28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2668 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

345. mál, stofnlánasjóður atvinnubifreiða og vinnuvéla

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Ég fagna því, að meiri hl. nefndarinnar skuli hafa skilað áliti, sem ég tel mjög jákvætt vegna þess máls sem við fluttum hér á sínum tíma. Varðandi það álit þeirra, að vinnuvélaeigendur eigi að falla undir lánareglur Iðnlánasjóðs og njóta þaðan fyrirgreiðslu, þá er það auðvitað gott og blessað, ef það kemst þá í lög þess sjóðs eða reglur þess sjóðs að þeir eigi þar aðgang, en svo mun ekki vera í dag að því er ég best veit.

Það var ljóst, og okkur var það ljóst þegar við fluttum þessa till., að ýmsir vankantar væru á framkvæmd hennar. Þó vissum við ekki til þess þá, að þar mundi koma til nokkurra árekstra milli sérleyfishafa eða langferðabilstjóranna annars vegar og vörubifreiðastjóranna hins vegar, eins og nú hefur komið glöggt í ljós og eins og reyndar kom í ljós á þinginu í hittiðfyrra þegar lagt var fram frv. á Alþ. af samgn. Ed. um sjóð sérstaklega fyrir þá sem væru með langferðabifreiðarnar. Ég sem sagt held að ef af þessu verður, að sjóður verði stofnaður þrátt fyrir þessa vankanta, þá muni hann verða mjög til góðs fyrir þá sem þarna er um að ræða. Sannleikurinn er sá, að hér er um hvort tveggja að ræða: geysidýr atvinnutæki, en jafnframt mjög þýðingarmikil nauðsynjatæki sem sífellt verður meiri þörf fyrir. Það er óhugsandi að ástandið geti verið þannig til lengdar, að þessir aðilar eigi ekki til neins stofnlánasjóðs beint að sækja, og því er nauðsyn þessa sjóðs ætið að verða brýnni að mínum dómi.

Ég veit að lýst hefur verið yfir eindregnum stuðningi við þessa till., eins og fram kemur reyndar í nál. af hálfu Landssambands vörubifreiðastjóra. Ég játa auðvitað, að þegar við fluttum þessa till. höfðum við ekki síður í huga hina almennu vörubílstjóra, að þeir ættu einhvern kost á sérstakri lánsfyrirgreiðslu, því að þeirra tæki, þó að venjulegar vörubifreiðar séu, eru orðin mjög dýr einnig. Og í grg. með till. okkar á sínum tíma var sérstaklega undirstrikuð nauðsyn þessa sjóðs sakir þess að annars gæti svo farið, að einungis fjársterkir aðilar gætu ráðist í kaup þessara atvinnutækja. Við bentum einnig á það, að það yrðu kannske einungis stór verktakafyrirtæki sem gætu ráðist í kaup stórvirkra vinnuvéla, eins og ég held að raunin hafi orðið á í æ ríkari mæli nú síðustu árin þrátt fyrir aðstoð Byggðasjóðs í þessum efnum, með sínum eðlilegum skilyrðum og takmörkunum þó.

Ég treysti hæstv. ráðh. til að ýta á eftir því, að þetta mál fái framgang. Um það er mikið spurt og mikill þrýstingur frá þeim, sem þarna eiga hlut að máli. Mér sýnist á því nefndarstarfi, sem þarna er búið að vinna, og þeirri athugun, sem nú fer fram í rn., að ekki væri óeðlilegt að óska eftir því, að frv. hér að lútandi sæi a. m. k. dagsins ljós núna fyrir þinglok.