28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

338. mál, símamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil bara segja það, að það gleður mig stórum að heyra að hv. þm. hafa skilning á nauðsyn þess, að úr fjárhagsstöðu Landssímans sé bætt. Jafnan hefur verið svo þau ár, sem ég hef farið með þau mál, að við verulega fjárhagserfiðleika hefur verið að búa, svo var í upphafi og hefur verið jafnan. Tókst þó vel á s. l. ári, en ég óttast að við verðum að gæta mjög að okkur á þessu ári, ef ekki á að fara til verri vegar aftur.

Út af því sem hv. 1. landsk. þm. sagði hér, þá er mér ljúft að verða við beiðni hans um þær upplýsingar. Hér er listi sem er saminn 29. des. Þar liggja fyrir allar umsóknir um nýja síma, allir möguleikar á ónotuðum númerum og hvernig hægt er að bæta úr þar sem engin eru til, án þess að byggja og annað því um líkt. Þetta skal ég láta öllum hv. þm. í té, því að það skýrir málið mjög vel. Þetta er afar vel unnið og er því nauðsynlegt að hv. þm. kynnist þessu, því að það eykur skilning þeirra á málinu í heild. Nefna má kjördæmið sem hv. þm. Jón Ármann var í framboði í og er tengdur, en þar er t. d. staður eins og Brúarland. Þar eru 600 númer, en það er ekkert númer laust, ekki eitt einasta. Á biðlista eru 50 menn og allir vita, að geysilega mikið er byggt núna í Mosfellssveitinni og ómögulegt er að bæta úr þessu fyrr en búið er að byggja stöðvarhúsið sem nú er unnið að að byggja. Þetta skýrir málið vel og þetta er tekið hér fram. Annar staður í þessu sama kjördæmi er Kópavogur. Þar er ekki heldur hægt að bæta við númerum. Hægt er að verða við þeim beiðnum sem lágu fyrir þarna í lok ársins, en ekki er hægt að bæta við neinum númerum eftir að búið er að ráðstafa þessum 100, sem laus eru, fyrr en búið er að byggja stærra hús eða stækka húsið sem fyrir er. Svona gæti ég haldið lengi áfram, en ég skal ekki gera það. T. d. hagar þannig til í Grindavík, að vélarnar þaðan hafa verið fluttar annað. Ef ég fer á mínar heimaslóðir, þá er ekkert númer laust í Borgarnesi. Það liggja fyrir beiðnir um 30 númer. 40 íbúðir voru í byggingu á árinu sem leið og gert er ráð fyrir að byrja á 52 á þessu ári, svo að það er greinilegt hvert stefnir. Sama er að segja um Hvanneyri, Stykkishólm og Ólafsvík. Á engum þessara staða eru til laus númer. Verkefnin eru því mikil. En ég skal láta hv. þm. þessa skýrslu í té, svo að þeir hafi þetta allt í höndunum.