28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

179. mál, skuldir fiskiskipaflota landsmanna

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 346 beini ég svo hljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh.:

„1. Hverjar voru skuldir fiskiskipaflota landsmanna 31. des. 1977:

a) togara hjá Fiskveiðasjóði Íslands,

b) togara hjá öðrum stofnlánasjóðum,

c) fiskiskipa annarra en togara hjá Fiskveiðasjóði Íslands,

d) fiskiskipa annarra en togara hjá öðrum stofnlánasjóðum ?

2. Hverjar voru erlendar skuldir 31. des. 1977 vegna alls fiskiskipaflota landsmanna?“

Í sambandi við efnahagsráðstafanir hefur það jafnan komið upp, hver skuldabyrði væri á fiskiskipaflotanum og hvernig hægt væri að færa á milli úr gengisjöfnunarsjóðum. Hafa verið nokkuð skiptar skoðanir í því sambandi, svo mér þótti forvitnilegt að fá að vita sérstaklega hvað mikið hvíldi á fiskiskipaflota landsmanna í erlendum gjaldeyri, vegna þess að í sambandi við þessar efnahagsráðstafanir hækkaði erlendur gjaldeyrir um 15% strax, en gengið hefur nú haldið áfram að síga samkv. gengistilkynningum frá Seðlabanka Íslands, m. a. hefur norsk króna hækkað mikið og nokkur annar gjaldeyrir einnig.