21.02.1978
Sameinað þing: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

104. mál, framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Meðan verið er að leita að hæstv. ráðh. vil ég gjarnan nota tækifærið og segja örfá orð í sambandi við þetta mál.

Ég tel að það sé ekki að ófyrirsynju að minnst sé á uppbyggingu framhaldsmenntunar í landinu í heild, eins og hv. flm. gerði, og ekki síður hvernig því skuli háttað í Norðurl. v. Það verður að segja þá sögu eins og hún er, að í þessu kjördæmi hefur ekki hafist markviss uppbygging framhaldsmenntunar, og er það eina kjördæmi landsins sem svo er háttað um. Þess vegna er síst ótímabært að hugað sé að því máli. Það hefur verið skoðun mín og er enn, að fræðsluráð í þessu fræðsluumdæmi ásamt fræðslustjóra ætti að beita sér fyrir því að ná samstöðu um skipan þessara mála í Norðurlandi vestra. Þar kemur vissulega mjög til álita að mínum dómi sú leið eða svipuð og um er rætt í þessari till., þ. e. að byggja upp fjölbrautaskóla sem skipt sé í deildir á einstökum stöðum kjördæmisins. Um þetta þarf þó að mínum dómi að nást samstaða, og það er enginn aðili sem hefur meiri skyldur og betri tök á að vinna að slíkri samstöðu en fræðsluráð og fræðslustjóri umdæmisins. Slíkt þarf vitaskuld að gerast í samráði við sveitarstjórnir og með atbeina rn. Ég hef látið þessa skoðun mína í ljós við fræðsluráðsmenn og fræðslustjóra, og ég vænti þess, að þeir aðilar taki þetta hlutverk fastari tökum en gert hefur verið hingað til.

Ég skal ekki ræða þessi mál mikið efnislega umfram það sem ég hef hér þegar gert, en það er þó ljóst að hjá okkur í Norðurl. v. hagar til eins og sums staðar annars staðar á landinu, að við borð liggur að grónar menntastofnanir séu að missa það hlutverk, sem þær hafa áður gegnt, og í sumum tilfellum eru þær búnar að missa það. Þar má nefna t. d. húsmæðraskólann á Blönduósi. Og héraðsskólinn á Reykjum í Hrútafirði, sem er ein virtasta menntastofnunin í okkar kjördæmi, þarf alveg tvímælalaust að fá meiri hlutdeild í framhaldsmenntun og framhaldsnámi en hann hefur nú í dag. Grunnskólarnir á svæðinu sækja fast á eftir og munu fá í vaxandi mæli grunnskólanámið allt í sínar hendur, mismunandi mikið eftir skólum, en þó mun það án efa gerast í vaxandi mæli, og taka á grunnskólabekkina frá héraðsskólanum á Reykjum. Þess vegna þarf þessi menntastofnun að hljóta vaxandi hlut í framhaldsmenntun í þessum landshluta og stuðla að því, að unga fólkið, skólaæskan, geti sem lengst verið við nám heima í þessum byggðum og sem næst sínu umhverfi.

Annað vil ég aðeins drepa á, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. í sambandi við skiptingu kostnaðar við stofnkostnað og rekstur framhaldsskóla, en hann gat réttilega um að þar er um lítið og raunar ekkert samræmi að tefla á milli hinna einstöku greina framhaldsnámsins. Ríkið greiðir alfarið stofnkostnað og rekstur menntaskólanámsins, 50% á móti sveitarfélögunum við stofnkostnað og rekstur iðnskóla og að hluta, að vísu meiri hluta, en þó eftir gildandi samningum þar um í hverju tilviki, við hina svokölluðu fjölbrautaskóla. Þessu þarf að koma í fast horf, þannig að sama regla gildi um framhaldsskólastigið allt. Um þetta efni flutti ég till. til þál. á síðasta Alþ., till. sem vísað var til ríkisstj. með tilliti til þess, að fram var lagt stjfrv. til laga um framhaldsmenntun. Eftir því sem ég skildi það í þeim umr., sem þá fóru fram, var meiningin að það stjfrv. yrði endurskoðað af tiltekinni n. Var till. minni um stofnkostnað og rekstrarkostnað framhaldsskólastigsins vísað til ríkisstj. með því fororði að hún kæmi einnig til athugunar í þeirri sömu nefnd.

Ég tel nauðsynlegt að þessi kostnaðarskipting færist á sama stig og þó að ég léti í ljós þá skoðun mína í umr. í fyrra, að eðlilegt mætti teljast að sveitarfélögin bæru þarna einhvern minni hluta í stofnkostnaði og rekstri, þá sló ég engu föstu um það. Það er álitamál, það má sumpart a. m. k. teljast sanngjarnt, en það þarf þá að búa þannig að sveitarfélögunum í sambandi við tekjuskiptingu milli þeirra og ríkisins, að þau fái valdið því hlutverki og öðrum sem þeim eru ætluð.