16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, að fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í verðbólgunefnd hafi sett fram till. um lausn á þessum vanda með því að benda á leið sem verðbólgunefnd hafi talið færa eða hafi verið nefnd í skýrslu verðbólgunefndar. Þetta var ekki svo, heldur var hér um að ræða heimatilbúna undanbragðaleið sem verðbólgunefnd hafði ekki minnst á í áliti sínu. Þessi leið leysir ekki vanda atvinnurekstrarins í landinn, og hún er þess vegna líkleg til að hafa í för með sér atvinnuleysi.

Það eru svo örfá orð í tilefni af ræðum hv. þm. Karvels Pálmasonar og Sighvats Björgvinssonar, sem gera nokkurt mál úr því, að ég hafi skipt nokkuð oft um skoðun í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Í tilefni af því vil ég aðeins segja það, að ég er jafnsannfærður nú sem áður um að óbeinir skattar eigi ekki að hafa áhrif á verðbótavísitölu eða verðbótaákvæði í kjarasamningum. Ég lít svo á, að hv. Ed. hafi að frumkvæði ríkisstj. fellt þetta ákvæði úr frv. í trausti þess, að forustumenn ASÍ og BSRB létu af hótunum sínum um lögmæt eða ólögmæt verkföll. Því var auðvitað ekki að heilsa, eins og komið er í ljós. Engu að síður var hér um sáttatilraun að ræða sem var þess virði að reyna.

Ég hef ekki skipt um skoðun, eins og hv. þm. hafa gert svo mikið mál úr. Ég hef hins vegar ekki miklar áhyggjur út af því, að hæstv. ríkisstj. fór ekki nákvæmlega eftir þeim till. sem ég og fimm aðrir nm. höfðum gert í verðbólgunefnd. Við, sem stóðum að þeirri till., lítum nefnilega aldrei á okkur í n. sem einhvers konar yfiríkisstj. sem ætti að ráða í einu og öllu um þær leiðir sem fara skyldi í sambandi við okkar efnahagsvanda. En þannig virtust sumir nm. líta á sig í verðbólgunefndinni strax frá upphafi. — Þetta vildi ég láta koma hér fram.