28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

338. mál, símamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og fram kom við umr. um hliðstæð efni fyrir viku hef ég athugað þetta mál. Þá kom það á daginn, sem ég þá tók fram, að ekki voru nú allar syndir guði að kenna og ekki heldur okkur í samgrn. Svarið við þessari fsp. hv. 5. þm. Norðurl. v. var tilbúið í des. og var ég með það hér í tösku minni alllengi, en kom því þó ekki að. Rn. mun hafa borist svar frá póst- og símamálastjóra 6. des., — það hefur verið 17. nóv. sem fsp. var borin fram. En ég bið afsökunar á þeim mistökum sem hafa orðið, hvað þetta hefur dregist. Þetta leiðir til þess, að svar mitt verður með nokkuð öðrum hætti en það hefði orðið þá, vegna þess sem breyst hefur síðan það svar var samið.

1. spurningin: „Má ekki vænta þess að símstöðvar á Siglufirði, Sauðárkróki og annars staðar, þar sem myndast hafa langir biðlistar eftir síma, verði stækkaðar án frekari tafar?“

Því er til að svara um Siglufjörð og Sauðárkrók, að þess má vænta að þetta verði gert nú á þessu ári, því að búið er að leysa út efnið sem þarf til þess að framkvæma þetta verk, og nýlega er búið að leysa úr tolli vélarnar sem til þessa eiga að fara. Þetta á því að framkvæma á árinu 1978.

Um þetta mál er það að segja, — ég verð að biðja hæstv. forseta afsökunar á því, að ég verð sennilega eitthvað lengur en eðlilegt væri að svara þessu og gefa upplýsingar um þessi mál, að á biðlista voru á Sauðárkróki um 100, en þar var ekkert númer óráðstafað. Það var gert ráð fyrir um 100 íbúðum í byggingu. Nokkur stærri hús, eða rúmlega 30 íbúðir, skyldu tekin í notkun 1977. Áætlað er að byrja á 55 íbúðum á árinu 1978 og tveimur iðnaðar- og verslunarhúsum. En bætt verður við um eða yfir 200 númerum á þessu ári á Sauðárkróki. Úr því verður þannig bætt.

Á Siglufirði er einnig búið að leysa út efnið. Þar voru 50 á biðlista, ekkert númer var laust. Í byggingu eru 30 íbúðir og áætlað er að verði byrjað á öðrum 30 1978. Búið er að leysa út þær vélar sem þarf til þess að bæta úr því sem fram undan er á næstunni í þessum efnum.

Að framkvæmdum í sveitum eða fleiri þáttum í þessu en felast í fsp. kem ég síðar.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að oft er deilt á Landssímann fyrir taxtahækkanir. Eins og ég benti á um daginn, þá hefur hann ekki úr neinu að spila nema því fjármagni sem hann aflar með sínum tekjum, og er hann langt fjarri því að geta sinnt þeim beiðnum sem fyrir liggja. Ef ég ætti að fara að rekja það hér núna, þá yrði það alllangur listi. En m. a. er reynt að bæta úr þessu, þar sem hafa orðið verulegar stækkanir á símstöðvum, eins og t. d. var í Grindavík og á slíkum stöðum, þá hefur verið bætt úr á nálægum stöðum með því að flytja vélarnar þangað og getur þá nægt á þeim stöðum. Sama mun gerast á Akureyri núna. Akureyrarstöðin verður endurnýjuð á þessu ári og þá verður vélakerfi hennar flutt annað. En ég vil taka það fram, að verkefnin, sem fram undan eru samkv. fjögurra ára áætlun sem er unnið að hjá Landssímanum til þess að koma símakerfinu í það lag að vel viðunandi sé, munu kosta nokkra milljarða. Ætlað er að það þyrfti 4 milljarða til þess að framkvæma þetta á næstu 4 árum. Þarf þá vel að halda á tekjum símans til þess að þetta sé framkvæmanlegt.

Annað atriði í fsp. hv. þm.: „Hvaða áform eru um lagningu sjálfvirks síma um sveitir Skagafjarðar- og Húnavatnssýslna?“

Því er til að svara að framkvæmd við lagningu sjálfvirks síma um sveitir Skagafjarðar- og Húnavatnssýslna hefur verið skotið á frest vegna fjárskorts fram yfir árið 1978, — þessu er svarað fyrir áramótin síðustu, — og mætti þá vænta þess, að á árinu 1979 gæti þetta komið til framkvæmda.

Þriðja atriðið: „Hvenær er þess að vænta, að sjálfvirki síminn milli höfuðborgarsvæðisins og Vestfjarða, Norður- og Austurlands komist í það horf, að notendur þurfi ekki að eyða löngum tíma í það eitt að bíða eftir sambandi?“

Því er svarað á þessa leið:

Vegna niðurskurðar á fjárfestingaráformum stofnunarinnar á undanförnum árum hefur úrbótum á aðalstofnlinum Pósts og síma til Vestfjarða, Norðurlands og Austfjarða miðað hægar en skyldi. Á þessu ári hefur verið í notkun fullkomið örbylgjusamband milli Reykjavikur og Akureyrar, og á næsta ári, þ. e. á árinu 1978, mun örbylgjusambandið verða tengt áfram frá Akureyri til Egilsstaða, en örbylgjusambandið til Vestfjarða kemur ekki til framkvæmda fyrr en eftir 1978 og framkvæmdahraðinn fer þá eftir fjárhagsgetu.

Fyrra atriðið, þar sem eru símataxtarnir, kom ég nokkuð inn á í svari mínu hér síðast, en ef hæstv. forseti leyfir mér, get ég gefið yfirlit yfir þá breytingu sem orðið hefur á í þessum málum frá 1971.

Samræming á langlínutöxtum í sjálfvirka símakerfinu var fyrst tekin upp 1. ágúst 1971 samkv. ákvörðun samgrh. Var þá um að ræða mjög verulega hækkun og samræmingu á töxtum á hinum styttri leiðum, 10–30 km, í símakerfinu. Auk þess var þá um leið tekinn upp næturtaxti á öllum landssímaleiðum í sjálfvirka símakerfinu og var þetta alger nýbreytni. Næturtaxtaeiningin var þá hálfvirði hinnar venjulegu dagtaxtaeiningar. Næturtaxtinn stóð frá 22 til kl. 7 næsta morgun alla virka daga frá mánudegi til laugardags, en auk þess hófst næturtaxtinn kl. 15 á laugardögum og stóð til mánudagsmorguns kl. 7. Næsta skrefið í átt til útjöfnunar símgjalda var á gjaldskránni frá 1. apríl 1972. Þá var gerð útjöfnun milli höfuðborgarsvæðisins og dreifbýlisins með því að fækka teljaraskrefum í ársfjórðungsgjaldi símnotenda á höfuðborgarsvæðinu úr 525 í 400. Næturtaxtatímabilið var lengt um 3 klst. á virkum dögum 1. júní 1973. Næturtaxtinn hefst þá kl. 20 að kvöldi og stendur til kl. 8 næsta morgun. 1. janúar 1975 er teljaraskrefum í ársfjórðungi enn fækkað úr 400 í 300 á höfuðborgarsvæðinu, en óbreytt, 525, í dreifbýlinu. Hér var því um útjöfnun á milli dreifbýlis og höfuðborgarsvæðisins að ræða. En auk þess voru gerðar mjög verulegar breytingar, bæði til lækkunar og samræmingar, á 223 landssímaleiðum, eins og sýnt er á meðfylgjandi skrám um lækkun langlínugjalda janúar—mars 1975. Breytingin var fólgin í því að lengja skrefin, eins og sýnt er hér á eftir í samantekt. Það yrði nokkuð langt að lesa hana upp, og ég held að ég muni heldur kjósa að afhenda bana. Ég veit ekki hvort hv. þm. ná þessu þó ég lesi það upp, en ég gæti látið a. m. k. hv. fyrirspyrjanda hafa afrit af þessu á eftir. Auk þess sem hér að framan er talið var árið 1976 gerð lagfæring til lækkunar á 9 langlínuleiðum og 24 sekúndna skrefa bili breytt í 45, eða 46% lækkun. Loks var nú í síðustu gjaldskrá, 1. jan. 1977, gerð sú útjöfnun, að skrefum á ársfjórðungi var breytt úr 525 í 600 í dreifbýlinu, en óbreytt 300 skref í ársfjórðungsgjaldi höfuðborgarsvæðisins. Þar að auki var næturtaxtinn látinn hefjast kl. 19 í stað 20 áður.

Samkv. framansögðu er augljóst, að æðimikið hefur verið gert í þessum efnum, því að þessu til viðbótar, sem ég hef nú greint frá, var við hækkun þeirrar gjaldskrár, sem gerð var 1. febr. s. l., 2% af tekjum símans varið til þess að jafna á milli svæða. Er þar með haldið áfram á þeirri braut sem ég hef hér greint frá. Þessu til viðbótar get ég svo getið þess, að þeirri stefnu hefur verið fylgt frá upphafi að gera þessar breytingar í áföngum og í samræmi við bættan tækjakost og aukna afkastagetu símakerfisins. Athuganir sýna, að landsmenn hagnýta sér mjög mikið hin ódýru símtöl á næturtöxtunum á landssímaleiðum, og eru vaxandi afnot af landssímakerfinu á kvöldin áberandi.

Þessu til viðbótar vil ég svo taka það fram, að með þeim aðgerðum, sem gerðar hafa verið og ég hef hér lýst, hefur verið stefnt að því og er nú fyrst og fremst stefnt að því, og það er kannske róttækast með síðustu aðgerðinni, að jafna svæðin innbyrðis þannig að taxtarnir á svæði 95 verði sem jafnastir og á endanum verði þar sami taxti og svo verði einnig á öðrum svæðum. En það tekur sinn tíma miðað við þann taxta sem Landssíminn býr við. Hins vegar var stefnt að því, og það var trú manna að það hefði haft verulega breytingu í för með sér, að fá nýtt vélakerfi í Reykjavíkurstöðina, þannig að þar yrði tekið upp teljaraskref eins og er núna á hinum svæðunum, fyrir utan 91. Þetta var talið kosta 100–120 millj. kr. Með þeim tekjum, sem Landssíminn hefur nú, og með tilliti til þess, að koma þarf áfram þeim verkum sem hann vinnur nú að og búið er að panta efni til, þá hef ég litla trú á því að takist að ná þessu takmarki á þessu ári, en geri hins vegar ráð fyrir því, að þessi vélahluti verði pantaður á árinu 1978 og kæmi þá til afgreiðslu 1979.

Það, sem hefur nú allra síðast verið gert til þess að reyna að bæta úr ástæðum Landssímans, bæði svo að fljótar gangi að verða við beiðnum notendanna um að leggja síma í ný hús og einnig til þess að auka fjárhagsgetu hans, er það, að orðið hefur að samkomulagi við fjmrn. að Landssíminn þurfi ekki að greiða tolla af efni sínu fyrir fram eins og hann hefur alltaf gert sem hver annar notandi í landinu, heldur innan vissra takmarkana. Með þeim hætti er hægt að flýta framkvæmdum og auka tekjur stofnunarinnar með útbreiðslu á landssímakerfinu. Unnið er að þessu, en ég vona, að hv. þm. sé ljóst, að það er algerlega vonlaust að leysa verkefni Landssímans, eins brýn og umfangsmikil og þau eru, nema hann fái þá a. m. k. að hækka tekjur í nokkru samræmi við það sem hann sjálfur hefur óskað. Því hefur verið í hóf stillt og fyrst og fremst miðað við möguleikana til að auka og bæta kerfið, því að eins og ég gat um um daginn hefur starfsfólki hans verið fækkað um 80 manns núna á einu ári og verður haldið áfram á þeirri braut eftir því sem mögulegt er án þess að skerða þjónustuna.

Þá vona ég, að ég hafi svarað fsp. hv. þm. Ég bið afsökunar á þeim mistökum sem hafa orðið, en að nokkru leyti verður okkur fyrirgefið vegna þess að jólin komu þar inn í.