23.02.1978
Sameinað þing: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

104. mál, framhaldsskólanám á Norðurlandi vestra

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Það er ástæðulaust að við ræðum mikið okkar á milli, hv. flm. till. og ég, um undirbúning frv. af þessum toga eða vinnubrögð við þau. Ég segi fyrir mig, ég hefði talið það vera heppilegri vinnubrögð og miklu myndarlegri, að hv. þm. hefði unnið að þessu máli meira heima fyrir í samráði við fræðsluráðið eða á vettvangi fræðsluráðsins, kjördæmissambandsins o. s. frv., þar sem menn koma saman af svæðinu — (Gripið fram í: Það hefur líka verið gert.) og kæmi síðan með till. sem væri undirbúin heima fyrir og mótuð þannig á félagslegan hátt. En það er ástæðulaust að vera að ræða lengi um þetta. Ég hygg að ég hefði sjálfur í mínu kjördæmi reynt að vinna að máli á þann hátt fremur. En þetta er kannske meira smekksatriði og skiptir ekki meginmáli. Meginatriði í þessu sambandi er annars vegar það, að 1. grein till. er að mínum dómi nokkuð út í hött að fela ríkisstj. að beita sér fyrir samstarfi sveitarstjórna á Norðurlandi vestra um stofnun framhaldsskóla með fjölbrautasniði, því það er verið að vinna að þessum málum samkvæmt landslögum og á þennan hátt. En hitt er svo, að eins og okkur greinir auðsjáanlega á um heppilegustu vinnubrögð í sambandi við undirbúning svona máls, þá greinir okkur líka á um það, hversu heppilegt sé að rn. gangi hart fram í því að hafa forustu og halda málum í föstum skorðum. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það, enda má um þetta deila. Það er ástæðulaust að við séum að hafa um það langar ræður hér á hv. Alþ.

Ég tók eftir því, að hv. þm. sagði að það væri bara hálfur áratugur sem það tæki að undirbúa nýja skipan á framhaldsskólastiginu. Mér blöskrar það nú hreint ekkert mikið! Hvað halda hv. þm. að langur tími hafi farið í það t. d. að koma grunnskólalöggjöfinni á og lögunum um skólakerfið, sem komu samtímis? Ef tekinn er tíminn frá því að byrjað var að vinna að því máli og þangað til það var afgreitt hér frá hv. Alþ. vorið 1974, þá er það miklu, miklu lengri tími.

Svo er verið að gefa það í skyn stundum, að vinnuhópur sá, sem vann að undirbúningi framhaldsskólastigsins, hafi setið lokaður inni í rn. og ekki haft samband við neina menn. Þetta er náttúrlega alveg út í bláinn. Þeir fjórir menn, sem höfðu forustu um þessa vinnu, höfðu mjög mikil tengsl við margs konar hópa í þjóðfélaginu, voru auk heldur eðlilega tengdir þeim vegna fyrri starfa sinna. Sumir þessara manna höfðu starfað sem skólastjórar og kennarar o. s. frv., o. s. frv. Frá því byrjað var að vinna að framhaldsskólafrv. haustið 1974, sama haustið og þessi ríkisstj. var mynduð sem nú situr, þangað til það frv. var lagt fram á útmánuðum 1977, þá gekk þetta svona fyrir síg. Haldnar voru ráðstefnur um þetta, m. a. s. hér í Reykjavík, til þess að viðra hugmyndir og hlusta eftir ábendingum o. s. frv., o. s. frv. Þarna var því unnin mjög mikil undirbúningsvinna og það var víða seilst til fanga til þess að fá álit og áhendingar og tillögur meðan að þessu var unnið. Ég tel því ekki, þegar á allt er lítið, að til þessa hafi farið neitt óeðlilega langur tími í þetta. Hitt er annað mál, að það eru viss óþægindi alltaf að því þegar ganga yfir mótunarskeið, — óþægindi sem ómögulegt er að komast fram hjá frekar en óþægindum konu um meðgöngutímann. Þessi mál eru þannig vaxin í sjálfu sér. Og þessi óþægindi eru til og mér dettur ekki til hugar að neita því. Hinu vísa ég algjörlega á bug, að það sé einhver óskaplegur glundroði og algjört stefnuleysi í þessum málum og skólastjórar séu gjörsamlega ráðvilltir víðs vegar um land. Þetta er út í hött. En það er hins vegar satt hjá hv. þm., að tíma tekur að ná saman sjónarmiðum sveitarstjórnarmanna og skólamanna í hinum dreifðu byggðum við svo óskaplega breytilegar aðstæður eins og eru hér á landi. T. d. í kjördæmum okkar beggja, mín og hv. flm., er þetta hlutur sem ekki gerist hvorki á mjög stuttum tíma né af sjálfu sér.

En það er svo aftur áhersluatriði, hvað rn. á að ganga hart fram í þessu. Það getur vel verið að það fari að gera það. Kannske kemur þar nýr maður eftir næstu kosningar, sem gengi þá að því með karlmennsku að ná þessu saman og koma þessu í fast horf. En ég álít að sá hinn sami muni hafa mikið gagn af þeim undirbúningi sem fram hefur farið á þessu sviði. Þá á ég við lagaundirbúninginn. En ég álít líka, að hann hafi gagn af hinum þættinum, þ. e. af þeim e. t. v. svolítið tilraunakenndu samsteypum sem menn hafa verið að gera á þessum árum með fjölbrautaskólana, með því skipulega og formlega samstarfi framhaldsdeilda sem hefur verið tekið upp og enn fremur með þeirri nýskipulagningu, sem menn eru nú að vinna að við héraðsskóla landsins, nokkuð breytilegri eftir staðháttum á ýmsum stöðum. En héraðsskólarnir hafa sérstaka stöðu vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í uppbyggingu grunnskólauna bæði í þéttbýliskjörnum, sumum nýjum og öðrum eldri, og í sveitum þar sem sveitarfélög hafa tekið sig saman og byggt upp myndarlega grunnskóla fyrir afmörkuð svæði.

Ég vil því meina það, að ekki sé um neina stöðnun að ræða í þessu máli, heldur þróun. Það stendur yfir meðgöngutími að nýju skipulagi, sem auðvitað verður aldrei fullmótað og þarf alltaf að vera að prófa og fullkomna. En hann stendur yfir og þróun hefur átt sér stað og á sér stað nú. Ég árétta það.

Ég held að ég hafi þessi orð þá ekki öllu mikið fleiri. En út af því sem hv. þm. var að segja, að það hefði verið lítið gert á þessu framhaldsskólasviði núna á þessum árum og í skólamálum yfirleitt, þá dæma menn náttúrlega um það eftir á. En ég segi, að það hefur á þessu tímabili verið unnið ákaflega mikið starf við að framkvæma grunnskólalögin nýju frá 1974. Ríkisvaldinu eru ætluð 10 ár til þess að framkvæma þau lög að fullu, en það hefur ákaflega mikið starf verið unnið á því sviði úti í héruðunum og í rn. Nýir framhaldsskólar hafa tekið til starfa og þar er unnið að skipulagningu þeirra gömlu, sem þurfa að breyta sínum starfsháttum o. s. frv. Ég held að þessi vinna við framhaldsskólastigið sé ekkert til þess að skammast sín fyrir fyrir þá menn sem að henni hafa unnið, það sé ólíklegt.

En varðandi þessa till., þá álít ég það ekki spilla neinu þó að hún sé samþykkt, því meginatriðið er að menn eru sammála um þá stefnu sem í till. felst. Þetta er sú stefna, sem verið er að vinna að, og svo er áhersluatriði að samþykkja áskoranir um það að vinna við þá stefnu sem menn eru þegar að vinna eftir. Þess vegna vil ég ekki sýna þessari till. fjandskap.