27.02.1978
Neðri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

62. mál, grunnskólar

Frsm. 1. minni hl. (Gunnlaugur Finnsson) :

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hér áðan, að n. varð ekki sammála. Svo hagaði til, að formaður n. var erlendis þegar málið var afgreitt í menntmn. síðustu daga janúarmánaðar, en í n. náðist ekki samstaða um frv., það náðist engin meirihlutasamstaða, þannig að það komu þess vegna fram tvö minnihlutaálit, annars vegar þar sem ég stend að minnihlutaáliti ásamt Svövu Jakobsdóttur og Magnúsi Torfa Ólafssyni.

Eins og menn e. t. v. muna, er í frv. gert ráð fyrir því, að heimilt sé að stofna til sérstakra fræðsluskrifstofa í bæjarfélögum með 10 þús. íbúa eða fleiri. Og það er gert ráð fyrir því jafnframt, að þessar skrifstofur séu jafnréttháar og þær fræðsluskrifstofur, sem komið hefur verið á fót samkv. lögum um grunnskóla, og að ríkið greiði til nýju fræðsluskrifstofanna kostnað vegna sömu þátta og þar er gert ráð fyrir og í framkvæmd eru. Við, sem stöndum að þessu minnihlutaáliti, teljum að ef slík heimild yrði veitt, þá sé um grundvallarbreytingu að ræða í skipan fræðslumála á grunnskólastigi í landinu. Og jafnvel þó að við vitum að hér er fyrst og fremst eftir leitað vegna áhuga á því að stofna eða viðhalda eða breyta fræðsluskrifstofu, sem nú er fyrir hendi í einu sveitarfélagi, þannig að ríkið standi að henni ásamt viðkomandi bæjarfélagi, þá yrði hér um slíka grundvallarbreytingu að ræða, að dilk kynni að draga á eftir sér þannig að ýmis sveitarfélög gætu þá krafist þess, að þar yrðu stofnaðar sérstakar fræðsluskrifstofur, þó að formlegar óskir virðist ekki liggja fyrir um það í dag.

Ég hygg að það sé samdóma álít okkar, að hér sé um slík skipulagsmál að ræða, að það sé ekki ástæða til að brjóta upp það kerfi, sem nú er í landinu, vegna þessara aðstæðna og síst af öllu í því umdæmi þar sem óskað er eftir breytingunni, þ. e. a. s. í Reykjanesumdæmi, þar sem óskað er eftir fræðsluskrifstofu í Hafnarfirði. Ég hygg að öllum hv. þm. í þessari deild sé ljóst, að þetta er áreiðanlega það fræðsluumdæmi þar sem fræðslustjóri landfræðilega séð á auðveldast með að fara um allt umdæmið og gæti jafnvel sinnt því á einum degi. Það er ekki sambærilegt við önnur umdæmi, ekki síst með tilliti til þess, að þar er þegar starfandi fræðsluskrifstofa í næsta sveitarfélagi, og þegar þar við bætist, að ég þykist vita og tel mig hafa nægar heimildir fyrir því, að sú fræðsluskrifstofa hafi þegar tekið við ýmsum störfum sem voru áður í fræðsluskrifstofunni í Hafnarfirði.

Ég held að það sé ekki ástæða fyrir mig til að orðlengja þetta frekar á þessu stigi. Till. okkar er sem sagt sú, að frv. verði fellt. En ég legg jafnframt áherslu á það, að ég óska eindregið eftir því, að það fáist skorið úr þessu máli hér á Alþ., hér í þessari hv. d. og á Alþ., vegna þess að ég tel hugmyndir um að breyta þessu kerfi frá því, sem nú er, hafi jafnvel að einhverju leyti verið þrándur í götu þess, að uppbygging og starfsemi fræðsluskrifstofanna kæmist í það horf sem raunverulega er óskað eftir og þarf að vera.