22.02.1978
Efri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

15. mál, skipulagslög

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Félmn. hefur athugað það frv., sem hér er til meðferðar, og mælir með samþykkt þess með breytingu sem lögð er til á sérstöku þskj. Einn nm., Steingrímur Hermannsson, var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Frv. það, sem hér er til umr. umbreytingu á skipulagslögum, leiðir af frv. því til byggingarlaga sem við vorum áður að ræða og afgreiða til 3. umr. Sama nefnd og vann að samningu frv. til byggingarlaga samdi frv. það, sem hér liggur fyrir, og breytingar, sem hér eru gerðar á skipulagslögum, leiðir af breytingum þeim sem lagðar eru til samkv. frv. til byggingarlaga.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að rekja eða ræða ítarlega þetta mál nú. Það hefur verið mælt fyrir því að sjálfsögðu við 1. umr. Aðalbreytingarnar, sem fólgnar eru í þessu frv., eru þær, að frv. gerir ráð fyrir að öll sveitarfélög séu skipulagsskyld, en samkv. gildandi lögum nær skipulagsskyldan til þéttbýlisstaða þar sem búa 100 íbúar eða fleiri, þ. e. a. s. skipulagsskyldan nær ekki til þeirra staða sem fámennari eru.

Þá er gerð sú breyting með frv. þessu, að þar er gert ráð fyrir að gera skuli skipulagsuppdrætti af öllum þéttbýlisstöðum, þar sem búa 50 manns eða fleiri eða þar sem ætla má, að mati skipulagsstjórnar að þéttbýli risi. Nú er þetta samkv. gildandi lögum ekki skýrsla, nema íbúafjöldinn sé 100 eða yfir 100.

Þetta eru aðalbreytingarnar, sem þetta frv. felur í sér, og eins og ég sagði áðan mælir félmn. með því að frv. verði samþykkt.

En félmn. hefur á þskj. 371 gert eina brtt. Hún er til komin vegna brtt. frá Oddi Ólafssyni á þskj. 33. Í þeirri brtt. er kveðið á um, að í reglugerð skuli ákveðið að hið skipulagða svæði geri fötluðum og öldruðum auðvelt að komast leiðar sinnar. Enn fremur er tekið fram í þessari brtt., að ef um sérstök íbúðarhús fyrir fatlaða og aldraða sé að ræða á framkvæmdasvæði, skuli þau sett sem næst miðju, þar sem umferðarmöguleikar eru bestir, og í nágrenni þjónustustofnana. Það er talað um götur, gangstéttir og bilastæði í þessu sambandi. Félmn. tók þessa brtt. hv. 2. þm. Reykn. á þskj. 33 til meðferðar, og er skemmst frá því að segja, að n. er efnislega algerlega sammála þessari brtt. En við nánari athugun þótti hins vegar fara betur á því, með hliðsjón af uppbyggingu þeirrar greinar skipulagslaganna sem kæmi til með að breytast samkv. þessari brtt., að brtt. væri á annan veg orðuð og bæri gleggra með sér, að verið er að tala um hvað eigi að koma í reglugerð, en ekki að setja bein fyrirmæli í lögin. Með þetta í huga umsamdi félmn. í raun og veru till. hv. 2. þm. Reykn. Þar er engu efnislega breytt aðeins orðalagsbreyting. Leggur því félmn. til að brtt. hennar svo orðuð verði samþykkt. Ég vil taka það fram, að þessi brtt. var gerð í samráði við flm. brtt. á þskj. 33, hv. 2. þm. Reykn., sem ég ætla að muni draga þá till. til baka.