22.02.1978
Neðri deild: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2568 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

189. mál, búnaðarfræðsla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er rætt um frv. til l. um búnaðarfræðslu. Ég fagna því, að þetta frv. er fram komið og þakka hæstv. ráðh. fyrir þær skýringar sem hann lét því fylgja.

Frv. á sér alllangan aðdraganda. Það er undirbúið af nefnd sem hæstv. landbrh. skipaði árið 1973. Það sýnir með öðru, hvað þróun er hröð í þessum málum, að ástæða þótti þá til að láta endurskoða tiltölulega nýlega, vandaða löggjöf. En nefndinni, sem skipuð var 1973, var falið það verkefni að endurskoða lög og reglur um alla búnaðarmenntun í landinu og gera till. um tilhögun búnaðarmenntunar í framtíðinni.

Þetta frv. hefur svo farið um hendur Búnaðarþings. Þar hefur verið fjallað um það og einnig hefur verið aflað upplýsinga á Norðurlöndum, hjá nágrönnum okkar, til þess að undirbyggja meginreglur frv. sem best.

Þetta frv. er m. ö. o. ávöxtur af endurskoðun löggjafar um búnaðarmál. Sérstakur kafli fjallar um búvísindanámið, sem ástæða er til að staldra við fá andartök. Þeir, sem sóttu 30 ára afmæli framhaldsdeildar eða búvísindadeildar á Hvanneyri nú nýlega, urðu vitni að því, að þar var lýst ánægjulegri þróun þessara mála í fáum meitluðum orðum. Það var Guðmundur Jónsson, fyrrv. skólastjóri á Hvanneyri, sem dró þar upp mynd af þróuninni frá 1947. Og það duldist engum, sem á hann hlustaði, að í því 30 ára stríði hafði unnist sigur. Guðmundur var kennari á Hvanneyri frá 1928 þar til hann tók við skólastjórn og gegndi henni allt þangað til núv. skólastjóri, Magnús B. Jónsson, tók við fyrir nokkrum árum.

Það er svo, að hugmyndin um stofnun búnaðarháskóla hér á landi er orðin gömul, en þessi framhaldsdeild á Hvanneyri hefur starfað allt frá 1947. Þetta frv., þó samþ. yrði — og vonandi verður það samþykkt, táknar því ekki neina stökkbreytingu fram á við í þessum efnum, heldur miklu fremur staðfestingu á þeirri þróun sem orðið hefur.

Þetta er kölluð búvísindadeild, en ekki háskóli eða háskóladeild. En ég hygg að þar sé einungis um orðin tóm að ræða, því það er ætlast til þess, að deildin veiti eins mikla menntun og geri eins háar kröfur og kostur er á í þessum efnum. Enda hefur það komið fram af máli manna hér á undan og er fullkunnugt, að nemendur frá þessari búvísindadeild hafa verið metnir fullgildir erlendis. Í þessu frv. er m. ö. o. lagt til, að búnaðarnám á háskólastigi fari fram á Hvanneyri í Borgarfirði í sérstakri deild, sem hér er nefnd búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri.

Ég ítreka það, að ég fagna því að þetta frv. er fram komið. Ég mun ekki hafa um það fleiri orð, þar sem ég á sæti í landbn. sem fær málið til umfjöllunar. En um leið og ég lýsi stuðningi mínum við málið vænti ég þess, að um það náist sú samstaða sem hverju góðu máli er nauðsynlegt til framgangs og samþykktar.