23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

104. mál, framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans við spurningum mínum og fyrir þær upplýsingar sem hann gaf mér áðan um almenna stöðu þessara mála. Það var einnig ánægjulegt að heyra hann lýsa skoðun sinni á því þingmáli, sem hér er sérstaklega til umr., þ. e. a. s. þáltill. minni um samræmt framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra.

Ég hjó eftir því, að hann sagði í ræðu sinni að endurskipulagning framhaldsskólakerfisins mundi ekki gerast með neinni skyndiákvörðun, og það er nú víst hverju orði sannara. Það er bersýnilegt, að endurskipulagning framhaldsskólakerfisins kemur ekki til með að gerast með neinni skyndiákvörðun. En það má nú kannske á milli vera, hvort um er að ræða fljótfærnislega skyndiákvörðun annars vegar eða að mál sé að vefjast fyrir viðkomandi aðilum í hálfan áratug, eins og nú er að eiga sér stað. Mér finnst nokkuð mega á milli vera í þeim efnum. Ég held að ég taki ekki stórt upp í mig þó ég segi það sem mína skoðun, að þessum málum hefur óneitanlega miðað harla seint áfram í höndunum á hæstv. núv. menntmrh.

Þegar hæstv. menntmrh. tók við störfum fyrir 31/2 ári var nýlega búið að afgreiða hér á Alþ. nýja löggjöf um grunnskóla. Þarna var um tímamótamarkandi lagasetningu að ræða sem m. a. stytti grunnskólaun eða stytti það skólakerfi, sem var fyrir til undirbúnings framhaldsskólunum, um eitt ár. Og það lá ljóst fyrir, strax og þessi lög höfðu verið samþ., að það yrði að ganga í það að endurskipuleggja framhaldsskólakerfið innan hæfilegs tíma. Auðvitað gerðu menn sér grein fyrir því á þeim tíma, að málið yrði að skoða vandlega og menn yrðu að ráða ráðum sínum, ekki bara lítill hópur í menntmrn. ellegar sá hópur sem starfar hér í þessu húsi, hv. alþm., heldur yrði að fjalla um þetta mál miklu víðar og á mörgum stöðum, þar sem væri fólk sem þyrfti að fá að segja álit sitt á því, hvernig best væri að koma þessum málum fyrir.

En ég held að það leyni sér ekki, að nú hefur framkvæmd þessa viðfangsefnis, endurskipulagning framhaldsskólakerfisins, dregist svo úr hömlu að löngu er orðið óviðunandi með öllu. Í þessum málum er glundroði ríkjandi um þessar mundir og algjört stefnuleysi meðan ekki hefur verið samþ.einhvers konar rammalöggjöf af Alþ. sem tekur af skarið um það, í hvaða átt þessi mál muni þróast. Mjög víða um allt land eru skólamenn algjörlega ráðvilltir að því leyti, að þeir hafa enga vissu fyrir því, hvaða stefnu þessi mál muni taka. Þeir eiga því ákaflega erfitt með að taka afgerandi ákvarðanir ellegar hafa það frumkvæði heima fyrir sem þörf er á. Þeir eru víða sundraðir og sjálfum sér sundurþykkir um það, hvernig skipulagi þessara mála skuli háttað. Og þótt að vísu megi nefna dæmi þess, að vel hafi tekist til heima í héraði um skipulagningu þessara mála, eins og hæstv. menntmrh. nefndi gott dæmi um af Suðurnesjum þar sem heimamenn hafa haldið á þessum málum svo að til fyrirmyndar er og haft skínandi gott frumkvæði í þessum efnum, þá er ekki sömu söguna að segja alls staðar annars staðar að af landinu. Ég er hræddur um að þannig standi á miklu víðar en í mínu kjördæmi, að menn viti ekki almennilega í hvorn fótinn þeir eiga að stíga í þessum efnum og að ríkjandi sé stöðnun á þessu sviði.

Ég heyrði að hæstv. ráðh. nefndi það áðan, að um væri að ræða heilmikið framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra, og virtist nefna það sem dæmi um það, að þróunin í þessum efnum gengi talsvert hratt fyrir sig og ekki væri kannske ástæða til að hafa áhyggjur af þessum málum. Dæmið, sem hann nefndi fyrst og fremst þessu til sönnunar, var að 1. bekkur framhaldsskólans væri starfræktur á nokkrum stöðum í kjördæminu. Ég veit að hæstv. ráðh. er það gjörkunnugur þessum málum, að ekki þarf að fræða hann um það, að þessi 1. bekkur framhaldsskólans, sem hann er að tala um í þessum efnum, er bara sá hinn gamli 4. bekkur sem var yfirleitt starfræktur á flestum þessara staða áður en grunnskólalögin komu til framkvæmda. Það er því í raun og veru ekki nein sérstök framför fólgin í því, þó að nokkrir staðir hafi ákveðið að starfrækja kennslu fyrir sama aldursflokk og hlaut kennslu í 4. bekk gagnfræðaskólans samkv. hinni fyrri skipan mála. En staðreyndin er sú, og þar held ég að ég sé síst neitt að segja umfram það sem er, að heimamenn í þessu kjördæmi og vafalaust víðar eru býsna langt frá því að hafa komist að nokkurri niðurstöðu um það, hvernig eigi að skipuleggja þessi mál og hvernig það sé hægt.

Við Alþb.- menn höfum flutt till. í mörg ár um það, að tekið sé til hendinni í þessum efnum. Í fyrsta lagi höfum við hv. þm. Helgi F. Seljan flutt till. um að lagt verði fyrir Alþ. frv. um nýskipan framhaldsskólastigsins. Við byrjuðum að flytja þessa till. strax 1975 og urðum auðvitað glaðir við þegar loksins á seinasta ári sá frv. af þessu tagi dagsins ljós, að vísu heldur seint á því þingi, svo að ekki var viðlit að frv. næði fram að ganga þá. Við höfum ekki síðan flutt þessa till. okkar, en hljótum hins vegar að sakna þess, að frv. skuli ekki vera endurflutt í breyttri eða óbreyttri mynd, þannig að hægt sé sem allra fyrst að fá einhvern botn í þessi mál.

Í öðru lagi hef ég flutt till. um skólaskipan í mínu kjördæmi, á Norðurlandi vestra, sérstaklega með það í huga að undirbúningur að framhaldsskólanámi í þessu kjördæmi er bersýnilega skemmra á veg kominn en í öðrum landshlutum og því brýn þörf á að hreyfa þessum málum og ýta á eftir.

Mér þótti það miður smekklegt af hæstv. ráðh. að tala um einleik minn í þessu sambandi. Mér þótti það ekki orð við hæfi í þessu sambandi. Ég held að ef þessi tillögugerð mín væri vanþökkuð heima fyrir ellegar menn teldu að slíkur einleikur gæti truflað þróun mála heima fyrir, þá hefðu ekki borist jafneindregnar hvatningar úr heimahéruðum um að till. þessi yrði samþ. eins og raun ber vitni. Ég hef nú ekki fyrir framan mig þessar samþykktir allar, vegna þess að ég átti ekki endilega von á að þessi umr. yrði núna, en ég held að mig misminni það alls ekki að hreppsnefnd Blönduóshreppssýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu, allir þessir aðilar hafi skorað á hv. Alþ. samþ. þessa till. sem ég hef flutt, og sama gildir um bæjarstjórn Siglufjarðar. Um þessa till. sem við erum hér að tala um, á þskj. 121. var haldin ráðstefna á Norðurlandi vestra fyrir rúmu einu ári, og hæstv. ráðh. var svo velviljaður að senda einn af fulltrúum rn. þangað, að vísu eftir nokkra eftirgangsmuni og sérkennilega forsögu. Niðurstaðan varð sú, að ráðh. féllst á að senda fulltrúa á þessa ráðstefnu, og hef ég að sjálfsögðu kunnað honum þakkir fyrir það. Þarna voru mættir skólastjórar og formenn skólanefnda frá öllum skólastofnunum í þessu kjördæmi, allt frá Hrútafirði til Siglufjarðar, um 40–50 manns, og þessi mál voru rædd af miklum áhuga. En þetta var í fyrsta skipti sem menn í þessu kjördæmi komu saman til þess að ræða um nýskipan framhaldsskóla á Norðurlandi vestra. Þar hafði frumkvæðið af hálfu rn. ekki verið meira.

Menn geta auðvitað talað um einleik í þessu sambandi, þegar svo stendur á að einu maður flytur frv. af þessu tagi. En ég vil upplýsa það hér, að ég hef gengið mjög á eftir samþm. mínum af Norðurlandi vestra að flytja með mér þessa till. eða aðra um svipað efni. Í mörg undanfarin ár hef ég boðið þeim að vera meðflm. að till. ellegar að endursemja með mér till. sem stefndi að svipuðu marki, en af því hefur ekki orðið og því hefur niðurstaðan verið sú, að ég hef flutt þetta mál einn. En þegar menn tala um einleik í þessu sambandi, þá vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að menntaskóli á Austfjörðum var ekki samþ. fyrr en þm. þess kjördæmis höfðu flutt till. þess efnis æðioft hér í þinginu og vakið athygli á þessu máli. Sama gildir um menntaskóla á Vestfjörðum. Það mál var upphaflega flutt af einum þm. kjördæmisins. Mig minnir að það væri Hannibal Valdimarsson sem flutti það mál fyrst. Seinna urðu fleiri þm. kjördæmisins til að flytja það mál með honum. Það var flutt hér í þinginu ár eftir ár um mjög langt skeið og náði aldrei fram að ganga, þar til loks að Alþ. féllst á að samþ. þetta frv. og skólinn var byggður. Ráðh. má því auðvitað ekki fara að atyrða mig með orðalagi af þessu tagi fyrir að flytja till. sem þessa, vegna þess að fyrir þessu eru mörg fordæmi hér í þinginu og það síður en svo árangurslaus fordæmi. Þau hafa leitt til hins betra, þótt oft hafi langur tími liðið þangað til árangur náðist.

Með flutningi þessarar till. hef ég viljað bæta úr þeim vanköntum og ágöllum sem fyrir eru á þessu sviði, þ. e. a. s. ég hef viljað móta ákveðna stefnu. Ég hef ekki fullyrt, að sú stefna, sem fólgin er í þessari till., sé nákvæmlega sú rétta, og hef sannarlega verið reiðubúinn að ræða um aðrar leiðir í þessum efnum. En ég hefði þá viljað heyra, hvað menn hefðu út á þessa stefnu að setja, heyra hvaða till. aðrar menn væru með, þannig að málið kæmist á einhverja hreyfingu.

Í þessari till. minni er t. d. tekin ákveðin afstaða til þess, hvort um verði að ræða einn skólastað fyrir bóknám og iðnnám kjördæmisins eða fleiri skólastaði. Ég hallast að hinni síðari leið, að um verði að ræða að skipta þessu á nokkra skólastaði, sem starfi undir — ja, sennilega einni stjórn, og í öllu falli verði þar um að ræða samræmt skólastarf yfir allt kjördæmið. Staðreyndin er sú, að þessi mál þróast með ákaflega tilviljanakenndum hætti í dag. Margir staðir togast á um skólastarfið í kjördæminu án þess að þar hafi nokkurt samstarf náðst. Þannig eru Siglfirðingar ákaflega harðir á því að ná fram ákveðinni skólaskipan, meðan Sauðárkróksmenn eru á talsvert annarri skoðun og ýta fast á að sem mest af skólastarfinu verði í því sveitarfélagi. Einmitt af þessari ástæðu held ég að það sé alveg óhjákvæmilegt að menntmrn. hafi miklu ákveðnara frumkvæði en það hefur haft í þessum efnum, það beiti sér beinlínis fyrir samstarfi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra til þess að koma þessu máli fram. Þetta er einmitt meginefni í 1. mgr. till. sem segir:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir samstarfi sveitarstjórna á Norðurlandi vestra um stofnun framhaldsskóla með fjölbrautasniði.“

Hæstv. ráðh. getur auðvitað yppt öxlum og sagt sem svo: Það er verið að athuga þetta heima í héraði, en menn eru að tala um þetta sín í milli. Þetta þarf að fá að þróast og það er nú þetta sem rn. er að gera. — En ég vil bara leyfa mér að fullyrða að svo sé ekki. Ég held að þessi mál séu í stöðnun í dag. Ég verð hvergi var við að það sé nein jákvæð þróun í þá átt að samræma vilja sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra að einu marki, að einni skipan mála, heldur sé þar hver að vinna í sínu horni. Það er staðreynd málsins og þetta þekkir hæstv. ráðh. vafalaust. Ég veit ekki heldur til þess, að rn. hafi haft neitt skipulagt frumkvæði að því að samræma skipan þessara mála í kjördæminu. Ég þekki það a. m. k. ekki. Ég veit hins vegar að ráðh. er að vinna að þessu máli á landsmælikvarða með því að hafa samráð við ýmsa aðila um það frv., sem var sýnt hérna í fyrra, og hann ætlar að athuga það mál enn frekar og svo væntanlega leggja það fyrir þingið síðar í vetur. Ég tel að þetta sé ekki nóg. Ég tel að í þessu kjördæmi þurfi að koma til alveg sérstakt frumkvæði af hálfu rn. um samstarf sveitarstjórnanna.

Hitt er allt annað mál, að ég er ekkert undrandi á því út af fyrir sig þó að hæstv. ráðh. hafi ekki hlaupið til á undanförnum árum og stuðlað að því, að þessi till. yrði samþ., ellegar að hann sé kannske ekki núna reiðubúinn að beita sér fyrir því, að hún verði drifin í gegn hér í þinginu. Ég er ekkert undrandi á því í sjálfu sér. Þessi till. var flutt í fyrsta sinn fyrir þremur árum og hefur auðvitað fyrst og fremst verið flutt til þess að reyna að skapa sem mestan þrýsting á menntmrn., að það gegni þessari skyldu. En hitt mundi sennilega heyra til nýmæla, ef menntmrh. beitti sér fyrir samþykkt till. sem komin er frá stjórnarandstöðuþm. Ég reikna með að hann mundi sjálfur vilja hafa þar alla forustu og frumkvæði, og það væri út af fyrir sig allt í lagi. Eins þykist ég vita það, að hann vilji reyna að komast til botns í því, hvernig skipulag þessara mála verði á landsmælikvarða. En ég tel að eftir sem áður sé brýn þörf á því, að rn. hafi þarna ákveðið frumkvæði, og vil eindregið skora á ráðh. að stuðla að því.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, þó ég verði að endurtaka það sem ég sagði áðan, að því verða að vera einhver takmörk sett hvað menn skoða málið lengi. Og þó að við höfum samráð við hina ýmsu aðila og látum málin þróast á hæfilegum tíma og tökum ekki neinar fljótfærnislegar skyndiákvarðanir, eins og hæstv. ráðh. var að nefna hér áðan, þá megum við ekki biða enn í mörg ár eftir því að fá botn í þessi mál. Við verðum að fá þessi mál á hreint í vetur, og ég vil því eindregið fagna því, ef það reynist niðurstaðan að framhaldsskólafrv. sjái dagsins ljós innan fárra vikna og verði afgreitt í vetur í þinginu.