23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

183. mál, ríkið virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki halda langa ræðu um þessa þáltill., sem mér finnst fyrir margra hluta sakir harla merkileg. Því skal ekki neitað, að þegar ég las fyrst sjálfa tillgr., þá kom mér það helst í hug, hvort hv. flm., sem ég hef báða þekkt frá unga aldri, væru farnir að leyfa sér að rifja upp að nýju ágæt lífsviðhorf sem þeir voru þekktir fyrir fyrr á ævinni. Hv. 1. flm., Gunnar Sveinsson, þótti fyrir 30 árum hafa sérstakt lag á því að gera grín að félögum sínum á góðlátlegan hátt. og Ingvar Gíslason þótti þá þegar, þegar ég kynntist honum um fermingu, — hann var þá eitthvað um 12 ára aldur, — alveg sérstaklega alvörulítill ungur sveinn, þegar að því kom að ræða hin háleitustu málefni.

Ég gat ekki að því gert, að tillgr. sló mig þannig, að nú ætti að gera endanlega út af við hæstv. ríkisstj. með háði í tengslum við þá kjarasamninga sem hún var allt að því eins virkur aðili að og hugsast getur, þar sem voru samningar þeir sem ríkisstj. sjálf gerði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fyrir þremur mánuðum til þess eins, að því er virðist, að neyta þingfylgis til þess að brjóta þá formlega þremur mánuðum síðar.

Við lestur grg. kemur aftur á móti í ljós, þó að ég vilji nú ekki alveg fría þá hv. þm., flm. till., af þessum grun um skop í afstöðu sinni til núv. ríkisstj., — að það er nú þrátt fyrir allt annað og miklu merkilegra sem fyrir þeim vakir. Ég fæ ekki betur séð en meginefni þáltill. sé þess vert, að það sé hugleitt mjög vel þegar rætt er um leiðir út úr íslenskum efnahagsvandræðum. Hér er rætt ljósum orðum um ýmis þau sannindi, sem varða kjarasamninga á landi hér og kjör alþýðu manna, ýmis þau sannindi sem hv. alþm., að ég tali nú ekki um mjög svo hv. efnahagsmálasérfræðinga sem ríkisstj. styðst við. virðast líta á sem einhvers konar tabú, sem alls ekki megi ræða eða koma inn á. Þar sem fjallað er í grg. um hina auðrötuðu götu atvinnurekenda í kjarasamningum í ríkisfjárhirslurnar, þá er freistandi að rifja upp harla merkilega grein, sem Benjamín Eiríksson hagfræðingur, dr. í hagfræði frá Harwardháskóla. skrifaði á sínum tíma, á ákaflega viðkvæmum tíma í Dagsbrúnarverkfallinu mikla í mal 1955 og birtist samtímis í Morgunblaðinu og Tímanum. Þar gerði hann mjög svo skarpa grein fyrir þessum feril, hvernig komið væri um frjálsan samningsrétt og verkfallsrétt alþýðusamtakanna í landi, þar sem það væri orðin víðtekin hefð að atvinnurekendur gætu um hver áramót skrifað velviljaðri ríkisstj., sem þeir tryggðu í sessi, bréf og látið fylgja með reikning fyrir mismuninum á því, sem þeir sömdu um við verkalýðshreyfinguna, og því, sem þeir töldu að fyrirtæki þeirra gætu staðið undir, og höfðu þennan reikning, sagði Benjamín, ætíð ríflegan til þess að vera vissir. Þeir fengu hann borgaðan vegna þess að kúnstin var orðin sú að tryggja aðstöðu sína í ráðherrastólunum, þá var minna um hitt vert, hvernig samið var.

Það blasir vitaskuld við launþegum á landi hér, sem gerðu sína samninga fyrst fyrir tilstuðlan Alþýðusambands Íslands fyrir 7 mánuðum og síðan fyrir þremur mánuðum fyrir tilstuðlan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að kjarasamningar verða ekki tryggðir með neinu öðru móti en því, að þetta fólk tryggi það, a.ð ekki sitji fjandmenn þess á ráðherrastólum. Þetta blasir við. Það, sem hv. flm. segja um nauðsyn þess að flytja lokaþátt kjarabaráttunnar yfir í kjörklefann, er rétt. Mér til mikillar gleði þykist ég sjá, að hv. flm. tveir séu hér í alvöru að boða atfylgi sitt við myndun nýrrar vinstri stjórnar á Íslandi.

Hv. þm. Jón Sólnes hóf ræðu sína gegn þessari þáltill. með kveðanda nokkrum um Sovét-Ísland „Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?“ Ekki fæ ég nú séð að það raunsæi, sem hv. flm. þessarar till. líta íslensk efnahagsmál og vanda íslenskrar alþýðu í kjarabaráttunni, að það raunsæi hljóti að geta af sér eftiröpun á erlendu þjóðskipulagi á nokkurn handa máta. En verði þeim raunsæju viðhorfum, sem kynnt eru í þessari merkilegu grg., ekki fylgt eftir með raunhæfum aðgerðum og látið við það sitja að skilgreina vandamál á þennan hátt, en haldið áfram að ástunda þær krampakenndu handleggshreyfingar sem þessir hv. þm. stunda hér í sölum Alþ. við atkvgr. um málefni sem snúa til algerlega öndverðrar stefnu í þessum meginmálum, þá verða skilgreiningar af þessu tagi harla lítils virði. Ég hygg, að það sé hreint ekki ýkt, sem hv. frsm. Gunnar Sveinsson sagði í ræðu sinni um það, með hvaða hætti verkalýðshreyfingin með samvinnuhreyfinguna að bakhjarli braut niður þetta, sem hv. frsm. kallaði hið frjálsa markaðskerfi í ákvörðun launamála hér á landi. Þetta gerðist. Kerfið var brotið niður. Og hinir snjöllu, en sigruðu erindrekar hins brotna kerfis fundu upp nýju aðferðina til þess að tryggja sinn stóra hlut, sinn stóra geira af þjóðarkökunni, sem hv. frsm. nefndi svo, með því að beita afli sínu til þess að tryggja sér meiri hluta í löggjafarsamkundunni og tryggja sér þá aðstöðu á ráðherrabekkjunum sem til þess nægði að koma í veg fyrir að sá ávinningur, sem verkafólkið náði í gegnum skipulagt starf sitt innan verkalýðshreyfingarinnar og samvinnuhreyfingarinnar, yrði æ af þessu fólki tekinn með stjórnarráðstöfunum. Árangurinn varð sá, að við fengum í staðinn fyrir hið frjálsa markaðskerfi, sem þarna var brotið á bak aftur, þetta óskepi hins dæmafáa braskarasamfélags sem verkalýðshreyfing og samvinnuhreyfing hafa staðið meira og minna máttvana gegn.

Ég hlýt að leiðrétta smávegis misskilning, sem kom fram í ræðu hv. frsm. varðandi dæmi sem hann tók um nýafstaðið verkfall slökkviliðsmanna í Bretlandi, þegar stjórn Callaghans setti hermenn til þess að gegna störfum verkfallsmanna. Ástæðan fyrir því, að stjórn Callaghans, stjórn Verkamannaflokksins, gat gert þetta og gerði það, að setja hermenn þarna til starfa, var sú, að stjórnin hafði gert samkomulag við miðstjórn breska alþýðusambandsins um að kauphækkanir á ákveðnu tímabili skyldu ekki fara fram úr 10%. Það var með vilja og vitund breska verkalýðssambandsins sem þarna voru settir til opinberir starfsmenn í einkennisbúningum til þess að gegna þessum störfum í neyð. Að dómi breska verkalýðssambandsins var um slíkt verkfall að ræða, sem taldist ófélagslegt athæfi, athæfi, og ég verð að segja fyrir mína parta, að ég hlýt að játa að verkföll öll sem slík hjá einstökum hópum eru ekki heilagar kýr. Ég get nafngreint ykkur verkföll sem gerð hafa verið berlega gegn hagsmunum verkalýðsins. Síðasta dæmið og það gleggsta, sem ég get nefnt ykkur, er verkfall vörubílstjóra í Chile á sínum tíma, kostað af CIA, amerísku leyniþjónustunni, til þess að ryðja ríkisstjórn verkafólks frá völdum. Þess háttar leik er hægt að leika víðs vegar og ófélagslegar athafnir af þessu tagi eru hugsanlegar á mörgum sviðum og í mörgum löndum. Ástæðan fyrir því, að stjórn Callaghans beitir hernum, ekki til þess að skjóta verkfallsmenn eða berja á þeim, heldur er kvatt til herlið til þess að gegna störfum þessa fólks, þó að þetta væri verkamannaflokksstjórn, — staðan var beinlínis sú, að þetta var gert í samstarfi við bresku alþýðusamtökin til þess að leysa ákveðin vandamál.

Við skulum ekki vitna í Taft-Hartley-lögin amerísku í sambandi við kolanámuverkfallið sem nú er víst í þann veginn að ljúka án þess að Taft-Hartley-lögunum sé beitt. Við skulum ekki vitna í Taft-Hartley-lögin að því leyti. Við skulum ekki vitna í erlenda löggjöf, sem á við aðrar aðstæður í annars konar löndum, þegar við hugleiðum breytingar á vinnumálalöggjöfinni hér á landi. Ég vil undirstrika það, að þau þingmál, sem við Alþb.-menn höfum flutt á Alþ. í vetur og vitnað er til í 3. mgr. grg. hér, lúta ekki að breytingum á íslenskri vinnulöggjöf, hvorki till. okkar um að bændur taki upp beina samninga við ríkisvaldið né heldur þáltill, um hámarkslaunin. Í síðara tilfellinu, þar sem ég er aðili, þáltill. um hámarkslaunin, er aðeins um það að ræða að Alþ. setji reglur um réttláta skipan launa, smíði ramma um framkvæmd löggjafar.

Breytingar á vinnulöggjöfinni, sem efalaust verða einhvern tíma gerðar, verða vandasamt verk, þar sem ekki kemur annað til greina en hafa hið nánasta samstarf við verkalýðshreyfinguna og samtök launamanna. Og ef svo færi, eins og hv. ræðumenn úr hópi sjálfstæðismanna hér á þingi virðast ugga um, að samþykkt á till. af þessu tagi mundi leiða til þess að atvinnurekendur yrðu ekki til lengur, þá þyrfti náttúrlega ekki þá til að kveðja við samningu slíkrar vinnumálalöggjafar. En við skulum gera okkur grein fyrir því, og þar tek ég undir orð hv. þm. Karvels Pálmasonar, að enda þótt atvinnurekandi á Íslandi yrði aðeins einn, þ. e. a. s. ríkisvaldið. sem er nú þegar langstærsti atvinnurekandinn, stærsti launagreiðandinn á Íslandi, þótt hann yrði bara aðeins einn, þá værum við ekki búnir með því að leysa öll þau vandamál sem lúta að kjörum hinna ýmsu stétta á landi hér. Það yrði enn þá þörf fyrir verkalýðsfélög. Og grunur minn er sá, að þá fyrst yrði þörf fyrir virkilega samstöðu og styrk, þegar að því væri komið. að atvinnurekandinn væri einn með allt afl ríkisvaldsins á bak við sig þótt hér væri enginn her.

Að því hefur krókurinn beygst öll þessi ár, sem liðin eru síðan ég fór að fylgjast með íslenskum atvinnumálum og til þessa dags, og þó örast nú síðustu 4 árin, að atvinnurekendur geta skákað í skjóli þess að ráða ríkisvaldinu með tilstyrk meiri hl. hv. alþm., með tilstyrk jafnágætra manna. gáfaðra og velviljaðra eins og hv. flm. þessarar ágætu þáltill., vissulega í kompaníi við aðra ágæta þm., eins og t. d. hv. þm. Jón Sólnes. Í þessu valdi sameinuðu geta atvinnurekendur skákað þegar þeir gera kjarasamninga sem þeir ætla sér að láta legáta sína brjóta. Ég skil sjónarmið hv. þm. Jóns Sólness harla vel. Þá er hann að mæla fyrir hugsjón sinni svikalausri og án yfirdrepsskapar, þegar hann segir: Ég ætlast til þess að einstaklingar njóti arðs af fyrirtækjum sínum þegar vel gengur. Ég ætlast líka til þess, segir hv. þm. Jón Sólnes, að þeir beri sjálfir skaðann þegar illa gengur. En einhvern tíma minnir mig það, — ég vona að hv. þm. leiðrétti mig ef það er rangt, — en mig minnir að hann hafi greitt atkv. ásamt hv. þm. Framsfl. og öðrum þm. stjórnarliðsins hérna með lagafrv. ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum. Þar voru ógiltir með lögum kjarasamningar, sem Alþýðusamband Íslands gerði við atvinnurekendur fyrir 7 mánuðum og formælendur atvinnurekenda lýsa nú yfir að þeir hafi gert, þótt þeir vissu að þeir gætu staðið við þá, í því trausti, að erindrekar þeirra á Alþ. mundu taka að sér þetta lítilræði fyrir þá, eins og þeir hafa ávallt gert, að ógilda samningana.

Ég er þeirrar skoðunar að meginatriðin í þeirri hugsun, sem gerð er grein fyrir í þessari þáltill., séu þess verð að við hugleiðum þau mjög vandlega í sambandi við umfjöllun okkar um efnahagsvandræði þessarar blessuðu þjóðar. Ég veit að hv. flm. reikna fastlega með allt annars konar ríkisstj. en þeirri, sem nú situr, renna vonaraugum til þess tíma, að ríkisstj. flokksins eigi að hafa heiðarleg afskipti af kjarasamningum á landi hér, því að ég ætla þeim ekki þá dul, ég ætla þeim ekki þann óheiðarleika, þann skrípishugsunarhátt að búast við því, að ríkisstj. af þessu tagi geti gerst á ærlegan hátt virkur aðili að heildarkjarasamningum um kaup og kjör hér á landi, sem fólkið geti tekið mark á. Það mundi jafngilda því að kveða á um það með lögum, að ómerkur aðili skuli vera beinn og viðurkenndur aðili að almennum kjarasamningum á landi hér.