22.02.1978
Neðri deild: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

191. mál, félagsheimili

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér sýnist, að hér sé um að ræða till. sem full ástæða sé til að styðja. Hún stefnir að því að auðvelda fólki menningarstarfsemi úti á landsbyggðinni. Reyndar vekur hún líka athygli á því, hve takmarkaður stuðningur hins opinbera er við þá starfsemi. Þetta kemur m. a. fram í grg., þar sem er verið að ræða um félagsheimilasjóð og ráðstöfunarfé hans, sem er að sjálfsögðu allt of lítið.

En þetta gefur mér tilefni til þess enn einu sinni að ræða almennt um menningarstarfsemi í þessu landi. Og þá hygg ég að ýmsir þeir, sem á dönsku kallast að vera „viderekomne“ í þeim efnum, muni hneykslast heldur en ekki. Við leifðum okkur það hér nokkrir í vetur að benda á það, að Sinfóníuhljómsveitin fær tiltölulega miklu, miklu meiri peninga en öll áhugaleikstarfsemin í landinu, svona 10 sinnum meiri peninga, og töldum að ekki væri samræmi í þessu. Við vorum ekki að amast við Sinfóníuhljómsveitinni, heldur vildum við fá meira samræmi í þetta og meiri fjármuni til styrktar þeirri menningarstarfsemi sem stunduð er úti um allar byggðir þessa lands. Og ég ítreka það, sem ég sagði í vetur: sú starfsemi er vaxtarbroddur íslenskrar menningar í dag, miklu þýðingarmeiri fyrir íslenska menningu en allir sinfóníutónleikarnir hér upp í háskóla til samans.

En í þessu sambandi er líka óhjákvæmilegt að ræða annað, og það er sú tíska sem upp er komin að efna til griðalegra listahátíða. Svona mikil menningarþjóð erum við Íslendingar Ónefndir aðilar hafa fengið það næstum að segja staðfest í stjórnarskránni, að á tveggja ára fresti skuli efna til gríðarlega mikillar listahátíðar hér í Reykjavík. Ég held að ekki væri vanþörf á að gera úttekt á því, hvaða þýðingu þessi starfsemi hefur fyrir íslenska menningu. En það er íslensk menning sem skiptir okkur mestu. Ég er sannfærður um það, að margir þeir, sem stunda tónlist og ýmsar listgreinar hér uppi, geti ýmislegt lært í sambandi við þessar listahátíðir. En ég er ekki í neinum vafa um það heldur, að hægt væri að kenna þeim það án alls þess brambolts og tilkostnaðar sem í listahátíðum felst. Margir góðir gestir koma hingað, heimsfrægir menn. Það vantar ekki. Það vantar ekki romsuna um öll heimsfrægðarherlegheitin sem fylgja listahátíðum. Áhrif þessa eru þó fyrst og fremst þau, að athygli umheimsins er vakin á því, að hér á sér stað menningarstarfsemi, listastarfsemi. En þessari listastarfsemi er að miklu leyti haldið uppi af útlendingum og þess vegna er líka tekið eftir henni. M. ö. o.: þetta er ekkert annað en sýningargluggi, fyrst og fremst sýningargluggi. Og ég segi: Á meðan aldrei virðist standa á fjármunum til þessarar starfsemi, er það reginhneyksli hversu skorin er við nögl allur stuðningur við menningarstarfsemi úti um hinar dreifðu byggðir þessa lands. Það er kominn tími til þess að jafna þar metin, svo sannarlega. Fyrir nú utan þá plágu sem fylgir öllum þessum listahátíðum og annarri slíkri starfsemi, heimsmenningarstarfsemi, en það er sá hátíðarsvipur sem kemur á menn í tilefni af þessu, sú umr. eða sem af þessu sprettur, tilgerðin öll og yfirborðsmennskan sem einkennir hana. Í þessu sambandi dettur mér í hug þáttur sem fjallaði um bókmenntir fyrir nokkrum árum. Það komu saman rithöfundar og skáld og bar að sjálfsögðu mest á þeim sem mest tök höfðu á heimsmenningunni. En mér reiknaðist til, á ferðum mínum um kjördæmi mitt, þar sem ég hitti fyrir bændur og sjómenn og þeirra konur, óbreytta Íslendinga, að þessir bókmenntaþættir drægju úr bókmenntaáhuga þessa ágæta fólks um svona á að giska 10% hver þáttur. Guði sé lof, að þeir urðu aldrei nema 8, þannig að það má reikna með að eftir hafi orðið 20% af bókmenntaáhuganum þegar upp var staðið. Fólki blöskraði tilgerðin og hátíðleikinn, þessi tilhneiging hjá þessu fólki, sem er í forsvari fyrir ýmsa menningu, að setja sig á háan hest, telja sig vera eitthvað merkilegra en annað fólk. Fyrir nú utan það, — og kannske má segja að það sé eitt af því fáa jákvæða við þetta, — að sumt af þessari speki er algerlega óskiljanlegt þrugl.

Áróður skiptir miklu máli í dag. En það er ekki uppi mikill áróður af hálfu félagsheimilanna eða þess fólks sem stundar menningarstarfsemina úti á landsbyggðinni, þess fólks sem syngur í kórunum, sem efnir til leiksýninganna o. s. frv., o. s. frv. Það tekur ekki þátt í þeim þáttum, sem öll þjóðin mænir á. Enn síður er það aðili að þeim sýningarglugga sem listahátíðirnar eru. En í hlutfalli við áróðurinn virðist aukast árangur manna við að útvega fjármuni til listastarfsemi. Allt, sem stuðlar að því að vekja athygli á menningarstarfseminni úti á landsbyggðinni, er til góðs. Það stuðlar að því að auka skilning þjóðarinnar á þýðingu þessarar starfsemi. meðan af hálfu ýmissa annarra aðila er allt gert til þess að draga athygli hennar frá þessu, en að allra handa menningarlegu „fýrverkeríi“, sem efnt er til öðru hverju.

Þetta vil ég segja í tilefni af þessu frv. sem þrír hv. framsóknarmenn flytja.