21.02.1978
Sameinað þing: 46. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

341. mál, jöfnun símgjalda

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Á þskj. 122 hafði ég lagt fram fjórar fsp. til samgrh. um símamál. Þessar fsp. voru lagðar fram fyrstu dagana í desembermánuði, alllöngu áður en sú fsp. sem hér er til umr. Það vill svo til að sú fsp., sem hér er til umr., er einmitt nákvæmlega sama efnis og 4. liður þeirrar fsp. sem ég lagði fram í desembermánuði, og tel ég að þetta séu nokkur mistök, að þessum fsp. mínum sé ekki fyrst svarað. En það er kannske erfitt um að sakast, þar sem mér sýnist að fsp. mínar hafi fallið út af dagskránni í dag, og það er vafalaust ástæðan til þess, að þær eru ekki teknar nú fyrir áður en þessari fsp. er svarað En fsp mín var á þessa leið:

„Er ekki stefnt að því að endurskoða gjaldskrá Landssímans með það fyrir augum, að hún verði sanngjarnari gagnvart fólkinu í dreifbýlinu, t. d. með því að ákveða að samtöl milli notenda, sem hafa sama svæðisnúmer, teljist aðeins eitt skref hvert, eins og er á höfuðborgarsvæðinu?“

Úr því að verið er að svara þessari spurningu núna, að vísu við fsp. frá öðrum aðila, þá þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál frá mínu sjónarmiði.

Ég tel að það sé eitt af stærri hagsmunamálum dreifbýlisins, að þessum málum verði komið í eðlilegt horf, hér sé um sjálfsagt réttlætismál að ræða, í fyrsta lagi að um verði að ræða sama gjald innan hvers svæðis, þannig t. d. að allir þeir, sem hafa svæðisnúmer 95, svo að ég nefni dæmi, allir þeir sem eru á svæðinu frá Ströndum og yfir í Skagafjörð, geti hringt sín í milli með sama kostnaði og þeir sem eru á svæðisnúmeri Reykjavíkur.

Í öðru lagi er það sjálfsagt réttlætismál, að hægt sé að hringja utan af landsbyggðinni til helstu stjórnsýslustofnana ríkisins án þess að það kosti meira en það kostar að hringja héðan af Reykjavíkursvæðinu. Sumir vilja reyndar ganga miklu lengra og jafna símgjöldin algerlega yfir allt landið, og má kannske líta á það sem framtíðarmarkmið. En ég tel að væri þessum tveimur markmiðum náð, þá væri býsna mikið fengið.

Það kom fram í svari ráðh. áðan, að stigið hefði verið skref í þessa áttina með þeirri breytingu sem var gerð um seinustu áramót. Hann las lista yfir þær breytingar sem þarna áttu sér stað og voru fyrst og fremst fólgnar í því, að þéttbýlisstaðir, sem liggja mjög nærri hvor öðrum, lenda í þess háttar tengslum, að samtöl þar í milli teljast aðeins eitt skref. Ég vil síður en svo vanþakka þá breytingu sem þarna átti sér stað, en ég vil ekki að við gerum allt of mikið úr þessari breytingu. Ég tel að þetta hafi ekki verið stórt stökk. Ég held að þetta skref hafi verið heldur dvergvaxið og býsna mikið vanti á að nægilegt réttlæti náist. Ég get bara nefnt það sem dæmi, af því að ég er búsettur í Varmahlíð í Skagafirði, að það eina, sem þessi breyting hafði í för með sér fyrir þá sem búa í Varmahlið í Skagafirði, svo að dæmi sé nefnt, er að samtal við Sauðárkrók telst eitt skref. Það var öll breytingin. En eins og ég rakti áðan, svo að þetta svæði sé nefnt, þá þyrfti auðvitað breytingin að ná það langt, að allir þeir, sem væru með svæðisnúmer 95, frá Ströndum og yfir í Skagafjörðinn, gætu notað símann sinn í milli og hvert samtal teldist þá eitt skref. Það er alveg ljóst að breyting, sem er ekki meiri en þessi, að tveir staðir, sem liggja nærri hvor öðrum, sameinast að þessu leyti í eitt svæði, — breyting, sem ekki nær lengra en þetta, er harla dvergvaxin, þó að síst skuli það vanþakkað að stefnt er í þessa áttina.

Herra forseti. Ég læt þessi orð nægja. Ég vildi vekja athygli á því, að gengið hefði verið fram hjá fsp. sem ég lagði hér fram fyrir tveimur mánuðum. Satt að segja er mjög erfitt við þetta að eiga, hvað langur tími liður gjarnan frá því að fsp. er lögð fram og þangað til möguleiki er að fá henni svarað. Það ætti helst að vera svo, að fsp. væri svarað hér ekki miklu seinna en 2–3 vikum eftir að þær eru lagðar fram. En það er mál út af fyrir sig.