26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég ætla nú sem minnst að blanda mér í mál þeirra sessunauta og fyrrv. Þjóðviljastarfsmanna, hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 3. landsk. þm. Þeir gera þessi deilumál að sjálfsögðu upp sín í milli, hvort sem það verður hlið við hlið eða hér úr ræðustól.

En tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs nú voru nokkur ummæli hv. 3. landsk. þm. við umr. um þetta mál s.l. mánudag. Þá vék hv. þm. nokkrum orðum að því, sem fram hafði komið hjá mér við þá umr., og þá fyrst og fremst í sambandi við það að ég hafði látið þau orð falla að ég teldi að sinfóníuhljómsveit gæti verið góð þó að hún væri skipuð tiltölulega fáum einstaklingum. Hv. 3. landsk, þm. lék á léttari strengi og fór að velta því fyrir sér hvort ég hefði m.a. átt við það að sami einstaklingurinn, sami hljóðfæraleikarinn léki, ef ég man þetta rétt, á tvær fiðlur, tvær básúnur eða tvö selló. Þessar hugleiðingar hv. 3. landsk. þm. gáfu auðvitað hugmyndafluginu byr undir báða vængi og maður fór óneitanlega að hugleiða hvort engin dæmi væru þess að einn og sami einstaklingurinn hér á landi gegndi fleiri en einu, tveimur eða jafnvel þremur störfum samtímis.

Nú er það svo í okkar þ jóðfélagi, að við erum margir einstaklingar sem hafa mikil umsvif í starfi og gegna mörgum störfum samtímis. Ég man ekki betur en þessi hv. þm. hafi á sínum sokkabandsárum sem ráðh. gegnt a.m.k. tveimur ef ekki þremur ráðherraembættum samtímis, og vissulega er lengra milli menntmrn. við Hverfisgötu og félags- eða samgrn. í Arnarhvoli heldur en ef hægt væri að koma upp tveimur hljóðfærum á sviði á hljómleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ef menn ætla að setja þessi mál upp á þennan hátt, í gamni meira en menn vilja tala af alvöru, þá er auðvitað hægt að víkka þennan sjóndeildarhring fyrir mönnum og hugleiða áfram í framhaldi af þessu.

En ég veit að hv. 3. landsk. þm. hefur ekki reiknað með því, að þessi væri meining með tali mínu eða tali annarra þeirra sem vilja með eðlilegum hætti stemma stigu við of mikilli útþenslu og of mikilli fjölgun í þessu tilfelli innan Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er vissulega hægt að flytja góð verk og mikil verk með tiltölulega fáum einstaklingum. Við vitum það a. m, k., sem sækjum leikhús eitthvað að ráði, að býsna góð verk geta verið flutt af tiltölulega fáum einstaklingum, leikpersónum í leik. Það er ekki allt bundið við það að troða að svo og svo mörgum einstaklingum eða taka fyrir þau verkefni sem krefjast fyrst og fremst sem hæstrar tölu einstaklinga, þeirra sem flytja verkið. Það er ekki aðalspurningin. Það getur verið þörf á því einstaka sinnum að vera með kannske 60–100 manna sinfóníuhljómsveit, en það er ekki nauðsynlegt að gera það að algeru skilyrði að hún skuli vera skipuð svo og svo mörgum mönnum. Ef fjárveitingavaldinu sýnist svo hverju sinni eða einstaka sinnum að æskilegt sé listarinnar vegna að setja upp verk sem krefjast tiltölulega margra einstaklinga í sinfóníuhljómsveit, þá hagar fjárveitingavaldið auðvitað fjárveitingum eftir því hverju sinni. Og það er það sem er um að ræða.

Ég er a.m.k. ekki talsmaður þess að Sinfóníuhljómsveitinni eða neinu öðru fyrirtæki á vegum ríkisins sé gefinn laus taumur í þenslu varðandi fjármuni eða hún spreði fjármunum með einum eða öðrum hætti. Þessi stofnun þarf aðhald sem aðrar og það á að koma frá fjárveitingavaldinu og löggjafarvaldinu. Þó að ég geti líklega ekki af jafnmikilli þekkingu talað um hljómlist og mér virðist hv. 3. landsk. þm. gera, tel ég engan vafa á því, að hægt er að starfrækja á sómasamlegan hátt sinfóníuhljómsveit sem er skipuð tiltölulega fáum einstaklingum. Þetta getur verið breytilegt, en það er enginn vafi á því að þarna þarf að sýna aðhald eins og í öðrum efnum.

Það kom fram hjá hv. 3. landsk. þm. einnig, að hann taldi varhugavert að fara út á þá braut að kannað yrði hver samsetning hljómleikagesta er á tónleikum hjá Sinfóníuhljómsveit íslands, og sama skoðun kom fram hjá hæstv. menntmrh. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert varhugavert að gera sér grein fyrir því, hverjir það eru í raun og veru sem njóta þeirrar listar sem flutt er hverju sinni. Það væri í raun og veru ábyrgðarleysi að láta það lönd og leið hvort réttur þverskurður af þjóðfélaginu veri á hljómleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar t.d. eða leikhúsanna eða hvort það væri óeðlilega mikið af einhverjum — ja, við getum sagt fulltrúum ákveðinna stétta innan þjóðfélagsins, en aðrar væru þar svo til gjörsamlega útilokaðar. Ég sé ekki að neitt sé hættulegt við að fá um það vitneskju hvernig þessum málum er háttað. Sé þetta allt saman eðlilegt, þá er gott að það komi í ljós, en sé eitthvað óeðlilegt við það, þá er líka nauðsynlegt að það komi í ljós til þess að hægt sé að betrumbæta.

Ég er þannig á öðru máli en bæði hæstv, núv. menntmrh. og hv. 3. landsk. þm., fyrrv. menntmrh. Ég hygg að það gæti verið athyglisvert og lærdómsríkt ef slíkt lægi fyrir, hver samsetning gesta er, í þessu tilviki á hljómleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Hv. 3. landsk. þm. kom inn á það áðan, að hann teldi að mikil umskipti hefðu orðið á sviði hljómlistarmála hér á landi á undanförnum árum, og það er ábyggilega rétt að svo hefur orðið. En ég er ekkert sannfærður um að þau hefðu orðið meiri þó að t.d. Sinfóníuhljómsveitin hefði verið skipuð helmingi fleiri hljóðfæraleikurum en hún hefur verið á undanförnum árum, og ég er ekkert sannfærður um það heldur, að þessi miklu umskipti séu fyrst og fremst að þakka Sinfóníuhljómsveitinni. Ég er ekki sannfærður um það. Það getur ótalmargt fleira þar komið til sem hafi haft þau áhrif að umskipti hafi orðið til hins betra á hljómlistarmálum hér á landi, eins og þau hafa í raun og veru orðið í sambandi við leiklistarmálin og verður ekki vefengt að mínu mati.

Hæstv. menntmrh. kom inn á það hér s.l. mánudag, að hann teldi að orðið hefði aukin umsvif af hálfu Þjóðleikhússins í þjónustu við landsbyggðina, m.a. með því, sagði hann, að í ríkara mæli nú en áður væru sendir leikstjórar á vegum Þjóðleikhússins út á landsbyggðina til þess að leiðbeina áhugamannaleikfélögunum þar. Ég dreg þetta mjög í efa. Ég hef að vísu, engar tölulegar upplýsingar um þetta, en ég dreg mjög í efa að þetta sé svo. A.m.k. veit ég ekki til þess að slík umskipti hafi átt sér stað á Vestfjörðum t.d. Mér er ekki kunnugt um það. En hitt staðhæfi ég, að á undanförnum nokkrum árum hefur verið miklu minna um það en var á tímabili að Þjóðleikhúsið ferðaðist um landið með leiksýningar, og það er ekkert óeðlilegt þó að dreifbýlisfólk beri fram óskir um það eða geri til þess kröfu að stofnun eins og Þjóðleikhúsið sinni betur landsbyggðinni en raun hefur verið á á undanförnum árum, þannig að það sé ekki hægt með réttu að kalla þetta Þjóðleikhús bara Þjóðleikhús Reykjavíkur og nágrennis. Það hefur vissulega oft og tíðum nálgast það, að með fullum rökum væri hægt að gefa því slíkt heiti. Það á auðvitað alls ekki að vera slíkt. Sama má raunar segja um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún gæti allt eins heitið Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur og nágrennis, því eðli málsins samkv., eins og haldið hefur verið á málum bæði að því er varðar Sinfóníuhljómsveitina og Þjóðleikhúsið, hefur þetta verið þjónusta fyrst og fremst við Reykjavíkursvæðið og næsta nágrenni þess, vegna þess að það hefur ekki verið sinnt þeim sjálfsagða hlut að gefa meiri gaum að því að flytja þessa list út um landsbyggðina.

Ég vænti þess að hv. þm. Reykjavíkurkjördæmis taki það ekki sem árás á Reykjavík eða nágrenni þó að bent sé á staðreyndir sem þessar, að þetta er hlutur sem að mínu viti þarf að breyta og færa til betri vegar en verið hefur.

Ég ítreka það enn, sem ég kom að hér s.l. mánudag, en ég minnist þess ekki að nokkur hv. þm., sem hér hefur talað í þessum umr., hafi komið að, ekki einu sinni hæstv. menntmrh. sem ég veit að var mjög umhugað um þetta mál meðan hann var óbreyttur þm. og fjvn.- maður, að Þjóðleikhúsið eða sjónvarpið, hvor stofnunin sem er, gerði til þess ráðstafanir að hægt væri að sjónvarpa frá leiksýningum eða lokaæfingum, t.d. á verkefnum úr Þjóðleikhúsinu og sömuleiðis að því er varðar hljómleikahald Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Og ég vil enn ítreka það sjónarmið mitt, að ég trúi því ekki að það séu nein þau tæknileg vandamál við að glíma í þessu efni að þessu sé ekki hægt að ráða fram úr. Það er hægt, og hefur verið hægt á þessu ári, þrátt fyrir allan barlóm ríkisstj, og hæstv. ráðh. um peningaleysi, að setja svo tugum milljóna skiptir í það að sjónvarpa í lit, og allir vita líklega hvað þar er fyrst og fremst um að ræða, að einstaklingar njóti slíkrar þjónustu. Hvaðan er hægt að taka fé? Ég veit ekki til, að neinn hafi skorast undan því eða mundi skorast undan því, kæmi það fram hjá þeim valdhöfum sem nú ráða hér á landi, að einhver skattur yrði lagður á til þess að flytja þessa list til fólksins úti á landsbyggðinni. Það hefur borgað til hennar með því að hún væri eingöngu flutt hér á Reykjavíkursvæðinu, og ég er viss um að það mundi ekki á því standa að leggja svolítið meira af mörkum til þess að það fengi sjálft að njóta þessarar listar í heimabyggð. En mér þykir undarlegt að það skuli, að því er best verður séð, eiga að þegja þetta í hel, að um þetta sé rætt. Ég var að vænta þess að hæstv. menntmrh. kæmi inn á þetta efni í sinni ræðu, a.m.k. hér síðast. Það gerðist ekki og ég vil því enn vekja á því athygli, að hér er um málefni að ræða sem ég tel að miklu skipti, bæði að því er varðar leiklistina, sem flutt er innan veggja Þjóðleikhússins, og hljómlistina, sem flutt er á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar íslands, að gerðar séu til þess ráðstafanir, a.m.k. að það sé kannað ítarlega hverjir tæknilegir gallar eru á því að sjónvarpa frá hljómleikum í öðru tilfellinu og leiksýningum í hinu, þannig að fólk á landsbyggðinni geti notið þessa í raun og veru.