16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. í margra daga umr. um þetta mál hefur það hvað eftir annað vakið undrun mína, að stjórnarsinnar hafa talað um það, að hin upprunalega 3. gr. frv., sem nú hefur verið felld niður í Ed., sé stefnumarkandi, og hæstv. forsrh. kórónar þetta með því að segja í ræðu rétt áðan, að þessi sáluga 3. gr. sé stefnuyfirlýsing.

Nú er það að vísu hugsanlegt, að lagaákvæði megi kalla stefnumarkandi, t. d. þegar þau eru á þá lund, að ráðh. skuli setja reglugerðir um nánari ákvörðun eða eitthvað slíkt. En þegar Alþ. setur lög, þar sem orðalagið er eins og upphaflega var í 3. gr., um að frá og með 1. jan. 1979 „skuli“ óbeinir skattar ekki hafa o. s. frv. og kaupgjaldsnefnd „skal“ meta, er ekki um neitt stefnumarkandi mál að ræða. Þetta eru lög sem á að framkvæma. Ég veit ekki hvort það er nálægð kosninga sem veldur því, að menn ruglast svo í kollinum, að þeir vita ekki hvað þessi stofnun er að gera. Halda þeir að þeir séu á flokksþingum að samþykkja stefnumarkandi ályktanir? Að tala um að slík grein sé stefnumarkandi, jafnvel þó að hún eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en eftir 10 mánuði, er svo fáránlegt að engu tali tekur. Mætti ætla að menn þyrftu ekki að hlusta á slíka vitleysu í sölum Alþingis, sem setur þjóðinni ákveðin lög sem á að fylgja.

3. gr. gat aldrei verið stefnumarkandi. Þetta var ekki samþykkt frá Sjálfstfl. eða hinum þögla minni hl. ríkisstj. Þetta áttu að verða landslög, þessar þrjár línur, vanhugsuð ögrun, sem var fleygt inn í mikilvægt stjfrv. á síðustu stundu, og má guð vita hvaða valdatafl á milli hverra þar er að baki, en ég ætla að spara mér þá ánægju að velta frekar vöngum yfir því.

Saga þessa máls hefur verið að því leyti athyglisverð, að við svo að segja hverja umr. hafa komið í ljós fleiri brestir í stjórnarliðinu. Ég hef ekki alveg haldið tölu á því, en mér sýnist að meira en hálfur meiri hl. ríkisstj. á þessu þingi hafi lýst yfir ýmiss konar áhyggjum, efasemdum eða andstöðu við þetta mál. Hver veit nema hinn helmingurinn af meiri hl. skilaði sér líka, ef við fengjum að ræða málið í örfáa daga enn?

Hæstv. forsrh. hefur sagt að það sé styrkleiki fyrir ríkisstj. að láta undan, og það er rétt. Fyrir stjórnmálamann, sérstaklega þann sem er í valda- og ábyrgðarstöðu, sem hefur þroska til að láta undan, til að miðla málum og tryggja frið, er það styrkleiki. En núv. ríkisstj. hefur sýni bæði styrkleika og veikleika. Það er veikleiki að hlaupa upp á síðustu stundu, eftir að valdir menn hafa rætt um málið í rúmlega eitt ár, og koma þá með ný ögrandi atriði. Það er að vissu leyti styrkleiki að láta undan, en það væri enn þá meiri styrkleiki að láta undan eftir samræður við mótaðilann frekar en að gera allt með einhliða tilkynningum. Það er þessi valdakennd ríkisstj., sem ég tel að sé mikið áhyggjuefni eins og komið er málum. Það eru þeir, sem völdin hafa, sem tilkynna fulltrúum launastéttanna á síðustu stundu, hvernig þeir ætla að hafa þetta frv., gerólíkt öllum þeim undirbúningi, sem fram hafði farið, og öllu sem rætt hafði verið. Og það er líka einhliða tilkynning, sem skyndilega kemur eftir upphlaup eins ráðh. í Ed., þegar hörfað er frá 3. gr.

Það má segja að ögrun sé fallin burt. En reynið í mannlegum viðskiptum að sjá hvort menn falla frá öllum deiluefnum á stundinni, þegar einu sinni er búið að efna til þess ástands sem nú er milli yfirvalda og launþegasamtakanna. Það er ekki hægt að kveikja og slökkva eins og á rafmagnsperu. Það er ekki hægt að komast hjá því, að meðferð málsins hefur vakið tortryggni, og sú tortryggni hverfur ekki á stundinni, þó að ríkisstj. taki skyndilega þetta einhliða stökk, ekki eftir samráði við launþegasamtökin, heldur eftir tveggja eða átta manna tal í einrúmi, hver sem hefur ráðið hverju.

Ég get ekki fallist á það með hæstv. forsrh., að till. ríkisstj. séu 5. leiðin úr áliti verðbólgunefndarinnar. Þetta er engin 5. leið, þetta er óleið og ekkert annað.

Þessar deilur um efnahagsmál hafa að því leyti verið ólíkar flestum þeim, sem á undan hafa farið og eru orðnar ærið margar síðustu áratugi, að nú er um tvo möguleika að deila. Ríkisstj. hefur sínar till., þetta sem hún dró út úr erminni á síðustu stundu. Stjórnarandstaðan og launþegasamtökin hafa tekið upp svokallaða 2. leið, sem er að finna í skýrslu verðbólgunefndarinnar og er, þó að deilt sé um kosti og lesti á henni eins og öllum hinum leiðunum, dæmd þess virði að teljast vera ábyrg leið sem gæti leyst málið. Það er e. t. v. kjarni málsins að ríkisstj. hefur skilyrðislaust hafnað þeirri leið, sem gæti leyst málið án þess að rjúfa gerða samninga og án þess að fram færu nokkrar teljandi umr. milli hennar og launþegasamtakanna um þetta mál. Það er of seint að ætla sér að sýna styrkleika og sanngirni með því að falla frá einu atriði hér í þingsölum, eftir að slitnað hefur upp úr viðræðum við aðila vinnumarkaðarins. Hefði verið nær að fallast á till. stjórnarandstöðunnar um að taka nokkra daga til að ræða á nýjan leik við fulltrúa launþegasamtakanna um það, hvort ekki sé hægt að finna lausn á þessu máli sem ekki gengur á gerða samninga eins og till. ríkisstj. gera. Það er meginmunur á því að ræða við andstæðinga sína, ef ég má nota það orð, — það er meginmunur á því að tala við aðila eða vera sífellt í trausti valdsins að gefa út einhliða tilkynningar, hvort sem það er í fundarherbergi ríkisstj. við Lækjartorg eða hér í Ed. Það er ekki mikill styrkleiki í slíkum einhliða stökkum fram og aftur. Þau hafa takmarkað gildi til að sætta stéttirnar á þann hátt sem nauðsynlegt er.

Ég ítreka það, að enn stendur boð stærstu launþegasamtakanna. Við höfum gengið úr skugga um það, áður en við fluttum þá till. sem hér liggur fyrir. Það kann að vera formlega rétt hjá hæstv. forsrh., að það sé örlítið meiri viðurkenning fyrir ríkisstj. að vísa frv. til hennar heldur en að vísa því frá. Við viljum þó stíga þetta skref í þeirri von, að dagar, sem eru fyrir hendi, því að 1. mars er ekki alveg kominn, verði notaðir vel. Úr því að ráðh. fóru ekki á fund Norðurlandaráðs, hví nota þeir ekki dagana til að tala við launþegasamtökin og sjá hvort það er ekki hægt að tryggja stéttafrið og bjarga þjóðinni frá átökum.