23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

183. mál, ríkið virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins

Flm. (Gunnar Sveinsson):

Herra forseti. Við hv. alþm. Ingvar Gíslason flytjum hér till. til þál. um að ríkið sé virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins, það er 183. mál. Till. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela félmrh. að undirbúa í samráði við aðila vinnumarkaðarins frv. til laga er feli í sér að ríkisstj. séu á hverjum tíma virkur aðili að heildarkjarasamningi um kaup og kjör í landinu, ásamt aðilum vinnumarkaðarins.“

Eins og öllum alþm. er kunnugt hafa farið fram að undanförnu, bæði á Alþ. og annars staðar, miklar umr. um samninga vinnumarkaðarins og á hvern hátt þeim væri best fyrir komið. Þeir, sem hafa lifað og hrærst í starfi í sambandi við stéttarfélög, samvinnufélög, verkalýðsfélög og launþegasamtök svo að segja frá því að þeir komust til vits og ára, hafa náttúrlega oft hugleitt á hvern hátt þessum samningum væri fyrir komið. Ég ætla í byrjun máls míns að gera svolitla grein fyrir því, hvernig starfsmaður í samvinnufélagi lítur á þessa samningagerð, því að mér finnst að það sé svolítið innlegg í þetta mál, þegar það er rætt frá grunni.

Þegar við lítum yfir þær samninganefndir, sem standa í samningum vinnumarkaðarins, sjáum við að þarna eru menn sem hafa setið báðum megin við borðið. Í fyrsta lagi hafa þeir verið í verkalýðsfélagi eða sjómannafélagi og verið þá þátttakendur í samningagerðinni þeim megin frá. og svo aftur sem framkvæmdastjórar eða starfsmenn fyrir atvinnufyrirtækjum. Þeir þekkja því þessar leiðir frá báðum hliðum.

Hvað viðvíkur forstöðumönnum fyrir samvinnufélagi, þá lítur málið þannig út, að í einu stóru samvinnufélagi kjósa félagsmenn þess samvinnufélags stjórn fyrir félagið, sú stjórn ræður aftur framkvæmdastjóra, og þau fyrirmæli, sem hann fær frá stjórninni, eru fyrst og fremst þau að reka fyrirtækið á sem hagkvæmastan hátt. hafa lágt vöruverð, skila hagnaði til uppbyggingar fyrir félagíð og til endurgreiðslu til félagsmanna. Um kaupgreiðslur er ekki beinlínis rætt, en reiknað með að kaup sé greitt eftir þeim samningum sem gilda á hverjum tíma. Þessir forustumenn fyrir samvinnufélagi koma svo síðar sem jafnframt forustumenn fyrir launþegasamtökum og gera kaupkröfur til þessara samvinnufélaga, og þá verður hinn gullni meðalvegur, sem þessir forustumenn fyrir samvinnufélögunum fara, oft vandrataður. Það er því oft ekki sársaukalaust er þessir forustumenn finna til þess, að einmitt þeir menn í launþegastétt, sem eru hvort tveggja forustumenn fyrir launþegum og forustumenn fyrir samvinnufélögum, vilja oft ásaka þessa forustumenn fyrir ekki nægilega sanngirni þegar til samninga kemur.

Ég vil aðeins nefna í þessu sambandi eitt dæmi um þessi atriði sem er nokkuð táknrænt, og hefur það komið fyrir á öðrum stöðum. Á mínu félagssvæði kom það fyrir fyrir nokkru, að verkalýðsfélag á staðnum fór í verkfall, sem er náttúrlega ekki í frásögur færandi, en það lenti í verkfalli við dótturfélag samvinnufyrirtækisins eða kaupfélagsins, sem í sjálfu sér var ekki óeðlilegt þar sem það náði yfir allt svæðið. Eftir viku verkfall biður verkalýðsfélagið kaupfélagið um styrk í verkfallssjóð. Það væri í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, þó að sú beiðni kæmi fram, því að upphaflega hafði kaupfélagið verið stofnað af verkalýðsfélaginu og samkv. grundvallarreglum sínum átti það að vinna fyrir verkamenn og hafði gert með því að fara eftir þeim fyrirmælum sem því voru fengin í samþykktum. En þarna kom upp dálítið einkennileg staða gagnvart einmitt þessari samningagerð. Forustumenn kaupfélagsins voru svo sem í engum vafa um hvað ætti að gera. Það var samþykkt einróma af stjórninni að leggja fé í verkfallssjóð verkalýðsfélagsins. En þarna var þá komið upp þetta dæmi, að kaupfélagið var farið að leggja í verkfallssjóð verkalýðsfélagsins, sem var í verkfalli við þess eigið fyrirtæki og fyrirtæki þeirra verkamanna sem voru náttúrlega í verkfalli. Ég kem með þetta dæmi vegna þess að það sýnir á hvern hátt þessi mál geta snúist í þeim samningum sem eru að fara fram daglega í okkar þjóðfélagi.

En svo að við víkjum nánar að þessari till., þá er, eins og fram kemur í henni, um mikla breytingu að ræða frá því sem verið hefur. Ég tel að ég þurfi ekki að lýsa því, hvernig samningagerðir hafa farið fram að undanförnu. Það þekkjum við allir of vel til þess að ég þurfi að vera að skýra það.

En á hverju byggist þessi aðferð, þessi tilhögun, sem við höfum notað? Hún byggist fyrst og fremst á frjálsu markaðskerfi, að framboð og eftirspurn ráði markaðinum, bæði vinnumarkaðinum og fjármagnsmarkaðinum. Talið er að rétt sé að ríkisvaldið hafi sem minnst áhrif á gerð kjarasamninga. Hins vegar á ríkisvaldið að grípa inn í, ef um stórfellda framleiðslustöðvun er að ræða eða stórfellt atvinnuleysi. Hið frjálsa markaðskerfi á að sjá um afganginn. Verkföll eiga að geta staðið eins lengi og þörf er á, og atvinnurekendur eiga helst ekki að vera mjög mannlegir, heldur fyrst og fremst að vera peningamenn, sem sjá um að semja ekki fram yfir það sem geta fyrirtækisins leyfir. Og þegar verkbönn og verkföll hafa staðið til skiptis það lengi að atvinnurekandinn er kominn á kaldan klaka og vinnuþiggjendur eiga ekki málungi matar, þá virðist vera að tími sé til að semja eftir þessu kerfi sem við höfum farið eftir.

En spurningin er: Höfum við farið eftir þessu kerfi? Því vil ég svara neitandi. Við höfum að mestu leyti hafnað hinu frjálsa markaðskerfi. Ég tel að því hafi verið hafnað fyrir 1920, og þessi þróun í átt frá frjálsu markaðskerfi hefur verið að aukast ár frá ári. Tryggingalöggjöfin, afurðasölulöggjöfin, öll vinnulöggjöf og að nokkru leyti fræðslu- og heilbrigðislöggjöfin, er sett hefur verið á síðari árum, hefur staðfest það betur og betur, að við höfum afneitað hinu frjálsa markaðskerfi að stórum hluta. Allir flokkar hafa verið sama sinnis að mestu leyti sama hvaða ríkisstj. hefur verið, og þó að einstakir hópar innan vissra flokka hafi rekið upp óp við og við og viljað „báknið burt“, þá hefur í sjálfu sér engin meining verið á bak við það. Orsökin er sú, að þrátt fyrir kosti, er meðmælendur hins frjálsa markaðskerfis hafa talið fylgja því, svo sem meiri hagvöxt og þar af leiðandi meiri peninga, betra húsnæði og betri lífsafkomu, hafa menn orðið sammála um að fórna fjárhagslegum atvinnuávinningi af hagvexti fyrir önnur lífsgæði sem menn telja verðmeiri. Á þetta sérstaklega við á seinni tímum, þar sem menn hafa tekið umhverfið, samhjálpina, trygginguna, heilsugæsluna og menntun fyrir alla þjóðfélagsþegna fram yfir, meiri hagvöxt.

Í sambandi við samningagerðina á vinnumarkaðinum höfum við ekki breytt til. Við teljum að rétt sé að fela þetta verkefni, kjarasamninga, aðilum vinnumarkaðarins, eins og var áður en við neituðum að mestu leyti þessu frjálsa markaðskerfi. En eðlilega, með breyttum aðstæðum í þjóðfélagi, þurfum við einnig að breyta þessu atriði eins og öðru sem breyta þarf í þjóðfélaginu.

Ef við ætlum að gera breytingar, sem skipta verulegu máli, þá erum við oftast nær vanir að spyrja: Hvað gera aðrar þjóðir? Og ég er í engum vafa um það, að ef þetta fyrirkomulag, sem hér er bent á, hefði verið búið að taka upp t. d. í Svíþjóð eða Noregi, þá hefði þótt eðlilegt að reyna þetta fyrirkomulag hér. Má þá benda á, að við erum mjög fljótir að taka upp nýjungar sem koma frá þessum löndum, hvernig svo sem þær reynast hjá okkur.

En lítum lauslega á það sem er að gerast í öðrum löndum í sambandi við þetta, t. d. Ástralíu. Þar er ríkið, sem að mestu leyti ákveður kaupið fyrir eitt ár í einu og í litlu samráði við verkalýðshreyfingu, þar sem hún er mjög sterk. d Kanada er það fyrst og fremst upplýsingastofnun, sem gefur tilkynningu um hvað eðlilegt sé að kaupið hækki mikið, og almenningsálítið heldur því innan þeirra marka. Um óeðlilegar kauphækkanir einstakra stétta verður því ekki að ræða, þannig að röskun verður ekki á hinum almenna markaði. Hægt er að halda kaupi innan þess ramma sem ríkisvaldið á hverjum tíma álítur eðlilegt. Flestallir þekkjum við nokkuð vel til Norðurlandanna, þar sem það er fyrst og fremst þrýstingur ríkisvaldsins á hin sterku alþýðusamtök sem hefur áhrif á það, hvernig launasamningar fara fram. Einnig má á það benda, eins og við þekkjum, að alþýðusamtökin eru sterk í þessum löndum og hafa á mörgum tímum haft úrslitaáhrif í ríkisstj. Um samninga milli ríkisvaldsins og verkalýðssamtakanna hefur því raunverulega verið að ræða, þegar samið hefur verið um kaup og kjör. Við þekkjum líka til í Englandi, þar sem vagga verkalýðshreyfingarinnar stóð, Englendingar virðast, að eigin sögn, vera komnir í nokkrar ógöngur með það skipulag sem ríkir hjá þeim. Helsta áhyggjuefni þeirra virðist vera það, að þeir virðast ekki ráða við samkeppnisaðstöðuna í Evrópu, þannig að Vestur-Þjóðverjar vilja komast þar fram úr þeim í framleiðslugetu. Þetta breska „system“ virðist því hafa gengið sér alveg til húðar hvað varðar að tryggja mönnum hærri laun, einmitt vegna þess að skipulagið virðist ekki vera komið úr skorðum. Ég ætla aðeins að koma að þessu seinna.

Ég tel að í öllum þessum löndum, sem hér hefur verið minnst á, hafi þróunin verið í þá átt fyrst og fremst, að ríkisvaldið hefur aukið afskipti sín af þessum málum og tekið virkari þátt í samningagerð, þó að ekki hafi verið gengið eins langt og hér er lagt til. En ég tel að við höfum nokkra sérstöðu í þessum málum. Í þessum löndum, sem ég minntist á áðan, hefur verið gengið út frá frjálsu markaðskerfi. Þar er gengið út frá, að eðlilegt atvinnuleysi sé 4–6%. Ég held að við hér á landi höfum hafnað slíku eðlilegu ástandi. Í skýrslu, sem hér kom út fyrir nokkurn, er einmitt skýrt frá því, að síðan 1940 hafi ekki verið nema 4–5 ár atvinnuleysi á Íslandi, þannig að ég held að allar þjóðfélagsstéttir og ráðamenn í þjóðfélaginu séu búin að afskrifa það sem eðlilegt ástand eða möguleika sem hægt sé að byggja á, að við höfum það ástand sem er í þessum löndum. Við höfum líka dálitla sérstöðu að öðru leyti, þar sem er fámenni þjóðarinnar, þó að ég fari ekki nánar út í það að skilgreina það. Við höfum enn þá sérstöðu að einu leyti, sem er kannske einna mikilvægust, að við höfum töluvert veikara framkvæmdavald en þessar þjóðir. Þó að þessi lönd vilji ógjarnan grípa til þessa síðasta vopns, sem ég minntist á, að það sé yfirleitt ekki gert, þá vitum við að þau vopn, sem aldrei eru notuð, eru einna áhrifaríkust.

Okkur er í fersku minni verkamannastjórnin, sem nú ríkir í Bretlandi, og þær aðstæður, sem hafa neytt hana til þess að beita hervaldi til að halda vissum hópum í þjóðfélaginu innan þess marks, sem þeir telja eðlilegt, innan 10% hækkunarmarks, en ríkisstj. hefur samið við verkalýðsfélögin og atvinnurekendur um að fara megi upp að því marki. Það hljóta að hafa verið töluvert þung spor fyrir þessa stjórn að þurfa að gripa til þessara ráða. Við getum einnig tekið sem dæmi um þetta þá atburði sem eru að gerast nú daglega í Bandaríkjunum, þar sem hið frjálsa markaðskerfi ræður, að eftir 11 vikna verkfall, þar sem kolanámumenn standa í verkfalli og heimta launahækkun, þá verður Bandaríkjastjórn að gripa inn í. Ef við hugsum okkur þetta dæmi hér á Íslandi, sjáum við að þetta mundi aldrei geta gerst hér. Í fyrsta lagi vegna þess að verkfall mundi ekki geta staðið hjá svo litlum hóp í svona langan tíma og í öðru lagi mundi ríkisvaldið ekki geta gripið inn í á þann hátt sem gert er í Bandaríkjunum, vegna þess að ríkisvaldið væri búið að grípa inn í og koma á sættum löngu áður en til þess kæmi, sem nú er að gerast í Bandaríkjunum, og það er vegna þess að þetta kerfi, sem þar er, er ekki hjá okkur.

Ég vil svo koma hér inn á það sem hefur raunverulega gerst hjá okkur í þessum málum á undanförnum árum. Nokkrar till. hafa komið fram m. a. s. á þessu þingi, er snerta kjör hins almenna launþega, fluttar af þm. Alþb., svo sem till. um hámarkslaun og till. um að ríkið semji beint við Stéttarsamband bænda, en till. um það mun einnig væntanleg frá ríkisstj. Áður hefur Alþ. nokkrum sinnum sett lög er snerta kjör launþega í landinu. Er þar, skemmst að minnast laga sem vinstri stjórnin setti 1971 um styttingu vinnuvikunnar og lengingu orlofs.

Umr. um, að bændur semji beint við ríkisstj. hafa farið fram áður, en þó ekki orðið af neinni samþykkt. Þó má gera ráð fyrir því, að nú sé vilji fyrir því, að frv. um þetta komist í gegn, að bændur semji beint við ríkisstj.

Nú nýlega hafa verið gerðir samningar við opinbera starfsmenn um kaup og kjör og þeir fengið takmarkaðan verkfallsrétt.

Fiskverð er ákveðið í flestum tilfellum af yfirnefnd, þar sem ríkið skipar oddamann. Má því með nokkrum sanni segja, að þar sé ríkið viðsemjandi á svipaðan hátt og hjá bændum.

Ef við tökum nú saman allar þær stéttir sem raunverulega semja við ríkisvaldið og hvað það er stór hluti af þjóðinni, þá mundi ég áætla, að það gæti verið um 35% eða 1/3 hluti þjóðarinnar sem nú semur beint við ríkisvaldið. Það er því augljóst, að nú þegar semur stór hluti af launafólki í landinu beint við ríkisvaldið, og ef við lítum til samningagerða undanfarinna ára, er um óbeina samningagerð að ræða gagnvart miklu fleiri aðilum, því að þær samninganefndir, sem á undanförnum árum hefur verið stillt upp til að semja um kaup og kjör, hafa að verulegu leyti verið getu- og úrræðalausar til samninga. Atvinnurekendur hafa í flestum tilfellum vitað, að þeim var um megn að greiða það kaup, sem um var verið að semja, en hafa, í trausti þess að ríkisvaldið gripi í taumana með aðstoð, samið langt umfram það sem þeir gátu staðið við. Það hefur haft í för með sér auðsæ verðbólguáhrif.

Við flm. teljum að með almennri þátttöku ríkisvaldsins í samningagerð og raunhæfum áhrifum á samningagerðina mundi vinnast í fyrsta lagi samræming launataxta, sem er geysilega stórt atriði í þessu máli. En eins og flestum er kunnugt ríkir mikið ósamræmi milli samninga ríkisvaldsins og atvinnurekenda og milli þeirra síðarnefndu innbyrðis. Má nefna í því sambandi, að eftir heildarsamninga ASÍ við atvinnurekendur á s. l. ári komu samningar ríkisins við opinbera starfsmenn. Var þar miðað við að leiðrétting fengist á kjörum þeirra til samræmis við þá sem áður voru búnir að semja. En þegar upp var staðið voru samningar opinberra starfsmanna þó nokkuð miklu hagstæðari, fyrir utan ýmis fríðindi sem opinberir starfsmenn hafa, en aðrir hafa ekki.

Það má með sanni segja, að umsvif ríkisins hér á landi séu orðin það mikil að ekki sé vandi fyrir ríkisvaldið að finna flestum starfsmönnum í þjónustu- og atvinnugreinum á Íslandi einhvers staðar stað í sinni launaskrá. Það hefur þann kost, að það mundi skapa miklu meira heildarsamræmi í öllum launum í landinu en nú er, þó náttúrlega að því tilskildu að gott samstarf og góð samvinna tækist með ríkisvaldinu og launþegasamtökum og öðrum aðilum vinnumarkaðarins. Ég held líka að sú láglaunastefna, sem Alþýðusamband Íslands hefur verið að reyna að vinna að á undanförnum árum, en orðið sárlega lítið ágengt, mundi fá töluvert mikinn stuðning í sambandi við það að á kæmist allsherjar launaskrá, því að ég tel að ýmislegt af þeim atvinnurekstri og þeirri atvinnu, sem fram fer utan þessara heildarkjarasamninga ríkisvaldsins, mundi hækka í skala við að koma inn á þá flokka.

Annar kostur við það, að ríkið sé virkur aðili að heildarsamningum, eru skarpari mörk en nú eru um hvað verið er að semja og við hverja er verið að semja. Ég gat um það áðan, að í mörgum undanförnum samningum milli aðila vinnumarkaðarins hefðu þessi mörk ekki komið nógu skýrt fram. Forustumenn launþegasamtakanna hafa túlkað viðsemjendur sína sem hina raunverulegu viðsemjendur er sætu yfir því fjármagni, að þeir gætu auðveldlega greitt hærra kaup, ekki aðeins í krónum, heldur hærri rauntekjum. Hækkað kaup hefði því ekki áhrif til hækkunar verðlags og þar með verðbólguaukningu. Raunveruleikinn er allt annar, og það sannar best sú skýrsla um verðbólguvandann sem hér hefur verið dreift, að frá árinu 1960 til ársins í ár hefur að meðaltali verið um 20% kauphækkun á ári, en rauntekjur hafa aðeins aukist um 2%. Afleiðingin hefur verið aukin verðbólga og raunverulegar kjarabætur sáralitlar. Ég tel að raunveruleikinn sé sá, að atvinnurekendur hafi gefist upp á að hamla gegn kauphækkunum, og það er í sjálfu sér ósköp skiljanlegt. Það er óvinsælt, og atvinnurekendur vita það af fyrri reynslu, að ríkisvaldið mun hlaupa undir bagga, ef illa gengur, og bæta upp það sem á vantar. Ég tel því, eða við flm., að það sé nauðsynlegt að ríkisvaldið sé virkur aðili að samningsgerðinni og segi viðsemjendum hvað viðkomandi samningsgerð hafi í för með sér. Með núverandi hagstjórnartækjum ætti slíkt ekki að vera erfitt. Það mætti fela það sérstakri stofnun er gæfi upplýsingar um hvað raunverulega er hægt að borga við viðkomandi aðstæður, hvar verðbólgan kemur inn í dæmið, hvar raunveruleg takmörk eru. Þessum upplýsingum ætti að koma í fjölmiðla á viðtækan hátt, þar sem gerð væri grein fyrir afleiðingum ef yfir mörkin væri farið. Inn í þetta dæmi kæmu eðlilega margir liðir: markaðsverð, inn- og útflutningsframleiðsla, stjórn peningamála, fjárfesting opinberra aðila og einstaklinga, afborganir, skuldir o. s. frv. Launþegasamtökin gætu síðan eðlilega valið og hafnað.

Stærsti munurinn frá því sem nú er, er að þarna erum við að fást við allt dæmið. Það er verið að skipta öllu kaupi og kjörum í einu á vegum samfélagsins. Með því að ríkið sé þarna að semja við bændur, semja við sjómenn, semja við opinbera starfsmenn og sé aðili að þeirri samningagerð, sem þá er eftir, hefur það allt í einni hendi, sem þarf til að byggja upp þá hagstjórn, sem ætlað er að beita, og þá er unnt að leggja allt dæmið fyrir, viðsemjendurna, en ekki bara einstaka aðila úr atvinnustéttunum, þannig að einn sé að semja í dag og annar á morgun, einn verði að fá hækkun þegar hinn er búinn að fá hækkun.

Í mörgum kosningum undanfarin ár hafa menn bent á það, að kjarabaráttan ætti að fara fram í kjörklefa. Með þeirri breytingu, sem hér er rætt um, er það raunverulegt. Beint samband skapaðist milli raunverulegs kaupgjalds og kaupmáttar og viðkomandi ríkisstj. í landinu. Sá afsökunaraðili, er atvinnurekendur hafa verið fyrir lélegum kaupmætti launa og víxlgengi kaupgjalds og verðlags, væri horfinn þar sem aðeins væri um einn aðila að ræða, sem gæti stjórnað, og hann gæti samið í samráði við alla aðila vinnumarkaðarins í einu.

Með þessum breytingum tengdist saman raunverulegt vald og ábyrgð. Þarna gæti komið til greina, að við höfum e. t. v. of langt á milli kosninga, þannig að menn gætu ekki valið og hafnað nógu oft. En í sjálfu sér væri ekkert á móti því að taka upp þá breytingu, sem hefur verið framkvæmd í Svíþjóð — við erum mjög fúsir yfirleitt til að taka við nýjungum sem koma frá Svíþjóð — og kjósa á þriggja ára fresti, þannig að þetta uppgjör færi fram með styttra millibili en nú er.

Í þeirri skýrslu, sem útbýtt var og heitir Verðbólguvandinn, er nokkuð farið inn á þessi mál. Ég ætla hér í lokin að minnast á einn kafla, sem kemur alveg sérstaklega inn á þetta atriði sem hér er verið að ræða. Það er nauðsyn á samræmdri efnahagsstefnu. Það er 5. kafli í þessari grg. um verðbólguvandann. Ég ætla aðeins að stikla á stóru í sambandi við þau atriði, sem koma inn á þetta mál, og þær úrlausnir, sem nefndin hefur komist að niðurstöðu um, sem ég tel að séu í fullu samræmi við það sem hér hefur verið sagt.

„Nauðsyn samræmdrar efnahagsstefnu. Reynsla undanfarinna ára og áratuga sýnir glöggt þörfina fyrir samræmda efnahagsstefnu, sem ekki styðst aðeins við þingfylgi ríkisstjórna, en nýtur einnig viðurkenningar og skilnings hagsmunasamtaka almennings. Meginforsenda fyrir árangursríkri hagstjórn, þar sem komist sé nálægt viðunandi niðurstöðu að því er varðar helstu markmið efnahagsstefnu — að verðlagsþróuninni meðtalinni — er eins konar málamiðlun milli þeirra, sem taka mikilvægustu ákvarðanir í efnahagsmálum þjóðarinnar af hálfu stjórnvalda annars vegar og aðila vinnumarkaðarins hins vegar.“

Og hér segir m. a.: „Heiti eins og tekjustefna eru villandi að því leyti, að engin von eða vit er í því að byggja viðnám gegn verðbólgu á því einu að halda aftur af tekjuhækkun almennings, en hafa lausatök á fjármálum og peningamálum.“

Þarna er einnig komið að meginstefnunni í þessu, að gera sér grein fyrir öllu dæminu í einu:

„Í raun og veru þarf að leita málamiðlunar með mikilvægustu ákvörðunaraðilum hagkerfisins með einhverjum þeim hætti, sem í senn virðir grundvallarreglur fulltrúalýðræðis og hefð frjálsra samninga um kaup og kjör,“ segir í þessari grein. „Til þess að móta farsæla, samræmda efnahagsstefnu á næstu árum þarf að taka mið af nokkrum meginatriðum. Þau eru þessi:

1) Árlegar þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir, tengdar könnunarreikningum fyrir helstu þjóðhagsstærðir fáein ár fram í tímann hverju sinni, verði sameiginleg viðmiðun allra, sem áhrif hafa á stjórn efnahagsmála.“ — Ég les hér aðeins smákafla úr þessu.

„2) Stefnan í fjármálum ríkisins, peninga-, gengis- og lánamálum sé kynnt og rædd á sömu forsendum og launa- og tekjustefnan.“

Þá er það sem þessi þáltill., sem við flytjum hér, kemst í andstöðu við verðbólgunefndina, sem skrifar þessa grein um verðbólguvandann, en þar segir:

„3) Meginreglan í launa- og tekjuákvörðunum eru frjálsir samningar milli hagsmunaaðila, en aðgerðir af opinberri hálfu koma einnig til greina sem þáttur í lausn kjaradeilna, enda séu þær aðgerðir byggðar á viðtæku samráði við hagsmunasamtök.

Þarna vildi ég að þessi grein breyttist þannig, að aðgerðir hins opinbera komi ekki einungis til greina, heldur sé ríkisvaldið virkur aðili að þeirri samningagerð, sem gerð er á hverjum tíma til samræmingar og stjórnunar.

„4) Þau markmið, sem efnahagsstefnunni eru sett, verða að vera raunhæf og samrýmanleg innbyrðis. Óraunhæf markmið koma óorði á efnahagsstefnuna.“

Hér áfram:

„En til þess að þær ákvarðanir, séu farsælar, þegar til lengdar lætur, verða þær að miðast við raunhæft mat á þjóðarhag.“

Svo er bent hér á samvinnunefnd milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins, sem í sjálfu sér gæti alveg eins verið aðili sem samninganefnd. Og þar er rætt um að ráðh. verði formaður samvinnunefndarinnar, aðild að nefndinni eigi fulltrúar frá hagsmunasamtökum og þess beri að gæta að samtök allra mikilvægustu samtaka á vinnumarkaðinum eigi aðild að nefndinni. Nefndin hittist reglulega o. s. frv.

„5) Efnahagsstefnuna verður að móta með hliðsjón af markmiðum tekjuskiptingar og atvinnuöryggis auk markmiðanna um jafnvægi í utanríkisviðskiptum og hægari verðbreytingar

6) Jafnvel skammtímaráðstafanir í efnahagsmálum verða að taka nokkurt mið af þróuninni til lengri tíma lítið.“

Ég held að í þessari skýrslu, sem hér kemur frá verðbólgunefnd sé raunverulega farið inn á þetta markmið að mestu leyti, nema það er aðeins rætt um samstarfsnefnd sem gerir till. og verður þannig hálfpartinn í lausu lofti. Ég held að það sé komin töluverð reynsla á þetta fyrirkomulag, að það verði að vera miklu fastara form, það verði að vera beinn aðili sem semur og hefur áhrif á samningagerðina á hverjum tíma og mótar þannig heildarstefnuna í efnahagsmálum. Ég held að við komumst ekki að farsælli lausn nema það sé gert. Ef sú staða kemur upp að ekki semst milli ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sjómanna og bænda innan þessa ramma er viðkomandi stofnun ríkisins telji eðlilegt, sem hefði með þessi mál að gera, ætti ríkisstj. ávallt þess kost að leggja málið undir dóm þjóðarinnar í almennum kosningum og hlíta þeim úrskurði. Þá á náttúrlega sama við um og hér, en þó miklu nánar en áður hefur verið. Ég tel að með þessu mundi ábyrgðin vera miklu greinilegri og koma sterkar fram en hún hefur gert með því fyrirkomulagi sem við höfum nú. En þau úrræði, sem koma hér fram hjá verðbólgunefnd, eru ekki nógu raunhæf og hitta ekki nógu vel í mark.

Ég vil svo leggja til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.