22.02.1978
Efri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

14. mál, byggingarlög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Í 4. gr. byggingarlaga er málsl. sem hljóðar svo:

„Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar.“

Þessi málsl. er til orðinn vegna þáltill. sem samþ. var á Alþ. 1972 og hljóðar þannig: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd, er kanni leiðir, sem tryggi, að byggingar og umferðaræðar framtíðarinnar, er njóta fjárhagslegrar fyrirgreiðslu opinberra aðila, verði hannaðar þannig, að fatlað fólk komist sem greiðlegast um þær

Það, sem hér er um að ræða, er mjög mikilvægt fyrir vissan hóp í þjóðfélaginu, og svo sem við vitum þarf þessi hópur að komast um margs konar byggingar, svo sem ráðhús, skrifstofur, heilbrigðisstofnanir, kirkjur, söfn, skóla, verslunarhús, kvikmyndahús, leikhús, vinnustaði, sýningarsali, sundlaugar, íþróttahús, almenningssalerni, símaklefa, sjálfsala og ýmislegt annað húsnæði. En til þess að svo geti orðið þarf að uppfylla viss skilyrði, og því er það tekið fram, að í byggingarreglugerð skuli setja ýmis ákvæði, sem geri það að verkum að fatlaðir eigi auðveldara að komast um. T. d. skal þar segja, að fólk í hjólastól komist án aðstoðar inn og út um dyr, er séu í grennd við bílastæði sem ætluð séu fötluðum, og bílastæði ætluð fötluðum eigi að vera a. m. k. 3.30 m á breidd eða um það bil a. m. k. 1 m breiðari en venjuleg bílastæði. Allar dyr innanhúss þurfa að vera a. m. k. 80 cm á breidd og gjarnan aðaldyr enn þá breiðari. Lyftan, sem ern í samræmi við þarfir fatlaðra, þurfa að vera af ákveðinni stærð, og enn fremur þurfa takkarnir, sem á er stutt, að vera í ákveðinni hæð, sem er um það bil 1–1.20 m frá gólfi. Enn fremur er nauðsyn, að gerð og lega snyrtiherbergja sé hönnuð með sérstöku sniði og þannig, að t. d. hjólastólafólk geti athafnað sig á þessum snyrtiherbergjum. Ætlast er til þess, að a. m. k. eitt slíkt sé á hverri hæð í þeim þjónustustofnunum þar sem gerðar eru ráðstafanir til þess að auðvelda umferð fatlaðra. Og þar sem trappa er þörf skulu einnig vera skábrautir með viðurkenndum halla og við tröppur og skábrautir eiga að vera handrið í ca. 80–90 cm hæð með réttu gripi. Hurðarhúnar og lyftuhnappar eiga að vera í um það bil 105–110 cm hæð frá gólfi. Þessi ákvæði og ótalmargt fleira er ætlast til í samræmi við þessi ákvæði í byggingarlögum, að komi inn í byggingarsamþykktir.

Ef þetta verður að lögum og byggingarsamþykktir verða í samræmi við það sem til er ætlast af nefnd þeirri, sem fjallaði um þetta mál, þá á ég von á því, að við verðum betur settir varðandi þessi atriði varðandi nýbyggingar en flestar aðrar þjóðir og þá í hópi með þeim nágrönnum, okkar sem eru komnir hvað lengst í þessum efnum. Eftir er þá fyrst og fremst að finna leiðir til þess að breyta og endurbæta byggingar, sem eru í notkun, þannig að þær verði auðveldar til umferðar fötluðum.