21.02.1978
Sameinað þing: 46. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

341. mál, jöfnun símgjalda

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Þar sem verið er að tala hér um símannál, þá langar mig að leggja örfá orð í belg.

Ég vil byrja á því að þakka þau skref sem stigin hafa verið til jöfnunar símakostnaði. Það ber síst að vanþakka, og það er, í raun og veru allmikilvægt sem náðst hefur, ekki er hægt að neita því. Hitt er svo annað mál, að ég álít að í þessu efni, eins og reyndar ýmsum fleiri sem við fjöllum um, sé tvímælalaust framtíðarmarkmið, að símgjöldin verði jöfnuð um allt land. Í sjálfu sér sé ég enga sérstaka ástæðu til þess að þessi þjónustustarfsemi, alveg á sama hátt og t. d. póstburðargjöld, sé ekki jöfnuð. Við erum þegar komnir yfir það að greiða misjafnlega fyrir bréf eins og áður var gert, þó að þau þurfi að fara misjafnlega langan veg hér innanlands, og ég tel það alveg hiklaust framtíðarmarkmið í þessum málum að jafna símgjöldin um allt land. Hitt er svo annað mál, að það verður auðvitað ekki gert á annan veg en að það verði hlutfallslega meiri hækkun á símgjöldum hér á þéttbýlissvæðinu heldur en úti í dreifbýlinu. Ég veit að það þarf ekki að rekja það fyrir hv. alþm., hversu geysilega misjöfn aðstaða borgaranna er til þess að njóta þjónustu Landssímans. Það er mjög mikill munur á því, hvort menn búa við það að geta náð í t. d. 100 númer eins og margir landsbyggðarmenn geta náð á einu skrefi, eða eins og hér er á Reykjavíkursvæðinu, að það er hægt að ná til nær helmings þjóðarinnar fyrir sama gjald, og þarf ekki að rekja þetta.

Ég vildi aðeins koma þessu tvennu að í fyrsta lagi því, að það er ástæða til að þakka þau skref sem stigin hafa verið, og svo í öðru lagi að koma því að, að það er langt frá því að lokatakmarki sé náð. Ég held að við eigum í þessu efni að strika út fjarlægðir og búa borgurunum það að geta notfært sér þjónustu símans algerlega án tillits til fjarlægða. Hitt er mér svo aftur á móti ljóst, að til þess að svo megi verða þarf enn frekar að styrkja landssímakerfið heldur en orðið er, og mér er það enn fremur mjög vel ljóst, að þeir fjármunir, sem Landssímanum eru ætlaðir nú til uppbyggingar, eru allt of litlir til þess að sú uppbygging geti haldið áfram í þeim mæli sem borgarannir óska eftir. Það verður ekki tekið til neinnar endanlegrar meðferðar hér, hvernig á að fara að því, en það er náttúrlega öllum tjón, bæði Landssímanum og borgurunum sjálfum, ef ekki er hægt nokkurn veginn að koma til móts við óskir um ný talsímatæki eftir því sem byggð eykst í landinu.