23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

183. mál, ríkið virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins

Jóhannes Árnason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs í upphafi umr. um þessa till., er sú, að ég á sæti hér á Alþ. aðeins um skamman tíma sem varamaður og á því ekki kost á að taka þátt í umr. um þetta mál síðar, þegar og ef það kemur til frekari umr. hér á hv. Alþingi.

till. til þál., sem hér er til umr., felur það í sér, að lögfesta eigi að ríkisstj. sé á hverjum tíma virkur aðili að heildarkjarasamningi um kaup og kjör í landinu ásamt aðilum vinnumarkaðarins. Samkv. því sem fram kemur í grg., sem fylgir till., er aðaltilgangur till. sá, að hún felur það í sér að ríkisvaldið gerist beinn þátttakandi í gerð kjarasamninga og taki þannig fulla ábyrgð á framkvæmd þeirra á svipaðan hátt og um einn starfsmenn væri að ræða. Ég held að sú stefna, sem þessi till. gerir ráð fyrir varðandi kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði, sé næsta varhugaverð og mjög varhugaverð. Hér er um að ræða stóraukin ríkisafskipti, sem vissulega hafa verið ærin fyrir. eins og hv. síðasti ræðumaður kom réttilega inn á, — ríkisafskipti á sviði sem númer eitt á að vera fyrst og fremst mál aðila vinnumarkaðarins: launþega og vinnuveitenda. Ég er ekki viss um, hvort hv. flm. þessarar till. hafa hugsað þetta mál nógu vel eða það langt áleiðis, að þeir hafi gert sér grein fyrir ýmsum spurningum sem þarna koma upp. Og þessi till. vekur vissulega ýmsar spurningar og aths. sem mig langar til að víkja að nokkrum orðum.

Helstu rök, sem færð eru fram fyrir þeirri stefnu sem felst í till. og rækilega er komið inn á og greint frá í grg., eru m. a. þau, að ríkisvaldið hafi þegar svo mikið með kaupgjaldsmál hinna ýmsu starfsstétta í þjóðfélaginu að gera, að það réttlæti það að ríkisvaldið sjái nánast um þetta allt, ekki með nokkrum afskiptum, svo sem jafnan hefur verið, heldur með beinni aðild og beri þannig fulla ábyrgð á framkvæmd kjarasamninga á svipaðan hátt og um eigin starfsmenn væri að ræða, svo að ég endurtaki það sem ég vitnaði í áðan. Minna má það nú ekki vera. hetta orðalag í grg. minnir mann óneitanlega á ákvæði í lögum um tekjuskatt og útsvar, sem gjarnan glymur í eyrum okkar í útvarpi.

þegar verið er að minna atvinnurekendur og launagreiðendur á það, að þeir beri ábyrgð á opinberum gjöldum starfsmanna sinna alveg á sama hátt og um þeirra eigin gjöld væri að ræða. Ég geri ekki ráð fyrir því, að sú sé ætlun eða hugsun hv. flm. að ganga í raun og veru svona langt, því að með því væri hugsunin á bak við þessa till. beinlínis sú, að það væri kassinn hjá hæstv. fjmrh. sem þarna ætti að vera einhvers konar bakhjarl eða þá e. t. v. aukin seðlaprentun. Og hvað svo um verkfallsréttinn í þessu sambandi? E. t. v. má líka beina honum gegn ríkisvaldinu í einhverri mynd. Ég hélt nú satt að segja, að ríkisvaldið ætti fullt í fangi með að semja við sína eigin starfsmenn, félagsmenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, og þá verkfallssvipu, sem þeir fyrrnefndu geta nú veifað, þó að ekki bættist við full ábyrgð á framkvæmd kjarasamninga hins frjálsa vinnumarkaðar eins og þar væri um eigin starfsmenn ríkisins að ræða.

Þá er einnig nefnt í grg, að nú séu komnar fram till. um að ríkið semji beint við bændur eða Stéttarsamband bænda. Um þetta segir svo í grg. með till., með leyfi forseta, orðrétt:

Umr. um, að bændur semji beint við ríkisstj. hafa farið fram nokkur ár. Um það mál hefur verið nokkuð góð samstaða meðal bænda, en deilur um framkvæmd hafa verið miklar og hindrað framgang málsins. Nú virðist samstaða hafa náðst um málið, og á þessu þingi mun ríkisstj. bera fram frv. er felur í sér að bændur semji beint við ríkisstj. um kaup og kjör, og er ekki að efa, að það verður samþykkt.

Þetta kemur allt út af fyrir sig mjög til álita, enda er hér um allt annað að ræða en aðild að samningum launþega og vinnuveitenda á vinnumarkaðinum.

Í fyrsta lagi er spurningin um það, hvort bændur séu launþegar eða ekki. Um það skal ég ekki dæma. Svo mikið er víst, að bændur eru sjálfstæðir framleiðendur og hafa stundum vinnufólk, sem ótvírætt er þá launþegar, í þjónustu sinni, þótt raunar hafi verið meira um það fyrr á tímum, áður en tæknin hélt innreið sinn í landbúnaðinn.

Þá er einnig á það að líta, að ríkisvaldið hefur nú þegar meiri og minni afskipti af launakjörum bænda. Þar á ég fyrst og fremst við uppbætur úr ríkissjóði á útfluttar landbúnaðarafurðir. En samkv. gildandi fjárl. fyrir þetta ár munu það vera hvorki meira né minna en nálægt 3 milljörðum kr. Enn fremur má nefna niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur fyrir innlendan markað. Þá hefur ríkisvaldið margháttuð afskipti af málefnum landbúnaðarins, sem skipta verulegu máli fyrir bændastéttina. Það sjáum við best ef við flettum fjárlagafrv. Síðast, en ekki síst, ber svo að nefna það, að bændur þurfa sem framleiðendur að fá rekstrarlán, og þá er spurningin hvernig þau eigi að greiðast, með hvaða kjörum o. s. frv. Þegar þetta er athugað nánar, þá er í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt talað sé um beina samninga bænda við ríkisstj. varðandi kjaramál. Ríkisstj. er þegar á vissan hátt beinn aðili, enda skilst mér að óánægjan í sambandi við þau mál hafi fyrst og fremst snúist um fyrirkomulagið á verðákvörðun landbúnaðarafurða. Hér er því ekki um sambærilega hluti að ræða, þegar rætt er um samninga við bændur annars vegar og svo hins vegar afskipti á hinum frjálsa vinnumarkaði.

Loks er talað um fiskverðið og sagt, að fiskverðið sé í flestum tilfellum ákveðið af yfirnefnd þar sem ríkið skipar oddamann og megi því með nokkrum sanni segja, að þar sé ríkið viðsemjandi á svipaðan hátt og hjá bændum. Ég vek afhygli á því, að fiskverðsákvörðun er í fyllsta máta atriði sem skiptir máli í viðskiptum milli fiskseljenda og fiskkaupenda, enda þótt fiskverðið hafi vitaskuld svo sínar verkanir í ýmsar áttir eins og raunar margar fleiri verðlagsbreytingar í landinu. Hækkun á fiskverði verkar á kjör sjómanna, það er alveg rétt, þar sem það kemur inn í skiptaverðið. En það haggar ekki þeirri staðreynd, að samningsaðilar um bein kjör sjómanna í dag eru sjómenn sjálfir eða samtök þeirra annars vegar og samtök útvegsmanna, Landssamband ísl. útvegsmanna, hins vegar. Hvað fiskkaupendur aftur á móti snertir er dæmið erfiðara. Við hækkun fiskverðs eykst tilkostnaðurinn og aukinn tilkostnaður í atvinnurekstri kallar á auknar tekjur o. s. frv. Auknar tekjur útflutningsframleiðslunnar geta ekki komið nema annaðhvort með hækkuðu verði á markaðnum erlendis eða þá fyrir einhverjar aðgerðir stjórnvalda.

Ég ætla ekki að ræða þessa till. miklu nánar, en þó vil ég leyfa mér að vitna aftur í grg. till. ofarlega á bls. 2, en þar segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Staðreynd er, að þjónusta og umsvif ríkisins eru orðin það mikil hér á landi, að segja má að launaskrá ríkisins spanni flesta þætti þjóðlífsins. Það er því ekki stór vandi fyrir ríkisvaldið að finna flestum starfsmönnum stað í sinni launaskrá, en með því mundi skapast heildarsamræming á öllum launum í landinu, þó að því tilskildu að gott samstarf og samvinna tækist með ríkisvaldinu og launþegasamtökum og öðrum aðilum vinnumarkaðarins.

Manni verður nú að hugsa, að það sé engu líkara en allir eigi að lenda á einhvers konar launaskrá hjá ríkinu um það er lýkur. Auðvitað er það svo, að visst samræmi þarf að vera um kaup og kjör hliðstæðra starfshópa í þjóðfélaginu, en þetta hlýtur þó alltaf að vera innan viss ramma. En í niðurlaginu, sem ég vitnaði til, segir að það sé forsenda fyrir þessu, að gott samstarf og samvinna takist með ríkisvaldinn og launþegasamtökum og öðrum aðilum vinnumarkaðarins. Og þá komum við aftur út úr þessu ríkisdæmi að raunveruleikanum í þessum málum, sem er einmitt gott samstarf og samvinna aðila vinnumarkaðarins, launþega og vinnuveitenda. Þetta eru samtök, frjáls samtök þessara aðila, sem skipta verulegu máli í nútímaþjóðfélagi, eins og öllum er kunnugt. Ég vil fyrir mitt leyti ekki gefa upp alla von um að þessir aðilar sýni í framtíðinni meiri samstarfsvilja en oft hefur verið á liðnum tíma og meiri ábyrgð í störfum sínum en oft hefur verið. Ef það gerist ekki, er eins víst að búast megi við að till. sem þessari vaxi fylgi í framtíðinni.

Ég fyrir mitt leyti lýsi yfir andstöðu við þessa till. Ég tel að standa eigi öðruvísi að samningamálum á vinnumarkaðinum en verið hefur og þar megi um margt bæta. Það er þess vegna sem við höfum lagt fram hér í Sþ., ég og hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, till. til þál. á þskj. 392, sem var útbýtt á fundinum í dag og kemur væntanlega á dagskrá í næstu viku. Þetta er till. til þál. um hagstofnun launþega og vinnuveitenda, sáttastörf í vinnudeilum o. fl. Þessi till. felur það m. a. í sér að efla starfsemi ríkissáttasemjara, gera starf hans að aðalstarfi, og það þarf að veita ríkissáttasemjara miklu meiri heimildir og meira vald en hann hefur núna. Þá er og lagt til, að við embætti ríkissáttasemjara verði starfrækt sameiginleg hagstofnun launþega og vinnuveitenda, sem geti orðið aðilum vinnumarkaðarins til ráðuneytis um ýmis hagfræðileg efni sem nauðsynleg eru við undirbúning og gerð kjarasamninga. Þarna verði tekið upp miklu nánara samstarf aðila vinnumarkaðarins og stuðst við þá miklu hagfræðilegu þekkingu, reynslu og skýrslugerð sem fyrir hendi er í dag. Að mínu áliti á hlutverk ríkisvaldsins í þessum efnum fyrst og fremst að vera sáttastarfið og þess vegna beri brýna nauðsyn til að efla embætti ríkissáttasemjara. Ríkisvaldið á að mínu áliti að vera fyrst og fremst til þess að vernda hagsmuni borgaranna í þjóðfélaginu á margvíslegan hátt, en ekki taka að sér forsjá þeirra í einu og öllu. Hitt er aftur á móti staðreynd, að ríkisvaldið verður oft að grípa inn í samskipti aðila, bæði á vinnumarkaðinum og undir öðrum kringumstæðum, og til þess hefur það allar heimildir.

Þá vil ég að lokum taka undir það, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., Jóns Sólnes, að ég er þeirrar skoðunar að gera þurfi margvíslegar og veigamiklar breytingar á þeirri löggjöf sem í dag er í gildi um samskipti aðila vinnumarkaðarins, vinnulöggjöfinni, þ. e. a. s. lögum nr. 80 frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, en það verður ekki rætt frekar að þessu sinni.