27.02.1978
Neðri deild: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

62. mál, grunnskólar

Svava Jakobsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar, þá er ég í hópi þeirra nm. sem leggja til að þetta frv. verði fellt. Afgreiðsla þessa máls var með nokkrum ólíkindum. Það var hringt heim til nm. á miðju kvöldi og þeir beðnir að mæta morguninn eftir til þess að afgreiða þetta mál, og hafði það aldrei einu sinni verið rætt á fundi. Þetta var sem sagt hespað af án þess að okkur væri gefinn kostur á að ræða við þá aðila sem hlut eiga að máli.

Afstaða mín í þessu máli byggist á þeim umr. sem hér urðu þegar grunnskólalögin voru sett og fræðsluumdæmin sett á stofn. Í rauninni hefur ekkert breyst síðan sem réttlætir það að fræðsluumdæmum sé fjölgað, og yfirleitt er ekki enn komin sæmileg reynsla á þá skipan. Það eru ekki nema 4 ár síðan þau voru sett á stofn, og við vitum að það hefur ekki fengist nægilegt fjármagn til þess að hægt sé að sinna þessum málum sem skyldi. Ég held því að það ætti enn að þrauka og vita hver útkoman verður af þessari skipan.

Ég vil líka minna þá hv. stjórnarsinna, sem mæla með samþykkt þessa frv., á að athuga það, að þetta hlýtur að hafa í för með sér talsverðan kostnaðarauka, hversu mikinn veit ég ekki því það kom ekki fram í afgreiðslu n., fremur en svo margt annað sem hefði þurft að liggja fyrir.

Hitt er annað mál, að ég get afskaplega vel skilið það, að heimamenn vilji hafa meiri áhrif á stjórn skólamála en er víðast hvar raunin. í þessu sambandi vil ég minna á till. sem ég flutti þegar grunnskólalögin voru samþ.till. var felld, en hún fjallaði um það, að í kaupstöðum með 10 þús. íbúum eða fleiri skyldu settar á stofn svonefndar hverfisnefndir, sem skyldu hafa ýmis verkefni skólanefnda. Skipanin er, eins og við vitum, allt önnur hér í Reykjavík þar sem fræðslunefnd fer með hlutverk skólanefndar, eftir því sem við á. Þetta þýðir það, að í fræðsluumdæmi Reykjavikur er meiri miðstýring í skólamálum en annars staðar. Ég hafði ímyndað mér að með því að setja á stofn slíkar hverfisnefndir væru möguleikar á því fyrir íbúana að hafa meiri bein áhrif á innri stjórn skólanna og að það mundi rjúfa svolítið einangrun skólans og skólakerfisins í okkar þjóðfélagi.

Þess vegna get ég í sjálfu sér viðurkennt þá hugsun sem þarna liggur að baki, að heimamenn vilji hafa meiri áhrif á skólamál. En ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki rétta leiðin að rjúfa það skipulag sem nú er. Það kæmu örugglega fleiri á eftir en Hafnarfjörður. Það væri algjörlega ástæðulaust að t. d. Breiðholtshverfið í Reykjavík hefði ekki sinn sérstaka fræðslustjóra, ef á að fara að skipta þessu eftir íbúatölu. Þess vegna leggst ég gegn þessu frv. og tel að það sé ekki heppilegt að breyta skipulagi fræðsluumdæma.

Ég vildi mælast til þess virðulegi forseti, ég ætlaði nú, ég sé að hv. þm. Gunnlaugur Finnsson er kominn í salinn aftur, annars ætlaði ég að fara fram á að umr. yrði frestað, en það er þá óþarfi.