. gr. eins og hún var í frv. eða hvort slíkar umr. biða síðari tíma. En ég legg áherslu á það, að engin sú ríkisstj., sem mynduð verður að loknum kosningum í sumar, kemst hjá því að takast á við verðbólguvandann, reyna að knésetja þann dýrbit, sem herjar á fjárbúskap eða efnahagsmál ríkisins. Þess vegna hljóta þessir þættir að verða frumþættir í umr. þegar ný ríkisstj. verður mynduð.

Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um að hlutur atvinnufyrirtækja í beinni skattheimtu er of lítill. Þar er hækkun tekjuskatts að mínu mati ekki nægileg aðgerð. Hér koma miklu frekar til ýmis ákvæði skattalaga og í framkvæmd þeirra, svo sem að því er varðar fyrningu, varasjóð, arðjöfnunarsjóð og e. t. v. fleira, svo að eitthvað sé nefnt sem færir fyrirtæki niður á eða niður fyrir skattleysismörk. Aðstaðan er breytileg á milli einstakra atvinnuvega, en hún er ekki síður misjöfn milli fyrirtækja innan sömu atvinnugreina. En í heild verður að segja, að það getur ekki talist eðlilegt hve stór hluti atvinnufyrirtækja er tekjuskattslaus.

Ég vil þá að því er varðar þá grein, sem nú er 11. gr. í frv., um heimild til lækkunar útgjalda, taka þetta fram :

Ég bendi á það, að fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum á þessu þingi vorn setning fjárl. þar sem dregið var úr opinberum framkvæmdum að verulegu leyti, mörkuð ákveðin stefna í lánsfjáráætlun að því er varðaði erlendar lántökur og líka gert ráð fyrir minni fjárfestingu með takmörkuðu fjármagni til stofnlánasjóða. Ég mun þrátt fyrir heimildina, sem er í 11. gr., standa gegn, — og ég vildi lýsa því yfir hér, þannig að það kæmi engum á óvart, — standa gegn niðurskurði á þeim framlögum sem nú er gert ráð fyrir til sameiginlegra verkefna ríkis og sveitarfélaga. Ég tel að sá niðurskurður hafi verið gerður fyrir jól. É g mun standa gegn hugmyndum um minnkað fjármagn til vegamála, og ég skírskota þar til þeirra sjónarmiða og þess vilja sem kom fram af hálfu allra þingflokka þegar um vegáætlun var rætt á síðasta þingi. En ég er reiðubúinn til þess að athuga aðra þætti, t. d. varðandi einstaka þætti hreinna ríkisframkvæmda sem og varðandi rekstur ríkisins. En ég leyfi mér að vita það óábyrga tal, sem hér hefur átt sér stað í umr. um þetta mál, þar sem talið er að ríkið geti skorið niður svo milljörðum skipti í rekstri ríkisins og þjónustu án þess að þess sjái nokkurn stað. Það þýðir þó ekki að ég hafni því, að víða megi gæta meiri hagsýni en nú er, og hef þá fyrst og fremst í huga heilbrigðisþjónustuna, vegna þess að ég efast um að „afköst“ sjúkrahúsa séu í samræmi við mannafla og tilkostnað.

Ég vildi gjarnan láta þessi sjónarmið mín koma hér fram við umr. Ég endurtek það, að það er ekki áeðlilegt að svo stór stjórnarmeirihl. sé ekki samstiga í öllum tilvikum, þó að hann nái saman um ákveðnar lausnir, en ég vildi gjarnan láta þetta koma fram.