23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2608 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

183. mál, ríkið virkur aðili að kjarasamningum vinnumarkaðarins

Stefán Jónsson; Herra forseti. Aðeins örfá orð og þá fyrst og fremst vegna hinnar síðari ræðu fyrra frsm. með till. Gunnars Sveinssonar.

En áður en ég vík að aths. hans vil ég undirstrika þetta atriði, sem ég hélt þó að hefði komið skýrt fram í ræðu minni, að þrátt fyrir allt geri ég mér grein fyrir því, að till. þessi er flutt í fullkominni alvöru. Aftur á móti standa málin þannig, að eftir minni vitund er gjörsamlega ógjörlegt fyrir stuðningsmenn þessarar hæstv. ríkisstj. að segja orð í skynsamlegri alvöru um kjaramál eða efnahagsmál á Íslandi, þannig að þau orð verði ekki blóðugt skop um þessa ríkisstj. Ef ég þarf að kveða skýrar að orði um þetta atriði en ég nú geri, þá hygg ég að skynsamlegt verði af mér að gera það skriflega.

En þá kem ég að þessu atriði, sem hv. þm. Gunnar Sveinsson vék að, þar sem hann sagði að ég hefði ekki andmælt því í ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar, að ég hefði verið hér á Alþ. og greitt atkv. með sams konar eða svipuðum — hann sagði nú sams konar — ráðstöfunum vinstri stjórnarinnar. Ég ætlaði að vísu að láta þessu atriði ósvarað í ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar, vegna þess að ég vissi að hann mundi að athuguðu máli átta sig á því, að hér fór hann óviljandi með rangt mál. Ég átti ekki sæti á Alþ. veturinn 1973, þegar flokkur hv. þm. Karvels Pálmasonar, SF, knúði það fram innan vinstri stjórnarinnar að gengið var fellt, knúði það fram og gerði þessa gengisfellingu að fráfararatriði úr ríkisstj. Þá átti ég ekki sæti hérna. En hv. þm. Karvel Pálmason greiddi atkvæði með þessari gengisfellingu, sem var knúin fram innan vinstri stjórnarinnar með oddaafli þrátt fyrir andstöðu Alþfl., sem vildi þó að vinstri stjórnin lifði áfram. Hv. þm. Karvel Pálmason kann síðan að hafa greitt atkvæði gegn þeim ráðstöfunum, sem vinstri stjórnin gerði til þess að áhrifin af þessari gengisfellingu, sem hv. þm. greiddi atkvæði með, kæmu út í verðlagið. Í því skyni greip vinstri stjórnin til sérstakra ráðstafana, sem eiga svo sannarlega ekkert skylt við ráðstafanir núv. íhaldsstjórnar, greip til sérstakra ráðstafana til þess að tryggja launafólkinu það, að umsamin kjör þess yrðu ekki skert, sem m. a. var gert með því að auka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum. Þær ráðstafanir, sem gerðar voru í þessu skyni, rýrðu því alls ekki um eitt vísitölustig kjör launafólks í landinu frá því sem um var samið.

Hitt er svo enn annað mál, að þær ráðstafanir, sem vinstri stjórnin gerði þá í þessum málum, þ. e. a. s. niðurfærsluleiðin sem farin var, eru nákvæmlega sams konar og sú verðlækkunarleið sem launþegasamtökin og stjórnarandstæðingar á Alþ., og líklega þar með talinn hv. þm. Karvel Pálmason, leggja til að nú sé farin fremur en sú leið sem ríkisstj. hefur valið og hv. þm. Karvel Pálmason leyfir sér að líkja við þessar ráðstafanir vinstri stjórnarinnar. Það hefði verið ákaflega æskilegt að hv. þm. hefði velt þessari afstöðu sinni dálítið betur fyrir sér í lófa áður en hann gerði hana lýðum ljósa hér úr ræðustóli. En það er annað mál. Milt erindi hingað upp í stólinn var ekki það að hnotabítast við hv. þm. Karvel Pálmason, síst af öllu vegna þess að ég hlýt, til þess að spara tíma, að túlka nokkuð augljóst — sem mér þótti — viðhorf hans til aðildar samvinnuhreyfingarinnar að kjaramálum, sem mér fannst hv. þm. Ingvar Gíslason misskilja dálítið.

Það dæmi, sem hv. þm. nefndi úr kjördæmi okkar, Norðurl. e., um eignarhald á atvinnutækjum, er laukrétt. Þar munu hin stærri atvinnufyrirtæki miklu fremur en nokkurs staðar annars staðar á landinu vera með einum eða öðrum hætti í sameign, í eigu fólksins, eins og hann sagði, samvinnuhreyfingar, kaupfélaganna, hreppsfélaganna. En mér þótti hv. þm., þegar hann svaraði hv. þm. Karvel Pálmasyni, ýkja nokkuð eða gylla nokkuð hina lýðræðislegu hlið á yfirstjórn þessara fyrirtækja. Hv. þm. er það fyllilega ljóst, að þótt rökstyðja megi það álit, að fyrirtæki eins og Kaupfélag Þingeyinga, það samvinnufélag lúti vissulega lýðræðislegri stjórn, sé opið félag þar sem allir geta látið að sér kveða um yfirstjórn þess, þá ráða kaupfélagsmenn í K. Þ., hinir almennu kaupfélagsmenn í Kaupfélagi Eyfirðinga eða Kaupfélagi Norður-Þingeyinga litlu um yfirstjórn Sambands ísl. samvinnufélaga í Reykjavik. Hv. þm. er það ljóst jafnvel og mér, hvern hug, sem betur fer fjarverandi úr þessum þingsal, hv. frímúrarapáfar í forstjórastólum hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga í Reykjavík bera til verkalýðshreyfingarinnar, hver afstaða þeirra hefur verið til verkalýðshreyfingarinnar í kjarabaráttunni, hver afstaða þessara manna var til þeirrar tilraunar sem til þess var gerð að láta anda kjörklefans ríkja í íslenskum kjaramálum í tíð vinstri stjórnarinnar. Og þó að kerfi geti gert lýðræðislega stjórn mögulega á þessum fyrirtækjum, þá fer því víðs fjarri að einstaklingurinn í þessum félögum eigi auðfarna leið til þess að gera viðhorf sín gildandi um stjórn þeirra. Ég vil ekki halda því fram, að þar sé fyrirkomulagi í lögum eða reglum samvinnuhreyfingarinnar um að kenna, að ekki hefur tekist það samstarf, það eðlilega samstarf á milli verkalýðshreyfingar og samvinnuhreyfingar, sem æskilegt er hér á landi, að það hafi ekki tekist vegna þess ágalla á lögum samvinnufélaganna, — raunar ekki verkalýðsfélaganna heldur, — heldur kemur þar annað inn. Samvinnuhreyfingin hefur því miður hin síðari árin með einhverjum hætti fundið sig til knúða vegna sjónarmiða forstjóraveldis þess, sem ég áðan gat um, að taka þátt í þeim leik stjórnsýslulegs óskepis, sem háður hefur verið á landi hér síðan atvinnurekendavaldið og hið ólýðræðislega atvinnurekendavald innan samvinnuhreyfingarinnar líka fann upp á því, eftir að verkalýðshreyfingin og eftir að kaupfélögin, hin einstöku kaupfélög, höfðu knésett atvinnurekendavaldið hið forna, sem Ingvar talaði um — fann upp á því að tryggja stöðu sína með því að ráða ríkisstjórnum hverju sinni. Breytingin mikla, sem hv. þm. Ingvar Gíslason gat um að orðið hefði. ég hygg að hún hafi orðið á tímabilinu frá 1925–1928. Hann sagði þarna rétt frá. En allar götur frá stríðslokum og frá því á hinum síðari stríðsárum hafa hinir nýju, hinir umsköpuðu atvinnurekendur, sem löguðu sig að breyttum aðstæðum, sem fundu upp aðferðina til þess að halda áfram að skara glóðum elds að köku sinni, þrátt fyrir það að þeir hefðu beðið lægri hlut í viðureign við verkalýðssamtökin, þeir hafa verið allsráðandi í flestum ríkisstjórnum sem að völdum hafa setið á landi hér, eru það núna og hafa fundið leiðir til þess að halda áfram að skara eld að köku sinni með nýjum aðferðum. Þetta eru mennirnir sem græða á verðbólgunni. Þetta eru mennirnir sem enn einu sinni, sennilega í fimmtánda sinn á 23 árum, hafa látið umboðsmenn sína á Alþ. ógilda kjarasamninga til þess að hlutur alþýðunnar, fólksins sem vinnur hörðum höndum að þjóðararðinum, verði ekki meiri en svo, að þeim haldi áfram að líða efnahagslega „takk bærilega.“