28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

338. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Ég vil taka skýrt fram, að það voru alls ekki mín orð að það væri sök hæstv. ráðh. að dragast skyldi í 31/2 mánuð að svara þessari fsp. Hún var borin fram 17. nóv. og er svarað 28. febr. Þetta er alls ekki sök ráðh., eins og fram hefur komið, og stafar ekki heldur af þeim mistökum sem áttu sér stað, að fsp. skyldi tvívegis ekki vera tekin á dagskrá. Ég held að málið sé einfaldlega það, að það vilja hlaðast upp langir fyrirspurnalistar hér í þinginu sem gengur þá hægt og seint að svara. Ég held að þetta sé vandamál út af fyrir sig, að svör ráðh. við fsp. koma gjarnan seint og tefjast vegna þess að hægt gengur hjá okkur að afgreiða þessar fsp. Ég er ekki frá því, að ástæða væri til að ætla fsp. einhvern sérstakan tíma í viku hverri, þar sem þeim yrði örugglega ekki ýtt til hliðar, eins og oft vill vera, en sú er sennilega aðalástæðan til þess að svo lengi hefur dregist að svara þessari fsp., að allan desembermánuð eru þessar fsp. lagðar til hliðar vegna annarra mála sem hafa forgang í annríkinu. En staðreyndin er einfaldlega sú, að fsp.-tími Alþ. nær ekki tilgangi sínum, ef slíkur dráttur verður á. Ég hef á tilfinningunni, að þessi þáttur í störfum þingsins sé eilítið þunglamalegri hér hjá okkur en í flestum nálægum löndum, þar sem fsp. er gjarnan svarað á stundinni eða þá innan mjög skamms tíma. En þetta var nú aðeins um formsatriði.

Ég þakka ráðh. fyrir svör hans varðandi þetta stóra mál. Hann staðfesti það, sem fram hefur komið hjá mér, að ófremdarástand hefur verið ríkjandi víða út um land, m. a. á þeim stöðum sem ég nefndi, Siglufirði og Sauðárkróki. Þar er langur biðlisti á báðum stöðum og svo hefur verið um talsvert langt skeið. Þetta er óþolandi ástand með öllu. Auðvitað er þetta spurning um fjármagn, þetta er spurning um niðurskurð á fjárfestingaráformum. Það er rétt sagt, en við verðum bara að tryggja að svona ástand skapist ekki.

Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni, sem talaði áðan, að það væri ágætt ef allir þm. fengju skriflegt yfirlit frá hæstv. ráðh. um stöðu þessara mála, þannig að hægt væri að átta sig á því, hvernig mætti leysa þessi vandamál. Fyrirsjáanlegt virðist nú að vandi þeirra Siglfirðinganna leysist á þessu ári, og við skulum vona að svo verði, en það er nú mála sannast, að svipað ástand er mjög víða annars staðar á landinu.

Það er rétt að undirstrika það hér, að þetta ástand í símamálum er sérstök mismunun gagnvart dreifbýlinu. Sams konar ástand hefur ekki verið hér í Reykjavík nú um nokkurt skeið a. m. k., sennilega um alllangt skeið. Það er fyrst og fremst dreifbýlið, einstakir staðir úti á landi, sem hafa orðið fyrir þessu óréttlæti, að menn hafa þurft að bíða árum saman eftir því að fá síma.

Annað stórmálið í þessu sambandi er það, hvað menn þurfa oft að bíða lengi eftir því að ná sambandi. Það er satt að segja aldeilis með ólíkindum, hvað hægt er að taka upp tíma manna, sem búa úti á landsbyggðinni, við það eitt að sitja og bíða eftir því að samband fáist. Þetta þekkja allir þeir sem eitthvað hafa verið úti á landi. Þetta er algerlega óþolandi, eins mikið og menn þurfa að nota síma í hvers konar viðskiptum og einkalífi sínu. Hér eru auðvitað flöskuhálsar, sem þessu valda, í kerfi Landssímans. Að sjálfsögðu eru uppi áform um að losna við þá, en það gengur bara allt of seint og hægt. Þetta er vandamál sem landsbyggðarmenn hafa staðið frammi fyrir nú um langt skeið og stöðugt verið uppi loforð um að úr skyldi bætt, en það hefur bara ekki verið gert.

Þriðja stórmálið er svo jöfnun símgjaldanna. Mér þótti vænt um að heyra, að hæstv. ráðh. hefur af sinni hálfu uppi áform um að koma á jöfnun símgjalda, þó að það verði bersýnilega ekki alveg í bráð.

Ég vil svo að lokum endurtaka þakkir mínar til ráðh. fyrir fróðlegar upplýsingar.