27.02.1978
Neðri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

199. mál, umferðarlög

Flm. (Ellert B. Schram) :

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, flutt af mér og hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, og það felur í sér tvær breytingar á nefndum lögum.

Annars vegar er um það að ræða að fella niður 3. mgr. 5. gr. laganna, sem fjallar um ökurita, og hins vegar breyting á 55. gr. laganna, sem felur í sér að lengd almenningsbifreiða til fólksflutninga megi vera öllu meiri en nú er kveðið á í lögunum. Þetta eru minni háttar breytingar á umferðarlögum.

Frv. er flutt að beiðni Félags sérleyfishafa og rökstuðningur með þessum till. kemur fram í grg. með frv. Þar segir m. a., að ökuritar skuli vera í fólksbifreiðum, sem flytja mega yfir 30 farþega, og sýna vegalengd og hraða bifreiðarinnar á hverjum tíma. Þessir ökuritar hafa verið settir í bifreiðarnar fyrst og fremst þegar þær eru skráðar, en í framkvæmd hefur þessu ákvæði ekki verið fylgt. Ökuritar hafa í för með sér vissan kostnað fyrir eigendur þessara bifreiða. Ökuritar af þessu tagi eru dýrir í viðhaldi og erfiðleikar á því að fá þá lagfærða ef þeir bila, og niðurstaðan er sem sagt sú, að þeir hafa ekki neina praktíska þýðingu og ástæðulaust að halda þessu ákvæði til haga.

Varðandi lengingu á þessum bifreiðum, sem hér um ræðir, þá er gert ráð fyrir því í lögunum eins og fyrr segir, að bifreiðar megi ekki vera lengri en sem nemur 12 metrum. Það er ljóst að með byggingu nýrra vagna af þessu tagi og með þróun í umferðarmálum stenst þetta ákvæði vart og veldur margvíslegum vandræðum fyrir þá sem stunda slíka fólksflutninga og reka slíkar bifreiðar. Er því lagt til að hér sé rýmkað lítillega með hliðsjón af þróun á þessum vettvangi, og hvort tveggja þjónar hagsmunum þeirra sem þessa atvinnugrein stunda.

Ég vísa að öðru leyti til þeirrar grg., sem fylgir með frv., og legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn.