23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

183. mál, ríkið virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þetta eru orðnar býsna langar umr., hafa staðið hér næstum að segja allan fundartímann eða mikið til, og það má segja um þessar umr., að þær hafa verið skemmtilegar, og það er m. a. því að þakka, að þeir menn, sem til máls hafa tekið, eru þannig gerðir, að þeir eru sjaldnast leiðinlegir í ræðum og maður veit alltaf hvar þeir standa. Ég vil þakka þeim fyrir ágætar ræður hvað það snertir. Hinn er náttúrlega ekki að leyna, að okkur flm. þessarar till. hlýtur að finnast, að ansi mikið af því. sem þeir hafa sagt. sé byggt á misskilningi. Ég gladdist að vísu yfir orðum hv. þm. Stefáns Jónssonar, þar sem hann tók einhvern veginn svo til orða, að þessi till. væri þó þrátt fyrir allt þannig, að hún ætti fullan rétt á því að vera skoðuð og tekin til athugunar hér í hv. Alþ. og í sambandi við almennar umr. um breytingar á vinnulöggjöf. Ég held að ég hafi skilið hv. þm. rétt, þegar hann tók eitthvað til orða á þessa leið, og fyrir þetta vil ég þakka honum, vegna þess að í ræðu hans kom þó fram sá skilningur. sem við gjarnan vildum að kæmi hér fram og er raunar höfuðatriðið, að í þessari till. okkar er verið að benda á atriði sem við teljum að þurfi að ræða miklu meira en gert hefur verið og að þessi hugmynd okkar um beina eða virka aðild ríkisvaldsins að samningum eigi fullan rétt á sér.

Ræða hv. 2. þm. Norðurl. e., Jóns G. Sólness, var ákaflega skemmtileg. En niðurstaðan af hugleiðingum hans fannst mér satt að segja ekki sérlega sannfærandi, þegar hann gekk svo langt að halda því fram, að þarna væri verið að kalla á óskalandið Sovét-Ísland, sem einu sinni var kveðið um. Ég held að það sé mjög fjarri því, að þessi till. geti leitt til nokkurs slíks. En aftur á móti kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Sólness sú afstaða sem við þekkjum hjá honum. Hann er núna, má segja, nálega eini maðurinn hér á hv. Alþ., sem fylgir fram gömlu, óheftu frjálsræðisstefnunni, laissez-faire stefnunni, sem hér var talsvert í tísku í heiminum um aldamótin, fyrir þau og eitthvað á fyrstu árunum eftir aldamótin síðustu, jafnvel eitthvað fram á þá daga þegar hv. þm. fæddist sjálfur, sem ég held að sé eini maðurinn núna á Alþ. sem er stuðningsmaður þessa óhefta frjálsræðis í þjóðmálum. Þetta kom mér út af fyrir sig ekkert á óvart. að hann skyldi lýsa þeirri skoðun sinni, og ég get vel haft samúð með skoðun hans eða verið fús til þess að virða hana, en hins vegar er ekki við því að búast að við séum, við flm. a. m. k. og aðrir hv. þm., við því búnir að samsinna henni. Hv. þm., sem sagt, óttaðist þetta einna mest, að þessi till, væri svo róttæk að hún mundi þýða það, að hér væri komið á sovétskipulag ef hún kæmist í framkvæmd.

Hv. þm. Karvel Pálmason, 5. þm. Vestf., var að vísu ekki alveg á sömu skoðun efnislega og hv. þm. Jón Sólnes, að öðru leyti en því, að hann taldi að þetta mundi leiða til þess háttar ríkisafskipta sem yrðu til þess að leggja niður stéttarfélögin og gera þau óþörf eða nánast óvirk. En sannleikurinn er sá, að slíkar skoðanir þessara hv. þm. eru augljóslega rangar og þeir eru að lesa eitthvað það út úr till. sem þar stendur alls ekki. Það er satt, sem hv. þm. Jón Sólnes sagði, að þetta væri ósköp saklaus till. á ytra borði, og hún er það líka að efni til. Og ef við lesum þessa till., þá skýrir hún sig sjálf, orðalag hennar skýrir sig sjálft, og það er langbest að menn lesi till. sjálfa og finni það út úr henni sem í henni felst, því að það eina. sem þarna kemur fram, er að það skuli undirbúa í samráði við aðila vinnumarkaðarins frv. til laga, sem feli það í sér að ríkisstj. á hverjum tíma sé virkur aðili að samningum um kaup og kjör í landinu „ásamt aðilum vinnumarkaðarins.“

Og hverjir eru aðilar vinnumarkaðarins? Við teljum að þeir séu tveir, þ. e. a. s. svokallaðir atvinnurekendur og svo verkalýðs- eða launþegahreyfingin. Þetta er það sem við köllum aðila vinnumarkaðarins. Og við flm. þessarar till. sleppum þessum aðilum ekki úr í tillgr. okkar, við höfum þá svo sannarlega í huga. Ég vil taka það alveg skýrt fram, að við erum báðir þess sinnis, að það eigi að sjálfsögðu að virða samningsrétt verkalýðsfélaganna og samningsrétt beggja aðila vinnumarkaðarins. Við viljum svo sannarlega að þessir aðilar ræðist við og semji um kaup og kjör, en við viljum jafnframt, að ríkisvaldið verði einnig aðili að slíkri samningsgerð. Það er vegna þess, að við teljum, að það mundi auðvelda samningsgerð, það mundi verða til þess að samningar væru yfirleitt, — já, ef svo má segja, — það væri greiðara og fljótvirkara að gera slíka samninga. Og við erum sannfærðir um að það yrði til þess að samningar væru yfirleitt réttlátari, það yrði meiri heildaryfirsýn í samningagerðinni, þeir væru réttlátari og þeir væru líklegri til að verða efnahagslega skynsamlegir, ef ég má leyfa mér að nota slíkt orðalag eða ef ég má yfirleitt leyfa mér að hafa þá skoðun, að nauðsynlegt sé að kjarasamningar séu efnahagslega skynsamlegir.

Ég skal ekki fara að orðtaka hér einstakar ræður manna. Ég hef gefið þeim þá einkunn, að þær hafi verið skemmtilegar og ágætar að því leyti, en því miður fullar af misskilningi. Það hefur komið fram hjá nokkrum hv. þm., ég held bæði hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni og raunar hjá Stefáni Jónssyni líka, að við flm. værum með eitthvert grín í huga þegar við flyttum þetta mál, þetta væri einhvers konar grín um ríkisstj., við værum að hæðast að henni. En svo er auðvitað alls ekki. Sannleikurinn er sá, að þó að við höfum verið dálítið grínaktugir í bernsku og fram eftir unglingsárunum hér fyrrum, þá lítum við náttúrlega afskaplega alvarlegum augum á ríkisvaldið, hvert sem það er á hverjum tíma, eða ríkisstj. á hverjum tíma, og við leyfum okkur ekki hér í þingsölunum, þó við kannske gætum gert það einhvers staðar annars staðar, að gera grín að þessari ríkisstj. eða annarri ríkisstj. eða ríkisvaldinu yfirleitt. Slíkt viljum við ekki flytja sem þingmál og ekkert slíkt er okkur í huga. Sannleikurinn er sá að við höfum áhyggjur af því, hvað ríkisvaldið er að verða veikt á mörgum sviðum, og það skyldu menn hugleiða í sambandi við þessi mál, hvað ríkisvaldið er að verða veikt í mörgum málum. Svo er í rauninni komið, að það er búið að taka úr höndum ríkisvaldsins, úr höndum Alþ., úr höndum ríkisstj. stórkostlega mikilvæga þætti þjóðmálanna, og ég verð að segja það hér, að meðal þeirra þátta er ákvörðun um kaup og kjör í landinu. Við vitum það og hljótum að viðurkenna það hér allir þm., hvar í flokki sem við stöndum, að við höfum sáralítið að segja um það efni, skoðanir okkar hafa sáralítið að segja um hvaða kerfi er notað við að ákveða kaup og kjör í landinu.

Við Stefán Jónsson, hv. þm., höfum ræðst við áður í þessum þingsal um kaupgjaldsmál, og það var vegna þess að hann flutti í fyrra eða hittiðfyrra skynsamlega till., að mér fannst, um þessi mál, og ég hlustaði á ræðu hans með athygli, þegar hann talaði fyrir till. sinni á sínum tíma. Ég tók undir mál hans og komst að sömu niðurstöðu, að það væri óhæfa hvað mikill launamismunur væri í landinu og hvernig launamismunurinn þróaðist í skjóli þeirrar venju sem hér hefur skapast á undanförnum árum og áratugum í sambandi við launaákvörðun í landinu. Ég sé því ekki annað en við höfum fulla ástæðu til þess, þm., að fjalla um kaupgjaldsmál í því formi sem okkur er tiltækt og mögulegt, eins og í þáltill.-formi. Við höfum gert það núna á einhvern þann sakleysislegasta hátt sem hægt er að hugsa sér, við hv. þm. Gunnar Sveinsson, um að það sé viðurkennt. sem hefur verið að rótfestast smám saman, að hafa ríkisvaldið með í samningsgerð. Við viljum að það verði gert að lögum og það verði settar um það skynsamlegar lagareglur, en ekki gildi um það eitthvert handahóf á síðustu stigum samningagerðar, þegar samningaþóf og kannske verkföll eru búin að standa dögum ef ekki vikum saman. Fyrir mér er enginn sá heilagleiki yfir því kerfi, sem hér gildir í landinu um ákvörðun kaups og kjara, að það megi ekki ræða það hér af okkur þm., sem þó kannske stöndum „utan við verkalýðshreyfinguna,“ eins og það er kallað, og ég held að við megum hafa skoðun á þessum málum ekkert síður en aðrir.

Sannleikurinn er sá, að ákvörðun launa í landinu er ákaflega mikilvægt þjóðfélagsmál, og ég held t. d. að jafnglöggur maður og Jón G. Sólnes átti sig alveg á því, að það er ekki hægt að búast við því, ef vel á að fara, að ríkisvaldið standi þar algerlega utan við. Reynslan afsannar að það sé hægt, og ég held að framtíðin eigi eftir að skera enn þá nánar úr um það, að þetta er ekki gerlegt. En af því að við viðurkennum hinn frjálsa samningsrétt á vinnumarkaðinum, þá er auðvitað alveg sjálfsagt, ef við viljum fá nýjan aðila inn í málið með samningsrétt, sem sé ríkisvaldið, að gera það á heiðarlegan hátt með löggjöf og með fullum afskiptum Alþingis.

Mér finnst ákvörðun launa almennt talað mjög stórt þjóðfélagsmál, og ég er þeirrar skoðunar, að í þeim málum ríki nú slíkt handahóf, að það hafi mjög alvarlegar afleiðingar, m. a. mjög alvarlegar afleiðingar gagnvart því sem ég tel vera, ef ég má nota svo stórt orð, lífsskoðun mína. Ég vil ekki að á Íslandi þróist mikill ójöfnuður. Ég vil það ekki. Ég álít t. d. að verkamaðurinn eigi ekki af því einu að hann er verkamaður og vinnur ekki lærðra manna störf, hann eigi endilega að hafa svo afskaplega miklu lægri laun heldur en einhver sá, sem fengið hefur langskólaveg. Ég vil það ekki. Ég held aftur á móti, að á meðan þetta handahóf ríkir, sem nú er, þá fái menn aldrei annað en handahófslega útkomu. Og þessu vil ég gjarnan breyta. En því miður, þessi litla till. okkar hv. þm. Gunnars Sveinssonar, það er fjarri því, að hún leysi öll þessi mál. Hún er ekki nema örlítill angi af öllu því sem gera þarf, aðeins örlítill angi, en alveg nauðsynlegt hins vegar að málið gangi fram og þetta komist inn í lög um stéttarfélög og vinnudeilur, að ríkisvaldið verði virkur — ég vil nú raunar segja beinn aðili að kjarasamningum.

Við erum ekki að stíga eins stórt spor og sumir vilja vera láta hér, svo sem hv. þm. Karvel Pálmason. Ég kann vel að meta baráttu hans í hans félagsskap, og ég get vel virt sjónarmið hv. þm. Jóns Sólness. En ég ætla bara að biðja þessa menn að athuga það, að það er svo fjarri því, að þessi till. sé eins róttæk og þeir hafa lýst, ef sett yrðu lög um það, að ríkisvaldið yrði sem þriðji aðili að gerð kjarasamninga frá upphafi vega, þá sé um svo stórkostlega breytingu á gildandi venju að ræða að það nálgist byltingu sem komi niður á samtökum atvinnurekenda og á stéttasamtökunum.

Ég hef talað um handahóf sem mér virðist ríkja í sambandi við þetta mál, og ég tala um að afleiðingarnar séu m. a. þær, að þetta leiði til ójafnaðar, stefni í ójafnaðarátt. Mér virðist það vera. Ég sé ekki að þróunin á undanförnum árum hafi orðið sú, að hún hafi minnkað launabilið í landinu. Mér sýnist að það hafi stórlega aukist. Ort hvað vilja þá þeir menn, sem enn þá verja lög frá 1938, sem framsóknarmenn áttu aðalþáttinn í að koma hér á, um stéttarfélög og vinnudeilur. Frv. að þeim lögum var flutt af ágætum fyrirrennara mínum í þingmannastóli, Gísla heitnum Guðmundssyni. Þessi lög voru góð á sínum tíma og þau mörkuðu stórt spor. Þá var alþýðuhreyfingin búin að berjast í 20–30 ár fyrir því, að þessi lög yrðu sett. En lög úreldast oft á skemmri tíma en 40 árum. Það er ekkert óeðlilegt. Það hafa mörg lög úrelst á skemmri tíma en 40 árum. Ég held að við ættum ekki ræða af svona miklum hátíðleika og heilagleika um þessi kjaramál, að það megi ekki aðrir komast að en þeir sem standa beint í vinnudeilum og dægurþrasinu á hverjum tíma og sjá hvorki aftur né fram fyrir þessu dægurþrashugarfari sínu, þannig að ég er á því, að við þurfum að fara að leiða hugann að því, eins og hefur raunar komið fram í ræðum einhverra hér, ég hygg í ræðu hv. þm. Jóns Sólness, að það væri nauðsynlegt að athuga um það, hvort ekki er hægt að setja skynsamlegri vinnulöggjöf. En hvers vegna hv. þm. Jón G. Sólnes er að biðja um nýja vinnulöggjöf, skil ég ekki fullkomlega, þar sem mér skilst á honum að hann vilji hafa þetta allt saman frjálst. Það voru engir „aðilar vinnumarkaðarins“ hér í gamla daga, þegar laissez-faire-stefna hv. þm. grasseraði á 19. öld og framan af þeirri 20. En nú er hv. þm. kominn þetta langt á leið til félagshyggjunnar, hann hefur ekkert á móti því, að það verði sett skynsamleg löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur, og er það út af fyrir sig stórkostleg framför.

En sem sagt, ég skal ekki hafa þetta öllu lengra. Ég er mjög þakklátur fyrir þær umr., sem hér hafa orðið, og í rauninni mættu oftar verða umr. á þessum nótum, þar sem reynt er að ræða í grundvallaratriðum ýmsa löggjöf og ýmsar skoðanir, sem menn hafa, og þar sem menn fá í friði að segja meiningu sína án þess að það sé verið að leggja annað í orð manna en í þeim felst. Ég held að þessi till. okkar eigi fullan rétt á sér, eins og hv. þm. Stefán Jónsson raunar komst að niðurstöðu um, þó að hann hefði eitt og annað við hana að athuga. Og það er í raun og veru ekki annað, sem við biðjum um, heldur en að hún verið könnuð. Og ég held að þessi till. mætti gjarnan verða rædd úti á þeim almenna umræðuvettvangi, hjá fólkinu, hjá almenningi.

Annars vekst margt upp fyrir manni, þegar farið er að tala um þessi mál. Mér dettur ýmislegt í hug, t. d. þegar talað er hér um atvinnurekendur og atvinnurekendavaldið. Stefán vinur minn Jónsson, hv. þm., ræddi dálítið um þetta, en ég þekki hann af góðum kynnum frá því að við vorum krakkar. Hann er kunnugur því, hvernig atvinnurekendavaldinu er háttað víða um land, t. d. í okkar kjördæmi og á okkar bernskuslóðum austur á landi í gamla daga og síðar. Það hefur margt breyst auðvitað síðan. En hvert er nú þetta atvinnurekendavald, sem við eigum við að glíma, t. d. í okkar kjördæmi? Ég man varla eftir einum einasta auðmanni í okkar kjördæmi, eða auðmannafamilíu sem situr þar yfir hlut manna. Yfirleitt er allur atvinnurekstur í okkar kjördæmi og víðar um landið byggður upp af félagsskap fólksins, kaupfélögunum, samvinnufélögunum, hlutafélögum, sem hreppar og sveitarfélög yfirleitt „stofna með þátttöku kaupfélaganna og almennings á stöðunum. Þetta er nú algengasta tegund atvinnurekendavalds sem við eigum við að glíma. Og ég verð að segja það, að þó að menn séu harðir í „teóriunni“ um þetta allt saman, harðir í baráttunni, baráttunni við atvinnurekendavaldið og í þessu blóðuga stríði milli verkalýðsstéttar og auðmannastéttar, þá verða menn að viðurkenna þær staðreyndir, sem blasa við í þjóðfélaginu, og reyna að skýrgreina þetta atvinnurekendavald með nýjum hætti, en ekki eftir einhverjum 19. aldar formúlum. Ég þarf ekki að minna hv. þm. Stefán Jónsson á þetta, því að hann er fús að gera þetta á eðlilegan hátt og skilur þetta vel.

Ég verð að segja það líka, að mér fellur það ekki vel, þegar hv. þm. Karvel Pálmason er hér með hnútukast gagnvart samvinnuhreyfingunni. Veit hann ekki hvað samvinnuhreyfingin er? Kannske veit hann það ekki. Ég held að hann viti það ekki. En samvinnuhreyfingin er einhver elsta alþýðuhreyfing á Íslandi, sem er um það bil 100 ára núna, og eins og ég segi, einhver elsta fjöldahreyfing, borin uppi af alþýðufólki í landinu, svo lýðræðislega uppbyggð sem yfirleitt verða má, og engu síðri að því leyti en t. d. verkalýðshreyfingin. Ég kann því ákaflega illa, þegar verið er að setja samvinnuhreyfinguna á bekk með einhverju ímynduðu atvinnurekendaauðvaldi, sem menn þykjast sjá með sama svip og auðjöfrar, „rockefellerar“ höfðu í Ameríku eða á Bretlandseyjum fyrir 90–100 árum. Ég held að það væri mjög æskilegt, að við gætum rætt málin á annan veg, vegna þess að þetta leiðir allt til skakkrar niðurstöðu og sýnir í raun og veru ekkert annað en það, að menn hvorki vilja fylgjast með né að þeir fylgist með. Og ég vil segja: þeir hafa ekki söguskyn sem þannig tala.

En till. okkar er náttúrlega aðalatriði þessa máls hér. Hún er, eins og Jón Sólnes sagði „sakleysisleg“ og raunar saklaus, því að í henni felst ekkert af þeim voða, sem hann taldi upp, né heldur það, sem hv. þm. Karvel Pálmason var að nefna, heldur er það eins og hv. þm. Stefán Jónsson sagði, hún er allrar athygli verð og á fullan rétt á því að hún verði athuguð, og það er ósk og von okkar flm. að svo verði.